Hvers vegna ég flutti frá Eyjum

 

Af hverju Flutti ég frá Eyjum?
Ég hafði búið í Eyjum alla mína ævi, nema gosárið 1973. Alla tíð líkaði mér vel þau störf sem ég vann, var sjómaður lengst af eða í 32 ár og síðustu fimm árin  skipaskoðunarmaður. Ekki hvarlaði að mér að flytja á þessum tíma . Eru mér minnisstæðir þeir dagar þegar ég og litla fjölskyldan mín flutti aftur til Vestmannaeyja eftir gosið og ég hitti fólkið sem var að koma til baka, stemmningin í Eyjum var ólýsanleg á þessum tíma, manni langaði að faðma alla sem maður hitti. Fyrirtækin voru að fara í gang eitt af öðru, líf að færast í hafnarsvæðið, samkenndin og samstaðan var ótrúleg á þessum tíma eins og reyndar áður en gosið hófst, maður var stoltur og er auðvitað en, af því að vera vestmannaeyingur og taka þátt í þessu öllu saman. Allt gekk þetta vel í 10 til 15 ár eða þangað til núverandi kvótakerfi fór að virka fyrir alvöru, aldrei hefði ég trúað því að ég ætti eftir að upplifa það í Vestmannaeyjum að manni gæti ofboðið óréttlætið sem það skapaði.    Ég ætla ekki að eyða tíma í að skrifa um kvótakerfið enda hafa mér fróðari menn gert því góð skil, heldur einungis að minnast á afleiðingar þess á samfélagið í Vestmannaeyjum frá mínum bæjardyrum séð. Þó verð ég að segja að það þurfti kvóta á fiskveiðar okkar íslendinga, en ekki með þeim hætti  sem gert var enda eru yfir  80 til 85 % þjóðarinnar á móti því.
En hvað breyttist svo mikið í Eyjum að rótgrónir heimamenn fóru að hugsa sér til hreyfings?, menn eins og ég og margir fleiri sem ekki höfðu leitt hugann að því að fara, einfaldlega vegna þess að í Eyjum var yndislegt samfélag samstíga manna og kvenna sem allir höfðu áhuga á að byggja Vestmannaeyjar, það sem skipti máli var að allir sem vildu vinna höfðu vinnu og flestir höfðu sama möguleika.
Í bæjarfélagi eins og Vestmannaeyjum byggist samfélagið upp á fólki sem hefur mismunandi skoðanir á lífinu, það á líka að geta látið skoðanir sínar í ljós án þess að líða fyrir það .  Hægt er að fullyrða að allir eigi sér drauma eða markmið, sumir láta þá rætast og eru þá tilbúnir að taka áhættu til að ná markmiðum sínum, meðan aðrir láta draumana nægja.  Það er í raun þannig að þéttbýliskjarnar byggjast  upp fyrir tilstilli manna sem hafa haft forustu og áræði til að skapa  atvinnu fyrir fólkið á staðnum. Í Vestmannaeyjum höfðum við í áratugi haft mikið af slíku fólki sem vildi standa saman og stofna stór eða lítil fyrirtæki, sem aftur skapaði hinum vinnu. Kvótakerfið og stefna stjórnvalda gagnvart landsbyggðinni eru búin að breyta þessu þannig að nú eru það stóru fyrirtækin sem eru að gleypa allt, einstaklingsútgerðir og minni fyrirtæki eru smátt og smátt að leggjast af og deyja, með þeim afleiðingum að atvinna minkar og atvinnuleysi eykst. Sem dæmi má nefna að meðan ég starfaði sem umdæmisstjóri Siglingastofnunar fækkaði skipum í Vestmannaeyjum um 37 og næstu tvö ár þar á eftir fækkaði bátum um 34 ásamt mörgum  litlum fyrirtækjum. Þetta var óþolandi og slæm þróun sem stjórnvöld hafa vísvitandi stefnt að með sínum  stjórnvaldsaðgerðum, og gerir það að verkum að m.a. fasteignarverð lækkaaði  í  Eyjum og auðvitað á allri landsbyggðinni.
Það er sagt að í bæjarfélögum eins og Vestmannaeyjum sé 10 til 15 % af fólkinu með áræði og þor til að fara út í að stofna fyrirtæki sem stundum gengur vel en í öðru falli illa, það getur verið útgerð, fiskvinnsla, verslun, smiðja, smíðaverkstæði, bílaverkstæði, rafmagnsverkstæði, hænsnabú eða flugfélag svo eitthvað sé nefnt. Það er þetta fólk sem í raun og veru er drifkrafturinn og skapar fjölbreytta atvinnu og heldur samfélaginu gangandi.   Við vitum að þessu fólki er í dag gert erfitt fyrir að  stofna og reka  fyrirtæki eins og t.d útgerð sem Vestmannaeyjar hafa fyrst og fremst byggst á. En þetta sama fólk hefur einnig áræði til að taka sig upp og flytja úr bænum ef það er stoppað af með hugmyndir sínar og drauma, það er mjög slæmt að missa fólkið úr þessum kjarna sem hefur áræði kjark og þor. Það er staðreynd að mikið af þessu fólki er farið enda er það eftirsótt á þeim stöðum sem það vill búa á. Það var því fyrirsjávanlegt að atvinna myndi verða ótrygg sérstaklega fyrir menn og konur sem eru komin af léttasta skeiði, enda kom það á daginn að starfið sem ég gegndi var lagt niður nokkrum árum eftir að við fluttum. Með þetta allt í huga tókum við hjónin  þá ákvörðun sem var ekki auðveld en rétt, að flytja frá Eyjum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Takk fyrir þetta Simmi.kv.

Georg Eiður Arnarson, 13.9.2007 kl. 23:31

2 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Já Sigmar.Ég get mér til að það hefur verið ykkur mjög erfitt að flytja héðan sennilega eins erfitt fyrir þig eins og það var létt og rétt ákvörðun hjá mér að flyta hingað þegar ég ákvað að flytja til Íslands.Ég man eftir t.d.að Svenni á Frigginni(já og fl)sagði mér af þegar hann var að byggja og þegar"steypt"var þá komu allir vinir og kunningar að hjálpa til.Svo var það sagan af skipstjóranum sem missti alla lögnina af reknetum í brælu.Þá kom hver skipstjóri í Eyjum með sitt netið til hans svo að tjónið var lítið.Hér er himneskt að búa.Kært kvaddur

Ólafur Ragnarsson, 21.9.2007 kl. 00:30

3 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Fyrirgefðu en mér var bara svo mikið niðri fyrir eftir að hafa lesið greinina þína að ég gleymdi orðunum"mjög góð grein"

Ólafur Ragnarsson, 21.9.2007 kl. 00:33

4 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Það er mikill sannleikur í þessari grein Sigmar og þetta model sem er svo auðvelt að skoða afleiðingarnar af í Vestmannaeyjum er til staðar útum allt land. Hver hefðu t.d. trúað því að árið 2007 væri kvótastaða í áður einni stærstu verstöð landsins hér í Þorlákshöfn, með þeim hætti að ekki væri hægt af neinu viti að reka einn frystitogara þó allur kvótinn væri settu á hann? Munurinn á okkar aðstöðu og Vm. er hinsvegar að við tilheyrum svo stóru atvinnusvæði, sem aftur gefur fólkinu tækifæri til að keyra hvert sem er til vinnu.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 22.9.2007 kl. 15:27

5 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Hafsteinn, já það er með ólíkindum  hvað þetta arfavitlausa kerfi hefur fengið að vera lengi við líði, þrátt fyrir að flestir sjái að það er að ganga frá landsbyggðinni. Ég vissi reyndar ekki að Þorlákshöfn væri svo illa komin. Það sem mér finnst merkilegast við þessa þróun er að fólkið á þessum stöðum eins og Vestmannaeyjum kýs þessa flokka sem settu þetta kerfi á og viðhalda því, aftur og aftur. Í Vestmannaeyjum hefur íbúum fækkað um 800-1000 manns en í raun er fækkunin mun meiri því á vertíð komu oft 1000- 1200 manns og stundum fleiri. Það er þó ekki hægt að bera þessa tíma saman þar sem mun minna fólk þarf nú bæði í frystihúsin, bræðslurnar og á þessi fullkomnu skip sem nú eru að koma til Eyja.

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 22.9.2007 kl. 16:56

6 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Sæll sjálfur Sigmar! Það er tilfellið að mjög fáir gera sér grein fyrir hvernig komið er hérna í þessum málum og þar kemur ýmislegt til. Í fyrsta lagi hafa hér verið skráðar framundir það síðasta heimildir Meitilsins sem Olíufélagið setti inn í Vinnslustöðina. Í öðru lagi voru skráðar hérna heimildir Ljósavíkur sem aldrei voru hér nema að nafninu til og komu á land annarsstaðar, þetta rugl gerði það að verkum að hingað komu ekki einu sinni "aumingjabætur".

Varðandi fækkunina í Eyjum, þá væri hún sennilega meiri eins og víða er, ef fólkið kæmist bara frá eigum sínum og ævistarfi, en eins og þú réttilega segir, það fær þá leiðtoga yfir sig sem það á skilið, ekki spurning um það.......

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 22.9.2007 kl. 19:48

7 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Það er örugglega rétt hjá þér Hafsteinn, það væru miklu fleiri farnir ef þeir gætu selt  húsin sín  á raunverulegu verði eða sambærilegu og hús seljast á reykjavíkursvæðinu. Alla vega þekki ég þó nokkra eyjamenn sem hafa sagt mér að þeir væru löngu farnir ef þeir gætu keypt sér íbúð á reykjavikursvæðinu án þess að setja sig í tugmiljóna skuld.

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 22.9.2007 kl. 20:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband