Í aðgerð á síðutrolli

í aðgerð með borðGömul mynd af óþekktum að ég held eyjasjómönnum í aðgerð, ekki heldur vitað hvaða bátur er hér að toga á síðutrolli. Takið eftir hvað borðið liggur lágt.


Gott að eiga öflugar björgunarsveitir

Það er frábært að eiga svona öflugar og vel tækjum búnar björgunarsveitir. Þessi björgunarleiðangur upp á jökul sannar það. Þess vegna er þeim peningum vel varið sem við látum af hendi til styrktar Björgunarsveitum um land allt.
mbl.is Bjargað af Vatnajökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýnilegur árangur

Sýnilegur árangur af aukinni áherslu á stöðugleika sét vel á þessu línuriti.

Myndasafn

Með samanburði sem V.E.R. Skiparáðgjöf og Siglingastofnun tók saman á tölum milli ára hefur komið í ljós að frá árinu 2002 hefur ekkert íslenskt fiskiskip farist með þeim hætti að því hafi hvolft. Er það framhald af ánægjulegri þróun sem varð árin þar á undan þar sem slysum af þeim toga fækkaði stöðugt, en skortur á stöðugleika var til langs tíma alvarlegt vandamál á íslenskum fiskiskipum.

Af þeim 159 þilfarsskipum sem fórust á árunum 1969-2004, hvolfdi 71 skipi og með þeim fórust 129 sjómenn. Á árunum 1992-2000 stóð Siglingastofnun Íslands fyrir miklu átaki í mælingum á stöðugleika fiskiskipa, en árangurinn af því varð mjög góður. Mörg skip voru lagfærð, en þau með minnsta stöðugleikann úreld þar sem kostnaður við lagfæringar hefði orðið of mikill. Einnig var átak gert til að kynna og fræða sjómenn um mikilvægi stöðugleika skipa, bæði með útgáfu á vegum Siglingastofnunar og í kennslu í Stýrimannaskólum.

Meðfylgjandi mynd sýnir fjölda fiskiskipa sem hvolfdi frá árinu 1969, en sl. sex ár hefur ekkert fiskiskip farist á þennan hátt.

Ávinningur af stöðugleikaátaki:
- Skip með minnsta stöðugleikann voru úreld
- Stöðugleiki skipa bættur
- Meðvitund sjómanna um stöðugleika skipa aukin

Lyklar að bættu öryggi sjófarenda felast í:
- Meðvitund um stöðugleika skips
- Þekkingu á samspili ölduhæða, stöðugleika og hleðslu skips
- Þekkingu á að aðstæður séu innan öryggismarka
- Fullri aðgæslu um borð við þær aðstæður
- Greiðum upplýsingum um veður og ölduhæðir

Heimild: V.E.R. Skiparáðgjöf og Siglingastofnun Íslands .

Kær kveðja SÞS
Til baka


Siggi Á Freyjunni. Minning um mann

Siggi á Freyjunni

Siggi á Freyjunni a

Sigurður Óli Sigurjónsson hét hann fullu nafni og var fæddur að Kirkjulandi í Vestmannaeyjum 24.janúar 1912 D. 16.júni 1981. Hann giftist Jóhönnu Kristínu Helgadóttir 9. október 1934, Sigurður var gæfusamur að eignast þá góðu konu sem lífsförunaut.

Hann var sjómaður eins og þeir gerast bestir skipsstjóri sem aflaði vel og var farsæll í starfi og aðgætinn og heppinn alla sína löngu formannsævi. Hann var skipstjóri og á þeim ferli með marga báta en lengst af var hann kendur við Freyju Ve 260  sem var mesta happa skip undir hans stjórn. Hans er líka minnst sem mikils lundaveiðimanns.  Ég man reyndar ekki eftir honum á öðrum bát en Freyju, þennan bát átti hann með Ágúst Matthíassyni sem oftast var kallaður Gústi Matt og var einn af eigendum Fiskiðjunnar í Vestmannaeyjum, seinna keypti Sigurður bátinn af Gústa. Fræg er vísan sem Ási í Bæ gerði um Sigga en hún er á þessa leið:

 

Siggi á Freyjunni siglir hratt

suður að Skeri með Gústa Matt.

Hérna er Gullið þitt Gústi minn

er girnist svo ákaft hugur þinn.

Siggi, Siggi á Freyju, hann er ekkert lamb í leik. 

 

 

Skýringar fylgdu hverri vísu Ása í Bæ:

,,Sigurður Sigurjónsson skipstjóri á Freyju VE 260. Hann hefur verið hér aflasæll formaður í yfir 30 ár. En sérgrein hans hafa alltaf þótt miðin ,,suður við Sker” , það er miðin í nánd við  Súlnasker og Geirfuglasker, Bankahryggir, Bankapollurinn og Stórahraunið”.

  

Í bók er nefnist FORMANNAVÍSUR eftir Óskar Kárason er vísa um Sigurð Sigurjónsson á Freyju:

 

Sigurður haf við hagur,

heppinn Sigurjóns greppur.

Freyju sá vart mun væja,

víðir þó stagönd hýði,

Siglir greitt rugg í rugli,

ryður þorsk-net í iðinn.

Hugmikill Baldur bauga

bundinn er veiði lunda.

 

Freyja 3

 

Mig langar að segja hér eina litla sögu af Sigga. Þannig var að ég var ásamt  fleirum kosinn í árshátíðarnefnd Skipstjóra og stýrimannafélagsins Verðanda mig minnir að þetta hafi verið árið 1971. Nefndin kom saman og þar var rætt hvað við gætum haft til skemmtunar. Kom þá einn nefndarmanna með þá hugmynd að fá Sigga á Freyjunni til að spila á sög. Ekki hafði ég hugmynd um það þá að Siggi kynni að spila á sög, en okkur þótti öllum þetta snjöll hugmynd og var ég beðin að tala við hann. Ég hafði strax samband við Sigga símleiðis og spurði hann hvort hann vildi spila fyrir okkur á sögina á árshátíðinni. Mér til mikillar ánæju tók hann strax vel í þetta en setti þau skilyrði að ég kæmi heim til hans og hlustaði á hann áður en hann spilaði á árshátíðinni þannig að við vissum hvað við værum að biðja um. Ég samþykkti það og við mæltum okkur mót seinna um daginn. Það má koma hér fram að Siggi spilaði á mörg hljóðfæri eins og harmónikku, píanó, munnhörpu og stundum spilaði hann á hárgreiðu

 Þegar ég kom heim til hans bauð hann mér inn á kontór og eftir smá spjall dró hann upp sögina og fiðlubogann  og byrjaði að spila, það er skemmst frá því að segja að ég varð yfir mig hrifinn og varð strax sannfærður um að þetta yrði gott skemmtiatriði á þessari árlegu skemmtun Verðanda..

Þegar Siggi hafði lokið að spila fyrir mig nokkur lög gekk hann frá hljóðfærinu og sagðist ætla að sýna mér dálítið sem hann hefði verið að gera. Hann tók nú fram umslag sem á stóð stórum stöfum Skipstjóra og stýrimannafélagið Verðandi. Upp úr umslaginu dró hann blöð með nótum. Þetta er Verðandavalsinn og Verðandamassinn sagði hann, ég samdi þetta sjálfur og ég ætla að gefa félaginu mínu þetta á árshátíðinni. Hann hafði fengið organista Landakirkju Martin Hunger að setja þessi lög á nótur en hann var þá nýfluttur til Eyja.

Allt gekk þetta eftir Siggi mætti á árshátíðina og þegar þetta skemmtiatriði var kynnt fór kliður um salinn, ég held að sumir hafi haldið að þetta væri eitthvað plat. En Siggi gekk öruggur í fasi  upp á sinu í Samkomuhúsi  Vestmannaeyja með sögina og fiðlubogann, kom sér þar fyrir mundaði sögina og byrjaði að spila. Það varð grafarþögn í salnum meðan hann spilaði, en þegar hann lauk laginu urðu mikil fagnaðarlæti, hann tók þarna nokkur lög og var ávalt fagnað með lofataki. Þetta er eitt eftirminnilegasta skemmtiatriði sem ég man eftir á þessum skemmtunum sjómannafélaganna í Eyjum.

Það gekk eftir að hann gaf félaginu nóturnar með Verðandavalsinum og Verðandamassinum, en því miður held ég að þessi gjöf Sigga sé glötuð. Ef einhver sem les þessar línur veit hvar þessar nótur eru niður komnar, ætti sá að koma þeim til Skipstjóra og stýrimannafélagsins Verðanda.

Það er gaman að minnast þessara manna sem settu svip sinn á bæinn og bryggjurnar í Eyjum hér áður fyr, Siggi á Freyjunni var svo sannarlega einn af þeim, kannski set ég fleiri sögur sem ég kann um Sigga á Freyju hér seinna á bloggið mitt.

 Sigurður var einn af stofnendum Verðanda. 

Kær kveðja SÞS

 

Björgunarbúningar hafa bjargað tugum íslenskra sjómanna

  Björgunarbúningar og vinnuflotbúningar fækka dauðaslysum.

Árið 1987 voru settar reglur þess efnis að öll skip 12 m og lengra skuli búið viðurkenndum björgunarbúningum fyrir alla um borð og má segja að í lok árs 1988 hafi þetta björgunartæki verið komið í öll skip. Hér var stigið stórt spor í að auka öryggi íslenskra sjómanna en sjómenn og áhugafólk um öryggismál sjómanna voru lengi búin að berjast fyrir því að fá björgunarbúninga lögleidda í skipin. Strax á eftir setningu reglugerðarinnar sá Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) um að kaupa 3400 björgunarbúninga frá Danmörku til að setja um borð í íslensk fiskiskip og gerðir voru samningar um kaup á 1600 björgunarbúningum til viðbótar. Þetta var gert til að tryggja það að sem bestir búningar yrðu valdir fyrir okkar sjómenn. Á sama tíma fór það í vöxt að sjómenn keyptu sjálfir svokallaða vinnuflotbúninga sem þeir gátu verið í við vinnu á dekki.

Björgunarbúningur 1976

Óvíst er hvort menn geri sér yfirleitt grein fyrir því hvað þessir björgunarbúningar hafa í raun haft mikið gildi fyrir öryggi íslenskra sjómanna. Hér má nefna örfá dæmi.

Í nóvember 1987 fór skipverji af loðnuskipinu Grindvíkingi GK útbyrðis á Halamiðum í myrkri og kulda. Maðurinn náðist aftur um borð eftir 15 mínútur úr köldum sjónum en sjávarhiti var 1 til 3°C. Sjómaðurinn fullyrti að hann hefði ekki komist lífs af nema af því að hann var í vinnuflotgalla sem hann ásamt fleirum úr áhöfn skipsins höfðu keypt viku fyrir slysið.

 

Þann 22 maí 1993 var Andvari VE 100 að veiðum með botnvörpu í Reynisdýpi . Veður vaxandi austan 6 - 7 vindstig og þungur sjór. Þegar átti að fara að hífa inn trollið festist það í botni með þeim afleiðingum að þegar verið var að hífa inn togvírana komst sjór í fiskmótöku, spilrými og millidekk með þeim afleiðingum að skipið fékk á sig slagsíðu. Slagsíða Andvara jókst stöðugt og skipverjar klæddust björgunarbúningum. Einn skipverja hugðist sjósetja gúmmíbjörgunarbát eftir að hafa klæðst björgunarbúning en ekki gafst tími til þess þar sem skipið lagðist á hliðina og sökk mjög snögglega. Skipstjórinn gat látið skipstjóra á Smáey VE vita hvernig komið væri en þeir voru að ljúka við að hífa og settu því stefnu strax á Andvara. Það kom sér nú vel að allir skipverjar Andvara komust í björgunarbúninga. Þeir lentu allir í köldum sjónum, Þar héldu þeir hópinn þar til þeim var bjargað um borð í Smáey eftir að hafa verið í sjónum í 20 til 30 mínútur. Það skal tekið fram hér að gúmmíbátarnir á Andvara VE voru ekki tengdir sjálfvirkum losunar- og sjósetningarbúnaði þar sem ekki hafði unnist tími til að ganga frá þeim búnaði í skipið.

Björgunarbúningur og lestur

Þann 9. mars 1997 fórst Dísarfellið er það var statt milli Íslands og Færeyja í 8 til 9 vindstigum og þungum sjó. Skipið hafði fengið á sig mikla slagsíðu og misst út nokkra gáma sem flutu kringum skipið. Áhöfn skipsins klæddist björgunarbúningum og var þannig tilbúin að yfirgefa skipið. Þeir höfðu misst frá sér tvo gúmmíbjörgunarbáta ( sem sennilega hafa verið tengdir  svokölluðum veikum hlekk) og stóran  fastan björgunarbát. Skipið hélt síðan áfram að hallast þar til því hvolfdi og skipverjar lentu allir í sjónum. Voru skipverjar í sjónum innan um gáma brak og olíubrák í um tvo klukkutíma eða þar til þyrla Landhelgisgæslunnar TF- LÍF kom þeim til bjargar. Tveir úr áhöfn Dísarfells létust í þessu slysi en 10 björguðust.

Í báðum þessum slysum hefðu sjómennirnir ekki lifaða af allan þann tíma sem þeir þurftu að bíða í sjónum eftir hjálp. Þetta eru örfá dæmi um mikilvægi Bjögunarbúninga. Ég er sannfærður um að björgunarbúningar eigi stóran þátt í fækkun dauðaslysa á sjó.

Kær kveðja SÞS


Fyrsti Herjólfur kom til Vestmannaeyja 12. des 1959

Herjólfur svarti

 

Herjólfur

 

 

 

 

 

 

 

  Í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja frá árinu 1960 má lesa eftirfarandi:

Laugardaginn 12. desember 1959 var mikill fólksfjöldi saman kominn niður á Básaskersbryggju hér í bæ, til þess að fagna komu hins nýja og glæsilega Vestmannaeyjaskips Herjólfi, sem var að leggast að bryggju hér í Eyjum í fyrsta sinn. Skipið kom frá Hollandi þar sem það var byggt. Heimahöfn þessa glæsilega skips er Vestmannaeyjar. Í tilefni þessa merkisviðburðar í samgöngumálum  Eyjanna hafði Sigurgeir Kristjánsson lögregluþjónn ( F 30. júli 1916 D. 5. júni 1993) ort eftirfarandi kvæði sem flutt var við komu Herjólfs.

Herjólfur svarti 1

Sigurgeir Kristjánsson

 

 

 

 

 

 

 

               Sigurgeir Kristjánsson   

Við bjóðum þig velkominn Herjólfur heim

til hafnar við norðlægar slóðir.

Við biðum þín lengi, og þökk veri þeim,

sem þér voru hollir og góðir.

Þú komst þó að nótt væri niðdimm og löng,

og nú skal þér fagnað með ræðum og söng.

 

Þeir vissu það áður sem ýttu úr vör,

við útsker hjá rjúkandi hrönnum.

ef syrti í álinn, þá seinkaði för

hjá sjóhröktum erfiðis mönnum.

Það var eins og brimhljóðið boðaði grand,

er boðarnir féllu við Eyjar og sand.

 

Loks mótaði þekkingin tækninnar tök,

á tímum, sem við stöndum nærri.

Þá rættust þeir draumar, sem vörðust í vök,

og víst eru sigrarnir  stærri !

Í dag birtist Herjólfur, skínandi skeið,

vort skip, er gegn ólgunni klýfur sér leið.

 

Fylgi þér, Herjólfur, hamingjudís

Um hafið á framtíðarleiðum.

Þín sigling sé örugg og vegleg og vís,

þó vindarnir blási í reiðum.

Svo eftir þú tengslin við Eyjar og land

þótt oft falli boði við Landeyjarsand.

 

Kær kveðja SÞS


Rannsóknarnefnd Sjóslysa og fækkun sjóslysa

  Rannsóknarnefnd sjóslysa sjóslysa hefur í áratugi tekið til rannsóknar öll sjóslys sem verða á íslenskum skipum. Hverri rannsókn fylgir svo nefndarálit og oft á tíðum tillögur í öryggisátt. Nefndin hefur komið með fjölda tillagna um nýjar og bættar reglur og lög er varðar öryggi sjómanna. Rannsóknarnefndin hefur einnig staðið fyrir tilraunum með björgunarbúnað. Hún stóð t.d fyrir rannsókn á reki gúmmíbjörgunarbáta á sínum tíma og einnig tilraunum á sjálfvirkum sjóstýrðum losunarbúnaði svo eitthvað sé nefnt. Þessi nefnd hefur komið mörgu góðu til leiðar er varðar öryggi sjómanna.

Kær kveðja SÞS


Frábært að eiga góða þyrlu og klára flugliða

Það er frábært að eiga  Landhelgisgæsluþyrlur og góðar áhafnir í svona neyðartilfellum, vonandi verða þannig bjarganir til þess að menn læri að meta mikilvægi þessara björgunartæka og áhafna þeirra.
mbl.is Stúlkan hífð með þyrlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Losunar og sjósetningarbúnaður Gúmmíbjörgunarbáta

  En held ég áfram að minna á það sem að mínu mati hefur fækkað dauðaslysum á sjómönnum og á þar með stóran þátt í því að engin dauðaslys voru á árinu 2008

Það var 24. febrúar 1981 sem fyrsti Sigmundsgálginn var settur í fiskiskip. Búnaðinn hannaði Sigmund Jóhannsson teiknari og uppfinningarmaður í Vestmannaeyjum. Sigmund hannaði losunar- og sjósetningarbúnaðinn vegna þess að oft er mjög stuttur tími sem sjómenn hafa til að sjósetja gúmmíbjörgunarbát þegar skip farast og stundum hafa sjómenn ekki tíma til að sjósetja gúmmíbátana.

litli prins 063

Einar Ólafsson skipstjóri og Ágúst Guðmundsson vélstjóri  (gerðu út Kap VE )  sem gerðust brautryðjendur í að koma þessu tæki á framfæri og þess ber að geta að þessir sömu menn höfðu einnig frumkvæði árið 1972 að því að setja fyrsta öryggislokann á netaspil en þann loka hannaði einnig Sigmund.

Með losunar- og sjósetningarbúnaði Sigmunds varð mikil framför með því að geta skotið út gúmmíbjörgunarbát án þess að þurfa að klöngrast upp á stýrishús eða á aðra staði þar sem gúmmíbjörgunarbátar eru geymdir. Fljótlega kom á markað Ólsen losunar- og sjósetningarbúnaður og nokkru síðar búnaður sem heitir Varðeldur en allir þrír eru viðurkenndir í dag.

Sjálfvirkan losunar- og sjósetningarbúnað er skylt að hafa á öllum fiskiskipum yfir 15 metra. Hann sjósetur gúmmíbátinn og blæs hann upp um leið. Þetta gerist annað hvort sjálfvirkt á vissu dýpi þegar sjómenn hafa ekki haft tíma til að sjósetja gúmmíbjörgunarbátinn sjálfir eða honum er skotið handvirkt út. Handföng geta bæði verið inni í stýrishúsi, úti á dekki og við sjósetningarbúnaðinn sjálfan.

Sigmund teiknari m.m

Vitað er að sjósetningar- og losunarbúnaðurinn hefur bjargað mörgum tugum manna sem lent hafa í sjóslysum. Þetta er byggt á blaðagreinum, sjóprófum og viðtölum við sjómenn sem lent hafa í sjávarháska en þar hafa sjómenn sagt að ef umræddur búnaður hefði ekki verið um borð þá hefðu þeir ekki bjargast eða verið til frásagnar. Og hér nokkur dæmi.

Flottur Sjómannadagur 2

Í janúar 1988 fórst vélbáturinn Bergþór KE, þrír menn björguðust en tveir fórust. Eftir slysið lýsir stýrimaðurinn í blaðagrein í Morgunblaðinu frá því þegar hann og skipstjórinn taka í handfangið og skjóta gúmmíbátnum út með gálganum. Einnig segir hann að það hafi ráðið úrslitum fyrir þá sem björguðust að þeir hafi náð að skjóta bátnum út.

24. mars 1992 fórst vélbáturinn Ársæll Sigurðsson HF í innsiglingunni til Grindavíkur. Í blaðagrein í Morgunblaðinu þar sem talað er við Viðar Sæmundsson skipstjóra segir Viðar að óhappið hafi gerst svo hratt og óvænt að engin tími hafi gefist til að koma gúmmíbátnum á flot. Er Ársæll sökk opnaðist björgunarbáturinn sjálfkrafa á tveggja metra dýpi og flaut upp. Engum tókst að komast um borð í björgunarbátinn en þeim tókst að hanga utan í honum þar til hjálpin barst. Öll áhöfnin fimm menn björguðust í þessu slysi. Þarna virkaði sjálfvirki hluti búnaðarins og bjargaði mönnunum.

Í desember 2001 fórst vélskipið Ófeigur VE. Í skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa segir að  8 skipverjar af 9 hafi bjargast í tvo gúmmíbjörgunarbáta sem losnuðu sjálfkrafa frá skipinu. Skipverjar höfðu ekki tíma til að sjósetja gúmmíbjörgunarbátana því svo snögglega fórst skipið.

Það er engin vafi á því að losunar og sjósetningarbúnaðurinn var og er bylting í öryggismálum sjómanna og margir  líkja þessum búnaði við þá byltingu þegar gúmmíbátarnir komu í skipin.

Kær kveðja SÞS


FREGATTEN JYLLAND í bænum Ebelltoft í Danmörku

FREGATTEN JYLLAND og SKEMMTILEGT SAFN AÐ SKOÐA.

IMG_2481IMG_2488

Freygátuna   JyllandÍ vikuni fyrir páska vorum við Kolla stödd í Danmörku að heimsækja Hörpu, Þór og Kolbrúnu Soffíu litlu dóttir þeirra. Þetta var góð ferð þar sem sumarið virðist komið í Danmörku.

Eitt af því sem til stóð að gera í ferðinni var að skoða  Freygátuna   Jylland sem staðsett er í bænum Ebelltoft sem er stutt frá Árósum. Það er ótrúlega gaman fyrir kalla eins og mig að skoða þetta gamla seglskip sem reyndar var á sínum tíma einnig búið vél.  Hér á eftir kemur ýmis fróðleikur um þetta merkilega skip og myndir sem ég tók um leið og ég skoðaði skipið. Myndirnar segja kannski meira  en mörg orð um þetta sögufræga skip, en eitt er víst að mikið hafði ég gaman af því að skoða skipið og láta hugan reyka aftur í tíman og reyna að setja mig í spor þeirra manna sem þarna lifðu og unnu um borð.

IMG_2492IMG_2494  Myndirnar Myndirnar tala sýnu máli Jylland séð á hlið og á seinni mynd er séð yfir þilfarið. Á næstu tveimur myndum má sjá skipverja við eina af mörgum fallbyssum skipsins og bönd og burðarvirki skipsins, það er gaman að virða þetta fyrir sér hvernig þetta er smíðað. 

 IMG_2519IMG_2500

IMG_2496IMG_2521

 Þór Sæþórsson í konungssvítunni

IMG_2497

 IMG_2515

 Skipstjórinn í sínum klefa og kokkurinn við störf

 Skipið er stærsta tréskip í heimi sem nú er til  um IMG_2506  2355  tons,   58 metra langt  13 m breitt djúprista 6 metrarVélin var  Maudslay, Sons & Field - 1.000 Hk  (Engin vél er nú í skipinu ) Systurskip  SJÆLLAND  og NIELS JUEL   

Skipið var smíðað í Orlogsværftet, sem svo er nefnt, mikill fjöldi af dönskum skipum voru smíðuð þar fyrir flotan í gegnum aldirnar.   Orlogsværftet  var þar sem kallað var Holmen og nú komið inn í Kaupmannahöfn. Og einskonar lægi hjá flotanum að é held

   Þarna er verið að taka hluta af fæti af einum manni og mátti heyra í honum veinin.

IMG_2513

  

  

Jylland var hleypt af stokkunum 20 nóvember 1860   skipið var með vél og skrúfu sem þá var nokkuð nýmæli og gat náð um 12 sml. hraða á vél við hagstæð skílyrði og þessari ferð gat skipið líka náð undir seglum í hagstæðum byr.  Skipið fór meðal annars 5 ferðir til dönsku vestur indía  en svo var nefnt eyjaklassi / nýlendur í Karabíska hafinu sem danir réðu, þar eru meðal annars eyjarnar Sankt Thomas og Sant Croix.  Freygátuna  Jylland  tók þátt í orustu við Helgoland 1864 Árið  1874 var skipi innréttað sem konungsskip og kom þá meðal annars til Íslands með Christian IX,  Skipið var í þessari konungsþjónustu til  1885 og fór þá m.a. til St. Pétursborgar.  

Skipinu var svo lagt upp 1885 en eftir það  notað sem (Eksercerskib = Varaskip og síðar kaserneskip íveruskip / byrðaskip ekki viss hvort var )

IMG_2511

  Þann 14. maí 1908 var skipið tekið úr þjónustu flotans og selt til Þýskalands til niðurrifs. Það gekk þó ekki eftir sem betur fer og skipið var í nokkur ár á hálfgerðum þvælingi. En  1909 keypti landeigandinn Einar Viggo Schou skipið og lagði því við akkeri fyrir framan hjá sér við Juelsminde ekki fjarri Svendborg og er þar til ársins 1925.Skipið virðist  þarna vera í reiðileysi og 1932 er sagt að skipið sé kjölsprengt  Það er svo í niðurnýðslu en alltaf verið að tala um að gera skipinu til góða.

 Það er svo 1960 sem skipið kemur til Ebelltoft og byrjað er að lagfæra það og tók það mörg ár og er  raunar verk sem aldrei lýkur því enn er unnið að lagfæringum og breytingum.   IMG_2524

IMG_2539

þETTA HEFUR VERIÐ ÓTRÚLEGA MIKIÐ AFREK AÐ BYGGJA SVO GRÍÐARLEGA STÓRT TRÉSKIP, OG DANIR EIGA HEIÐUR SKILIÐ FYRIR AÐ HAFA BORIÐ GÆFU TIL AÐ VARÐVEITA ÞAÐ. EINS OG MYNDIRNAR SÝNA ER ÞETTA GLÆSILEGT SKIP OG ÞAÐ HEFUR ÖRUGGLEGA KOSTAÐ MIKIÐ AÐ LAGFÆRA ÞAÐ OG KOMA ÞVÍ Í SÝNINGARHÆFT ÁSTAND.

KÆR KVEÐJA SÞS


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband