Færsluflokkur: Bloggar
29.4.2016 | 16:37
Björgvinsbeltið heitir ekki björgunarlykkja
Mig langar að gera hér athugasemd við fréttatilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, þar sem verið er að kynna átak í að koma fyrir Björgvinsbelti á 100 stöðum víðsvegar um landið í sumar.
Þarna er stefnt að því að auka öryggi ferðamanna við sjó, vötn og ár. Þetta er hið besta mál og Björgvinsbeltið á örugglega eftir að halda áfram að bjarga fólki eins og það hefur gert síðan það koma á markað 1989.
Björgvinsbeltið er eitt af því besta sem komið hefur fram í öryggisbúnaði til að ná mönnum úr sjó það hefur margsannað gildi sitt og bjargað mörgum mannslífum við erfiðar aðstæður.
Það sem mig langar að gera athugasemd við er að í fréttatilkynningu frá slysavarnarfélaginu Landsbjörg er Björgvinsbeltið kynnt sem björgunarlykkja, þó komið hafi fram að þetta sé Björgvinsbelti. Bæði í útvarpi og blöðum hefur svo verið haldið áfram að nefna þennan björgunarbúnað björgunarlykkju og í kynningu á einum þætti í útvarpinu var talað um Landsbjargarlykkju.
Merkilegt að menn frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg skuli ekki vera með rétt nafn á þessum frábæra björgunarbúnaði. Ég veit að Björgvin er mjög ósáttur við að það sé verið að breyta nafninu á Björgvinsbeltinu, hann á það heldur ekki skilið að verið sé að breyta nafninu.
Það heitir Björgvinsbelti og Björgvinsbeltið skal það alltaf kallað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2016 | 16:57
Sigmundsbúnaður S 2000 hefur þróast
Sigmundsbúnaðurinn hefur verið tekið breytingum gegnum árin.
Fyrri myndin er af opnurakassanum eins og hann er í dag, þó eru smávægilegar breytingar á honum sem gera hann enn öruggari.
Önnur myndin er af eldri gerð búnaðarins sem er enn í mörgum skipum.
Þriðja myndin er af sjálvirka opnunarkassanum sem ræsir búnaðinn sjálfvirkt ef skipið sekkur og engin hefur haft tíma til að skjóta gúmmíbát út.
Sigmundsbúnaður S 2000
Bloggar | Breytt 29.4.2016 kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2016 | 14:54
Hverjum stjórnmálaflokki
Hverjum stjórnmálaflokki er svo farið
að hann forðast að taka af skarið:
spurð hvað miljón sé stór
svarar miðstjórn í kór
það er misjafnt. hver biður um svarið?
---------------------------------------
Það er aumingi austur í Vík
sem á ekki heillega flík.
Hvernig má þetta vera?
Það er mikið að gera
og meðaltalsfjölskyldan rík!
Limrur eftir Jóhann S Hannesson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.4.2016 | 14:54
Frábær skemmtun með Álftagerðisbræðrum
Í gær fórum við hjónin á tónleika með Álftagerðisbræðrum í Hörpu.
Gestasöngvarar voru : Sigrún Hjálmtýrsdóttir- Diddú , Ragnar Bjarnason og Örn Árnason að ógleymdri hljómsveit undir stjórn Gunnars Þórðarsonar ásamt Stefáni R. Gíslasyni undirleikara.
Í fáum orðum sagt voru þetta frábærir tónleikar þar sem bæði söngvarar, hljómsveit og tónleikagestir voru í góðu stuði og skemmtu sér auðsjáanlega allir konunglega. Þarna voru sungin lög sem við könnumst vel við og engin syngur betur en Álftagerðisbræður, einnig voru þeir með lög sem við höfðum ekki heyrt áður.
Það var einnig gaman að heyra Diddú, Örn og Ragga Bjarna syngja og segja brandara á milli atriða. Það má segja að Óskar Pétursson Álftagerðisbróðir hafi með kynningu á lögunum gert þessa tónleika enn skemmtilegri með góðum bröndurum og sögum á milli laga.
Sem sagt frábærir tónleikar sem við þökkum Álftagerðisbræðrum fyrir og hlökkum til að komast á næstu tónleika sem þeir bræður halda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2016 | 17:43
Heimaklettur, Miðklettur og Ystiklettur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2016 | 19:33
Staðsetning öryggisbúnaðar skiptir máli.
Staðsetning öryggisbúnaðar skiptir máli. Við megum ekki missa trú á sjósetningarbúnaðinum.
Mikil umræða var um sjóslysið er Jón Hákon frá Bíldudal fórst í júlí 2015, þar sem einn sjómaður fórst en þrír björguðust naumlega. Það væri lítið almennt vitað um þetta slys ef einn skipbrotsmanna, Þröstur Leó Gunnarsson, hefði ekki komið fram bæði í blaðaviðtölum og sjónvarpi og sagt skilmerkilega frá slysinu. Á hann hrós skilið fyrir að upplýsa sjómenn og almenning um slysið.
Það er með ólíkindum hvað Rannsóknarnefnd samgönguslysa virðist hörð á því að skipbrotsmenn hafi ekki samband við fjölmiðla og tjái sig um þau slys sem þeir verða fyrir. Engar upplýsingar eru gefnar af nefndinni fyrr en mörgum mánuðum eftir slys, en þá eru flestir hættir að hugsa um það og afleiðingar þess.En hvers vegna er þessi þöggun? Erfitt er að gagnrýna niðurstöður nefndarinnar ef enginn veit neitt um þau slys sem nefndin rannsakar. Það er kannski ástæðan.Það er líka furðulegt og óásættanlegt að ekki skuli haldin sjópróf í svo alvarlegu slysi.
Nýungar frá sjómönnum
Menn ættu að hafa í huga að í langflestum tilfellum hafa nýjungar í öryggismálum sjómanna komið að tilhlutan áhugamanna og sjómannanna sjálfra.
Lítil umræða hefur verið um það hvort stöðugleiki vb. Jóns Hákonar hafi verið í lagi. Lélegur stöðugleiki er þó líkleg ástæða fyrir því að skipinu hvolfdi. Úr því verður ekki skorið með vissu nema skipið verði tekið upp af hafsbotni og hallamælt.
Margt gert til að bætaskoðunarferli
Hvað varðar skoðanir á losunar- og sjósetningarbúnaði, þá eiga þeir sem skoða og yfirfara þennan búnað að kunna til verka og hafa setið námskeið og lært þær verklagsreglur sem notaðar eru við skoðunina. Það er ótrúlegt ef skoðunarmenn fara ekki eftir þeim reglum.
Að gefnu tilefni voru árið 2007 allir skoðunarmenn á landinu sem höfðu réttindi til að skoða losunar- og sjósetningarbúnað, skyldaðir til að fara á námskeið um skoðun á þessum búnaði sem haldið var að tilhlutan Siglingastofnunar Íslands. Þar var farið yfir verklagsreglur og skoðunarskýrslur ásamt skoðunarvottorðum, en þessi gögn eiga skoðunarmenn að útfylla þegar þeir skoða búnaðinn. Þær þjónustustöðvar sem skoða og yfirfara þessi björgunartæki eru undir eftirliti Samgöngustofu sem gengur úr skugga um að til séu öll þau verkfæri sem þarf til að skoða búnaðinn. Um er að ræða bæði hefðbundin og sérsmíðuð verkfæri sem þarf til að geta skoðað þennan búnað. Samgöngustofa ætti einnig að kanna árlega hvort þjónustustöðvar eigi á lager þá varahluti sem skipta þarf út eftir settum reglum við skoðun þessara tækja, og ekki síst að fylgja því eftir að umræddar skoðunarstofur skili inn afriti af skoðunarskýrslu og vottorði.
Verður vonandi rannsakað
Umræðan um slysið þegar mb. Jón Hákon fórst hefur að mestu snúist um það hvort þau björgunartæki sem voru um borð í skipinu hafi brugðist á neyðarstundu sem er auðvitað mjög slæmt mál. Hvers vegna búnaður virkar ekki verður vonandi rannsakað þegar skipið verður tekið upp, en skýrslur og vottorð um síðustu skoðun eiga að vera til bæði hjá skoðunaraðila búnaðarins og Samgöngustofu.
Falskt Öryggi
Það er slæmt þegar jafnvel sjómenn eru farnir að tala um búnaðinn sem falskt öryggi og hann eigi jafnvel að taka úr skipunum. Við skulum hafa það í huga að þessi tæki hafa bjargað mörgum tugum mannslífa og eiga stóran þátt í fækkun dauðaslysa á sjó. En þessi öryggistæki eru takmörkuð og það sorglega við það er að reglurnar um staðsetningu þessa öryggisbúnaðar rýra mjög getu þeirra til björgunar, eins og á mb. Jóni Hákoni.
Engum hefur dottið í hug að henda í land gúmmíbjörgunarbátum þó komið hafi fyrir að þeir virki ekki eins og til er ætlast í einstaka tilfellum.
Þegar undirritaður vann við úttek á þjónustustöðvum gúmmíbjörgunarbáta fyrir rúmum tveimur árum, voru að jafnaði 25 gúmmíbjörgunarbátar dæmdir ónýtir á hverju ári.
Aðeins tíu sekundur að hvolfa
En aftur að björgunarbúnaðinum sem er um borð í mb. Jóni Hákoni. Þar eru samkvæmt skipaskrá tvær gerðir af Olsenbúnaði . Á stjórnborða uppi á stýrishúsi er Olsen losunarbúnaður sem er bæði sjálfvirkur og með fjarlosun, og í honum fjögurra manna gúmmíbjörgunarbátur. Á bakborða er Olsen losunar- og sjósetningarbúnaður (skotgálgi) sem er bæði með fjarlosun og sjálfvirka losun sem á að skjóta gúmmíbátnum út. Þar sem báturinn er gálgatengdur á hann að blása upp um leið og honum er skotið. Í þessum búnaði er 12 manna gúmmíbjörgunarbátur.
Eftir staðfestum fréttum að dæma þá virkaði ekki annar af þessum gálgum, eða losunar- og sjósetningarbúnaðurinn (skotgálginn) sem er bakborðsmegin á stýrishúsþaki. Eins og Þröstur Leó lýsir slysinu þá segir hann að það hafi aðeins tekið tíu sekundur fyrir mb. Jón Hákon að hvolfa. Þá er spurning hvernig virkar búnaðurinn við þessar aðstæður þegar skipið er á hvolfi.Tökum fyrst losunarbúnaðinn sem sagt er og vitað að hafi losað fjögurra manna gúmmíbjörgunarbátinn sem lá á hafsbotni í hylkinu.
Á að fljóta upp
Þessi búnaður virkar þannig að hægt er að losa gúmmíbjörgunarbátinn með handsylgju á geymslustað og henda í sjóinn, en einnig er hægt að losa hann með handföngum úr stýrishúsi eða frá öðrum völdum stað í skipinu. Þannig liggur hann laus í sæti sínu og á að fljóta upp ef skipið sekkur. Hvorugt þetta kom til greina í umræddu slysi. Þá er aðeins einn möguleiki eftir hvað varðar losunarbúnaðinn. Ef skipbrotsmenn hafa ekki tíma til að losa gúmmíbátinn á sökkvandi skipinu, á búnaðurinn að losa gúmmíbátinn sjálfkrafa á þriggja til fjögurra metra dýpi. Gúmmíbáturinn á þá að fljóta upp ef skipið er ekki alveg á hvolfi, en sé það á hvolfi þá er hann fastur undir skipinu þó beislið sem heldur honum föstum í sætinu sé laust. Hann losnar ekki úr sæti sínu fyrr en skipið sekkur alveg og réttir sig við á leiðinni til botns.
Þannig var líklega ástandið á mb. Jóni Hákoni í umræddu slysi.
Hefði ekki komið að notum
Gefum okkur að gúmmíbáturinn hafi þarna losnað fljótlega eins og allt bendir til, uppdrifið haldi honum föstum undir skipinu og hann sé þannig í eina klukkustund. Á þeim tíma þrýstist sjór inn í hylkið sem er á fjögurra metra dýpi. Meðan það gerist minnkar flotið og gúmmíbátshylkið með gúmmíbátnum í þyngist og þar með minnkar uppdrifið sem þarf nauðsynlega að vera til staðar til að toga alla líflínuna út (yfir 30 metra) og blása þannig gúmmíbátinn upp þegar hann losnar.
Þegar skipið sekkur alveg og gúmmíbáturinn hefur einhvern möguleika að losna úr sæti sínu, er hylkið orðið það þungt og með það lítið uppdrif að það nær ekki nægu togi í líflínuna til að blása gúmmíbátinn upp heldur sekkur með skipinu.
Athuganir hafa sýnt að ef gúmmíbátur byrjar að blása sig upp á meira dýpi en 15til 20 m þá nær hann líklegast ekki að slíta fangalínuna og fljóta upp á yfirborð eins og hann á að gera á minna dýpi eða upp við yfirborð sjávar. Þarna eru því komnar aðstæður sem þessi búnaður um borð í mb. Jóni Hákoni ræður ekki við, og ekki heldur aðrar tegundir losunarbúnaðar sem eru þannig staðsettar. Þessi gúmmíbátur hefur því ekki komið að notum fyrir skipbrotsmenn á mb. Jóni Hákoni, þó búnaðurinn hafi virkað að öllu leyti eðlilega.
Skotgálgin á Jóni Hakoni
Komum þá að losunar- og sjósetningar¬búnaðinum (skotgálganum) sem er um borð í mb. Jóni Hákoni . Eins og áður segir var mb. Jón Hákon með einn skotgálga sem skýtur gúmmíbjörgunarbát út með því að taka í handföng inni í stýrishúsi og einnig á hann að skjóta gúmmíbátnum sjálfvirkt út á þriggja til fjögurra metra dýpi ef ekki er tími til að sjósetja hann áður en skipið sekkur. Hann á líka að blása sjálfkrafa upp þar sem hann er gálgatengdur. Þetta hefði Olsengálginn á mb. Jóni Hákoni átt að gera í umræddu slysi. Það er staðfest með neðansjármynd að búnaðurinn virkaði ekki, og því sat gúmmíbáturinn fastur í gálganum. En hefði hann komið að notum ef hann hefði virkað eðlilega? Ekki er víst að hann hefði skilað gúmmíbátnum upp á yfirborð sjávar þegar skipið er alveg á hvolfi.
Staðsetning skiptir öllu máli
Þá komum við að staðsetningu þessara tækja um borð í fiskiskipum almennt. Í reglugerð nr. 122/2004, 34. regla en þar segir m.a.: Losunar- og sjósetningarbúnaður skal staðsettur þannig að hann sé vel aðgengilegur til notkunar, eftirlits og viðhalds. Ekkert sem snýr að uppsetningu eða staðsetningu búnaðarins skal hindra þá virkni búnaðarins að hann geti sjósett björgunarfleka (gúmmíbát) þó skipið hafi allt að 10° stafnhalla á hvorn veginn og allt að 20° slagsíðu til hvorar hliðar. Enn fremur skal vera hægt að sjósetja björgunarflekann með handafli.
Þarna eru ekki miklar kröfur gerðar, eða aðeins 20° halli sem er ekki mikill halli á skipi sem er í neyð, og miðað við þessar reglur nýtist búnaðurinn illa og í mörgum tilfellum alls ekki. Það á t.d. við þegar skip eru á hvolfi eða á hliðinni. Þetta eru líka mun minni kröfur en losunar- og sjósetningarbúnaðurinn er hannaður fyrir. Kem að því síðar í þessari grein.
Miðað við myndir af mb. Jóni Hákoni sýnist mér losunar- og sjósetningar¬búnaðurinn vera þannig staðsettur að hann ætti að geta staðist kröfur reglugerðar og skotið gúmmíbát út þó skipið halli 20° í gagnstætt borð eða þegar það er á réttum kili. En þó að búnaðurinn um borð í mb. Jóni Hákoni og mörgum fleiri fiskiskipum standist kröfur reglugerðar er ekki öruggt að ef þessum sömu skipum hvolfdi alveg eða færu á hliðina og með þennan búnað, að gúmmíbátur skilaði sér út fyrir borðstokk og upp á yfirborð sjávar meðan skipið væri á hvolfi, hefði oltið 180°. Það eru í raun takmarkaðar líkur á að gúmmíbátur geti skilað sér upp á yfirborð þó sjálfvirki búnaðurinn virkaði eðlilega. Ekki vegna þess að búnaðurinn sjálfur sé slæmur, heldur er það staðsetningin sem er ekki nægjanlega góð til að búnaðurinn nýtist eins og best verði á kosið.
Ólsenbúnaðurinn
Olsen losunar- og sjósetningarbúnaðurinn er hugsaður sem skotbúnaður, þannig á hann að skjóta gúmmíbátnum út fyrir borðstokk og blása hann upp í leiðinni, þetta gerir hann þó búnaðurinn sé 1,2 m frá lunningu og skipið á réttum kili eða halli 20° eins og krafist er í reglum. En annað er upp á teningnum þegar hann er á kafi í sjó.
Í rannsóknum sem Iðntæknistofnun gerði á sínum tíma kom greinilega í ljós hvernig búnaðurinn virkar neðansjávar. Þegar gúmmíbát var skotið út með sjósetningarbúnaðinn á kafi í sjó var viðnám vatnsins svo mikið að hann færðist lítið sem ekkert frá gálganum og við 90° halla var hann fastur í gálganum ef skipið hallaði á gálgahliðina. Það er því ekki víst að gálginn á mb. Jóni Hákoni hefði komið gúmmíbátnum út fyrir borðstokk þó hann hefði virkað eðlilega, þar sem losunar- og sjósetningarbúnaðurinn er það innarlega á stýrishúsinu. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér þá er þessi vegalengd líklega um það bið 1,2 metrar. Ef svo er þá er ekki öruggt að gúmmíbátur hefði skilað sér upp á yfirborð, heldur lent uppblásin milli lunningar og stýrishús. Það skiptir því öllu máli hvar og hvernig búnaðurinn er staðsettur á skipinu ef hann á að nýtist sem best á neyðarstundu. Þetta á einnig við um aðrar tegundir búnaðar. Því miður eru alltof algengt að Olsenbúnaður sé staðsettur of innarlega á skipunum til að hann komi að fullum notum, því það virðist aðallega hugsað um skotkraftinn með skipið ofansjávar og á réttum kili, og það að standast ófullkomna reglugerð.
Minni kröfur gerðar
Ég hef oft furðað mig á því hvers vegna breytingar voru gerðar á reglugerðum sem minnkuðu kröfur losunar- og sjósetningarbúnaðar til að skila gúmmíbjörgunarbát upp á yfirborð sjávar og þar með minnka möguleika sjómanna til að bjargast úr sjóslysum. Það er gott að rifja upp til hvers losunar- og sjósetningar¬búnaðurinn var hannaður:
1. Auðvelda sjósetningu gúmmíbjörgunarbáts, þannig að menn losnuðu á neyðarstundu við að fara upp á stýrishúsþak eða að geymslustað hans til að losa og sjósetja.
2. Hægt væri að sjósetja gúmmíbjörgunarbát með einu handtaki inni í stýrishúsi eða á einhverjum góðum stað úti á dekki, þrátt fyrir að búnaðurinn væri ísbrynjaður eða á kafi í sjó, skila honum uppblásnum út fyrir borðstokk og þannig upp á yfirborð sjávar.
3. Ef skipið ferst svo snöggt að engin tími er til að komast að gúmmíbátnum eða festingum sem eiga að losa hann, þá á búnaðurinn sjálfvirkt að losa gúmmíbátinn og skila honum út fyrir borðstokk og þannig upp á yfirborð sjávar þó skipið sé með mikla slagsíðu, á hliðinni eða á hvolfi.
Sigmundsbúnaðurinn
Þannig var þessi öryggisbúnaður hugsaður í upphafi þegar Sigmund hannaði fyrstu Sigmundsgálgana. Það skipti öllu máli að réttur búnaður væri staðsettur á réttum stöðum á skipinu til að nýtast sem allra best. Sjá myndir 6 og 7. Það er rétt að það komi hér fram að Sigmundsbúnaður er ekki hugsaður sem skotbúnaður heldur er hann færslubúnaður sem færir gúmmíbátinn frá geymslustað og út fyrir borðstokk, þess vegna hafa framleiðendur hans kappkostað að koma honum þannig fyrir að hann nýtist sem best og þannig að hann færi gúmmíbát út fyrir borðstokk hvernig sem skipið snýr. Þannig nýtist hann best og þannig er líka hægt að staðsetja Olsenbúnaðinn ef réttur búnaður er staðsettur á réttum stað á skipinu. Sjá hér eldri reglur:
Úr reglugerð nr. 351 frá 25. júní 1982. Reglur um staðsetningu , losunar- og sjósetningarbúnaðar gúmmíbjörgunarbáta fyrir þilfarskip, og búnað til að komast í gúmmíbjörgunarbáta. 2. gr. 2.4: Gúmmíbjörgunarbátar þurfa að vera þannig staðsettir og fyrirkomið, að þeir komist með öryggi út fyrir borðstokk og í sjóinn, þótt skip hallist 60° í gagnstætt borð við sjósetningu bátsins. Sérstaklega skal hugað að því , að gúmmíbátur geti ekki lent inn undir neðri þilför skips, í stað þess að komast í sjóinn. 2.5: Leggist skip á þá hlið sem gúmmíbjörgunarbátur er staðsettur, skal hann fljóta upp, þegar fjarstýrð læsing hefur verið opnuð.
Úr reglugerð nr. 80 frá 1. febrúar 1988. Reglur um öryggisbúnað íslenskra skipa. 8.2: Á skipum 15 m og lengri skal losunarbúnaðurinn skv. ákvæðum 8.1 jafnframt tryggja að gúmmíbjörgunarbáturinn fari út fyrir borðstokk, þó búnaðurinn sé ísbrynjaður og á kafi í sjó, hvernig sem skipið snýr. Sjósetningarbúnaður samkvæmt þessum reglum telst lunningarbúnaður, hliðarbúnaður og svo frv.
Stórtskref aftur á bak
Miðað við þessar eldri reglugerðir er í nýjustu reglugerðum frá árinu 2004 farið aftur á bak í kröfum, ekki bara einu sinni heldur tvisvar. Ótrúleg aðgerð stjórnvalda, sem rýrir notagildi þessara öryggistækja svo um munar. Bæði Sigmundsbúnaður og Olsenbúnaður voru hannaðir til að standast þessar eldri reglugerðir, þess vegna er óskiljanlegt að reglugerðunum var breytt til hins verra.
Það er auðvitað mjög slæmt að þessi björgunartæki virki ekki á neyðarstundu og auðvitað á að fara nákvæmlega í það hvort eitthvað er hægt að gera til að bæta vinnureglur við skoðun á búnaðinum. En það er líka slæmt að þessi öryggis¬búnaður skuli í mjög mörgum tilfellum vera svo illa staðsettur að hann komi ekki að notum þó hann virki að öllu leyti eðlilega.
Lærum af reynslunni
Ég hvet sjómenn til að kryfja þessi mál og huga að staðsetningu öryggisbúnaðar , en ekki bara einblína á þær reglugerðir sem í gildi eru. Það er ekkert sem bannar betri staðsetningu.Ég hvet einnig Samgöngustofu og stjórnvöld til að lagfæra þessar reglur sem rýra svo augljóslega getu losunar- og sjósetningarbúnaðar til að sjósetja gúmmíbátana og þar með bjarga sjómönnum úr sjávarháska. Við skulum hafa í huga að áhöfninni á mb. Jóni Hákoni var bjargað á síðustu stundu, en því miður ekki öllum. Við getum lært heilmikið af þessu slysi, en það gerist ekki ef öll umræða um sjóslys er umsvifalaust þögguð niður. Það yrði mikið og alvarlegt slys ef sjómenn missa trú á þessi tæki og þau yrðu tekinn úr umferð eins og ég hef því miður heyrt sjómenn tala um.
Myndir: 1) Mb. Jón Hákon. 2) Olsen losunarbúnaður. 3) Olsen losunar- og sjósetningarbúnaður. 4) Slæm staðsetning á losunar- og sjósetningarbúnaði (skotgálga, og losunarbúnaði. 5 ) Rétt staðsetning þannig að búnaðurinn nýtist sem best. 6) Rétt staðsettur losunar- og sjósetningarbúnaður.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson stýrimaður,
fv. skipaskoðunarmaður og áhugamaður um öryggismál sjómanna.
Bloggar | Breytt 12.4.2016 kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2016 | 12:47
Guðna Th. Jóhannesson sem næsta forseta
Guðni Th. vari góður í starfið,og vonandi gefur hann kost á sér í þetta mikilvæga starf.
Ég hef trú á að hann næði kjöri þ.e.a.s. ef Ólafur Ragnar stendur við það að hætta.
![]() |
Fékk feldinn lánaðan hjá Andra Snæ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.4.2016 | 11:34
Guðni Th. Næsti forseti Íslands ?
Ég vona að Guðni Th. gefi kost á sér, ég hef trú á að hann fengi góða kostningu.Skora á hann að skella sér í slaginn, ég hef tröllatrú á honum í starfið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.4.2016 | 11:00
Hann væri örugglega góður forseti
Vonandi gefur Guðni Th kost á sér sem forsetaefni, hann yrði örugglega góður í því starfi. :-)
![]() |
Forsetaefni afsprengi pólitísks umróts? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.4.2016 | 22:25
Fróðlegt erindi Illuga Jökulsonar
Í dag fór ég og hlustaði á fróðlegt erindi Illuga Jökulssonar er hann flutti í Víkinni sjóminjasafni.
Horfðu á mennina farast.
Fyrir 110 árum horfðu fjölmargir Reykvíkingar upp á tuttugu skipverja farast í aftakaveðri milli lands og Viðeyjar án þess að fá að gert. Illugi Jökulsson kann þá sögu, og hefur skrifað um hana í bók er nefnist: Háski í hafi.
Þarna kom meðal annars fram að ef línubyssur hefðu verið til í landinu á þessum tíma hefði liklega þessum mönnum öllum verið bjargað.
Þetta er frábært framtak Sjóminjasafnsins að fá menn til að ræða þessi sjóslys sem urðu hér á árum áður. Fundarsalur var fullur af áhugasömu fólki sem hlustaði með athygli á frásögn Illuga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)