Það vantar konurnar í mannlífssögu Vestmannaeyja

Það vantar konurnar í mannlífssögu VestmannaeyjaUndirritaður hefur í mörg ár haft áhuga á að fræðast um Vestmannaeyjar og þá sérstaklega um líf og starf  þess fólks sem þar hefur lifað gegnum tíðina.Þegar unnið var að útgáfu á Sögu og efnisskrá Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja 1950 til 2000 var mikil vinna fólgin í því að greina á milli samnafna, sú greining fer þannig fram að það verður að lesa nákvæmlega hverja einustu grein sem viðkomandi nafn kemur fram í og greina þannig á milli hvern er um að ræða þegar menn bera sama nafn.Við þessa vinnu kynnist maður vel efni þessara greina Sjómannadagsblaða Vestmannaeyja sem gefin hafa verið út síðastliðin 50 ár. Eftir þessa vinnu sem tók þrjá menn marga mánuði, sá ég alltaf betur og betur hvað í raun og veru  sögu sjómanna og reyndar annara karlmanna í Vestmannaeyjum hafði verið gerð góð skil gegnum tíðina. Þessu er einnig þannig varið í fjölda bóka sem skrifaðar hafa verið um mannlífið hér í Vestmannaeyjum, sérstaklega hefur sjómönnum og starfi þeirra verið gerð góð skil í mörgum þessara bóka.  Með Sögu og efnisskrá Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja  1950 til 2000 er efni þess allt gert vel aðgengilegt. Það sem virkilega hefur vakið athygli mína er að það er allt of lítið skrifað um þær konur sem hafa starfað og lifað með þessum karlmönnum gegnum súrt og sætt. Mér finnst tilfinnanlega vanta þessa sögu kvenna í Vestmannaeyjum. Það er öruggt mál að það hefur verið erfitt líf hjá þeim konum sem áttu menn sína á sjónum sérstaklega fyrr á árum. Örfáar heimildir eru til um erfiðleika þeirra kvenna sem misstu menn sína í þeim tíðu sjóslysum sem áttu sér stað á síðustu öld, en það voru ekki bara sjómannskonur sem áttu í erfiðleikum, það átti reyndar við um flest alþýðufólk í Eyjum.Það kemur ekki nægilega vel fram í sögunni hvað konur eiga mikinn þátt í þeim uppgangi sem hér hefur verið á liðinni öld. Það er ekki margt á Byggðarsafni Vestmannaeyja sem minnir á störf  kvenna miðað við t.d. dæmis Byggðarsafnið á Skógum, þar sem ótrúlega margir hlutir minna á störf  kvenna, bæði heimilisiðnað og ýmis önnur störf sem konur hafa unnið gegnum tíðina.Í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja hefur það verið regla að birta minningargreinar um sjómenn og karlmenn sem tengjast sjónum eða Vestmannaeyjum  á einhvern hátt og eru þær minningargreinar nú ornar nálægt 700 en eins og svo oft áður eru örfáar minninga -greinar um konur. En það eru þó  greinar og viðtöl við fáeinar konur í Sjómannadags -blöðunum. Mér er það minnisstætt þegar ég sem ritstjóri Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja birti minningargrein um konu sem í tugi ára hafði verið félagskona í Slysavarnardeildinni Eykyndil og hafði mikinn áhuga á öryggismálum sjómanna og öðrum slysavarnarmálum. Mér fannst hún eiga heima í blaðinu okkar og bað því fjölskyldu hennar um grein um þessa mætu konu. Þegar blaðið kom út var fundið að því að ég skyldi hafa sett minningargrein um konu í blaðið, þetta kom mér á óvart, en reyndar voru það fleiri sem þökkuðu mér fyrir að hafa birt þessa grein.Nú kem ég að ástæðu þess að ég settist niður til að skrifa þessar línur.Í nokkur ár hef ég verið með hugmynd í kollinum sem ég get ekki losað mig við öðru vísi en að koma henni á framfæri. Hugmyndin er sú að reyna að bæta upp það sem vantar í sögu Vestmannaeyja þ.e.a.s. sögu kvenna í Eyjum. Það er að mínu mati þarft verk að koma þessari sögu betur á blað en hingað til hefur verið gert.  Margt er auðvitað glatað en það eru margar konur og auðvitað karlar sem geta í dag sagt sögur af konum sem þeir hafa þekkt og margir Eyjamenn eru til sem eru góðir í að taka viðtöl. Í þannig bók um konur í Vestmannaeyjum mætti rita minningargreinar um látnar konur, sögur um þekktar konur, konur í félagsmálum, ferðasögur af konum, birta myndir af konum við vinnu sína eða á góðum stundum, greinar um athafnarkonur svo eitthvað sé nefnt . Allir sem áhuga hafa, fengju að skrifa um þær konur sem þeir vilja og telja að eigi erindi í bók um Vestmannaeyjakonur. Ég geri mér grein fyrir því að það kostar bæði vinnu og peninga að koma þessu í verk en það er alveg hægt ef vilji er fyrir hendi. Við sem höfum lifað þessa uppgangstíma sem eru einstakir í sögu lands og þjóðar, eigum að skrá þessa sögu eins vel og hægt er, það er óviðunandi ef  vantar að miklu leyti þátt kvenna á þessu tímabili.Í Vestmannaeyjum eru fjöldi kvenfélaga sem af ótrúlegum dugnaði hafa komið mörgum góðum málum í verk, þessi félög gætu sameinast í því að skrá sögu kvenna í Vestmannaeyjum. Til að koma skriði á málið væri sterkur leikur að ráða einhvern mann eða konu til þess að taka viðtöl við konur og leita að heimildum sem örugglega eru til en hefur ekki verið komið á prent. Ég er þess fullviss að margir einstaklingar og fyrirtæki væru til í að styrkja útgáfu á bók eða bókum um þessar dugmiklu konur sem lifa og hafa lifað og starfað í Eyjum á síðustu öld og fram á þennan dag, því auðvitað eru Eyjakonur enn  þá kjarnakonur og dugnaðarforkar, þá er ég ekki í vafa um að slík bók væri góð söluvara ef vandað væri til hennar. Ég vil enda þessar línur með því að skora á kvenfélögin í Eyjum að sameinast í því að stofna nefnd eða vinnuhóp sem hafi það verkefni að skrifa bók eða bækur um konur í Vestmannaeyjum.Ekki er ég heldur hræddur um að það verði skortur á sjálfboðaliðum til að vinna þetta verk að einhverju leyti, en það er nauðsynlegt að einhverir drífi þetta áfram og þar væru konur bestar í framvarðarsveit. Það er nauðsynlegt að gera þetta sem fyrst, byrjum strax á nýja árinu 2006 að safna heimildum.Þessi grein var á sínum tíma skrifuð  í Fréttir Vm  Kópavogi 30.desember 2005Sigmar Þór Sveinbjörnsson

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband