17.12.2019 | 13:19
Efnilegur unglingur
Ég hef í mörg ár safnað úrklippum sem mér hafa fundist skemmtilegar eða fræðandi. Hér á eftir kemur ein slík sem ég klippti út úr einhverju Vestmannaeyjablaðinu fyrir margt löngu.
Líffærafræði.
Eitt úrlausnarefni í efsta bekk eins barnaskólans var ritgerð um líffærafræði. Einn efnilegur unglingur sendi frá sér eftirfarandi ritsmíð: ,,Höfðið er einhvern vegin kringlótt og hart og heilinn er innan í því. Andlitið er framan á höfðinu, þar sem maður étur og grettir sig í framan. Hálsinn er það, sem heldur höfðinu upp úr kraganum. Það er erfitt að halda honum hreinum. Maginn er svoleiðis, að ef maður borðar ekki nógu oft finnur maður til í honum. Hryggurinn er löng röð af beinum í bakinu sem koma í veg fyrir að maður bögglist saman. Bakið er alltaf fyrir aftan, alveg sama hve fljótt maður snýr sér við. Handleggirnir eru fastir við axlirnar á þann hátt, að maður getur slegið bolta og teygt sig í matinn. Fingurnir standa út úr höndunum svo maður getur gripið bolta og lagt saman dæmi á töflu. Fótleggirnir eru þannig, að ef maður hefði ekki tvo, gæturðu ekki hlaupið í boltaleik. Fæturnir eru það, sem maður hleypur á og tærnar er það sem maður rekur í. Og þetta er allt, sem er á manni, nema það sem er innan í, en það hef ég aldrei séð." Kær kveðja SÞS
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.