Færsluflokkur: Bloggar
5.2.2008 | 22:44
Saga af tryggum viðskiptavini Essó
Saga af tryggum viðskiptavini ESSÓ
Það var 1970 sem við vorum að klára að byggja nýja húsið okkar að Illugagötu 38 í Vestmannaeyjum. Ekki var auðvelt fyrir ungan mann að fá peninga að láni til að fjármagna bygginguna og það sem henni fylgdi ef undan er skilið húsnæðismálastjórnarlán. En hægt var með hjálp góðra manna að fá lánað í fyrirtækjum ýmislegan búnað eins og tæki í baðherbergi, eldhús og oft var hægt að semja við iðnaðarmenn um borgun síðar. Einn stór liður í kostnaði á þessu nýja húsi okkar var kynditæki og það sem þeim fylgdi, þetta var nokkuð stór biti þegar húsið var loks komið upp og búið að múrhúða inni, þá þurfti að fá í það hita .
Ég man það eins og það hafi gerst í gær þegar ég fór niður á skrifstofu Esso til að fá lánaðan ketil og meðfylgjandi brennara og annan búnað sem til þurfti til að setja í húsið. Það var nefnilega þannig komið að ég vissi að ég gæti ekki borgað tækin næstu mánuði og jafnvel ekki fyrr en eftir ár.
Sigurgeir Kristjánsson heitin var góður Framsóknarmaður og réði ríkjum á Skrifstofu ESSÓ í Vestmannaeyjum á þessum tíma, þessi maður hjálpaði mörgum manninum sem var í vanda, enda algjör öðlingur, ótrúlega greiðvikin og góður maður í alla staði, hann lagði oft þar með grunninn að viðskiptum manna til tugi ára.
Sigurgeir Kristjánsson var sérstakur öðlings maður sem hjálpaði mörgum. Hann sat lengi í bæjarstjórn Vestmannaeyja og var lögreglumaður áður en hann gerðist umboðsmaður Essó í Eyjum.
Ég kom inn á skrifstofu til hans og bar upp erindið, sagði að mig vantaði kynditæki og sagði eins og var að ég ætti enga peninga og gæti örugglega ekki borgað þau næstu mánuði og jafnvel ekki fyrr en eftir ár.
En ég sagðist ætla að reyna að standa í skilum með olíureikningana. Sigurgeir þurfti ekki að hugsa sig um heldur sagði að ég fengi það sem mig vantaði og ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að borga tækin fyrr en ég hefði efni á því. Þetta gekk allt eftir ég fékk tækin og byrjaði að versla við ESSO með olíu fyrir húsið. Þar með byrjuðu mín viðskipti við ESSÓ. Allt gekk þetta eins og í sögu ég stóð við mitt og Sigurgeir við sitt. Síðar eignaðist ég minn fyrsta bíl og þá byrjaði ég að kaupa bensín hjá þessu ágæta fyrirtæki. Öll þessi ár sem ég bjó í Vestmannaeyjum var ég í reikning hjá ESSÓ og borgaði reikningana mína um hver mánaðarmót. Fyrstu árin gekk nú á ýmsu með að borga á réttum tíma, það fór eftir því hvernig fiskaðist, en alltaf var hægt að komast að samkomulagi við Sigurgeir. Síðan kom blessuð hitaveitan og þá hætti maður að kaupa olíuna. En áfram verslaði ég bensín hjá Essó í Friðarhafnarskýli og á Básaskersbryggju, oftast út á reikning sem borgaður var mánaðarlega. Þarna hafði myndast vinátta og gagnkvæmt traust milli mín og þeirra manna sem unnu hjá þessu ágæta fyrirtæki.
Illugagata 38 húsið sem um er rætt í þessari grein.
Árið 1998 tók ég þá ákvörðun að flytja frá Eyjum til Kópavogs. Ég hélt auðvitað áfram að versla við ESSÓ og valdi mér tvær stöðvar sem ég verslaði oftast bensín, það var við Stórahjalla og litla Nesti í Fossvogi, þarna vinnur yfirleitt gott fólk og greiðvikið bæði á bensínstöðvum og smurstöð.
Þegar ég hafði í þrjú ár verslað við þessar stöðvar gerist það þegar ég er að koma úr vinnu, að ég sé að bíllinn minn er að verða bensínlaus, ég ákvað því að kaupa bensín í Litla Nesti í Fossvogi. Keyrði ég þangað og fyllti tankinn sjálfur eins og ég hef alla tíð gert frá því í Eyjum en þar tíðkaðist ekki almennt sú þjónusta að sett sé bensín á bílinn af afgreiðslumanni.
Þegar ég kem inn og ætla að fara að borga er ég ekki með veskið á mér hafði gleymt því heima. Ég hélt að þetta væri nú ekki mikið mál og sagði afgreiðslumanninum að ég hafi gleymt veskinu mínu heima hvort ég mætti ekki fara og ná í það heim það tæki ekki meira en 10 til 15 mín. Hann varð dálítið vandræðalegur og spurði mig um skilríki. Ég sagði að þau væru öll í veskinu mínu heima. Ég fann greinilega að hann treysti mér ekki, svo ég sagði honum að ég væri búinn að versla við hann meira og minna í þrjú ár og hann hlyti að kannast við mig. Við lendum bara oft í því sagði afgreiðslumaðurinn að menn taka hér bensín og eru svo ekki með peninga, lofa að fara strax heim að ná í peninga en sjást ekki meir. Þar sem ég var að verða pirraður á þessu spurði ég hann hvað ég gæti annað gert til að borga bensínið?. Eftir nokkra umhugsun tók kassamaður nú ,,áhættuna,, og bað mig að skrifa nafn heimilisfang og kennitölu á blað sem og ég gerði, en hinn afgreiðslumaðurinn hljóp út og kom inn að vörmu spori með númerið af bílnum mínum skrifað á blað. Mér leið eins og glæpamanni er ég fór út og heim til að ná í veskið mitt. Það tók mig ekki meira en 15 mín. að ná í það. Þegar ég kem á bensínstöðina að borga mæti ég öðrum afgreiðslumanninum í dyrunum og hann segir við mig: Hvað get ég gert fyrir þig?. Ég fór að hlæja og spyr hann að því hvort hann væri búin að gleyma mér frá því fyrir 15 mín. Hann leit á mig og sagði: já þú ert maðurinn sem gleymdi veskinu áðan. Ég gekk síðan inn og borgaði mína skuld og sagði við gjaldkeran: Það er hundleiðinlegt að lenda í svona uppákomu í fyrirtæki sem maður hefur verslað við í 30 ár, það hlítur að vera hægt á þessari tölvuöld að koma því inn í tölvur eða á safnkort að viðkomandi sé treystandi eftir 30 ára áfallalaus viðskipti. Eða er það kannski mottóið hjá fyrirtækinu að ekki sé hægt að treysta neinum manni nú á tímum.
PS. Ég sendi bréf svipað þessu í Höfuðstöðvar Essó á sínum tíma og fékk gott og vingjarnlegt svar frá fyrirtækinu.
Með kærri kveðju
Sigmar Þór Sveinbjörnsson
Bloggar | Breytt 6.2.2008 kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
4.2.2008 | 08:38
Urðarviti, og húsin Hvassafell og Gerði
Mynd 1.Urðaviti eitt af þeim mannvirkjum sem fór undir hraunið í gosinu 1973. Hvassaafell er húsiðð nær þar er einnig bátur sem Sigurður Óskarsson kafari, smiður m.m átti og lengra frá er húsið Gerði. Myndina tól Kolbrún Ósk Óskarsdóttir en hún átti heima á Hvassafelli.
kveðja Sigmar Þór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.2.2008 | 23:47
Logar frá Vestmannaeyjum

Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.2.2008 | 15:37
Þekkir einhver þessa menn ??
Mig langar að vita hvort einhver þekkir manninn sem stendur á þessari mynd. Sá sem situr heitir Ingvar Jónasson, en mig vantar nafið á hinum, sá sem á myndina heldur að hún sé tekin í Vestmannaeyjum.
kveðja Sigmar Þór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.1.2008 | 18:57
Elliðaey VE 45 sökkt í Halldórsskoru norðan við Eyðið
Myndirnar eru frá því þegar verið var að sökkva bátum frá Vestmannaeyjum sem var verið að úrelda.
Einu sinni var. Elliðaey VE 45 sk.nr. 556, Sökkt norðan við Eyðið í svokallaðri Halldórsskoru, Báturinn hét áður Heimaskagi AK 85. Gísli Sigmarson keypti bátinn 1972 og átti hann þar til hann var úreltur. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 1981.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
27.1.2008 | 15:35
Lítil saga frá fyrstu dögum eldgossins á Heimaey 1973
Myndir frá Heimaeyjargosinu Mynd nr.1 séð yfir Austurbæinn undirritaður á miðri mynd. mynd 2 er af yllugagötu 38.
Þesar tvær myndir eru teknar við húsið Illugagötu 38 þar sem við bjuggum er gosið byrjaði, og sést þykktin á vikrinum vel á þessari mynd en húsið var staðsett vestast í bænum, Kolbrún Ósk er á miðri mynd. Hin myndin er tekin þegar byrjað var að hreinsa vikurinn.
Ein lítil saga frá gosinu.
Við vorum í ferð til Eyja að ná í búslóðir og aðra nauðsinlega hluti sem okkur vanhagaði um. Á þessum tíma gekk þetta þannig fyrir sig að menn biðu fyrir utan húsin sín með þann varning sem þeir vildu flytja til lands, oft hlutir sem mönnum þótti vænt um og voru ekki tilbúir að skilja eftir, því fljótlega eftir að gosið hófst var farið að stela úr yfirgefnum húsum í Eyjum. Þegar bíll keyrði framhjá og pláss var á pallinum, reyndu menn að stoppa bílinn og koma þannig einhverju af sínum eignum í bátana og þannig upp á land. Við höfðum verið að taka búslóð austarlega í bænum en þurftum að flýja vegna öskufalls sem festist í þeim húsgögnum sem þegar voru kominn á pallinn. Við þurftum því að flíta okkur úr austurbænum og koma okkur vestar þar sem var minna öskufall. Var ákveðið að fara með það sem komið var á pallinn niður í bát þó bíllinn væri ekki fullhlaðin. Þegar við komum vestar í bæinn minkaði öskufallið mikið og var svo til hætt þegar við keyrðum framhjá húsi þar sem húseigandi stóð veifandi hendi og bað um að fá að setja dót upp á bílinn, þar sem þó nokkuð pláss var eftir. Ákveðið var að stoppa og fylla bílinn og við kallarnir hoppuðum af bílpallinum og byrjuðum að bera kassa og ýmsan varning út úr húsinu. Með því síðasta sem við bárum út var forláta skrifborð sem maðurinn átti. En allt í einu byrjaði aftur öskufall og þá varð bílstjórinn órólegur enda billinn orðinn fullur af dóti, nú bíð ég ekki lengur sagði hann og hoppaði upp í bílinn og setti í gang. En maðurinn bað hann að bíða augnablik meðan hann færi inn í húsið og næði í nýtt útvarp sem hann hefði nýlega keypt, hann hljóp síðan inn og kom með útvarpið í fanginu. Ég tók við því á meðan maðurinn klifraði upp á pallinn. Þetta var flott útvarp í tekk kassa og auðsjáanlega nýtt, maðurinn sat á skrifborðinu og hélt á útvarpinu í kjöltu sér og reyndi að skýla því fyrir öskufallinu.
Vörubíllinn tekur af stað og stefna tekin á Friðarhöfn þar sem báturinn var. Keyrt var frekar greitt þar sem mikið öskufall var og þar sem mikil aska var á götunum hossaði bíllinn mikið. Þegar komið var niður á Strandveg gerðist óvænt atvik, maðurinn með útvarpið sem setið hafði og hossað á skrifborðinu hlunkaðist nú allt í einu niður þegar skrifborðplatan brotnaði og við það virtist hann henda útvarpinu upp í loftið þannig að það flaug í fallegum boga aftur fyrir bílinn og í götuna og brotnaði þar. Maðurinn kallaði; útvarpið, útvarpið stoppið þið ég verð að fá útvarpið, en bilstjórinn heyrði ekki neytt og allir sáum við að útvarpið var ónýtt og engin ástæða til að stoppa til að hirða það upp. Þannig að ferðinni var haldið áfram niður á bryggju þar sem bíllinn var tæmdur um borð í bátinn og gekk það vel, ekki minntist maðurinn meira á útvarpið fína né ónýta skrifborðið.
Á fyrri mynd er Kolla við Helgafellsbraut 31 æskuheimili sitt en þar átti Siggi bróðir hennar og fjölskylda hans heima þegar gosið hófst. á hinni myndini sjást Fiskvinnsluhús Ársæls Sveinssonar með Eldfellið í baksýn. En í þessí hús voru settar búslóðir sem bjargað var úr húsum í austurbæ.Þriðja mynd er ah Helgafellsbraut 31 fyrir gosið 1973.
Þennan sama dag var verið að skipa út búslóð í annan bát sem var við sömu bryggju og við, þar var verið að hífa AEG Lafamat þvottavél (sem voru mjög þungar) um borð og skipstjórinn var uppi á bíl, hann hafði sett einfalda stroffu utan um vélina sem hann átti sjálfur. Sá sem var á spilinu spurði hvort nóg væri að setja einfalda stroffu á þvottavélina. Já sagði eigandinn og hífaðu hana bara um borð. Þegar híft var í herti hann stroffuna að þvottavélini og hún tókst á loft og var komin yfir bátinn þegar hún fór að halla ískyggilega mikið í stroffunni, Skipstjórinn sá hvað verða vildi og bað spilmanninn að reyna koma henni aftur upp á bílpallinn. Þegar hann ætlaði að koma þvottavélinni aftur upp á bílpall með því að nota bómusvíngarann, losnaði hún úr stroffunni og húrraði niður í lestina. Þar fór hún í klessu en þó slæmt hafi verið að eiðileggja þvottavélina þá var það einskær heppni að hún skyldi ekki lenda á þeim mönnum sem vor niðri í bátnum að taka á móti henni.
Kær kveðja Sigmar Þór
Bloggar | Breytt 28.1.2008 kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.1.2008 | 00:17
Myndir teknar í Eldgosinu í Vestmannaeyjum 1973
Myndir teknar í gosinu 1973. Þarna má sjá Happastaði við Hvitingaveg, húsið var lagfært eftir gosið. Húsin við Kirkjuveg. Horft austur Strandveg með Vélsmiðjuna Magna í baksín og undirritaður á miðri mynd.
kær kveðja Sigmar Þór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.1.2008 | 22:30
Frábært kastljós sent út frá Vestmannaeyjum
Mikið hafði ég gaman af Kastljósþættinum í gær. Sjónvarpið á þakkir skyldar fyrir að senda Kastljósið út frá Vestmannaeyjum. Allir sem komu fram í þættinum stóðu sig frábærlega vel þó flestir væru ekki vanir að koma fram í sjónvarpi. Það er á svona stundum sem maður finnur svo vel hvað maður er stoltur af því að vera vestmannaeyingur. Það var ekki laust við að manni langaði að vera heima innanum gamla vini og kunningja.
Það var aðeins eitt sem mér fannst vanta í Kastljósið og það er ekki í fyrsta skipti sem það kemur fyrir þegar þessara tímamóta er minnst. Ekki var talað við neinn sjómann sem þó stóðu sig mjög vel í flutningum á fólki og síðan flutning á búslóðum frá Eyjum í Gosinu.
Vonandi verður hlut Sjómanna haldið á lofti í sumar þegar 35 ára Goslokahátíðin verður haldin hátíðleg.
Kær kveðja Sigmar Þór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
24.1.2008 | 00:35
35 ár liðin frá eldgosinu á Heimaey
Í dag eru liðin 35 ár frá því eldgos hófst á Heimaey 1973. Ég man vel eftir þessari nótt og hvað gerðist. Daginn áður höfðum við komið inn á Elliðaey VE til að landa, vegna þess að það var arfavitlaust veður og ekki hægt að athafna sig við veiðar, ég man að það var svo mikið rok að það var erfitt að standa upp á bílpalli og taka við málinu sem fiskurinn var hífður í upp á bílpall (ekki komin kör)
Það er gaman að hafa þessar myndir hér með hér sést gosið í baksýn, Eiður heitir sá sem heldur á fiskinum en ég man ekki nafnið á þeim sem veifar. Á mynd 2 er Björn frá hvolsvelli, Eiður frá Reykjavík og Sigmar Þór.
Um kvöldið var komið ágætt veður. Við fórum að sofa um miðnætti en ég vaknaði um 2 leitið þegar konan vakti mig og sagði að það væri einhver læti fyrir utan eins og einhver væri að hlaupa kringum húsið, en þetta var auðvitað jarðskjálfti sem fylgdi gosinu. Síðan hringdi síminn og í honum var Siggi mágur minn á Hvassafelli hann tilkynnti mér að það væri komið gos austur á Eyju en hann átti heima austarlega á Heimaey . Ég fór þá út í glugga og sá að austurbærinn logaði. Sennilega hefur Surtseyjargosið verið þess valdandi að maður fann ekki fyrir hræðslu heldur langaði að kanna þetta nánar.
Ég sagði konuni að ég ætlaði að keyra austur í bæ og skoða þetta betur ég yrði ekki lengi. Síðan keyrði ég eins nálægt þessu og ég þorði, ég tók eftir því að sprungan var að lengjast og færast nær sjónum. Þetta leyst mér ekki á og ákvað nú að koma mér heim. Þegar þangað kom var þegar byrjað að segja fólki að koma sér niður á bryggju og um borð í bátana.
Sjálfur var ég stýrimaður á Elliðaey VE sem var 80 tonna trébátur frekar gamall en afar gott sjóskip allavega fyrir okkur sem vorum sjómenn.
Við tókum töluvert af fólki og lögðum af stað til Þorlákshafnar, þó veður væri nokkuð gott var mikil undiralda eftir óveðrið daginn áður. Það var því töluverð sjóveiki um borð og nóg að gera fyrir þá sem ekki voru sjóveikir.
Eitt það eftirminnilegasta sem ég man frá þessari nótt er þegar við sigldum út víkina og horfðum á glóandi hraunið gjósa upp úr sprungunni, það var eins og svöðulsár sem blæddi úr og væri óstöðvandi blæðing, síðan hvarf þetta meðan við fórum fyrir klettinn en sást aftur þegar við komum fyrir Eyðið, það er ekki hægt að lýsa þeirri tilfinningu sem hríslaðist um mann á þessari stundu. Á þessum tíma var ég búinn að taka við stýrimannsvaktinni, með mér upp í brúnni á vakt var vélstjórinn.
Þegar við tveir stóðum þarna í brúnni á Elliðaey og vorum að sigla fyrir Eyðið, blasti við okkur þessi ótrúlega sjón sem aldrei líður manni úr minni, á þessari stundu var lítið talað.
Allt í einu segir vélstjórinn við mig:
Simmi flest gengur nú yfir okkur eyjamenn fyrst er það tyrkjaránið svo er það þetta helvíti, það var eins og hann hefði lifað báða þessa atburði en tyrkjaránið var árið 1627 .
Ferðin gekk að mestu vel til Þorlákshafnar þar sem við komum fólkinu í rútur, en fórum svo sjálfir aftur til Eyja til að halda afram flutningum á eignum okkar og Eyjamanna.
Gaman væri að skrifa hér nokkrar eftirminnilegar sögur sem maður man frá þessum tíma, kannski geri ég það einhvern tíman.
Kær kveðja sigmar Þór
Bloggar | Breytt 27.1.2008 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Myndirnar eru teknar í safni Þórðar Rafns Sigurðssonar útgerðarmanns, á mynd 1 er þórður Rafn ásamt konu sinni Ingu Eymundsdóttir og Eyþóri Syni þeirra og skipstjóra á Dala Rafni, en líkönin eru af skipi sem Þórður átti með sama nafni.
Síðastliðið sumar sýndi Þórður Rafn mér sjóminjasafnið sem hann er búinn að koma upp á skrifstofu sinni, ég hafði heyrt um safnið og langaði að skoða þarna hin ymsu tæki sem notuð hafa verið á sjónum á undangenginni öld. Þetta er virkilega flott safn hjá þeim hjónum og ótrúlegt hvað þarna er mikið af alskonar munum bæði mikið gömlum tækjum og nyrri sem ekki er svo langt síðan voru í notgun. Þórður Rafn á heiður skilið fyrir þetta framtak og kannski verður hann í ellini safnvörður sem fræðir upprennandi sjómenn um það hvernig tæki og tól við gömlu mennirnir notuðum í gala daga. Að mínu mati á hann að vera búinn að fá RÓS Í Hnappagatið fyrir þetta flotta safn.
kær kveðja
Sigmar Þór
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)