Björgvinsbeltið 20 ára - Eitt besta öryggistækið til að ná manni úr sjó

Björgvinsbeltið 20 ára -

Á þessu ári eru liðin 20 ár frá því að Björgvin Sigurjónsson stýrimaður og skipstjóri í Vestmannaeyjum lét hugmynd sína rætast og bjó til fyrsta Björgvinsbeltið. Þarna var komið til sögunnar nýtt björgunartæki sem síðar átti eftir að sanna gildi sitt og   bjarga mörgum sjómönnum og öðrum sem lentu í lífsháska. Björgvin hafði lengi gengið með hugmyndina í kollinum, en mikil umræða um öryggismál sjómanna varð til þess að hann ákvað að hrinda henni í framkvæmd. 

Öruggt og ofureinfalt í notkun. Það var svo í janúar 1988 sem gerðar voru fyrstu alvöru prófanirnar á beltinu á ytri höfn­inni í Eyjum með nemendum og skóla­stjóra Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum. Í grein í Morgunblaðinu segir m.a. um þessar prófanir á Björgvinsbeltinu:  ,,Björgunartækið er belti, ekki ósvipað beltum þeim sem notuð eru við hífingar með   þyrlum. Belti þetta er með kastlínum það f lýtur og hægt er að bjarga tveimur mönnum með því í einu ef svo ber undir. Þá er hægt að kasta því lengra og af meiri nákvæmni en bjarghring”.   Í sömu blaðagrein er Björgvin spurður um hvaða kostum hann hafi viljað ná fram þegar hann hannaði beltið. ,,Það helsta var að það væri öruggt og ofureinfallt í notkun og það væri níðsterkt. Beltið kemst fyrir í litlum poka (síðar plasthólki) sem vegur rúmlega eitt kíló. Það er hægt að koma því allstaðar fyrir á öllum stærðum báta. Kosturinn við að hafa það létt er sá að það er hægt að kasta því miklu lengra og af meiri nákvæmni en t.d. bjarghring sem vegur rúmlega fjórum sinnum meira en beltið.“

Tvær mínútur að ná manni um borð. Þessar tilraunir gengu vel og sem dæmi má nefna að ekki tók nema tvær mínútur að ná manni upp í skipið aftur sem hafði farið útbyrðis en taka skal fram að þetta var við bestu skilyrði og menn tilbúnir til bjargar. Þrátt fyrir að þessar prófanir hafi gengið vel komu í ljós nokkur atriði sem Björgvin vildi lagfæra og þróa betur og unnið var að því næstu mánuði.    Allt kostaði þetta mikla vinnu og einnig peninga. Sjálfsagt er að geta þess að eftirtaldir aðilar styrktu Björgvin Sigurjónsson með peningum til að hann gæti þróað þetta nýja björgunartæki:   Kiwanisklúbburinn Helgafell, Sparisjóður Vestmannaeyja og Íslandsbanki. Eiga þeir hrós skilið fyrir að hafa haft trú á verkefninu og stuðlað að því að þetta björgunartæki varð að veruleika.

Lokatilraunir. Það var svo í október 1988 að lokatilraunir og prófanir voru gerðar á beltinu og að þeim unnu nemendur Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum ásamt Friðriki Ásmundssyni skólastjóra. Prófanir stýrimannaskólanema voru margþættar og sagði Friðrik að þær hefðu sýnt fram á að beltið hefði marga góða kosti. Í fyrsta lagi tryggði það öryggi björg­unarmanns ef hann léti það á sig áður en hann kastaði sér til sunds á eftir félaga sínum. Það væri auðvelt fyrir björgunarmann að taka meðvitundarlausan mann til sín í beltið, því tveir menn kæmust saman í eitt belti. Fljótlegt væri að ná mönnum inn hvort sem um borð há skip væri að ræða eða ekki. Þar að auki væri beltið handhægt og fyrirferðarlítið, aðeins 1,4 kg, sem væri mikill kostur. Það skal tekið fram að Stefán Sigurjónsson skósmiður í Eyjum saumaði og útbjó öll þau Björgvinsbelti sem notuð voru í tilraunum með beltið, hann var því sá maður sem vann mest að þróun beltisins með Björgvin Sigurjónssyni.  

Fjöldaframleiðsla hefst. Þegar farið er yfir greinar og viðtöl við Björgvin Sigurjónsson hönnuð beltisins kemur fram í flestum greinum að hann vill ekki að Björgvinsbeltið komi í staðinn fyrir annan búnað, heldur sé þetta viðbótarbúnaður um borð í skipum.   Á þessum tíma var samið við Reykjalund um að þeir tækju að sér að framleiða beltið, og í nóvember 1989 var hafin fjöldaframleiðsla á Björgvinsbeltinu af fullum krafti. Björgvin hefur látið hafa eftir sér að hann hefði verið alveg að því kominn að gefast upp á að koma þessu á framfæri þegar Reykjalundur ákvað að framleiða beltið.   Samstarfið við Reykjalund gekk síðan ljóm­andi vel. Það höfðu áður verið framleidd belti sem notuð voru til prófana, þar á meðal í Slysa­varnarskóla sjómann. Halldór Almars­son skipstjóri á Sæbjörgu sagði beltið hafa reynst vel og enga vankanta hafa komið í ljós við prófanir á því.

Sannaði strax gildi sitt. Í apríl 1991 var búið að selja 300 til 400 Björgvinsbelti og þá þegar var vitað um tvö atvik þar sem beltið var notað við björgun manna úr sjó.   Í Morgunblaðinu 8. júní 1990 er eftirfarandi frétt: ,,Bjargað úr höfninni í Hull með Björg­vinsbelti. Skipverji af Andvara VE stökk í höfnina í Hull til bjargar breskum manni nýlega og var Björgvinsbeltið notað við björg­un mannana. Var það í fyrsta skipti sem mönnum er bjargað úr sjó með því. Tildrög atburðarins voru þau að Breti féll í höfnina. Skipverji af Andvara, sem þarna var nær­staddur, greip Björgvinsbeltið og henti sér á eftir manninum. Tókst honum að koma þeim í beltið en í fyrstu fóru þeir ekki rétt í það og runnu úr því er hífa átti þá um borð í And­vara. Þeim tókst þó að komast í það aftur og gekk þá greiðlega að hífa þá um borð. Beltið sannaði ágæti sitt við björgunina því báðir mennirnir voru orðnir mjög þrekaðir er þeir náðust úr sjónum.“ Þannig er lýst fyrstu björgun með beltinu sem átti sér stað 25. maí 1990.   Þann 25. október 1990 er næst vitað að beltið hafi verið notað til að bjarga manni sem fór útbyrðis af togaranum Klakki. Sá var í vinnuflotgalla og var beltið notað til að ná honum um borð aftur. Þegar hér var komið sögu sáu flestir að hér var komið eitt besta öryggistæki sem völ var á til að ná manni úr sjó, enda búið að skrifa mikið um þær prófanir sem farið höfðu fram á árunum 1988 og 1989.

Stórhuga Eykyndilskonur. Konurnar í Slysavarnardeildinni Eykyndli í Vestmannaeyjum voru ekki lengi að hugsa sig um. Þegar þær gerðu sér grein fyrir mikilvægi þessa björgunartækis, ákváðu þær að gefa Björgvinsbelti í allan Eyjaflotann.   Laugardaginn 13. apríl 1990 afhentu konur í Eykyndli útgerðum skipa sem voru 100 tonn og stærri Björgvinsbelti að gjöf. Einnig fengu Lóðsinn, lögreglan og Björgunarfélag Vest­mannaeyja belti. Afhending beltanna fór fram í Básum og sagði Oktavía Andersen formaður Eykyndils við það tækifæri, að samþykkt hefði verið á almennum fundi í deildinni þann 27. mars að gefa beltin í allan Eyja­flotann. Þarna væri á ferðinni merk nýjung í björgunarmálum og þetta væri þeirra framlag til björgunarmála. Þær ætluðu einnig að gefa Stýrimannaskólanum belti við skólaslit.  Ég er ekki viss um að fólk geri sér almennt grein fyrir hvað þessar konur í Eykyndli hafa gert mikið fyrir öryggi okkar sjómanna. Að mínu mati eru þær örugglega búnar að bjarga hundruðum sjómanna með starfi sínu að   þessum málum, ekki bara í Vestmannaeyjum heldur á landsvísu.

Ólýsanleg tilfinning. Þann 19. mars 1990 fór rúmlega tvítugur piltur útbyrðis af Sandafellinu HF 82. Hann hafði flækst í seinna færinu þegar verið var að leggja síðustu netatrossuna. Stýrimaðurinn henti sér útbyrðis til að bjarga skipsfélaga sínum. Þá var hent til þeirra Björgvinsbelti og þeir báðir dregnir um borð í einu.   Í Morgunblaðinu nokkrum dögum síðar birtist grein með eftirfarandi fyrirsögn: „Beltið hefur sannað gildi sitt.“  Greinin, sem er skrifuð er af Grími Gíslasyni, er byggð á viðtali við Björgvin eftir að Björgvinsbeltið hafði verið á markaði í rúmt ár og er úttekt á stöðu mála hvað beltið varðar. Það hafði á þessum tíma verið notað þrisvar til bjargar sjómönnum.   Einn kafli í greininni nefnist „Ólýsanleg tilfinning“. Þar segir orðrétt: „Nú lagði Björg­vin mikinn tíma og vinnu í hönnun og prófanir beltisins, auk þess sem hann kostaði talsverðum fjármunum til í upphafi. Er hann sem hönnuður að verða auðugur maður á sölu þess? Nei , ekki ef þú átt við fjárhagslegan auð. Ég eyddi í þetta geysilegum tíma og vinnu. Hef verið í þessu vakinn og sofinn í meira en fjögur ár. Þetta hefur nánast átt hug minn allan. Þá lagði ég í þetta peninga í upphafi og ég efast um að ég eigi eftir að hafa fyrir öllum þeim kostnaði á næstu árum þó að beltið seljist vel. En peningar eru ekki allt og mannslíf verða aldrei metin í peningum. Það er ólýsanleg tilfinning að finna fyrir því að maður hefur átt einhvern þátt í því að mannslífi er bjargað og slíka tilfinningu fann ég þegar ég heyrði sagt frá björgun mannsins á Sandafellinu. Þegar slíkar stundir koma fær maður sína borgun fyrir erfiðið og vel það. Ég er forsjóninni þakklátur fyrir að ég skyldi fá þessa hugmynd og koma henni í framkvæmd og nú, þegar hún hefur orðið til þess að bjarga mannslífum, finnst mér ég vera búinn að fá vel borgað fyrir hana og er innilega glaður að hafa átt þátt í að koma þessu af stað, sagði Björgvin Sigurjónsson að lokum“.   Þessi kafli úr grein Gríms finnst mér lýsa Björgvin vel og hans hugsunarhætti.

Kom að góðum notum við björgun sonar skipstjórans. Þann 8. maí 1991 sannar Björgvinsbeltið enn gildi sitt. Þennan dag var Sigurbára VE að veiðum austur í Meðallandsbugt með snurvoð þegar 20 ára skipverji féll útbyrðis er verið var að kasta voðinni. Hann slasaðist á fæti er hann kramdist við lunninguna áður en hann dróst útbyrðis. Skipsfélagi hans klædd­ist björgunarbúningi og kastaði sér í sjóinn til að bjarga félaga sínum. Honum tókst að koma á hann Björgvinsbeltinu og þannig voru þeir dregnir að skipinu og um borð. Strax eftir björgun var siglt í land og skipverjanum komið á sjúkrahús.   Í viðtali sem tekið var við hann á sjúkrahúsinu segir hann að hann sé ekki í vafa um að Björgvinsbeltið hafi hjálpað mikið við björg­un hans, án þess hefði verið erfitt að ná honum um borð á ný. Og hann heldur áfram og segir: „Þetta er stórkoslegt björgunartæki sem á skilyrðislaust að vera um borð í hverj­um bát. Ég tók fyrir skömmu þátt í prófun á notkun beltisins og var þá strax sannfærður um ágæti þess. Eftir að hafa síðan verið   bjargað með því er ég enn sannfærðari um mikilvægi þess sem björgunartækis. Hann kvast þakklátur fyrir hversu vel hann hefði sloppið úr þessum háska“.  Til gamans má geta þess að útgerðarmaðurinn sem einnig var skipstjóri bátsins og faðir drengsins sem fór útbyrðis, hafði fengið beltið að gjöf frá Slysavarnardeildinni Eykyndli eins og aðrir útgerðarmenn í Eyjaflotnum. Beltið hafði hann haft heima hjá sér og ekki sett það alveg strax um borð. Stuttu eftir að beltið var sett um borð var það  notað ein og áður segir.

Og enn og aftur sannar beltið gildi sitt. Þann 6. júlí 1991 tók skipvera út af Sigurvon ÍS 500 er skipið var að veiðum með snurvoð fjórar mílur út af Rit. Varð óhappið þegar verið var að kasta snurvoðinni og fór skipverjinn fyrir borð með voðinni. Skipinu var þegar snúið við og bjarghring hent til skipverjans sem náði að synda að honum. Honum var síðan náð um borð með Björgvinsbelti eftir að hafa verið um það bil tvær mínútur í sjónum. Þar sem hann hafði slasast á fæti þegar hann fór útbyrðis var honum komið á sjúkrahús á Ísafirði.   Skipstjórinn á Sigurvon ÍS sagði eftir slysið að Björgvinsbeltið hefði komið að mjög góðum notum og sannað gildi sitt, beltið hefði verið keypt í skipið tveimur vikum fyrir slysið.  Þann 16. nóvember 1991 var manni bjargað með beltinu um borð í Guðrúnu VE. Hann var í áhöfn skipsins og féll í höfnina í Höfn í Hornafirði. Skipsfélagar hans náðu honum upp með Björgvinsbeltinu eftir talsvert streð og var hann þá orðinn meðvitundarlaus. Hann náði sér samt fljótt og varð ekki meint af volkinu. Björgunarmenn voru sannfærðir um að flotbúningur, kennsla sem þeir fengu í Slysavarnarskóla sjómanna og síðast en ekki síst Björgvinsbeltið hafi gert þeim kleift að bjarga félaga sínum.  Þann 23. mars 1992 fórst vélbáturinn Ársæll Sigurðsson HF 80 í innsiglingunni til Grinda­víkur. Fékk báturinn á sig brot og sökk nær samstundis. Slysið sást frá landi og var strax sent út neyðarkall og báturinn Ólafur GK sem var að ljúka löndun fór strax út til að reyna að bjarga mönnunum og var kominn á slysstað eftir 10 mínútur.   Aðkoman var hrikaleg og það mátti ekki tæpara standa. Báturinn var sokkinn og sást aðeins í masturstoppa. Mennirnir héngu allir utan á björgunarbátnum þar sem hann gekk til og frá í öldurótinu. Þetta er frásögn úr DV sem skrifuð var daginn eftir slysið. Enn fremur segir í umræddri grein: „Við náðum að komast mjög nærri skipbrotsmönnunum. Einn þeirra sleppti strax þegar við vorum eina 10 metra frá. Við hentum til hans Björgvinsbelti sem honum tókst að koma utan um sig og var hann hífður upp á stefnið. Þegar við komumst nær slepptu tveir, náðu í bauju og tókst að svamla að hliðinni. Var hent færi til þeirra og þeir hífðir um borð.   Skipstjórinn og ungur maður voru síðastir í sjónum. Ungi maðurinn var sæmilega á sig kominn og tókst að svamla að hlið Ólafs HF og var hífður upp. Skipstjórinn var þá einn eftir. Hann var orðinn mjög máttfarinn og var nánast að missa takið á björgunarbátnum. Hann átti varla meira eftir en að grípa í Björgvinsbeltið sem hent var til hans“. Þarna sannaðist vel notagildi beltisins þar sem erfitt reyndist að nálgast slysstaðinn og mennina sem voru í lífsháska í sjónum. 

Aðeins tvær til þrjár mínútur í sjónum. Þann 10. desember 1992 bjargaði áhöfnin á Gullberginu stúlku sem dottið hafði milli báta á Siglufirði. Veður var vont þegar óhappið átti sér stað frost og snjókoma og talsverð hreyfing í höfninni. Einn úr áhöfn Gullbergs VE var uppi í brú þegar hann sá par fara milli skipa og stúlkuna detta milli skipana. Sá sem var með henni hrópaði strax á hjálp og lét vita hvað gerst hafði. Skipverji Gullbergs lét skipsfélaga sína vita og hljóp strax til bjargar og greip með sér Björgvinsbeltið í leiðinni. Þeir sáu strax stúlkuna og maðurinn sem með henni var, var þá kominn niður í síðustiga skipsins en hann náði ekki nógu langt niður. Maðurinn gat því ekki náð til stúlkunnar með hendinni.  Stúlkan var orðin köld í sjónum og skelfd þegar Björgvinsbeltinu var kastað til hennar. Hún smeygði yfir sig beltinu og var hífð upp. Stúlkan hrestist eftir aðhlynningu en hún var aðeins tvær til þrjár mínútur í sjónum að sögn björgunarmanna. „Ég er sannfærður um að önnur björgunartæki hefðu ekki komið að notum við þessar aðstæður, þar sem björgun gekk bæði hratt og vel,“  var haft eftir einum björgunarmanna. Það má segja að Björgvinsbeltið hafi í þetta sinn komið að tvöföldum notum því einn úr áhöfn Gullbergs VE notaði hylkið utan af beltinu til að halda bili milli skipanna.

Björgunarstokkurinn. Þann 31. janúar 1993 björguðu lögreglumenn í Vestmannaeyjum manni úr Vestmanna­eyjahöfn. Tildrög slysins voru þau að maður var að fara um borð í Guðrúnu VE sem var utan á öðrum bát, ekki vildi betur til en svo að hann féll í sjóinn milli skipa.   Leigubílstjóri sá sem ekið hafði manninum niður á bryggju sá hvað gerst hafði og       fylgdist með honum synda að bryggjukant­inum. Enn fremur lét hann lögreglu strax vita. Hann reyndi að aðstoða manninn með því að henda til hans bandi og belg. Myrkur var enda kl. tvö um nótt.  Lögreglumaður sem kom á vettvang fór í sjóinn með Björgvinsbeltið. Hann gat komið því á manninn, sem var þá orðinn meðvit­undarlaus.   Þrátt fyrir að nokkrir menn væru þarna á vettvangi gekk illa að ná mönnunum upp á bryggjukantinn. Að endingu voru þeir dregnir upp á bryggj­una með bíl og manninum komið á sjúkra­hús, en lögreglumanninum varð ekki meint af volkinu. Lögreglan í Vestmannaeyjum hafði verið með Björgvinsbeltið í lögreglubílnum síðan það kom á markað. Lögreglumaðurinn sagði í samtali við Morgunblaðið sem þessi frásögn er byggð á að ef þeir hefðu ekki verið með Björgvinsbeltið í bílnum hefði líklega ekki verið nokkur leið að ná mönnunum upp á bryggjuna. Þarna hefði Björgvinsbeltið ráðið úrslitum.   Til fróðleiks má geta þess að þegar Björgvin frétti hve erfilega hefði gengið að ná mönn­unum upp á bryggjukantinn eftir þeir voru komnir í beltið, hannaði hann ásamt Sigmund Jóhannssyni nýtt tæki sem sett er á bryggju­kanta og auðveldar það mjög að ná mönnum upp úr höfnum við bryggjukanta með stórum dekkjum. Björgvin lét smíða slíkt tæki og gaf lögreglunni í Eyjum. Tækið kallar hann Björgunarstokk.  Mörg fleiri dæmi væri hægt að nefna þar sem Björgvinsbeltið hefur verið notað við björgun manna úr lífsháska: Þann 5. júlí 1996 var manni bjargað um borð í Garðar II við Stokksnes; 29. september 1998 var flugmanni bjargað um borð í Harald Böðvarsson AK og 6. desember 2001 var átta mönnum af Ófeigi VE bjargað úr sjó og hífðir um borð í Danska Pétur. Of langt mál er að rekja nákvæmlega fleiri slys sem Björgvinsbeltið hefur komið við sögu og sannað gildi sitt enda að mínum dómi óþarfi. Í dag er Björgvinsbeltið löngu viðurkennt sem ómissandi björgunartæki sem notað er í flest öllum skipum, höfnum, sundlaugum og lögreglubílum svo eitthvað sé nefnt, þá hef ég séð það við ár og vötn. Það er örugglega handhægasta tækið sem völ er á við björgun manna sem fallið hafa útbyrðis.Björgvinsbeltið er gott dæmi um það hvernig einstaklingur getur gert hugmynd sýna að veruleika ef hann fær meðbyr samborgara og hjálp til að prófa og fjármagna hugmyndina.Björgvin Sigurjónsson og allir þeir sem rétt hafa honum hjálparhönd með vinnu, kynn­ingu og peningastyrkjum eiga heiður skilinn og geta glaðst með honum yfir að hafa átt þátt í að bjarga og eiga eftir að bjarga tugum og hundruðum mannslífa með þátttöku sinni í að koma Björgvinsbeltinu á framfæri. Ég veit það vegna vinnu minnar að hafnastarfsmenn víðsvegar um landið eru að uppgötva betur og betur hve Björgvinsbeltið er handhægt og gott björgunartæki. Sjómenn og aðrir áhugamenn um öryggismál sjómanna, látum sögur og reynslu af Björgvinsbeltinu verða okkur hvatningu til að láta verkin tala er við vinnum að öryggismálum sjómanna.

Heimildir: Björgvin Sigurjónsson, Morgunblaðið, DV, og Fréttir

Sigmar Þór Sveinbjörnsson .Höfundur er áhugamaður um öryggismál sjómanna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Baldursson

Góð grein hjá þér.

Þegar við í Björgunarfélaginu fengum fyrst Björgvinsbelti í hendurnar fórum að æfa okkur með notkun þess.
T.a.m. fór ég eitt sinn ásamt nokkrum öðrum á Kristni Sigurðssyni til æfinga. Rétt fyrir utan Eiðið fór ég í sjóinn (ég var að sjálfsögðu í þurrgalla) og síðan var beltinu hent til mín. Við æfðum drjúga stund með beltið og sannfærðumst um notagildið. Sem betur fer hef ég aldrei þurft að nota það í neyð en veit hvað það getur skipt miklu máli.

Aðalsteinn Baldursson, 17.4.2008 kl. 01:44

2 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Þakka kærlega fyrir góða grein.Las hana með mikilli athygli.Mest af þessu skeði þegar ég var"úti"En ég var aðeins búinn kynnast "Björgvinsbeltinu"(þó ekki af eigin reynslu í neyð)Hafði séð það í notkun á æfingum hjá Slysavarnarfélaginu.Ég er algerlega sammála þér um ágæti beltisinsTek undir með þér um hana Oktavía og"stelpurnar"hennar í Slysavarnardeildinni Eykyndli,þær og fyrirrennarar þeirra eiga lífið í mörgum sjómanninum gæti ég trúað.Kært kvaddur

Ólafur Ragnarsson, 17.4.2008 kl. 18:31

3 identicon

Sæll vertu Simmi minn...Ég "fílaði" þessa grein í botn,allavega er það þannig í mínum huga,ef einhverjum er bjargað úr lífs eða sjávarháska,þá skal það þakkað,og eins og ég veit  þá tókst Kúta á Háeyri að uppgötva aðferð sem hefur,sem betur fer náð að bjarga manslífum.Og það ber að þakka.og það geri ég hér með frá mínum dypstu hjartarrótum,og segi "Kúti hafðu þökk fyrir"kv þs

Þórarinn Sigurðsson (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 20:08

4 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Heyr heyr, ég er sammála síðasta ræðumanni, kær kveðja frá Eyjum.

Helgi Þór Gunnarsson, 17.4.2008 kl. 22:46

5 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heilir og sælir, takk fyrir athugasemdir. Það væri sterkur leikur að ræða hér á blogginu meira um öryggismál sjómanna. Það virðast vera nokkuð margir bloggarar sem áhuga hafa á þeim málaflokk.

Er staddur á Vopnafirði  sem stendur, og er í lánstölvu.

kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 18.4.2008 kl. 18:15

6 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Sæll Sigmar, er ekki gaman á Vopnafirði? Bið að heilsa fjölskyldunni, kær kveðja frá Eyjum.

Helgi Þór Gunnarsson, 18.4.2008 kl. 22:35

7 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Sæll Sigmar minn. Alltof langt síðan síðast, en nú hefi ég allavega litið inn til þín.  Kær kveðja.

Þorkell Sigurjónsson, 19.4.2008 kl. 05:08

8 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Helgi, jú það er frábært að vera hér í sól og blíðu. Ég  skila kveðjuni við erum hér í stórafmæli en Matthías Gíslason er tveggja ára í dag.

kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 19.4.2008 kl. 10:34

9 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Þórkell takk fyrir innlitið. Ég fer nú reglulega inn á síðuna þína þó ég setji nú ekki alltaf inn athugasemdir. Hef t.d. ekki sett athugasemdir við Bakkafjöru umræðuna, læt næja að fylgjast með henni.

kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 19.4.2008 kl. 10:42

10 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Til hamingju með strákinn Sigmar, kær kveðja frá Eyjum.

Helgi Þór Gunnarsson, 20.4.2008 kl. 00:00

11 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Heill og sæll Sigmar.

Mjög góð grein og rök hjá þér enda fagmaður á ferðinni sem hefur ekki látið aðra segja sig fyrir verkum. Enn og aftur kærar þakkir fyrir þessi skrif.

Með bestu kveðju.

Jóhann Páll Símonarson.

Jóhann Páll Símonarson, 20.4.2008 kl. 21:04

12 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Sæll Sigmar, segðu mér hvernig er það eru björgunaræfingar um borð í skipum lögbundnar eða ekki? Ég er nú búinn að vera lengi til sjós og það er allur gangur á því hvort æfingar eru haldnar um borð, ég lenti í fyrsta skiptið í því að vera tekinn í nýliðafræðslu þegar ég byrjaði á Stiganda í fyrrahaust, kær kveðja frá Eyjum.

Helgi Þór Gunnarsson, 21.4.2008 kl. 20:05

13 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Helgi ,já það á að halda björgunaræfingar mánaðarlega á fiskiskipum samk. reglugerð 122/2004

Kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 22.4.2008 kl. 10:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband