Færsluflokkur: Bloggar
15.9.2007 | 09:46
Heilsufarslysing
Heilsufarslýsing
Held mér varla vakandi,
til verka lítið takandi.
Heyrn og sjón fer hrakandi,
í hrygg og leggjum brakandi.
Í hugsun úti akandi,
öllum tökum slakandi.
Mér svo áfram mjakandi,
mæðu frá mér stjakandi.
Sjálfan mig ásakandi,
sífellt vanda bakandi.
Berst sem laufið blakandi,
byrðin elli er þjakandi.
Ef ég fengi úr því bætt,
eflaust mig gæti kætt.
Öllu mæðu masi hætt,
meðan er á fótum stætt..
Eftir Ágúst Sæmundsson
Bloggar | Breytt 20.9.2007 kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2007 | 20:30
Að huga ekki að náungans högum
Að huga ekki að náungans högum
né hlusta eftir illgjörnum sögum
lýsir áhugaskorti
á íslensu sporti
og ætti að bannast með lögum.
Það er barnafólk suður á Bökkum
uppi á Brekku er allt fullt af krökkum,
en niðri á Eyri
er auðlegðin meiri
og ófrjóvgi tekið með þökkum.
Veistu af hverju ég er svona sprækur
og andi minn tær eins og lækur
og hugsunin klár
eftir öll þessi ár?
Það er af því ég les ekki bækur
þessar limrur eru eftir jóhann S. Hannesson og eru úr hverinu HLYMREK Á SEXTUGU
Bloggar | Breytt 13.9.2007 kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2007 | 20:09
Hvers vegna ég flutti frá Eyjum
Af hverju Flutti ég frá Eyjum?
Ég hafði búið í Eyjum alla mína ævi, nema gosárið 1973. Alla tíð líkaði mér vel þau störf sem ég vann, var sjómaður lengst af eða í 32 ár og síðustu fimm árin skipaskoðunarmaður. Ekki hvarlaði að mér að flytja á þessum tíma . Eru mér minnisstæðir þeir dagar þegar ég og litla fjölskyldan mín flutti aftur til Vestmannaeyja eftir gosið og ég hitti fólkið sem var að koma til baka, stemmningin í Eyjum var ólýsanleg á þessum tíma, manni langaði að faðma alla sem maður hitti. Fyrirtækin voru að fara í gang eitt af öðru, líf að færast í hafnarsvæðið, samkenndin og samstaðan var ótrúleg á þessum tíma eins og reyndar áður en gosið hófst, maður var stoltur og er auðvitað en, af því að vera vestmannaeyingur og taka þátt í þessu öllu saman. Allt gekk þetta vel í 10 til 15 ár eða þangað til núverandi kvótakerfi fór að virka fyrir alvöru, aldrei hefði ég trúað því að ég ætti eftir að upplifa það í Vestmannaeyjum að manni gæti ofboðið óréttlætið sem það skapaði. Ég ætla ekki að eyða tíma í að skrifa um kvótakerfið enda hafa mér fróðari menn gert því góð skil, heldur einungis að minnast á afleiðingar þess á samfélagið í Vestmannaeyjum frá mínum bæjardyrum séð. Þó verð ég að segja að það þurfti kvóta á fiskveiðar okkar íslendinga, en ekki með þeim hætti sem gert var enda eru yfir 80 til 85 % þjóðarinnar á móti því.
En hvað breyttist svo mikið í Eyjum að rótgrónir heimamenn fóru að hugsa sér til hreyfings?, menn eins og ég og margir fleiri sem ekki höfðu leitt hugann að því að fara, einfaldlega vegna þess að í Eyjum var yndislegt samfélag samstíga manna og kvenna sem allir höfðu áhuga á að byggja Vestmannaeyjar, það sem skipti máli var að allir sem vildu vinna höfðu vinnu og flestir höfðu sama möguleika.
Í bæjarfélagi eins og Vestmannaeyjum byggist samfélagið upp á fólki sem hefur mismunandi skoðanir á lífinu, það á líka að geta látið skoðanir sínar í ljós án þess að líða fyrir það . Hægt er að fullyrða að allir eigi sér drauma eða markmið, sumir láta þá rætast og eru þá tilbúnir að taka áhættu til að ná markmiðum sínum, meðan aðrir láta draumana nægja. Það er í raun þannig að þéttbýliskjarnar byggjast upp fyrir tilstilli manna sem hafa haft forustu og áræði til að skapa atvinnu fyrir fólkið á staðnum. Í Vestmannaeyjum höfðum við í áratugi haft mikið af slíku fólki sem vildi standa saman og stofna stór eða lítil fyrirtæki, sem aftur skapaði hinum vinnu. Kvótakerfið og stefna stjórnvalda gagnvart landsbyggðinni eru búin að breyta þessu þannig að nú eru það stóru fyrirtækin sem eru að gleypa allt, einstaklingsútgerðir og minni fyrirtæki eru smátt og smátt að leggjast af og deyja, með þeim afleiðingum að atvinna minkar og atvinnuleysi eykst. Sem dæmi má nefna að meðan ég starfaði sem umdæmisstjóri Siglingastofnunar fækkaði skipum í Vestmannaeyjum um 37 og næstu tvö ár þar á eftir fækkaði bátum um 34 ásamt mörgum litlum fyrirtækjum. Þetta var óþolandi og slæm þróun sem stjórnvöld hafa vísvitandi stefnt að með sínum stjórnvaldsaðgerðum, og gerir það að verkum að m.a. fasteignarverð lækkaaði í Eyjum og auðvitað á allri landsbyggðinni.
Það er sagt að í bæjarfélögum eins og Vestmannaeyjum sé 10 til 15 % af fólkinu með áræði og þor til að fara út í að stofna fyrirtæki sem stundum gengur vel en í öðru falli illa, það getur verið útgerð, fiskvinnsla, verslun, smiðja, smíðaverkstæði, bílaverkstæði, rafmagnsverkstæði, hænsnabú eða flugfélag svo eitthvað sé nefnt. Það er þetta fólk sem í raun og veru er drifkrafturinn og skapar fjölbreytta atvinnu og heldur samfélaginu gangandi. Við vitum að þessu fólki er í dag gert erfitt fyrir að stofna og reka fyrirtæki eins og t.d útgerð sem Vestmannaeyjar hafa fyrst og fremst byggst á. En þetta sama fólk hefur einnig áræði til að taka sig upp og flytja úr bænum ef það er stoppað af með hugmyndir sínar og drauma, það er mjög slæmt að missa fólkið úr þessum kjarna sem hefur áræði kjark og þor. Það er staðreynd að mikið af þessu fólki er farið enda er það eftirsótt á þeim stöðum sem það vill búa á. Það var því fyrirsjávanlegt að atvinna myndi verða ótrygg sérstaklega fyrir menn og konur sem eru komin af léttasta skeiði, enda kom það á daginn að starfið sem ég gegndi var lagt niður nokkrum árum eftir að við fluttum. Með þetta allt í huga tókum við hjónin þá ákvörðun sem var ekki auðveld en rétt, að flytja frá Eyjum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.8.2007 | 21:39
Að uppruna erum við norsk
Að uppruna erum við norsk,
að innræti meinleg og sposk
en langt fram í ættir
minna útlit og hættir á ýsu og steinbít og þorsk.
Johann S. Hannesson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.8.2007 | 08:36
Skemmtilegar sögur og sagnir efttir Árna úr Eyjum
Úr safni Árna úr Eyjum Árni úr Eyjum eða Árni Guðmundsson eins og hann hét fullu nafni, safnaði skemmtilegum sögum og vísum sem gengu manna á meðal í Vestmannaeyjum á árum áður, margar af þessum sögum ganga enn í dag, en aðrar eru gleymdar. Hann samdi einnig marga landsfræga texta við Þjóðhátíðarlög enda gott skáld. Árni var fæddur 6, mars 1913 og dó 11. mars 1961, hann var kvæntur Ásu Torfadóttir.
Ef þú drepur þig núna. Einu sinni sem oftar fóru bændur út í Bjarnarey að huga eitthvað að fé sínu. Bóndi einn leyfði þá stákhnokka, sem hjá honum var að fara með þeim, og var það fyrsta úteyjarför drengsins. Þurfti því að leggja honum lífsreglurnar, brýna fyrir honum að fara varlega o.s.frv. Gerði bóndi það vel og samviskusamlega, og mælti að loknum, máli sínu til frekari stuðnings: - Ef þú drepur þig núna, greyið mitt, færðu aldrei að fara í Bjarnarey oftar !
Hann á bók. Tvær kunningjakonur ræddu saman um landsins gagn og nauðsynjar, og bar margt á góma. Að lokum spyr önnur þeirra, hvað hún eigi nú að gefa bónda sínum í jólagjöf, og segist ekki minnast þess, að hann vanti neitt sérstakt. Komst hin í mesta vanda, hugsaði sig vel um fast og lengi, en þóttist svo finna handhæga lausn á málinu: - Gefðu honum bara bók, elskan.- Ja, það er því miður ekki hægt, góða mín ,- Hann á nefnilega bók.
Hátt á annað þúsund. Maður nokkur sem þótti nokkuð ýkinn var eitt sinn spurður að því hvað sonur hans, er var formaður með vélbát, hefði aflað þann daginn.- O hann fékk hátt á annað þúsund, svaraði maðurinn, en bætti rétt strax við: - eða ég kalla það,- það vantaði fimm fiska upp á þúsund.
Tími beljunnar. Sami maður spilaði stundum fjárhættuspil við kunningja sína og þótti varkár í meira lagi. - Maður þessi átti eina kú og tók sjálfur til gjöfina handa henni. Gekk oft á ýmsu um spilamenskuna, og hafði karl þann sið að vera aldrei með ef hann var óheppinn, en væri heppnin með spilaði hann af kappi og komst þannig stundum í nokkurn gróða. En sæi hann þess nokkur merki, að gæfan væri að snúa við honum bakinu, sópaði hann saman gróðanum (sem raunar voru bara smápeningar) stóð upp og kvaddi, ávalt með sömu orðunum: Nú verð ég að fara, það er akkurad komin tíminn beljurnar.
Eins og grásleppa. Á fundi í bæjarstjórn Vestmannaeyja var til umræðu mál, sem mjög voru skiptar skoðanir um. Til þess að reyna að miðla málum, bar einn bæjarfulltrúa fram tillögu, sem hann áleit, að deiluaðilar ættu báðir að geta fallist á. Eftir að tillagan var fram komin, kvaddi einn af deiluaðilum sér hljóðs og mælti á þessa leið: - Ég fæ ekki séð, að tillaga þessi sé nein lausn á málinu. Að mínu viti er hún svo loðin, að hún er hvorki fugl né fiskur, hún er eins og - eins og - já, eins og grásleppa !
Ólafi að þakka. Öðru sinni bar það við á opinberum bæjarmálafundi í Eyjum, að kommúnistar deildu fast á Ólaf Auðunsson útgerðarmann og bæjarfulltrúa. Töldu þeir hann hafa verið byggðarlaginu hinn óþarfasta og oft tafið fyrir framgangi nauðsynjamála með mikilli íhaldssemi sinni.Tók þá einn af samherjum Ólafs upp hanskann fyrir hann, taldi hann einn af mestu athafna og framfaramönnum bæjarins o.s.frv. klykkti svo ræðumaður út með þessum orðum, máli sínu til frekari áréttingar: - Þegar ólafur Auðunsson kom hingað í byggðarlagið voru hér einar fimmhundruð sálir, en nú búa hér hátt á fjórða þúsund manns. Og ég þori að fullyrða, að þessi mikla fjölgun er fyrst og fremst Ólafi að þakka.
Ég hélt það væri ágirnd. Hann þótti heldur ekki seinn að svara fyrir sig, hann Jón í Gvendarhúsi. Eitt sinn kom hann inn í Edinborgarverslun sem Gísli J. Johnsen átti og rak. Hitti Jón Gísla fyrir og spurði hann margs, því þetta var í fyrsta sinn, sem hann kom í verslun þessa.Spurði hann og spurði, hvað þetta væri eða hitt, hvað væri þarna, hvað þetta væri og hvað hitt kostaði o.s.frv. Fór Gísla brátt að leiðast þóf þetta, og þegar Jón spurði: Hvað er nú í þessari skúffu, Gísli minn, svaraði Gísli heldur hvatskeytislega: - Það er forvitni Jón minn. Á, þá hefur mér skjátlast, sagði Jón ég hélt að væri ágirnd.
Bók eftir máli. Prúðbúin kona kom inn í bókabúð í Eyjum rétt fyrir jólin og bað um að fá að skoða bækur. Voru henni sýndar allar nýjustu bækurnar, og lagði hún þær til hliðar hverja af annari. Loks tók hún eina og mælti: - Ég held að þessi passi. Tók hún síðan bók úr barmi sér og mátaði við bókina, sem hún var að skoða, bætti svo við: - Nei hún má vera svona hálfum sentimetra styttri.
Er koli þar. Útgerðarmaður einn, sem var fljóthuga, hafði oftast hugann bundinn við útgerðina, einkum dragnótaveiðar, sem þá voru nýlega hafnar. Heyrði hann eitt sinn ávinning af samræðum manna, sem raunar voru að tala um væntanlega norðurför um Sprengisand, og henti hann það orð á lofti. Sprengisandur ! er koli þar?
Hvar er Einidrangur þá. Öðru sinni hlýddi sami útgerðarmaður á tal tveggja formanna, sem báru sig saman um miðanir einhverra fiskislóða og nefndu í því sambandi nokkur örnefni. Hvar var Einidrangur þá ? spurði útgerðarmaðurinn, óðamála að vanda.- O ætli hann hafi ekki verið á sínum stað! Svaraði þá annar formaðurinn stuttlega.
Austan megin í lestinni. Bátur var nýkominn frá Stokkseyri og kominn að bryggju í Vestmannaeyjum. Maður nokkur sem komið hafði með bátnum var niðri í lest að leita að poka, sem hann vantaði. Kom formaðurinn honum til hjálpar, en illa gekk að finna pokann, því mikið af farangri var í lestinni. Manstu hvar þú lést pokann ? spyr þá formaðurinn. Já ansaði maðurinn, ég man það svo greinilega, að ég lét hann hér austanmegin í lestina, en hann hlýtur að hafa verið færður úr stað, því nú er hann ekki þar.
Sama þó ég éti skít. Góður kunningi minn var á skólaárum sínum í fæði hjá konu sem ekki þótti fara sem hreinlegast með mat. Spurði ég hann að því síðar, hvernig í ósköpunum hann hefði haft lyst á éta úr höndunum á þessari manneskju. Kunningi minn, sem er mikill matmaður, glotti við og sagði: - Uss, mér er alveg sama þó ég éti skít, bara ég fái ket með.
Helga sem hefur klofið. Eitt sinn reis upp deila í verkakvennafélagi í Eyjum. Kom til erindreki frá Alþíðusam-bandi Íslands að jafna deiluna, en þótti hlutdrægur og lenti allt í illindum, er enduðu með því, að félagið klofnaði í tvennt. Forsvarskona annarar fylkingarinnar komst svo að orði, þegar um atburði þessa var rætt: - Það er ekki ég, sem hef klofið það er Helga, sem hefur klofið.
Ég á annað heima. Tveir bræður sem voru annálaðir hirði og sparsemdarmenn, réru eitt sinn saman á handfæri. Urðu þeir ekki lengi vel ekki varir, en komust svo allt í einu í nógan fisk.Rétt sem þeir voru að byrja að draga nógan fisk, verður annar bróðirinn fyrir því að óhappi að slíta færið sitt og missa það mest allt í sjóinn, en hafði ekkert til vara. Varð hinn reiður við og taldi þetta klaufaskap hinn mesta. Rausaði hann góða stund yfir þessu óhappi, uns sá bróðirinn sem færið missti, segir hinn rólegasti: - Stilltu þig bróðir, ég á annað færi heima.
Aularnir borga það. Eftirfarandi saga um Gunnar er orðrétt tekinn upp úr íslenskri fyndni XIII.nr.2:(sjá102-108)Gunnar Ólafsson í Vestmannaeyjum var einn af hvatamönnum þess, að sjálfstæðishúsið í Vestmannaeyjum var reyst. Það er mikið hús, og var frá upphafi kvikmyndahús í aðalsalnum, sem skyldi bera húsið uppi fjárhagslega. Einu sinni bauð Gunnar Félaga sínum úr landi í bíó. Raunar fer ég nú næstum aldrei í bíó sagði Gunnar, en ég get sýnt þér húsið um leið.Gesti Gunnars leist húsið hið veglegasta, en spyr Gunnar, hvort það geti staðið undir sér fjárhagslega. Já bíóið ber það uppi. Aularnir borga það.
1/45 settið. Um hausttíma, er sláturtíð stóð sem hæst, gaf að líta eftirfarandi auglýsingu í búðarglugga einum (stafsetning óbreytt): - Ní svið fást kjeipt hjer með fótumSviðin tilbúin í matinn þurfa þvottVerðið er 1/45 settið.( dags. undirskrift kaupmans)
Kolin frá fyrstu hendi. Á stríðsárunum var sá siður í Eyjum um heimflutning kola, að þeim var ekið heim undir hús kaupendana, og kolunum ,,sturtað´´ úr bílnum á götur og gangstéttir. Rætt var um þetta m.a. á fundi nokkrum, og vildu menn fá þetta bannað, með því að óþrifnaður mikill fylgdi því í bænum.Einn ræðumaður hafði þó ekkert við þetta fyrirkomulag að athuga, og taldi að engin óþrifnaður þyrfti að stafa af kolum, ef,, hreinlega hefði verið farið með þau frá fyrstu hendi, þar sem þau voru búin til´´
Var beðinn að skjóta kött. Maður sem átti byssu var oft fengin til að skjóta húsdýr, bæði í sláturtíð og endranær. Kom oft fyrir að slátrað var einni og einni skepnu, kú, kind eða hrossi.Afgreiðslumaður í verslun þeirri, er maður þessi skipti við, fann brátt óyggandi reglu um það, hverskonar gripi væri um að ræða hverju sinni. Maðurinn hafði sem sé þann sið að kaupa hálfan pakka af vindlingum, ef hann var fenginn til að skjóta kind, en heilan pakka ef um hest eða nautgrip var að ræða.Afgreiðslumaðurinn varð því ekki lítið hissa þegar maðurinn kom dag nokkurn og sagði: - Ég ætla að biðja um eina cigarettu, en skýringin kom von bráðar, þegar bætti við: Ég var nefnilega beðin að skjóta kött fyrir konu austur í bæ.
Lögregluþjónarnir. Lengi vel voru tveir lögregluþjónar hér í Eyjum. Hafði annar með höndum löggæslu á deginum, en hinn næturvörslu.Litu margir svo á, að næturvörðurinn legði ekki meira á sig en þörf væri á, og féll því í góðan jarðveg, það sem maður nokkur sagði um lögregluþjónana í mesta sakleysi: Annar sefur á nóttinni en hinn vakir á daginn.
Einar og gamla konan. Sagt er, að skömmu fyrir bæjarstjórnarkosningar 1942 hafi Einar Sigurðsson mætt gamalli konu á förnum vegi, klappað á öxlina á henni og tekið hana tali: Nei komdu nú sæl og blessuð, það er langt síðan við höfum sést. Á þá sú gamla að hafa snúið sér ofboð rólega að Einari og sagt kankkvislega: Á, jæja, finnst þér það? Mér finnst ég alltaf vera að sjá þig.
Pútnafóður fyrir afganginn. Sigurður hét maður sem lengi bjó á Sjónarhóli í Vestmannaeyjum. Á seinni árum var hann lítt vinnufær og var þá í snúningum hjá ýmsum, þ.á.m. hjá Þórunni matsölukonu í Þingholti í Eyjum. Einhverju sinni kemur Sigurður í matvöruverslun eina. Er hann þá spurður, hvað hann vilji, og svarar hann á þessa leið: - Ég ætla fá eitt kíló af Agra-magra, tvö stykki rótexport og pútufóður fyrir afganginn, - skrifa það hjá Þórunni í Þingholti
Sigmar Þór Sveinbjörnsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2007 | 12:56
Frumkvöðlar í Öryggismálum sjómanna
Saga öryggismála sjómanna í Vestmannaeyjum
Vestmannaeyingar frumkvöðlar á sviði öryggismála sjómanna
Vestmannaeyingar hafa í gegnum tíðina haft mikinn áhuga á öryggismálum sjómanna. Ástæðan eflaust sú að mikið manntjón hefur orðið í sjóslysum við Eyjarnar. Einnig má nefna að ófá slys hafa orðið innan hafnar bæði hér áður fyr þegar hafnaraðstaða var léleg og bátar bundnir á ból, og því miður hafa einnig margir tugir manna drukknað í Vestmannaeyjahöfn á síðustu 30 til 40 árum. Þessi slys við höfnina gerðu það að verkum að eyjamenn fóru að hugsa meira um öryggi hafna, og voru frumkvöðlar í mörgu sem við kom öryggi hafna, má þar nefna ljós í stiga, sem nú þikir sjálfsagður hlutur í öllum höfnum, enda hafa þessi ljós bjargað mörgum mönnum frá drukknun..Það helsta sem Eyjamenn hafa haft forustu um
Fyrsta björgunarfélag landsins var stofnað í Eyjum árið 1918, það fékk nafnið Björgunarfélag Vestmannaeyja. Félagið beitti sér fyrir kaupum á björgunarskipi, sem sían var keypt í mars 1920. Skipið hlaut nafnið ÞÓR og var fyrsta björgunar og varðskip sem Íslendingar eignuðust.
Talstöðvar
Vestmannaeyingar voru fyrstir til þess að fá talstöðvar í báta sína. Þar var að verki Gísli J Johnsen útgerðarmaður en hann setti talstöð í bát sinn 1927.
Gúmmíbjörgunarbátar
Árið 1951 var Kjartan Ólafsson útgerðarmaður Veigu VE fyrstur útgerðarmanna á Íslandi til að setja Gúmmíbjörgunarbát um borð í fiskiskip í staðin fyrir þunga fleka. Árið 1952 fórst Veiga VE og með henni tveir menn en aðrir úr áhöfn bátsins björguðust í gúmmíbjörgunarbátinn. Það kostaði töluverða baráttu að fá þetta björgunartæki viðurkennt. En slík var trú sjómanna og útgerðarmanna á þessu björgunartæki að vertíðina 1952 voru 40 vélbátar í Vestmannaeyjum komnir með gúmmíbát.
Öryggi við netaspil
Árið 1971 hannaði Sigmund Jóhannsson teiknari og uppfinningamaður öryggisloka við netaspil, Sigmund hannaði lokan að beiðni skipstjóra sem hafði lent í því að tveir menn á skipi hans höfðu farið í netaspilið sömu vertíðina. Það er skemmst frá því að segja að lokinn fækkaði ekki bara slysum við netaspil, heldur útrýmdi þeim alveg.Útgerðarmenn í Eyjum settu þennan búnað strax í svo til öll skip sem stunduðu netaveiðar, en því miður tók það níu ár meðtilheyrandi slysum að lögleiða þennan frábæra öryggisbúnað og koma þeim í öll fiskiskip.
Losunar og sjósetningarbúnaður
Í mars 1980 hannaði Sigmund Jóhannsson búnað sem gat losað og sjósett gúmmíbjörgunarbáta bæði handvirkt og sjálfvirkt. Þetta var þvílík bylting í öryggis-málum sjómanna, að margir vildu líkja henni við þegar gúmmíbátarnir komu til sögunar.En eins og oft áður voru það einungis sjómenn og útgerðarmenn í Vestmannaeyjum sem sáu notagildi þessa búnaðar í fyrstu, og var hann því fyrst settur í Vestmannaeyja-flotan 1981. Því miður tók barátta vestmannaeyinga fyrir þessum öryggisbúnaði allt of langan tíma en komst endanlega í höfn árið 2000. Er stefnt að því að skrá þessa sögu sem er alveg ótrúleg.
Björgvinsbeltið
Björgvinsbeltið sem Björgvin Sigurjónsson stýrimaður hannaði, er eitt af þeim tækjum sem hafa auðveldað mjög að ná mönnum aftur um borð sem hafa farið útbyrðis. Þetta björgunartæki er nú komið um borð í flest öll skip á Íslandi og flestar á hafnir landsins.
Slysavarnardeildin Eykindill í Vestmannaeyjum
Margt fleira hefur verið gert til að auka öryggi sjómanna sem of langt mál er upp að telja, en þó verður hér að nefa eitt félag sem hefur í tugi ára gert óhemju mikið fyrir öryggi sjómanna í Vestmannaeyjum og reyndar víðar. Þetta er kvennadeild Slysvarnarfélags Íslands Eykindill. Það er með ólíkindum hvað þessar konur hafa gert mikið til að bæta öryggi sjómanna.
Margt fleira væri hægt upp að telja
Margt fleira væri hægt að skrifa hér um áhuga Eyjamanna á öryggismálum sjómanna en þetta verður að næja að sinni. Heimildir Sjómannadagsblað Vestmannaeyja, Ratsjá, Skýrslur Rannsóknarnefndar SjóslysaBloggar | Breytt 20.8.2007 kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.7.2007 | 14:48
Það vantar konurnar í mannlífssögu Vestmannaeyja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2007 | 16:04
Minningarbrot frá vetrarvertíð 1966 eða 1967
Það var á vetrarvertíð að mig minnir 1966, ég var vélstjóri á Leó Ve 400. Það var búið að vera gott fiskirí í netin og mikið að gera hjá sjómönnum og verkafólki í Vestmannaeyjum. Fiskurinn var nálægt Eyjum þannig að við komum inn til löndunar á kristilegum tíma. Með okkur var Færeyingur hörkuduglegur náungi eins og allir færeyingar sem ég hef kynnst. Hann tók mikið í vörina og hafði alltaf krukku af neftóbaki í netaspilkoppnum og jós tóbakinu með þumalputtanum upp í munninn þegar færi gafst. Eitt kvöldið þegar búið var að landa kom þessi maður til Óskars Matt skipstjóra og spurði hvort hann gæti fengið frí í löndun daginn eftir. Óskar var nú ekki vanur að gefa mönnum frí nema brýna nauðsin bæri til. Hann spurði því manninn hvað hann ætlaði að gera við frí um hávertíð. Færeyingurinn hikaði smástund en sagði svo dálítið vandræðalegur að hann ætlaði að gifta sig. Óskar hafði gaman af þessu og sagðist gefa honum frí þegar þeir kæmu í land næsta dag, lofaði meira að segja að reyna vera snemma í landi sem var frekar óalgengt á Leó .
Um morguninn var farið snemma á sjó og byrjað að draga, en nú kom babb í bátinn, netin voru bókstaflega full af fiski svo við fylltum lestina, mig minnir að við höfum fengið um eða yfir 40 tonn þennan dag. Við komum inn rétt eftir kvöldmat og við byrjuðum að landa fiskinum. Færeyingurinn spurði okkur strákana hvort hann ætti að hætta við fríið fyrst við hefðum fiskað svona mikið? Allir voru sammála um að hann ætti að halda sínu striki, þannig að hann fór heim til sinnar tilvonandi eiginkonu. Við byrjuðum aftur á móti að landa fiskinum en það tekur töluverðan tíma að landa og þrífa. Eftir að hafa verið í löndun í nokkurn tíma, birtist færeyingurinn niður á bryggju kominn í drullugallann aftur. Við urðum steinhissa á að sjá hann og spurðum hvort hann hafi hætt við giftinguna. Nei Nei gamli þetta er búið ég er giftur. Þar með fór hann í slorgallann og ofan í lest og landaði með okkur þeim afla sem eftir var í lestinni. Þessi saga sýnir hvernig tíðarandinn var á þessum árum það var ekki verið að ákveða giftingu með fleiri ára fyrirvara og jafnlöngum undirbúningi, ekki man ég betur en að þetta hjónaband hafi blessast vel.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2007 | 22:56
Enn um lyfjaverð
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.6.2007 | 16:31
Er lottó vitleysingaskattur ?
![]() |
Tveir með allar tölur réttar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)