Lokin og minningar um vetravertíðir.

Lokin eða slúttið eins og það var stundum kallað á vetrarvertíð í Eyjum var skemmtilegur tími í minningunni, haldin í kringum 11. til 15. maí í vertíðarlok, fljótlega eftir að búið var að taka upp þorskanetin.

Mynd 3Þegar hampnetin og hampteinarnir voru alsráðandi var í vertíðarlok farið með netin og þau breidd út inn í Herjólfsdal, suður í Kinn einnig man ég eftir að þau voru breidd út á Stakkagerðistúnið. Þannig voru netateinar og net þurkuð áður en þau fóru í geymslu í Leó kró. Þar voru þau bætt á haustin ef ekki var skorið af teinum riðillinn. þegar lokið var við að koma veiðarfærum í land og búið að skrubba og þvo bátinn hátt og lágt, var komið að því að halda lokin hátíðleg. Þegar nælon teinar og net komu til sögunar þurfti ekki að þurrka teina eða netriðil, þau efni fúnuðu ekki eða skemmdust þó þau færu blaut í geymslu. Það er gaman að rifja þetta upp hér.

Við vorum ekki gamlir frændurnir Matthías, Sigurjón og Kristjan Valur Óskarsynir þegar við fengum að taka þátt í lokunum með áhöfninni á gamla Leó VE 294 þá heima hjá Óskri Matt og Þóru í Eyvindarholti við Brekastíg 7 b. og seinna á Leó Ve 400 en þá bjuggu þau hjón á Illugagötu 2. Við vorum taldir gjaldgengir vinnumenn þar sem við vorum með í að stokka upp línuna eftir línu vertíð, hníta á tauma, skera af netum, hanka grjót og fl. sem til féll aðeins 8 til 11 ára gamlir. Það sem er þó minnistaðast við lokin frá þessum árum hvað varðar okkur peyjana var að við fengum náttúrulega að taka þátt í veisluhöldum sem samanstóðu af rjómatertum og kremtertum af öllum gerðum ásamt smurbrauði og öðru góðgæti.

Mynd 2Það sem stóð þó uppúr var að við fengum að drekka eins mikið af öli oftast Spur eða Coka Cola eins og við vildum og gátum í okkur látið, þetta notfærðum við okkur óspart enda eina skiptið á árinu sem þetta var í boði. Við fengum líka að vaka lengur, svona svipað og á gamlárskvöld. Annars var ölið keypt í kassavís til að blanda sterkari drykki sem kallarnir drukku og sumir hverjir kannski meira en aðrir eins og gengur, þeir gerðust þá kátir og sungu, hlógu og töluðu mikið að okkur fannst. Á þessum tíma var ekki áfengisverslun í Eyjum þannig að panta varð allt vín úr Reykjavík. Þetta eru í minningunni yndislegir tímar hjá okkur frændunum sem aldrei gleymast. þetta eru mínar fyrstu æsku minningarnar frá lokunum hjá Leó útgerðinni. Þá bjuggum við peyjarnir allir við Brekstiginn.

Mynd 4. Leó VE 400 Árin liðu og við fórum nú sjálfir á sjóinn og eftirfarandi minningarbrot eru að mestu frá því ég var II. velstjóri á Leó VE 400 en þar var ég með Óskari Matthíassyni heitnum frænda mínum í 5 ár. Sigurjón Óskarsson síðar skipstjóri og útgerðarmaður var þá I. velstjóri og síðar Matthías Sveinsson, Sigurður Ögmundsson stýrimaður, Gísli Sigmarson var einnig stýrimaður, Sigurgeir Jóhannsson kokkur, hásetar á þessum árum sem ég man eftir voru: Kristján V. Óskarsson síðar skipstjóri og útgerðarmaður á Emmu VE, Andrés Þórarinsson, Sveinn Ingi Pétursson, Guðbrandur Valtýrsson, Sigþór Pálson og tveir færeyingar voru líka með okkur. og úr sveitinni komu Jón Guðmundsson frá Vossabæ, Elvar Andrésson frá Vatnsdal í Fljótshlíð, Sigurður Sigurjónsson og Guðjón Axelsson siðar lögregluþjónn á Selfossi, Netavertið var yfirleitt erfitt tímabil á sjónum í það minnsta var hún það á Leó VE og örugglega fleiri netabátum í Eyjum.

Mynd 5. áhöfn Það var því kærkomið þegar fór að vora og brún slikja var farin að koma á efsta hluta færanna og neðri part af netabaujunum, það var glöggt merki um að lokin nálguðust. Það voru margir sveitamenn á Leó og þeir urðu sumir hverjir órólegir þegar tók að vora, vildu auðvitað komast sem fyrst í sauðburðinn, það var mikil vinna og þeirra vorvertíð. Mér er minnisstætt hvað þessir sveitamenn voru sérstaklega duglegir, Jón Guðmundsson frá Vorsabæ er einn duglegasti og kraftmesti maður sem ég hef unnið með um ævina. Óskar Matthíasson skipstjóri og útgerðarmaður á Leó og Þórunni Sveinsdóttir VE 401 og kona hans Þóra Sigurjónsdóttir héldu alltaf veglega upp á lokin með mannskapnum á þessum bátum og á þessum tíma voru konum þeirra einnig boðið með í lokagleðskapinn sem ekki var hér áður fyrr. Þetta var alltaf mikil og skemmtileg veisla þar sem vel var veitt bæði í mat og drykk og alltaf haldið heima hjá Óskari og Þóru að Illugagötu 2 meðan ég var á Leó. Í áhöfn Leó voru menn sem var margt til lista lagt eins og Elvar Andrésson sem spilaði eins og engill á harmónikku. Hann fékk óspart að njóta sín á lokunum eða slúttum og einnig á vertíðinni ef landlega var. Það eru ófá skipti sem við sátum í stóra vesturherberginu í kjallaranum á Illugagötu 2 og hlustuðum á hann spila á harmónikkuna.

Mynd 6Lokin voru skemmtileg samgleði þar sem menn drukku saman kaffi eða súkkulaði og borðuðu rjómatertur, kremtertur, brauðtertur og randalínur , seinni árin var farið að panta veislumat frá veisluþjónustum. Eftir kökuátið var boðið upp á AGIO stórvindla þessa í trékössunum,þá var veitt vín eins og hver vildi og hressti það vel upp á þetta skemmtilega lokahóf. Í framhaldinu fór Elvar að spila á harmónikkuna, og kallarnir að syngja og sumir fengu fiðring í tærnar og fóru að dansa, ekki endilega við konurnar því stundum tóku skipsfélagarnir sporið saman. Þessi samgleði stóð oftast nær fram á morgun, en það höfðu náttúrulega ekki allir svo mikið úthald. Stundum fórum við sem yngri vorum á dansleik í Samkomuhúsið eða í Alþíðuhúsið og mættum svo aftur í gleðina eftir ballið, þetta var ótrúlega skemmtilegur tími að upplifa lokin með þessum hætti.

Það er merkilegt að alltaf þegar ég hugsa um lokin kemur upp í hugann gargandi mávur eða rita, það var sérstök stemming við höfnina þegar allir bátarnir voru hættir að róa og aðeins ljósavélar í gangi. Þá heyrðist meira í mávunum en áður, eða kannski tók maður ekki eftir þessu gargi þegar vertíðin var í fullum gangi.

mynd 9Það getur líka verið að fuglarnir hafi með þessu langa gargi viljað mótmæla því að bátarnir væru hættir að veiða, þar með fengu þeir ekki sinn skammt af fiskinum eða slorinu sem þeir sóttu svo í um veturinn, engin hugsaði um að þeir þyrftu mat handa sér og ungunum sínum.

 Myndir:1. Gamli Leó VE 294,

Mynd 2.Tfv: Óþekktur, Kristján Valur, Sigurjón og Matthías Óskarsynir, Sigurfinnir Sigurfinnsson og Sigmar Þór Sveinbjörnsson.

Mynd 3. Leó VE 400,

mynd 4 áhöfnin á Leó VE 400 árið 1964.

Mynd 5. Óskar Matthíasson við talstöðina í Leó.

Mynd 6. Hjálmar á enda situr og sveinbjörn Snæbjörnsson og Óskar Matthíasson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband