Þurfum við alltaf að láta þagga niður umræðu um sjóslys ?.

eiginh142Þurfum við alltaf að láta þagga niður umræðu um sjóslys ?.

Er ekki nauðsynlegt að fá umræðu um sjóslys eins og önnur slys, sú umræða þarf auðvitað að vera málefnaleg, ekki vera með sleggjudóma sem særa hlutaðeigandi, menn sem áhuga hafa á fækkun sjóslysa eiga að fá að tjá sig og segja sitt álit.

Þeir sem sitja í Rannsóknarnefnd samgönguslysa eru kannski ekki inni í öllum málum, sjómenn geta komið með góðar ábendingar til nefndarinnar þeir þekkja skip og aðstæður. Nefndin er heldur ekki afkastamikil , það tekur langan tíma að rannsaka hvert sjóslys. Engar upplýsingar eru gefnar af nefndinni fyrr en mörgum mánuðum jafnvel meir en ár eftir slys, en þá eru flestir hættir að hugsa um það og afleiðingar þess.

Það er líka furðulegt og óásættanlegt að ekki skuli haldin sjópróf í alvarlegum sjóslysum þar sem menn farast, er ekki nauðsynlegt að fá svar við því hvers vegna rannsóknarnefnd samgönguslysa fer ekki fram á sjópróf ?.

Menn ættu að hafa það í huga að í langflestum tilfellum hafa nýjungar í öryggismálum sjómanna og öryggi sjómanna verið bætt að tilhlutan áhugamanna, útgerðarmanna og sjómannana sjálfra, oft eftir miklar og harðar umræður í fjölmiðlum.

Það er mín reynsla að þeir sem lenda í slysum séu ekki á móti því að rætt sé um þau, ef það er gert málefnalega og án þess að vera með sleggjudóma.

Bætt öryggi sjómanna hefur ekki hingað til komið af sjálfu sér, og það gerist ekki með því að þagga niður umræðu um þessi mál. Reynslan hefur kennt okkur að það þarf umræður í fjölmiðlum um þessi sjóslys, og sjómenn og áhugamenn um öryggismál sjómanna hafa sjálfir þurft að berjast fyrir bættu öryggi sínu, það gera ekki aðrir fyrir þá.

Það er ótrúleg barátta sem þarf í hvert skipti sem á að fá einhverjar úrbætur í öryggismálum sjómanna, það þekkja sjómenn og þeir sem unnið hafa að þessum málum, ég held að ég þurfi ekki að nefna þau mörgu dæmi.

Jón Hákon BA er kominn á þurt vegna þess að það var mikill þrýstingur á rannsóknarnefnd samgönguslysa að ná skipinu upp, sú árangursríka umræða fór fram í blöðum, sjónvarpi, útvarpi, á netinu og Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingiskona tók málið ákveðið upp á Alþingi. Án þessarar umræðu væri skipið en á hafsbotni, það vitum við.

Ágætu sjómenn og þið sem áhuga hafið á öryggismálum sjómanna, ef þið hafið eitthvað gott til málanna að leggja sem þið teljið geta bætt öryggi okkar sjómanna, þá eigi þið að tjá ykkur um það, við eigum ekki að láta þagga niður í okkur, alla vega ætla ég ekki að gera það. En við skulum vera málefnaleg annað skilar ekki árangri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband