Minnigar frá löngu liðnum tíma

Minnginar frá æskuárum okkar Kristjáns V. Óskarssonar ( Stjána á Emmunni VE)

Það var ekki mikið um peninga hjá fjölskyldum okkar Stjána  á þessum árum, þegar við vor 10 til 12 ára. Þannig að ef okkur vantaði peninga þá urðum við að vinna fyrir þeim sjálfur. Það gerðum við m.a.  með því að safna  kopar, eir og blíi,  þessa málma var víða að finna á okkar fallegu Heimaey. Við vorum mikið út á Hamri bæði við gamla Þurkhúsið  en aðalega vestur á Hamri þar sem öllu sorpi bæjarins var sturtað niður í klappirnar og sjórinn tók það og bar á haf út. Þetta var áður en orðið mengun var fundið upp, en áður var einfaldlega sagt og það meint: lengi tekur sjórinn við.

Lögreglumenn VeÞarna í sorpinu var oft hægt að finna margt nýtilegt eins og kopar, eir og blí en það kostaði leit heilu dagana. Stundum fórum við inn í  illa læsta skúra og  hreinsuðum þar til drasl sem engin þurfti að nota. Þá var oft hægt að finna koparrör og blí niður í slipp þegar bátar voru í vélarskiptum, þá þurfti stundum að endurnýja rafleiðslur sem voru með  ónýtum blíköplum . Einu sinni sem oftar vorum við Stjáni niður í slipp að leita að kopar, eða blíi og í þetta sinn var frekar lítið að hafa. Eftir nokkra leit um slippana, kallar Stjáni í mig og segist vera búinn að finna stórt koparstykki og biður mig að koma og líta á þetta. Þegar ég kem til hans stendur hann aftan  við eldgamla trétrillu og bendir á koparstefnislegu sem er föst á bátnum en vantar í hana öxul og skrúfu.Trillann var staðsett nálægt nótabátum sem stóðu þar sem nú eru fiskiþrær Fiskimjölsverksmiðunar. Það var strax hafist handa við að reyna að ná stykkinu úr bátnum en gekk brösuglega, við fórum því upp í Leó kró að ná okkur í verkfæri sem var að mig minnir skiptilykill og kúbein. Við vorum síðan eilífðartíma að brasa við að ná stefnislegunni úr en það hafðist á endanum. En við vorum svo óheppnir að þegar við vorum loksins búnir að ná stykkinu úr bátnum, kom eigandi bátsins Stebbi á Sléttabóli hálfhlaupandi niður í slipp og kallaði til okkar: Hvað eruð þið að eyðilegga bölvaðir ormarnir ykkar ?  Okkur brá náttúrulega þegar við sáum kallinn koma, höfðum reyndar ekki hugmynd um að hann ætti trilluna, en við tókum stefnisleguna og gátum auðveldlega hlaupið kallinn af okkur því hann var kominn nokkuð við aldur, sennilega á svipuðum aldri og við erum í dag. Við komust svo óséðir upp í Leó kró og settum koparstykkið í safnið. Siðan fórum við heim. Við hefðum líklega ekki tekið þetta úr trillunni ef við hefðum vitað hver átti hana, því Stefán var gamall nágranni okkar þegar við bjuggum á

Matti, Sjáni  og Sigurjón við DúfubirgiðBrekastignum og við fengum stundum í vondum veðrum að vera inni á verkstæði hjá honum þegar hann var að smíða trillubáta í skemmu heima hjá sér á Skólaveginum, hann var góður við okkur peyjana.

Ég var nýkominn inn úr dyrunum heima  þegar amma gamla sendi mig niður í Hafnarbúð sem var sjoppa niður við Strandveg, þar sem seinna var málningarbúð Gísla og Ragnars og nú aðsetur Frétta,  þar átti ég að  kaupa Roy sigarettur. Þegar ég kem út úr Hafnarbúðinni, kemur lögreglubillinn Græna María keyrandi eftir Strandveginum og stoppar við sjoppuna, tveir lögregluþjónar koma út úr bílnum. Þegar ég sé þá, ætla að hlaupa upp sundið hjá Smið hf  (þar sem nú er aðsetur Frétta)  þá kalla löggurnar í mig og segast vilja fá mig upp á Lögreglustöð. Þangað fóru þeir með mig skithræddan og skjálfandi á beinunum. Þegar þangað kom var mér tilkynnt að sonur Óskars Matt og ég hafi verið kærðir fyrir að stela koparstefnislegu úr trillu niðri í Sælaslipp. Málið var að lögreglan ruglaði saman frændum mínum þeim Matta, Sigurjóni og Stjána og tóku því mig því þeir vissu að við frændurnir vorum allaf saman.

Ég var nú færður í réttarsalinn og yfirheyrsla hófst með þessum orðum: Mættur er í sakadómi Vestmannaeyja Sigmar þór Sveinbjörnsson vegna kæru um  þjófnað á koparstykki sem tekið var úr trillu í Sælaslipp. Mætti er áminntur um sannsögli.  Rannsóknarlögreglumaðurinn pikkaði þetta allt upp á ritvél með einum putta og er mér enn minnistætt pikkið í ritvélinni. Ég byrjaði náttúrulega á því að þræta fyrir að hafa verið þarna niðurfrá sagði vera saklaus, ég hefði verið heima hjá mér á þessum tíma þegar þessu var stolið.

Eftir stutt réttarhöld kom babb í bátinn, nú birtist í dyrum réttarsals sjalfur Stefán á Sléttarbóli  til að bera kennsl á mig sökudólginn sem sat skíthræddur fyrir framan rannsóknarlögreglumanninn, hann þóttist strax þekkja mig og sagði : "já þetta er strákurinn ég þekki hann á fötunum".

Ég gafst upp að þræta og varð nú að viðurkenna brotið. Rannsóknarlögreglumaðurinn stakk upp á því að gerð yrði dómsátt í þessu alvarlega þjófnaðarmáli, sem fólst í því að við Kristján skiluðum koparstykkinu og þar með yrði málið látið niður falla. Ég var fljótur að samþykkja það og var afskaplega feginn þegar mér var sleppt  úr haldi. Sem betur fer var fólkinu mínu ekki gert viðvart um þetta sakamál, löggurnar í Eyjum voru ekkert að hlaupa með svona mál í uppalendur eða foreldra, þetta var ég lögreglunni óendanlega þakklátur fyrir. Við Stjáni skiluðum síðan fína koparstykkinu sem við höfðum haft svo mikið fyrir að ná úr trillunni hans Stefáns.  Stjáni slapp alveg, þeir létu næja að taka mig fyrir. Kristján frændi minn  hló bara að þessu öllu saman enda slapp hann alveg við að vera tekinn til fanga á Lögreglustöð Vestmannaeyja.

Sigurgeir í enskum togara

Ég gerði mér grein fyrir því seinna þegar ég var orðin fullorinn, hvað þetta voru í raun góðar löggur í Eyjum þeir skildu vel þessi bernskubrek okkar peyjana. Margir af þessum mönnum urðu góðir vinir okkar alla tíð og er þar fremstur í flokki Sigurgeir Kristjánsson sem maður leitaði oft til með hin ýmsu mál þegar maður var í vandræðum. Bessuð sé minnig þeirra

 

Myndir: Lögregluliðið í Eyjum á þessum tíma ásamt lögreglubílnum Grænu Maríu.Bræðurnir Matti , Sjáni , og Sigurjón, Sigurgeir á vaktinni.

 

Kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll frændi mikið er gaman að lesa þessa frásögn. Ég stal skrúfunni úr trillu hjá Stebba, hún fór í þykkan strigapoka með Leó ve til Grímsbý og ég fékk stóra dós af macintos fyrir. Kv ÓÞÓ ps ég hef samviskubit Stebbi var svo góður kall, ég held að víð ættum að krossa yfir leiðið hjá Stebba þá ættum við að fá hugaró.

Óskar Þór Óskarsson (IP-tala skráð) 27.11.2010 kl. 21:49

2 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll  Óskar Þór takk fyrir innlitið, já það var góð tekjulind fyrir okkur peyjana að safna kopar á þessum árum, ég er ekki hissa að þú sért með samviskubit  að hafa stolið heilli skrúfu og síðan hámað í þig macintos sælgætið. En við Stjáni fengum fyrirgefningu þegar við skiluðum stykkinu og málið dautt. Ég vann hjá Helga Ben með Stefáni nokkrum árum eftir þetta vesen á okkur Sjána, og þá var sá gamli búinn að fyrirgefa okkur þetta, enda góður kall eins og þú segir réttilega.

Kær kveðja úr Kópavogi

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 28.11.2010 kl. 00:14

3 identicon

Sæll Simmi

Skemmtileg þessi upprifjun þín. Þú og frændur þínir hafið greinilega verið upprennandi glæpamenn á þessum tíma en sem betur fer hafið þíð snúið frá villu vegar áður en illa fór.

Kveðja frá Eyjum.

Pétur Steingríms. (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 00:34

4 identicon

Ég verð víst að fara einn upp í kirkjugarð hahahaha

Óskar Þór (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 00:38

5 identicon

Sæll aftur Simmi

Myndin af Sigurgeiri Kristjánssyni, tengdaföður mínum, þar sem hann er í brúarglugganum er tekin um borð í breskum togara í Vestmannaeyjahöfn. Sigurgeir sagði mér það að þegar erlendir togarar voru teknir í landhelgi hér einhversstaðar nálægt Eyum og færðir til hafnar þá var lögreglan látin vakta skipið meðan rannsókn á brotinu fór fram. Stundum tók þetta nokkra daga og oft var þetta ágætis búbót (mikil aukavinna) fyrir þá lögreglumenn sem í þessu lentu þ.e. að vakta skipið. Ég man ekki hvort ég hafi verið búinn að segja þér þessa sögu, ef svo er þá gerir það ekkert til þó hún komi aftur hér.

Kveðja frá Eyjum.

Pétur Steingríms. (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 00:42

6 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Pétur lögga og takk fyrir innlitið og góðar athugasemdir. Já sennilega höfum við verið á villigötum á þessum tíma en sem betur fer snúið á rétta braut, ég á nokkrar svona sögur sem ég skrifaði fyrir nörgum árum, ég veit ekki hvort ég þori að setja fleiri á bloggið mitt þegar þið í lögreglunni eruð að rannsaka bloggfærslur mínar. Þið hafið náttúrulega ekki stundað svona glæpastarfsemi Pétur minn á þinum unglingsárum  englarnir á Faxastignum, það er ólíklegt að minum dómi.

Gaman væri að vita hvernig þið í löggunni takið á svona glæpamálum  í dag, eru ekki foreldrar kallaðir niður á Lögreglustöð ásamt sálfræðingi og barnaverndarnefnd ? og skólayfirvöld vöruð við krimmunum.

Takk fyrir þetta innlegg þitt í færsluna Pétur

Kær kveðja úr KÓPAVOGI

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 28.11.2010 kl. 17:33

7 identicon

Sæll Simmi.

Öll þín glæpastarfssemi á unglingsárunum er nú fyrnt því þetta er orðið svo langt síðan, þannig að þú getur óhræddur haldið sögustundinni áfram hér á bloggsíðunni þinni þ.e. um glæpaverkt þín og þinna frænda á Illugagötunni.

Við vorum margir villingarnir á Faxastígnum og gerðum margt sem hefði eflaust endað á borði barnaverndunarnefndar í þá daga ef upp hefði komist. Ingibjörg Johnsen sem var þá formaður Barnaverndunarnefndar Vestmannaeyjabæjar til margra ára hefði verið sett í málið og það leyst. Við hefðum verið dæmdir til að mæta í heilan vetur á stúkufundi í góðtemplarastúkunni Sunnu hjá frúnni og verið gerðir það að sérstökum aðstoðarmönnum á fundunum.

Við peyjarnir vorum að flækjast niður um allt og upp um allt hér í gamla daga og slippurinn, fjöllin og fjörurnar oftast okkar aðal leiksvæði. Ef við fundum eitthvað eða sáum eitthvað sem að okkar áliti var hirðanlegt og kannski brúklegt síðar þá var það tekið með heim eða farið með á leynistaðinn ef það var ekki alveg á hreinu hver átti eignaréttinu á því.

Í dag er tekið á svona málum á eins mildlegan hátt og hægt er en það fer nú alltaf eftir umfangi málsins hvernig það er gert. Ef við þurfum að gera skýrslur um einhver mál þar sem börn og unglingar koma við sögu þá hefur lögreglan alltaf tilkynningarskyldu til félagsmálayfirvalda í því bæjarfélagi sem málið varðar. Við hér í lögreglunni í Eyjum lítum ekki á börn og unglinga sem "krimma" en stundum koma þau sér í vandræði með óvitaskap og eða smá hugsunarleysi og fljótfærni og þá kippum við bara málunum í lagt. Ég var helv.... villingur á mínum yngri árum eins og margir eyjapeyjar voru hér áður fyrr en allt var þetta samt á sakleysisnótunum, að mínu áliti.  Maður gleymir aldrei barna- og unglingsárunum hér í Eyjum, ég hugsa oft aftur til þeirra með söknuði. Þá var alltaf sól og blíða í Eyjum og áhyggjurnar engar.

Enn og aftur, haltu áfram með krimmasögurnar af þér og Stjána á Emmunni og settu gamlar myndir með.

Kveðja.

Pétur

Pétur Steingríms. (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 22:08

8 Smámynd: Sigurlaugur Þorsteinsson

Hehe Sigmar,þú hefur kannske ekki farið í eggjaleiðangur í Lyngfell,eins og ég og frændi minn á Brekastíg,ég þarf endilega að senda þér þá sögu.

En það var nú eitthvern veginn svo á árum áður þá voru löggurnar í eyjum ekki að elta lagabókstafinn út í kommur og punkta,og sá maður seinna að þeir hefðu geta verið mikið harðari í kærum og slíku en kusu að fara mannlegu leiðina og leysa málin á mannlegu nótunum,ég man vel eftir að hafa forðað mér á hlaupum upp Vestmannabrautina með Ragga pól og Kalla í Alföt á hælunum á mér á laugardagskvöldi og daginn eftir hitti ég Ragga og heilsaði honum og spurði hvort það væri ekk allt í góðu,jú jú ansaði hann og bætti við,en þú varst heppinn að við náðum þér ekki,þá hefðum við orðið að skrifa skýrslu og það er tómt vesen.

Kv Laugi 

Sigurlaugur Þorsteinsson, 29.11.2010 kl. 22:23

9 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Laugi, já þetta voru góðir kallar í löggunni á þessum árum, maður kunni bara ekki að meta þá fyrr en maður varð fullorðin. Gaman að rifja þetta upp, já endilega sendu mér þessa sögu um ferð í Lyngfelli. Ég á nokkrar svona sögur sem ég skrifaði fyrir nokkrum áru, er ekki alveg viss hvort maður eigi að vera að setja þær hér á bloggið mitt En það eru örugglega flestir peyjar í Eyjum sem hafa sviðaðar sögur að segja.

KÆR KVEÐJA

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 29.11.2010 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband