Mynd frá 1964

Jórunn, Þóra og BjörgHring um Heimaey 2


Miningar IV.

Rukkun fyrir tímavinnu.

óskar ljóðÉg á margar góðar minningar um viðskipti mín við Óskar Matt skipstjóra og frænda minn. Hann gat verið skemmtilegur og stundum stríðin og vildi líka hafa vit fyrir okkur peyjunum eins og kemur hér fram í þessum minningarbrotum.

Það tíðkaðist ekki fyrstu árin sem ég var vélstjóri á Leó að rukka fyrir tímavinnu sem unnin var á milli úthalda, þetta var ekki bara hjá Leó útgerðinni heldur hjá flestum minni útgerðum í Eyjum.

Þessu var öðruvísi háttað hjá stærri útgerðum sem voru með marga báta eins og Fiskiðjan, Hraðfrystistöðin og fl. þar voru allir tímar sem unnir voru milli úthalda borgaðir. Við vorum því hvattir frá stéttarfélögum í Eyjum að vera ekki að gefa útgerðinni þessa vinnu og ákváðum að skrifa tímana okkar sem við unnum við vélaviðhald og málningarstörf sem unnin voru við bátinn milli úthalda.

Óskar Matt var nú einn af þeim útgerðarmönnum sem alltaf borguðu samkvæmt samningum þannig að hann tók ekki illa í það að borga fyrir þessa vinnu. Ég byrjaði því að skrifa tímana mína í litla vasabók, skrifaði alla tíma sem ég vann, líka þegar ég þurfti að fara um helgi og nætur til að huga að olíu ofni í lestinni. Þannig var að eftir vertíðina var báturinn stundum málaður að utan og lestin þurkuð og máluð, til að þurrka lestina var notaður svokallaður strompofn sem hitaði mjög vel, en þurfti að passa vel uppá vegna eldhættu.

Óskar Matthíasson AndresÞegar kom að því að rukka fyrir vinnuna, skrifaði ég bara 8 tíma á dag en sleppti næturvinnutímunum. Ég man að reikningurinn var kringum 12000 kr sem ég ætlaði að nota til að fara til Reykjavíkur í nokkra daga með vinum mínum Sigurjóni A. Tómassyni og Þorvarði Þórðarsyni, það átti vel að duga í þá ferð.

Ég fór nú með reikninginn heim til Óskars og var með litlu tímavasabókina í rassvasanum, datt í hug að Óskar færi að stríða mér og rengja mig með tímana svona í fyrsta skipti sem ég rukkaði fyrir þá. Þegar ég kem á Illugagötu 2 situr Óskar inn á skrifstofu sem var inn af eldhúsinu en þóra kona Óskars í eldhúsinu eins og oftast þegar maður rak þar inn nefið. Ég gekk beint inn til Óskars og læt hann hafa reikninginn og ætlast til að hann skrifi strax ávísun upp á 12000 krónur. Ég sat í eldhúsinu með kaffibolla sem þóra hafði komið með og fylgdist með Óskari inni á skrifstofu vera að skrifa eitthvað og virða fyrir sér reikninginn.

Allt í einu kallar hann á mig og segir, þú hefur ekki unnið alla þessa tíma Sigmar Þór þú þarft ekki eð segja mér það, og með það sama sé ég að hann rífur reikninginn í marga parta og hendir honum í ruslakörfuna. Eftir smástund bað hann mig að koma og skrifa upp á nýjan reikning sem hann taldi réttann. Ég sagði geta sýnt honum að ég hefði unnið alla þessa tíma og miklu fleiri og tók nú upp litlu vasabókina með tímunum, spurði hvort hann vildi sjá hana ? . Hann sýndi því engan áhuga en bað mig að koma og kvitta á nýja reikninginn.Óskar matt með lúðu

Nú var farið að fjúka í mig og ég sem var nú ekki vanur að rífast við Óskar frænda minn, sagði við hann að ef hann borgaði mér ekki það sem ég setti upp þá mætti hann bara eiga þessa tíma, ég ætlaði ekki að skrifa upp á annan og lægri reikning. Þóra var nú farin að blanda sér í málið og biðja Óskar að vera ekki með þessa þvermóðsku.

Eftir smá þras kemur Óskar fram með nýja reikninginn en enga ávísun og biður mig að skrifa undir hann. Ég neitaði án þess að líta á reikninginn. Neitarðu að skrifa undir þetta segir hann og ýtir reikningnum alveg að mér þannig að hann blasir við. Nú tek ég eftir því að hann er ekki búinn að lækka reikninginn heldur er hann búinn að hækka hann um meira en helming, hann er nú yfir 24000 í stað 12000. Ég var náttúrulega fljótur að skrifa undir þennan nýja reikning og þakka fyrir því þetta voru miklir peningar á þessum tíma.

óskar og þóraNú spurði ég frænda um ávísunina, sagði að mig vantaði peningana því ég væri að fara til Reykjavíkur daginn eftir og væri búin að panta flug og verð í bænum í nokkra daga. Þá svaraði Óskar glottandi að ég fengi enga peninga, hann ætlaði að gera upp alla skattaskuldina mína, en á þessum tíma var skattur alltaf greiddur eftir á. Þetta var auðvitað góður kostur fyrir mig þó ég væru ekki sáttur við að fá ekki peningana í hendurnar. Óskar sagði nóg að gera fyrir okkur peyjana, ég hefði ekkert að gera með að slæpast til Reykjavíkur. Ég sagði að við værum búnir að gera allt sem þurfti að gera í vélinni og ég ætlaði taka mér frí og fara í bæinn. Hann stóð fastur á sínu eins og vanalega, ég fékk ekki peningana en hann borgaði upp alla skattaskuldina mína sem var auðvitað mjög gott. Það var ekkert annað að gera en að sætta sig við þessi málalok, það var maður búin að læra að það gekk ekki að þrasa við Óskar frænda minn ef hann var búinn að taka einhverja ákvörðun. Ég sleppti þó ekki Reykjavíkurferðinni en þurfti að fá smálan til að komast í afslöppun til Reykjavíkur í nokkra daga.

Sigmar Þór Sveinbjörnsson


Minningar frá vetarvertið III.

Skemmtilegir skipsfélagar

Sveinn Íngi PéturssonSveinn Ingi Pétursson frændi minn var á Leó með okkur að mig minnir 2 vertíðir hann var skemmtilegur skipsfélagi og mikill grínisti. Ég man að hann sagði oft við okkur skipsfélaga þegar við vorum bæði þreyttir og pirraðir við netadráttinn: "Ég má vera mikið svangur drengir mínir ef ég læt hafa mig í að vera aðra netavertið á þessum netabátum, þetta verður mín síðasta vertið á þessum þrælagaleðum og svo glotti hann sínu sérstaka stríðnibrosi".

Ég man vel eftir því að á lokadaginn þegar við vorum að ljúka við að draga síðustu trossuna upp úr sjó og endanetið kom inn fyrir netaspilið, þá náði hann í hníf og skar endann af hringjateininum. En á endateininum eru tveir flothringir. Eftir að hann hafði skorið þetta af lyfti hann því upp fyrir höfuð sér og sagði hátt og snjallt: Þetta ætla ég að eiga til minningar um síðustu netavertíðina mína og svo skellihló hann. Það er ekki að orðlengja það, Sveinn Ingi var náttúrulega kominn á net á næstu vertíð eins og við allir skipsfélagar hans.

Vildi ekki minnka bátinn.

Eins og áður hefur komið fram var ég vélstjóri á Leó og eftir vertíð þurfti að sinna ýmsu hvað varðar viðhald í vélarrúminu eftir vertið. Þetta tók nokkra daga og samtímis var báturinn málaður utan.

Reynir VE 15 1963Eitt sinn var Guðmundur málari á Lyngbergi og sonur hans Már fengnir til að mála bátinn að utan, lunningar, möstur og stýrishús. Á þessum tíma vorum við Sigurjón Óskarsson að vinna í vélarrúminu við viðhald og fl. Eitt sinn þegar ég kem upp úr vélarrúminu til að fá mér frískt loft kemur Guðmundur til mín og spyr mig hvort ekki megi hafa sama lit á innanverðri lunningunni allan hringinn. Hún var hvít miðskips en grá undir hvalbak og aftur undir hekkboganum. Ég saði honum að þetta yrði hann að ræða við Óskar Matt útgerðarmanninn hann réði þessu. Óskar var þá að koma niður bryggjuna.

Ég sá að Guðmundur fór upp á bryggju til að ræða þetta við Óskar. Þegar hann kom til baka spurði ég hann hvað Óskar hefði sagt við því að hafa sama lit á lunnigunni allan hringinn. Óskar vildi alls ekki breyta þessu, sagði að það myndi minnka bátinn að hafa sama lit á þessu. Auðvitað fer ég bara eftir því, ekki vil ég fara að minnka bátinn fyrir kall greyinu sagði Guðmundur og glotti. Lunningin var því máluð í tveimur litum.

Við ráðum ekki alltaf för.

Eitt atvik frá þessum tíma sem ég var á Leó er mér í fersku minni. Þannig var að við Sigurjón höfðum pantað olíu á bátinn sem útgerðin keypti frá BP og Ólafur Árnason oft kendur við húsið Odda afgreiddi okkur með. Við vorum búnir að landa og ganga frá en áttum eftir að taka olíu. Það var oft mikið að gera hjá Óla í olíunni eins og við kölluðum hann vélstjórarnir þannig að við þurftum stundum að bíða eftir honum en hann afgreiddi skipin eftir röð. Það kom í minn hlut í þetta sinn að bíða eftir olíunni og þurfti ég að bíða óvenju lengi, þannig að ég var orðinn nokkuð óþolinmóður. Flestallir bátar voru búnir að landa og ekki margir menn á bryggjunni.

myndir026[1] Loks kom Óli með olíuna við fylltum olíugeyma, ég kvittaði á olíunótuna og þar með var Óli farinn. Nú gekk ég frá niðri í vél og læsti stýrishúsi og gat nú loks komið mér heim á leið. Við lágum við norður kantinn inni í Friðarhöfn . Á leiðinni heim labbaði ég meðfram vestur bryggjukantinum og þegar ég er komin svona miðja vegu við kantinn sé ég að litill peyi kemur hjólandi niður bryggjuna og tek eftir að hann er fastur í keðjunni á hjólinu. Hann beygir hjólinu að bryggjukantinum og ætlar að setja fótinn á kantinn og stoppa þar, en rennur af bryggjukantinum og að bát sem lág við bryggjuna, hann var heppin að það var háflóð því stýrið á hjólinu krækist í lunninguna á bátnum við bryggjuna. Ég hljóp til drengsins og náði að krækja stýrinu af lunningunni og kippa peyanum sem var fastur í keðjunni inn á bryggjuna. Þarna kom ég á hárréttum tíma því báturinn var að fara frá bryggjunni því sog var í höfninni. Hefði ég ekki komið þarna hefði drengurinn örugglega farið í sjóinn milli skips og bryggju fastur í hjólinu. Þarna hefði getað farið illa ef ég hefði ekki verið þarna á réttu augnabliki. Ég hjálpaði svo peyanum að losna úr keðjunni og hann hjólaði heim á leið. Það sem fór í gegnum huga minn var að seinkunin á olíunni varð til þess að bjarga lífi þessa drengs, ég er ekki í vafa um það að þetta var ekki tilviljun, að ég kom þarna á réttu augnabliki.


Minningar frá Liðnum vetrarvertíðum II.

Sumardagurinn fyrsti.

 Jón ,Gaui og Addi steina niðurSá skemmtilegi og góði siður var viðhafður í Vestmannaeyjum á vetrarvertíðinni að eiginkonur sjómanna komu með tertur og fleira bakkelsi um borð í bátana á sumardaginn fyrsta og fengu aflahlut eiginmanna í staðinn. Þetta gerðu eiginkonur skipverja á Leó að mig minnir allar vertíðir sem ég var á bátnum. Þetta var stórveisla og þó Siggi kokkur hafi verið með bestu kokkum í flotanum, þá var þessi kökuveisla kærkomin tilbreyting og líka ein vísbending um að lokin væru á næsta leiti. Á sumardaginn fyrsta var lika íslenska fánanum flaggað á öllum Eyjaflotanum.

Rætt um vertíðina.

Á lokum var oft rætt um það sem gerðist á vertíðinni bæði skemmtilegt og stundum leiðinleg atvik. Auðvitað var þetta ekki alltaf dans á rósum á blessuðum netabátunum og menn kannski ekki alltaf sáttir. Við peyjarnir á Leó vorum auðvitað ekki alltaf sáttir þegar við töpuðum af góðum dansleik, vegna þess að endilega þurfti að færa netatrossurnar á laugardegi. Þetta var gert að okkar mati einungis til þess að við misstum af dansleik. En við þorðum aldrei að kvarta það var ekki inn í myndinni á Leó, enda vissum við að það var tilgangslaust, skipstjórinn ræður puntur.

Til dæmis tíðkaðist það ekki að hafa matartíma þegar trossa beið eftir að vera dregin, nei þá fengu menn aðeins að skreppa niður í nokkrar mínútur til að gleypa í sig matinn og svo strax upp á dekk, þar sem menn skiptust á að vera á rúllu, spili, í úrgreiðslu eða í niðurlagningu kúlu og steinateina, það var reyndar kallað að vera á letigarðinum.

ásjó068 copyEn það gat verið erfitt að hafa við að greiða og leggja niður kúluteininn þegar glerkúlurnar voru alsráðandi, því djobbi fylgdi líka annað orðatiltæki sem mikið var notað svona í gamni og alvöru: Hann er alveg melur í kúlunum var sagt um þá sem voru klárir í því að greiða og leggja niður kúluteininn.

það gat verið pirrandi þegar Siggi kokkur var með dýrindis steik með öllu tilheyrandi á borðum og maður fékk aðeins 5 mínútur til að slafra í sig matnum. Ég kenni þessum tíma um það að ég er alltof fljótur að borða, er oft búinn þegar fólkið í kringum mig er að ljúka við að laga sér á diskinn.

Það er ekki úr vegi að lýsa aðeins lífinu um borð í netabátum á þessum árum og byrja að segja hér eina litla sögu sem kannski lýsir tíðarandanum á þessum árum.

Eftirminnilegur róður.

Það var á vetrarvertíðinni að mig minnir 1966, það var búið að vera gott fiskirí í netin og mikið að gera hjá sjómönnum og verkafólki í Vestmannaeyjum. Fiskurinn var nálægt Eyjum rétt austan við Elliðaey, þannig að við komum inn til löndunar á kristilegum tíma.

Með okkur var færeyingur hörkuduglegur náungi eins og allir færeyingar sem ég hef kynnst og verið með til sjós. Mér er minnistætt að hann tók mikið í vörina og hafði alltaf krukku af neftóbaki í netaspilkoppnum Eitt kvöldið þegar búið var að landa kom færeyingurinn til Óskars Matt skipstjóra og spurði hvort hann gæti fengið frí í löndun daginn eftir. Óskar var nú ekki vanur að gefa mönnum frí nema brýna nauðsyn bæri til. Hann spurði því færeyinginn hvað hann ætlaði að gera við frí svona um hávertíð. Færeyingurinn hikaði smástund en sagði svo dálítið vandræðalegur að hann ætlaði að gifta sig. Óskar hafði auðsjáanlega gaman af þessu svari og sagði skyldi gefa honum frí þegar þeir kæmu í land næsta dag, lofaði meira að segja að reyna vera snemma í landi sem var frekar óalgengt á Leó því góða skipi.

Leó fiskur 2Um morguninn var farið snemma á sjó og byrjað að draga netin sem voru rétt ausan við Eyjar, en nú kom babb í bátinn, netin voru bókstaflega full af fiski svo við fylltum lestina og vorum einnig með fisk á dekki, þetta var með stæðstu róðrum þessa vertið, mig minnir að við höfum fengið yfir 45 tonn af þorski þennan dag. Við komum til hafnar rétt eftir kvöldmat og byrjuðum að landa fiskinum. Færeyingurinn spurði okkur strákana hvort hann ætti ekki bara að hætta við fríið fyrst við hefðum fiskað svona mikið? Við vorum allir skipsfélagarnir sammála um að hann ætti að halda sínu striki, þannig að hann fór heim til sinnar tilvonandi eiginkonu. Við byrjuðum aftur á móti að landa fiskinum en það tekur töluverðan tíma að landa svo miklum afla og þrífa og stilla aftur upp í lest.

Eftir að hafa verið í löndun í nokkurn tíma, birtist færeyingurinn niður á bryggju kominn í sjógallann. Við urðum steinhissa á að sjá hann og spurðum hvort hann hafi hætt við giftinguna. Nei gamli þetta er búið ég er giftur sagði hann með ánægjusvip. Þar með fór hann í sjóstakkinn ofan í lest og landaði með okkur þeim afla sem eftir var í lestinni, þreif með okkur og gerði klárt fyrir næsta róður. Þessi saga segir okkur hvernig tíðarandinn var á þessum árum, það var ekki verið að ákveða giftingu með fleiri ára fyrirvara og jafnlöngum undirbúningi, ekki man ég betur en að þetta hjónaband hafi blessast vel. Fleira kemur upp í hugann þegar maður hugsar um þessa tíma.Sjá minningar III.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband