Þurfum við alltaf að láta þagga niður umræðu um sjóslys ?.

eiginh142Þurfum við alltaf að láta þagga niður umræðu um sjóslys ?.

Er ekki nauðsynlegt að fá umræðu um sjóslys eins og önnur slys, sú umræða þarf auðvitað að vera málefnaleg, ekki vera með sleggjudóma sem særa hlutaðeigandi, menn sem áhuga hafa á fækkun sjóslysa eiga að fá að tjá sig og segja sitt álit.

Þeir sem sitja í Rannsóknarnefnd samgönguslysa eru kannski ekki inni í öllum málum, sjómenn geta komið með góðar ábendingar til nefndarinnar þeir þekkja skip og aðstæður. Nefndin er heldur ekki afkastamikil , það tekur langan tíma að rannsaka hvert sjóslys. Engar upplýsingar eru gefnar af nefndinni fyrr en mörgum mánuðum jafnvel meir en ár eftir slys, en þá eru flestir hættir að hugsa um það og afleiðingar þess.

Það er líka furðulegt og óásættanlegt að ekki skuli haldin sjópróf í alvarlegum sjóslysum þar sem menn farast, er ekki nauðsynlegt að fá svar við því hvers vegna rannsóknarnefnd samgönguslysa fer ekki fram á sjópróf ?.

Menn ættu að hafa það í huga að í langflestum tilfellum hafa nýjungar í öryggismálum sjómanna og öryggi sjómanna verið bætt að tilhlutan áhugamanna, útgerðarmanna og sjómannana sjálfra, oft eftir miklar og harðar umræður í fjölmiðlum.

Það er mín reynsla að þeir sem lenda í slysum séu ekki á móti því að rætt sé um þau, ef það er gert málefnalega og án þess að vera með sleggjudóma.

Bætt öryggi sjómanna hefur ekki hingað til komið af sjálfu sér, og það gerist ekki með því að þagga niður umræðu um þessi mál. Reynslan hefur kennt okkur að það þarf umræður í fjölmiðlum um þessi sjóslys, og sjómenn og áhugamenn um öryggismál sjómanna hafa sjálfir þurft að berjast fyrir bættu öryggi sínu, það gera ekki aðrir fyrir þá.

Það er ótrúleg barátta sem þarf í hvert skipti sem á að fá einhverjar úrbætur í öryggismálum sjómanna, það þekkja sjómenn og þeir sem unnið hafa að þessum málum, ég held að ég þurfi ekki að nefna þau mörgu dæmi.

Jón Hákon BA er kominn á þurt vegna þess að það var mikill þrýstingur á rannsóknarnefnd samgönguslysa að ná skipinu upp, sú árangursríka umræða fór fram í blöðum, sjónvarpi, útvarpi, á netinu og Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingiskona tók málið ákveðið upp á Alþingi. Án þessarar umræðu væri skipið en á hafsbotni, það vitum við.

Ágætu sjómenn og þið sem áhuga hafið á öryggismálum sjómanna, ef þið hafið eitthvað gott til málanna að leggja sem þið teljið geta bætt öryggi okkar sjómanna, þá eigi þið að tjá ykkur um það, við eigum ekki að láta þagga niður í okkur, alla vega ætla ég ekki að gera það. En við skulum vera málefnaleg annað skilar ekki árangri.


Frábært að ná Jóni Hákoni upp

Frábært að búið er að ná Jóni Hákoni upp af hafsbotni. Enn og aftur sannar varskipið Þór hvað nauðsynlegt er að eiga þetta öfluga björgunarskip með reyndum og samtaka mannskap um borð.

Til hamingju Landhelgisgæslumenn með þessa björgun á skipinu. Nú er hægt að byrja alvörurannsókn á þessu alvarlega sjóslysi.Þetta gefur fordæmisgildi, og mun gera rannsóknarnefnd samgönguslysa auðveldara að ransaka þetta alvarlega sjóslys og önnur sem verða í framtíðinni, þó við vonum að til þess þurfi ekki að koma.

Það má líka þakka þeim sem þrýstu á um að skipið yrði tekið upp.


mbl.is Jón Hákon BA aftur upp á yfirborðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokin og minningar um vetravertíðir.

Lokin eða slúttið eins og það var stundum kallað á vetrarvertíð í Eyjum var skemmtilegur tími í minningunni, haldin í kringum 11. til 15. maí í vertíðarlok, fljótlega eftir að búið var að taka upp þorskanetin.

Mynd 3Þegar hampnetin og hampteinarnir voru alsráðandi var í vertíðarlok farið með netin og þau breidd út inn í Herjólfsdal, suður í Kinn einnig man ég eftir að þau voru breidd út á Stakkagerðistúnið. Þannig voru netateinar og net þurkuð áður en þau fóru í geymslu í Leó kró. Þar voru þau bætt á haustin ef ekki var skorið af teinum riðillinn. þegar lokið var við að koma veiðarfærum í land og búið að skrubba og þvo bátinn hátt og lágt, var komið að því að halda lokin hátíðleg. Þegar nælon teinar og net komu til sögunar þurfti ekki að þurrka teina eða netriðil, þau efni fúnuðu ekki eða skemmdust þó þau færu blaut í geymslu. Það er gaman að rifja þetta upp hér.

Við vorum ekki gamlir frændurnir Matthías, Sigurjón og Kristjan Valur Óskarsynir þegar við fengum að taka þátt í lokunum með áhöfninni á gamla Leó VE 294 þá heima hjá Óskri Matt og Þóru í Eyvindarholti við Brekastíg 7 b. og seinna á Leó Ve 400 en þá bjuggu þau hjón á Illugagötu 2. Við vorum taldir gjaldgengir vinnumenn þar sem við vorum með í að stokka upp línuna eftir línu vertíð, hníta á tauma, skera af netum, hanka grjót og fl. sem til féll aðeins 8 til 11 ára gamlir. Það sem er þó minnistaðast við lokin frá þessum árum hvað varðar okkur peyjana var að við fengum náttúrulega að taka þátt í veisluhöldum sem samanstóðu af rjómatertum og kremtertum af öllum gerðum ásamt smurbrauði og öðru góðgæti.

Mynd 2Það sem stóð þó uppúr var að við fengum að drekka eins mikið af öli oftast Spur eða Coka Cola eins og við vildum og gátum í okkur látið, þetta notfærðum við okkur óspart enda eina skiptið á árinu sem þetta var í boði. Við fengum líka að vaka lengur, svona svipað og á gamlárskvöld. Annars var ölið keypt í kassavís til að blanda sterkari drykki sem kallarnir drukku og sumir hverjir kannski meira en aðrir eins og gengur, þeir gerðust þá kátir og sungu, hlógu og töluðu mikið að okkur fannst. Á þessum tíma var ekki áfengisverslun í Eyjum þannig að panta varð allt vín úr Reykjavík. Þetta eru í minningunni yndislegir tímar hjá okkur frændunum sem aldrei gleymast. þetta eru mínar fyrstu æsku minningarnar frá lokunum hjá Leó útgerðinni. Þá bjuggum við peyjarnir allir við Brekstiginn.

Mynd 4. Leó VE 400 Árin liðu og við fórum nú sjálfir á sjóinn og eftirfarandi minningarbrot eru að mestu frá því ég var II. velstjóri á Leó VE 400 en þar var ég með Óskari Matthíassyni heitnum frænda mínum í 5 ár. Sigurjón Óskarsson síðar skipstjóri og útgerðarmaður var þá I. velstjóri og síðar Matthías Sveinsson, Sigurður Ögmundsson stýrimaður, Gísli Sigmarson var einnig stýrimaður, Sigurgeir Jóhannsson kokkur, hásetar á þessum árum sem ég man eftir voru: Kristján V. Óskarsson síðar skipstjóri og útgerðarmaður á Emmu VE, Andrés Þórarinsson, Sveinn Ingi Pétursson, Guðbrandur Valtýrsson, Sigþór Pálson og tveir færeyingar voru líka með okkur. og úr sveitinni komu Jón Guðmundsson frá Vossabæ, Elvar Andrésson frá Vatnsdal í Fljótshlíð, Sigurður Sigurjónsson og Guðjón Axelsson siðar lögregluþjónn á Selfossi, Netavertið var yfirleitt erfitt tímabil á sjónum í það minnsta var hún það á Leó VE og örugglega fleiri netabátum í Eyjum.

Mynd 5. áhöfn Það var því kærkomið þegar fór að vora og brún slikja var farin að koma á efsta hluta færanna og neðri part af netabaujunum, það var glöggt merki um að lokin nálguðust. Það voru margir sveitamenn á Leó og þeir urðu sumir hverjir órólegir þegar tók að vora, vildu auðvitað komast sem fyrst í sauðburðinn, það var mikil vinna og þeirra vorvertíð. Mér er minnisstætt hvað þessir sveitamenn voru sérstaklega duglegir, Jón Guðmundsson frá Vorsabæ er einn duglegasti og kraftmesti maður sem ég hef unnið með um ævina. Óskar Matthíasson skipstjóri og útgerðarmaður á Leó og Þórunni Sveinsdóttir VE 401 og kona hans Þóra Sigurjónsdóttir héldu alltaf veglega upp á lokin með mannskapnum á þessum bátum og á þessum tíma voru konum þeirra einnig boðið með í lokagleðskapinn sem ekki var hér áður fyrr. Þetta var alltaf mikil og skemmtileg veisla þar sem vel var veitt bæði í mat og drykk og alltaf haldið heima hjá Óskari og Þóru að Illugagötu 2 meðan ég var á Leó. Í áhöfn Leó voru menn sem var margt til lista lagt eins og Elvar Andrésson sem spilaði eins og engill á harmónikku. Hann fékk óspart að njóta sín á lokunum eða slúttum og einnig á vertíðinni ef landlega var. Það eru ófá skipti sem við sátum í stóra vesturherberginu í kjallaranum á Illugagötu 2 og hlustuðum á hann spila á harmónikkuna.

Mynd 6Lokin voru skemmtileg samgleði þar sem menn drukku saman kaffi eða súkkulaði og borðuðu rjómatertur, kremtertur, brauðtertur og randalínur , seinni árin var farið að panta veislumat frá veisluþjónustum. Eftir kökuátið var boðið upp á AGIO stórvindla þessa í trékössunum,þá var veitt vín eins og hver vildi og hressti það vel upp á þetta skemmtilega lokahóf. Í framhaldinu fór Elvar að spila á harmónikkuna, og kallarnir að syngja og sumir fengu fiðring í tærnar og fóru að dansa, ekki endilega við konurnar því stundum tóku skipsfélagarnir sporið saman. Þessi samgleði stóð oftast nær fram á morgun, en það höfðu náttúrulega ekki allir svo mikið úthald. Stundum fórum við sem yngri vorum á dansleik í Samkomuhúsið eða í Alþíðuhúsið og mættum svo aftur í gleðina eftir ballið, þetta var ótrúlega skemmtilegur tími að upplifa lokin með þessum hætti.

Það er merkilegt að alltaf þegar ég hugsa um lokin kemur upp í hugann gargandi mávur eða rita, það var sérstök stemming við höfnina þegar allir bátarnir voru hættir að róa og aðeins ljósavélar í gangi. Þá heyrðist meira í mávunum en áður, eða kannski tók maður ekki eftir þessu gargi þegar vertíðin var í fullum gangi.

mynd 9Það getur líka verið að fuglarnir hafi með þessu langa gargi viljað mótmæla því að bátarnir væru hættir að veiða, þar með fengu þeir ekki sinn skammt af fiskinum eða slorinu sem þeir sóttu svo í um veturinn, engin hugsaði um að þeir þyrftu mat handa sér og ungunum sínum.

 Myndir:1. Gamli Leó VE 294,

Mynd 2.Tfv: Óþekktur, Kristján Valur, Sigurjón og Matthías Óskarsynir, Sigurfinnir Sigurfinnsson og Sigmar Þór Sveinbjörnsson.

Mynd 3. Leó VE 400,

mynd 4 áhöfnin á Leó VE 400 árið 1964.

Mynd 5. Óskar Matthíasson við talstöðina í Leó.

Mynd 6. Hjálmar á enda situr og sveinbjörn Snæbjörnsson og Óskar Matthíasson.


Sjómannadagurinn er ekki Hátíð hafsins

Á netaveiðumEndurtekið efni sem ég vona að sjómenn lesi og hugsi sinn gang nú þegar sjómannadagurinn nálgast . Ég gefst aldrei upp við að mótmæla því að sjómannadagurinn sé uppnefndur Hátíð hafsins af sjómannafélögum á Reykjavíkursvæðinu. Vér mótmælum sjómenn.

Sjómannadagurinn er ekki hátíð hafsins. Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga fyrir Sjómannadeginum. Í Vestmannaeyjum þar sem ég er fæddur og ól mestan minn aldur er Sjómannadagurinn einn skemmtilegasti hátíðardagur ársins og við peyjarnir sem áttum sjómenn sem feður sem og aðra ættingja vorum svo sannarlega stoltir af því að tengjast þeim og þar með Sjómannadeginum. Þegar ég síðar gerði sjómennskuna að ævistarfi mínu, gerði ég mér fljótt grein fyrir því að þessi dagur er miklu meira en skemmtun í tvo daga.

Sjómannadagurinn er órjúfanlegur hluti af stéttarbaráttu og kynningu á starfi sjómanna. Í Vestmannaeyjum má segja að allir tengist sjómönnum á einn eða annan hátt eins og víða í útgerðarbæjum landsins.

Á Sjómannadaginn kynnum við sjómannsstarfið, minnumst þeirra sem hafa látist og sérstaklega þeirra sem látist hafa í slysum á sjó, heiðrum aldna sjómenn og ekki hvað síst gerum við okkur glaðan dag með fjölskyldum, vinum og skipsfélögum. Þá hefur t.d. í 60 ár verið gefið út veglegt Sjómannadagsblað Vestmannaeyja. Sjómannadagsráð Reykjavíkur og Hafnarfjarðar sér Sjómannadaginn öðrum augum, ekki sem Sjómannadag heldur sem dag hátíðar hafsins. Það er mér óskiljanlegt að sjómenn skuli ekki mótmæla því að Sjómannadagurinn skuli vera tekinn eignarnámi og nefndur Hátíð hafsins í Reykjavík með vitund og vilja stærstu sjómannafélaga landsins sem þar eru staðsett.

Sjómannadagur 1971 (sigirgeir j)Hafið hefur tekið líf margra sjómanna sem voru ættingjar okkar, vinir og skipsfélagar. Þess má geta til fróðleiks að á árunum 1962 til 1992 árin sem undirritaður stundaði sjó frá Vestmannaeyjum, fórust 58 sjómenn sem voru á bátum frá Eyjum, og eru þá taldir með þeir Eyjasjómenn sem fórust og stunduðu tímabundið sjó annarsstaðar á landinu á sama tíma, þar af voru fjórir jafnaldrar mínir. Þessi tala um dauðaslys á sjó er að sjálfsögðu mun hærri og skiptir hundruðum ef taldir eru allir þeir íslensku sjómenn sem fórust á þessu tímabili. Það er eitt af markmiðum Sjómannadagsins að minnast þessara manna, og er minningarathöfn við minnisvarðann við Landakirkju ein eftirminnilegasta stund Sjómannadagsins í Vestmannaeyjum . Finnst mönnum það viðeigandi að minnast þeirra sjómanna sem farist hafa á hafi úti og margir þeirra gista hina votu gröf, á degi sem kallaður er Hátíð hafsins? Að mínu viti er þetta fráleitt og hreinlega móðgandi fyrir íslenska sjómenn. Þessi gjörningur Sjómannadagsráðs er þegar farinn að smita út frá sér og sjómenn í hugsunarleysi farnir að breyta nafni dagsins. Hafnardagar í ÞorlákshöfnÍ Þorlákshöfn þar sem flest snýst um sjóinn og tengdum störfum, hafa þeir á síðustu árum apað þetta eftir Reykjavíkurfélögunum og uppnefna Sjómannadaginn sinn Hafnardaga, og sjómenn samþykkja þetta umyrðalaust. Það er því ótrúlegt að sjómenn og stéttarfélög þeirra skuli ekki mótmæla þessu opinberlega hver á sínum félagssvæði. Það er eins og sjómenn geri sér ekki grein fyrir því hvað Sjómannadagurinn er sjómönnum mikilvægur hvað varðar stéttarbaráttuna og kynningu á starfi sjómanna.

Flottur Sjómannadagur 2Sjómannadagurinn er hátíðisdagur haldinn sjómönnum til heiðurs, og er ekki hátíð hafsins. Í lögum um Sjómannadaginn segir m.a.: “2. grein a) Sjómannadagsráð hefur með höndum hátíðahöld Sjómannadagsins ár hvert í samræmi við stofnskrá um Sjómannadag frá 1937 og lög um Sjómannadag, nr. 20, 26.mars 1987. Við tilhögun Sjómannadagsins skulu m.a. eftirfarandi markmið höfð að leiðarljósi:

1. Að stuðla að því að Sjómannadagurinn skipi verðugan sess í íslensku þjóðlífi.

2. Að efla samhug meðal sjómanna, hinna ýmsu starfsgreina sjómannastéttarinnar og stuðla að nánu samstarfi þeirra.

3. Að heiðra minningu látinna sjómanna, þá sérstaklega þeirra sem láta líf sitt vegna slysfara í starfi.

4. Að heiðra fyrir björgun mannslífa og farsæl félags- og sjómannsstörf.

5. Að kynna þjóðinni áhættusöm störf sjómanna og mikilvægi starfanna í þágu þjóðfélagsins. Eitt af lagaskyldum Sjómannadagsráðsins er líka:

Að beita sér í fræðslu og menningarmálum er sjómannastéttina varða og vinna að velferðar- og öryggismálum hennar.“ .

Ég er sannfærður um að með því að uppnefna Sjómannadaginn Hátíð hafsins er ekki verið að stuðla að því að Sjómannadagurinn skipi verðugan sess í íslensku þjóðlífi, því síður eflir það samhug sjómanna eða kynnir þjóðinni áhættusöm störf þeirra og mikilvægi. Ég hef rætt þetta við marga starfandi sjómenn og hef engan hitt sem er ánægður með þessa nafnbreytingu. Nokkrir segja þetta afleiðingu þess að sum af stéttarfélögum sjómanna hafa verið sameinuð stórum landfélögum og þar með hafa tekið völdin menn sem hafa lítinn skilning og takmarkaðan áhuga á sjómannsstarfinu , ekki veit ég hvort það er rétt. Ég hef rætt þetta Brotsjór 1 Þorbjörn Víglundssonvið nokkra forustumenn í stéttarfélögum sjómanna í Reykjavik og þeir hafa sagt mér að ef Faxaflóahafnir hefðu ekki tekið þátt í kostnaði við hátíðahöld Sjómannadagsins, hefði dagurinn sennilega lagst af. Hefur stjórn Faxaflóahafna virkilega sett þau skilyrði fyrir því að styrkja Sjómannadaginn, að nafn dagsins verði þurrkað út og breytt í Hátíð hafsins og Sjómannadagsráð samþykkt það?. Ef það er þannig í pottinn búið er ekki von á góðu frá Sjómannadagsráði sem í eru hvorki meira né minna en 34 menn og 31 til vara úr sex sjómannafélögum. Hvað vakir fyrir þeim stjórnarmönnum sjómannafélaga og stjórn Faxaflóahafna að vilja breyta nafni Sjómannadagsins? Hvers vegna má hann ekki heita sínu rétta nafni Sjómannadagur ?. Þetta er allt hið furðulegasta mál sem sjómenn ættu að hugsa alvarlega. Er þetta kannski einn liðurinn enn til þess að þagga niður í sjómönnum?.Allir hugsandi sjómenn hljóta að sjá að þessi breyting á nafni Sjómannadagsins er niðurlægjandi fyrir sjómannastéttina. Að sjómannasamtökin skuli samþykkja þessa breytingu á nafni Sjómannadagssin sýnir að sjómannadagsráð virðist slitið úr tengslum við sjómennina sjálfa. Þetta eru eflaust allt ágætir menn sem sitja í Sjómannadagsráði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, en væri ekki sterkur leikur að leyfa yngri mönnum að komast að, mönnum sem eru tilbúnir að verja hagsmuni sjómanna betur, alla vega finnst mér það lágmarkskrafa að þeir verji nafn Sjómannadagsins, þennan eina dag sem sjómenn sannarlega eiga lögum samkvæmt.

Sjómenn eiga ekki að sætta sig við annað en að dagurinn sé kallaður sínu rétta nafni Sjómannadagurinn. Gleðilegan sjómannadag

Sigmar Þór Sveinbjörnsson fyrverandi stýrimaður


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband