Færsluflokkur: Bloggar

Það kostar að ferðast með flugi

Í síðustu viku þurfti ég að ferðast austur á land og flaug til Egilstaða flugfarið þangað kostaði 28.580 kr. báðar leiðir. Ég fór inn á netið og athugaði verð á flugi til Kaupmannahafnar og það kostaði   32.160 kr. hjá öðru flugfélaginu báðar leiðir en 29.860 kr. hjá hinu það má giska á hvort var ódýrara.     Er þetta eðlileg verðlagning á innanlandsflugi?

Veðrið

 Veðrið er hvorki vont né gott,

varla kallt og ekki heitt.

Það er hvorki þurt né vott,

það er svo sem ekki neitt.

Eftir Jónas Hallgrímsson


Í góðu starfi að gera mest

 

Í góðu starfi að gera mest

gull í mund það sækir.

þú ert einn af þeim sem best

þína skyldu rækir.

Eftir Guðrúnu Jóhannsdóttir úr ljóðabókinni Tilfinningar


Losunar og sjósetningarbúnaður Gúmmíbjörgunarbáta

   

Skilgreiningar á losunar-  og sjósetnigarbúnaði gúmmíbjörgunarbáta

Það er nauðsynlegt  fyrir sjómenn að kynna sér þennan búnað vel, þó hann sé ekki flókinn þá eru alltof margir sjómenn sem ekki vita hvernig á að ganga frá gúmmíbjörgunarbát í  Losunar- og sjósetningarbúnað og vita heldur ekki hvernig hann vinnur.

Losunarbúnaður til að losa festingar gúmmíbjörgunarbáta

Losunarbúnaður getur  bæði verið handvirkur, fjarstýrður og sjálfvirkur og á að losa festingar gúmmíbjörgunarbáta, sjá eftirfarandi lýsingar á einstökum búnuðum sem hafa verið viðurkenndir á undanförnum árum og eru til staðar í mörgum bátum í dag.

 

  • 1.0 Handsylgja er einfaldur búnaður sem á að vera á öllum festingum (ólum) gúmmíbjörgunarbáta, þannig að hægt sé að losa gúmmíbátinn með einu handtaki á staðnum, og sjósetja hann á hefðbundin hátt.(þessar handsylgjur verða eins og aðrir hlutir við búnaðina að hafa viðurkenningu Siglingastofnunar).

   

2.0 : Sjálfvirk losun fyrir áhrif sjávar, annarsvegar fyrir áhrif  þrýstings ( membra í Ólsenbúnaði og fl.) og hins vegar fyrir efnabreytingar (pillan í Sigmundsbúnaði)

                                                                    

2.1 : Membrur sem eru einar sér, og af ýmsum gerðum,( sjá viðurkenndur búnaður) þær eru settar á festingar gúmmíbjörgunarbáta, og virka þannig að þegar skip sekkur og membrurnar eru komnar niður á tveggja til fjögra metra dýpi þá losar membran festingar gúmmíbjörgunarbátsins. Á nokkrum  af þessum membrum er handvirk fjarstýrð losun t.d á membrunni sem notuð er við Ólsenbúnaðinn og fl. Þessi búnaður er aðalega notaður á minni báta og einnig á stærri  flutninga- og farþegaskip  sem falla undir ákvæði Alþjóðasamþykktar um öryggi mannslífa á hafinu frá árinu 1974 (SÓLAS)

 

2.2 : Losunarbúnaður af  Sigmundsgerð: Er stóll sem gúmmíbjörgunarbáturinn situr í og tengdur kassa sem í er pilla, sem leysist upp þegar hún lendir  í sjó. Pillan er í búnaði sem gerir það að verkum að festingar gúmmíbjörgunarbátsins losna. Á þessum búnaði er einnig fjarstýrður  handlosunarbúnaður, sem hægt er að hafa  í stýrishúsi eða þar sem menn telja hentugast að hafa hann. Þessi búnaður er ætlaður fyrir minni skip, sem ekki þurfa sjósetningarbúnað.

 

2.3 : Losunarbúnaður af Ólsengerð : Er stóll sem gúmmíbáturinn situr í og er tengdur  membru, sem getið er hér að ofan( sjá 2.1). Þegar búnaðurinn sekkur í sjó og er komin niður á tveggja til fjögra metra dýpi, þá losar membran  festingar gúmmíbjörgunarbátsins. Einnig er er á þessum búnaði  fjarstýrður handlosunar- búnaður, sem hægt er að hafa í stýrishúsi eða á öðrum hendugum stað.  Þessi búnaður er ætlaður fyrir minni skip, sem ekki þurfa sjósetningarbúnað.

                                                           

Losunar- og sjósetningarbúnaður til að sjósetja gúmmíbjörgunarbáta

Losunar- og sjósetningarbúnaður gúmmíbjörgunarbáta: er búnaður notaður til að losa og sjósetja gúmmíbjörgunarbáta. Hann er búinn handsylgju, Fjarstýringu  sem hægt er að hafa í stýrishúsi eða á öðrum hentugum stað á skipinu og sjálfvirkri losun.  Auk þess skal sjósetningarbúnaðurinn tryggja að fjarstýrð og sjálfvirk losun gúmmíbjörgunarbátsins setji af stað sjósetningu og uppblástur gúmmí-björgunarbátsins ( gúmmíbátur gálgatengdur). 

Eftirtaldir búnaðir eru samþykktir af Siglingastofnun og uppfylla því þessi skilyrði reglugerðar um öryggisbúnað:

Sigmundsbúnaður: Framleiðandi Vélaverkstæðið Þór. Viðurkendar eru tvær gerðir Sigmund 1000 hliðargálgi og Sigmund 2000 dekkgálgi. Búnaðurinn er færslubúnaður knúinn af lofti sem færir gúmmíbjörgunarbátinn með stól sem hann er í út fyrir borðstokk og sjósetur hann og ræsir  uppblástur hans.Sjálfvirkni og handstýrð fjarlosun eru eins og í Sigmunds losunarbúnaði.

 

Ólsenbúnaður: Framleiðandi SS Stál . Viðurkenndar eru tvær gerðir: 003 N og 006 N    Búnaðurinn er skotbúnaður knúinn af gormi, sem skýtur bátnum út fyrir borðstokk úr stól og ræsir með því uppblástur hans.Sjálfvirkni og handstýrð fjarlosun eru eins og á Ólsen losunarbúnaðinum . Óþarfi er að lýsa nákvæmlega hvernig  búnaðurinn vinnur sjá hér að ofan hvernig sjálfvirkni vinnur.

 

Varðeldur: Framleiðandi Varðeldur HF. Viðurkenndar eru þrjár  gerðir: V-180-012-UB , V-090-020-UB og  V091-020-UB. Búnaðurinn er skotbúnaður stjórnað af tölvu en knúinn sérstöku sprengiefni (knýiefni) ræst með rafmagni, sem skýtur bátnum út fyrir borðstokk. Skynjarar og nemar ásamt iðntölvu stjórna sjálvirku skoti og losun gúmmíbjörgunarbátsins .

 

Sigmar Þór Sveinbjörnsson


Sértu fríður

Sértu fríður, er gróflega gaman

að gera sig ljótan í framan

með fettum og brettum

og glennum og grettum.

Ég geri það tímunum saman

eftir Jóhann S. Hannesson


Humarréttur

 

Humarréttur. 8 humarhalar á mann eða samtals 32 fyrir fjóra:

1 st. laukur

1,5 matskeið smjör

½ teskeið karrý

1,5  matskeið hveiti

2 matskeiðar túmatpúrra

1 dl varn ( gott að nota safan sem kemur þegar maður setur humarinn á Pönnuna)

1,5 dl rjómi við notum alltaf ¼ lítra af rjóma eða einn pela.

1 slettu af tapasko

Salt og pipar og hvítlaukssalt er toppurinn.

Humarinn settur á Pönnu í stuttan tíma eða þar til hann verður hvítur. Hann tekinn af pönnu og pannan skoluð.

1,5  til 2 matskeiðar smjör setta pönnu og fínbritjaður laukur settur út í smjörið og það látið vera á pönnu þar til hann er orðin linur.

Síðan ½ teskeið af  karrý bætt útí og síðan hveiti yfir það og tómarpúrru. Þessu hrært saman og bætt útí  einum dl af vatni og eða soði af humarnum. Rjómanum helt yfir og hrært í og látið sjóða dálitla stund.

Nú er humarinn settur útí og suðan látin koma upp og látið sjóða í  3 til 4 mín. þá er þetta tekið af eldavélinni.

Með þessu er kartöflur, hrísgrjón, og sallat. Og ekki má gleyma Hvítlauksbrauðinu.

Verði ykkur að góðu


Fasteignaverð mun haldast áfram hátt

Fasteignaverð mun haldast áfram hátt

Formaður Félags fasteignasala kvíðir ekki framtíðini.

Þetta var fyrirsögn í Morgunblaðinu í gær, mér datt í hug hvort sama væri hægt að segja um þá sem eru að kaupa fasteignirnar af þessum fasteignasölum. Ætli þeir kvíði framtíðini sem þurfa næstu 40 árin að borga þessar himinháu fjárhæðir fyrir þessar sömu fasteignir.


Samgöngur á sjó við Vestmannaeyjar

 

Samgöngur á sjó við Vestmannaeyjar í gegnum árin

Það hefur verið mikið rætt og ritað um Bakkafjöruhöfn á undanförnum mánuðum og hafa menn ólíkar  skoðanir á áætluðum framkvæmdum. Það er eðlilegt og hið besta mál að menn láti í sér heyra.

Þeir sem hvað harðastir eru á móti Bakkafjöruhöfn eru nokkrir reyndir sjómenn með mikla reynslu af sjósókn við Suðurströndina og þekkja því vel sjólag og veður sem hér ganga yfir á hinum ýmsu árstímum. Ekki ætla ég að gera lítið úr þeirra reynslu né taka beina afstöðu til þess hvort rétt sé að gera höfn við Bakkafjöru eða ekki, þá ákvörðun verða Eyjamenn að taka sjálfir.

Hitt er annað mál að ég er sannfærður um að það er hægt að gera góða höfn við Bakkafjöru og það yrði mikil samgöngubót fyrir Vestmannaeyjar ef þar yrði gerð höfn, þ.e.a.s. ef gott vel búið skip yrði smíðað til að sigla þarna á milli. Skipið mætti ekki vera minna en 60 til 65 m langt og jafn vel búið að farþegum eins og í núverandi Herjólfi, þannig að það gæti siglt til Þorlákshafnar ef á þyrfti að halda.

Samgöngur á sjó hafa verið umræðuefni í Vestmannaeyjum í gegnum aldirnar og er fróðlegt að kynna sér þá sögu til samanburðar við daginn í dag.

Í bókinni Ægisdyr, II. bindi eftir Harald Guðnason segir m.a. eftirfarandi í kafla um samgöngur við Vestmannaeyjar: ,,Samgöngur á sjó fram undir 1940."

Eyjamenn bjuggu lengst af við erfiðar samgöngur og er svo enn að nokkru. Aðalleiðin var upp í Landeyjasand á stórum áraskipum. Skemmsta leiðin var upp á svonefndan Tanga austast í Austurlandeyjum, fram af bænum Bakka. Þá er Eyjamenn komu suður á sjóbæi og þurftu að komast heim til Eyja var kynnt bál austur á Bakkatúni, ef sjór var dauður, þar sem heitir Brennutótt. Það var merki til Eyjamanna að sækja ferðalanginn. Að Hallgeirseyjasandi var lengri leið. Leiðin ,,upp í sand" er um 6 sjómílur, nálægt 11 km. Landeyingar og Eyfellingar héldu uppi ferðum til Eyja í verslunarerindum, og sumir formenn héldu úti skipum sínum frá Eyjum.

En oft var ófært við hafnlausa strönd. ,,Teppur" gátu orðið langar, margar vikur, stundum mánuði.

Í þessum kafla lýsir svo Haraldur þróuninni næstu áratugina sem hér er of langt upp að telja.

En það hafa einnig verið hér framsýnir menn sem hafa reynt að sigrast á briminu við Suðurströndina og ætla ég hér að vitna í grein í Skeggja, 29. tbl. frá árinu 1919, um tilraun sem Einar Magnússon gerði það ár. Einar Magnússon var járnsmiður fæddur 31. júlí 1892 í Hvammi undir Eyjafjöllum. Hann lést í Vestmannaeyjum í gassprengingu sem varð í vélsmiðju hans 25. ágúst 1932.

Brimbátur Einars Magnússonar

Nýtt bátalag. Einar Magnússon járnsmiður gerði í vetur nýjan bát með spánýju lagi. Hann er ætlaður til uppskipunar við sandana og þannig útbúinn að sjór gengur ekki í hann og naumast á hann að geta ,,farið af kjölnum". Með honum á að takast að koma vörum úr landi miklu oftar en með venjulegu aðferðinni, og fara auk þess miklu betur með fólk og farangur. Báturinn er mjög lítill, stuttur en víður og flatbotna og sterkur vel. Ætlast er til að hann þoli högg af brimsjónum. Hann var reyndur á mánudag í landferð og fór Einar sjálfur til að sjá hvernig báturinn færi í sjó og lætur hann vel af því. Segist hann helst hafa kviðið fyrir að hann mundi ekki fylgja löðrinu nógu langt upp í sandinn. ,,En það var þvert á móti, hann skreið lengra upp en ég gat gert mér vonir um" segir Einar.

Bændur sem voru við tilraunina láta hið allra besta yfir og telja bátinn besta grip. Enginn vafi er á því að slíkir bátar þykja ómissandi við sandinn. Það er einhver munur á að láta sauðfé ofan í lokaðan bát, eða ferja það í opnum fjörubát í gegnum brimið. Svo er frá bátnum gengið að fólk getur farið í honum þó sjór gangi yfir hann jafnt og þétt, og jafnvel þó honum hvolfi. Er það stórmikill munur við sanda.Einar hefur unnið þarft verk með því að smíða þennan bát og mun hann ekki vinna þar til fjár.

Grunaður er hann að eiga fleira í fórum sínum sem hann hefur ekki lokið við ennþá, en hann fer dult með. Illt er það ef hann ætlar að eyða æfi sinni yfir götugum pottum og prímus hausum en láta bestu smíðar sínar ryðga til ónýtis''.  Tilvitnun í Skeggja lýkur.

Sjálfur man ég nokkuð langt aftur í tímann eða þegar hér voru fiskibátar sem héldu uppi samgöngum við Stokkseyri, Þorlákshöfn og Reykjavík. Þessir bátar hétu Gísli J. Johnsen VE 100, Vonarstjarnan VE 26, Skaftfellingur VE 33, Skógarfoss VE. Fleiri bátar voru í þessum ferðum. Man ég eftir minni fyrstu ferð til fastalandsins þá 11 ára gamall. Fór ég með Gísla Sigmarssyni frænda mínum, með Blátindi VE 21 til Þorlákshafnar. Þá minnir mig að einn fólksbíll hafi verið þversum á dekkinu yfir lestarlúgu. Skipstjóri í þessari ferð var Eyjólfur Gíslason frá Bessastöðum.

Ekki man ég eftir neinu alvarlegu slysi á ferðum þessara báta þó auðvitað hafi þessar ferðir oft verið erfiðar og innsiglingar á Stokkseyri og Eyrarbakka ekki verið árennilegar og oft á tíðum hættulegar. Það þurfti t.d. að sæta sjávarföllum til að komast inn í þessar hafnir á þessum litlu fiskibátum. 

Nokkru áður eða fyrir mitt minni varð hörmulegt slys þegar Helgi VE 333 fórst á Faxaskeri með allri áhöfn og farþegum þann 7. janúar 1950 Helgi var að koma frá Reykjavík í mjög slæmu veðri og varð vélarbilun rétt austan við Faxasker og rak bátinn upp á Skelli og Faxasker.

Í ágúst 1967 var gerð nýstárleg tilraun þegar fengið var svifskip af gerðinni SRN 6 sem fór fyrstu ferðina upp í sand 15. ágúst 1967. Skipið gat farið með 50 til 60 km hraða yfir hafflötinn ef veður var gott. Í skýrslu sem Jón Í. Sigurðsson hafnsögumaður gerði um ferðir SRN 6 svifskipsins á þessum tíma segir orðrétt: ,,Fyrsta ferð með gjaldskylda farþega. Árið 1967 þann 16. ágúst kl.15.31 startað. Kl. 15.35 í hafnarmynni, kl. 15.37 við Klettsnef , stefna á Krosssand. Kl. 15.47 lent í Krosssandi. Farþegar fóru út á sandinn um stund. Kl. 15.57 startað, keyrt vestur sand. Kl. 16.05 á flot á leið til Vestmannaeyja, kl.16.19 í hafnarmynni, kl. 16.22 lentir í Botni. Veður VSV 3 vindstig ölduhæð 0,60 m. Farþegar 29 (þar af eitt barn) áhöfn 3 menn."

Þannig lýsir Jón þessari fyrstu ferð svifskipsins með farþega upp í sand. Það tók sem sagt 12 mínútur að fara frá hafnarmynni og upp í Krosssand. Í stuttu máli sagt var skipið hér í nokkra daga og flutti farþega upp í sand og til baka eða fór kringum Eyjar og stundum að Surtsey, en 18. ágúst bilaði svifskipið og man ég að það var þó nokkra daga jafnvel vikur uppi á Nausthamarsbryggjunni.

Undirritaður var svo heppinn að komast með þessu skipi eina ferð upp í sand og mun ég seint gleyma henni. Til gamans má geta þess að meðal farþega í þessari ferð var aflakóngurinn og sægarpurinn Benóný Friðriksson venjulega kallaður Binni í Gröf og kona hans Katrín Sigurðardóttir.

Þann 12. desember 1959 kom nýr Herjólfur að bryggju í Vestmannaeyjum var skipið góð samgöngubót fyrir Eyjarnar en það sigldi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja og einnig sigldi það til Hornafjarðar. Síðustu árin hélt það uppi ferðum milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar ásamt ferðum til Reykjavíkur 

Nýr Herjólfur kom 4. júli 1976 og sigldi það skip eingöngu milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Þótti það mikil samgöngubót þótt skipið hafi strax verið talið gamaldags, var t.d aðeins með eina aðalvél og eina skrúfu (elsti Herjólfur var með tvær vélar). Það þótti gott sjóskip.

Skipið þjónaði Eyjunum vel þau 16 ár sem það var notað og gæfa fylgdi því skipi.

Nýjasti Herjólfur kom svo árið 1992, glæsilegt skip sem hefur reynst vel í alla staði nema hann er of lítill að margra mati. Allir þekkja það skip og ætla ég ekki að hafa fleiri orð um það.

Reynsla af líkanprófunum með skip í líkani af Bakkafjöruhöfn

Undirritaður hefur í átta ár starfað hjá Siglingastofnun Íslands og unnið þar m.a. undir stjórn verkfræðinganna Gísla Viggósonar og Sigurðar Sigurðarsonar sem eru sérfræðingar í byggingu hafnamannvirkja og brimvarnargarða. Þessir menn eru ekki bara þekktir fyrir störf sín á Íslandi heldur hafa þeir haldið fyrirlestra um þessi fræði um allan heim. Þeir hönnuðu t.d. stæðsta brimvarnargarð sem byggður hefur verið í Noregi.

Ég hef séð um keyrslu á 6 hafnalíkönum, þ.á.m. líkaninu af Bakkafjöruhöfn. Í öllum þessum líkönum stóðust þær mælingar sem gerðar voru, og nú á eftir að fá staðfestingu á því hvort ekki verður hið sama uppi á teningnum með Bakkafjöru. Ég á ekki von á öðru en að mælingar standist eins og aðrar tilraunir sem gerðar hafa verið með líkönum Siglingastofnunar.

Sjálfur hef ég einnig nokkra reynslu sem sjómaður, starfaði sem slíkur í 32 ár, þar af 16 ár á Herjólfi. Ég hef því nokkuð góða reynslu af siglingaleiðinni Vestmannaeyjar Þorlákshöfn.

Frá því byrjað var að prófa og ræða um Bakkafjöruhöfn hef ég lent í ótrúlegum umræðum um þessa framkvæmd, þar hef ég rætt við heita andstæðinga Bakkafjöruhafnar og menn sem eru henni mjög fylgjandi. Einnig menn sem vilja ekki annað en göng, og að síðustu er hópurinn sem vill stærra og gangbetra skip sem heldur áfram að sigla til Þorlákshafnar.  

Þar sem ég vann að þessu verkefni ásamt mörgum öðrum og margir þeirra manna sem ég vinn með hafa fengið á sig óvæginn áróður, langar mig að segja mína skoðun á þessu verkefni.

Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki mikla trú á þessu í byrjun, en eftir því sem ég vann lengur að þessum líkantilraunum með Gísla Viggóssyni  verkfræðingi og sá árangurinn af þeim fékk ég meiri trú á að Bakkafjöruhöfn væri raunhæfur kostur.

Mig langar að skýra þetta fyrir þeim sem áhuga hafa á þessu máli og taka það helsta sem menn gagnrýna við Bakkafjöru.

Brimið við ströndina og sigling gegnum rifið

Margir sjómenn hafa eindregið varað við brotöldum á rifum sem eru víðsvegar með Suðurströndinni og einnig vara þeir við miklu brimi sem í verstu veðrum gengur lengst upp á kamb við ströndina. Ekki ætla ég að gera lítið úr þeirri hættu sem er við þessi rif. En við Bakkafjöru er svokallað hlið á rifinu sem hefur haldist þar á svipuðum stað í tugi ára. Það er þetta hlið sem gerir það að verkum að hægt er að byggja þarna höfn. Þar er að jafnaði 6 m dýpi sem hefur þó mælst minnst 5,1 m  miðað við meðalstórstraumsfjöru. Báðum megin við þetta hlið er mun minna dýpi á rifinu og þar geta verið mikil brot og hættuleg. Við alla Suðurströndina er að finna svona hlið á rifunum, en þau hlið haldast ekki á sama stað nema stuttan tíma og geta alveg horfið.  

Þó alltaf sé erfitt að meta áhættu við innsiglingu gegnum rifið og síðan inn í Bakkafjöruhöfn, þá kom það greinilega fram við siglingu skipsins í líkaninu að þegar skipið var komið inn fyrir rifið þá voru ekki brotöldur þar fyrir innan þ.e.a.s. frá rifinu og inn að hafnarmynninu. Þessi vegalengd er um 300-350 metrar sem eru u.þ.b. 5 skipslengdir ef miðað er við 62 m skip eins og nú er talað um að verði á þessari leið.

Skipið er því tiltölulega öruggt þegar það er komið inn fyrir rifið og á frían sjó þar sem dýpi er 10 til 12 m á meðalstórstraumsfjöru og mun meira dýpi en á sjálfu rifinu eða réttara sagt í hliðinu. Hafa skal í huga að ekki var hægt að reikna með vindi eða sjávarfallastraumum við þessar tilraunir en samkvæmt rannsóknum er tiltölulega lítill straumur innan við rifið.

Hvað varðar brotöldurnar á sjálfri ströndinni þá hafa þær ekki áhrif þar sem þær brotöldur brotna mun innar en hafnarmynnið verður sem er um það bil 500 til 600 m frá ströndinni. Skipið kemur því aldrei nálægt brotöldum sem eru að brotna á sjálfri ströndinni.

Það er mín skoðun að ef þessar tilraunir standast, ætti að vera tiltölulega auðvelt að velja lag til að fara yfir rifið en það tekur 1 til 1,5 mín. að sigla yfir það eftir því á hvaða hraða skipinu er siglt.

Eftir að komið er inn fyrir rifið, er ekki hætta á brotsjóum, alla vega ekki við þau mörk sem sett hafa verið um hámarksölduhæð sem er 3,5 til 4 m.

Til samanburðar má nefna að þegar ég var stýrimaður á eldri Herjólfi lentum við í því a.m.k. tvívegis að þegar við komum út úr Þorlákshöfn í mjög slæmu veðri að skipið stakkst með stefnið í sandbotninn  og hægði þannig mjög á ferð. Það var ekki auðvelt að koma því af stað aftur á móti 10 til 12 vindstigum og brotöldum. Það er ekki alltaf auðvelt fyrir skipstjóra Herjólfs að taka ákvörðun um að taka land í Þorlákshöfn þegar svo til öll víkin er eitt bullandi brot, allra síst í myrkri. Man ég eftir þó nokkrum ferðum þar sem við urðum að bíða fyrir utan Þorlákshöfn meðan flæddi til að geta komist inn. Þá var stundum farið til Reykjavíkur vegna þess að leiðin inn til Þorlákshafnar var ófær. Nú er dýpið fyrir utan hafnargarðana í Þorlákshöfn 6,5 til 7,5 m eða ekki mikið meira en á rifinu við Bakkafjöru. Mér skilst að þetta hafi ekki batnað síðustu árin heldur versnað ef eitthvað er.

Ef marka má líkantilraunir þá kom Bakkafjöruhöfn mjög vel út hvað varðar kyrrð inni í höfninni. Þar var lítið sem ekkert sog en töluvert sog er í Þorlákshöfn.

Ef miðað er við þær líkantilraunir sem gerðar voru á Bakkafjöruhöfn þá ætti ekki að vera verra að sigla inn í hana enn inn í Þorlákshöfn.

Það eru margar leiðir til þess að bæta samgöngur við Vestmannaeyjar, og það er unga fólkið sem á að taka ákvörðun um hvaða leið verður farin, því að það kemur til með að nota þessar leiðir í framtíðinni. Flest ungt fólk sem ég hef talað við vill stytta ferðalagið á sjó og skil ég það fullkomlega eftir reynslu mína sem stýrimaður á Herjólfi. Það er líka vel skiljanlegt að sjómönnum finnist það ekki vera mikið mál jafnvel þó vont sé veður, að sitja í þrjá tíma um borð í Herjólfi og spjalla meðan skipið siglir til Þorlákshafnar, en þeir mega ekki gleyma þeim sem eru sjóveikir og liggja í koju með æludallin fyrir framan sig allan tíman, og eru svo jafnvel allan daginn að jafna sig eftir sjóferðina.

Að lokum, Það er mikilvægt að þeir sem byggja Vestmannaeyjar í dag standi einhuga saman um þá tillögu sem verður valin sama hver hún verður.

Þessa grein skrifaði ég í Fréttir fyrr á árinu

Sigmar Þór Sveinbjörnsson

 

 

 

 

 


Gluggað í gömlum Sjómannadagsblöðum Vestmannaeyja

Árið 1968 var fjöldi vélbáta sem gerðir voru út frá Vestmannaeyjum 77 og samanlagt vélarafl þeirra 23.106 hestöfl,  þessi floti var metin á 300 miljónir.

Ársafli Vestmannaeyjabáta árið 1969: Vertíðarafli 31.500 lestir og sumar og haustafli 20.500 lestir (þar af humar 140 lestir)

 Á vertíðinni 1970 bættust eftirtaldir bátar í Eyjaflotan: Bára VE 141, 12  rúml., Einir VE 180,  63 rúmlestir., Gullfaxi VE 102, 140 rúml. Íngólfur VE 216,  51 rúml. Jökull VE 15,  35 rúml., Portland VE 304,  10 rúml., Þórdís VE 304, 14 rúml.

Auk þessara báta voru þrír þekktir útgerðarmenn í Eyjum að láta smíða fyrir sig nýja yfir 100 tonna stálbáta en þessir menn voru: Óskar Matthíasson,lét smíða Þórunn Sveinsdóttir VE. Emil Andersen lét smíða´Danska Pétur VE. og Björn Guðmundsson lét smíða Árna í Görðum.


Kæri samferamaður

 

Verið velkomin kæri samferðamaður

 

Góðan dag kæri samferðarmaður,

gefðu þér tíma til að vera

 hamingjusamur,

Þú ert undur lífsins á þessari jörð.

Þú ert einstakur, sérstakur, óbætanlegur.

Veistu það?

Taktu þér góðan tíma til að vera

 hamingjusamur.

Tíminn er engin hraðbraut,

milli vöggu og grafar,

En staður til að fá sér sæti í

sólskininu.

 

Höfundur ókunnur


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband