17.3.2014 | 15:32
Nýju stigvélin
Á nýjum stigvélum
Vertíðina 1962 var ég beitumaður á Gullþórir VE eigandi bátsins var Helgi Benediktsson og skipstjóri Gísli Sigmarsson frændi minn. Ég var þarna yngstur í beituskúrnum sem var staðsettur beint upp af Bæjarbryggju eða rétt fyrir ofan Kuða. Ekki man ég nöfnin á öllum þeim sem voru með mér í skúrnum, enda skiptir það ekki máli . Tvö atvik eru mér í fersku minni frá þessari vertíð sem ég skrifaði örfáar línur um í litla vasabók sem ég á frá þessum árum, langar mig að segja hér frá öðru þeirra.
Ég var að koma úr mat en á þessum tíma átti ég heima að Faxastig 47 og átti ekki bíl frekar en margir aðrir um þetta leiti, þannig að ég labbaði bæði úr og í vinnu eins og flestir á þessum tíma.
Þegar ég kem niður á Bárustig hitti ég einn af beitumönnunum sem ég var að beita með, hann var einnig á leið úr mat og niður í beituskúr, hann var aðkomumaður og kom til að vera á vetrarvertíð í Eyjum. Hann heilsar mér þar sem við hittumst og spyr í leiðinni hvernig mér lítist á nýju stígvelin sem hann var að kaupa. Þetta voru skítabrún frekar lág stigvél frekar ódýr sem á þessum tíma voru vinsæl þó liturinn væri ekkert sértakur. Stigvélin fengust að mig minnir í Eyjabúð. Ekki kunni ég við að segja annað en að stígvélin væru ágæt þótt mér fyndist liturinn ekki fallegur.
Þennan dag hafði ringt mikið og sumstaðar var svell á götum og gangstéttum . Þar sem við gengum þarna niður Bárustig og austur Miðstræti reyndum við að sneiða hjá þessum hálkublettum.Þegar við komum austur fyrir Verslunina Bjarma ( verslunina átti Helgi Ben) , þá er þar stór og mikill 10 15 sm djúpur pollur sem hafði safnast þar saman og glansandi íshella var í botni hans.
Ég sneiddi náttúrulega framhjá þessum stóra polli en vinnufélagi minn fór bara beint af augum og ætlaði auðsjáanlega yfir pollinn, honum datt ekki í hug að breyta stefnu enda á splunkunýjum stigvélum sem þarna var tilvalið að prófa. Hann gekk hiklaust út í pollinn, hann hélt á hitabrúsa í annari hendi en nestisbréfpoka með brauði í hinni hendinni, þannig var gengið frá nesti á matstofum bæjarins í þá daga. þegar vinnufélagi minn var komin út í miðjan pollinn, byrjar hann að renna á svellinu, í fyrstu reyndi hann að halda jafnvæginu með því að sveigja sig og beygja og skellti löppunum fram og aftur eins og hann væri að dansa rúsneskan kosekkadans. Það kom að því að hann var að missa jafnvægið og þá flaug hitabrúsin upp í loftið með tilheyrandi brothljóðum og nestispokinn fór sömu leið og lenti einnig í pollinum. Nú datt hann aftur fyrir sig en hafði að setja hendurnar niður þannig að hann fór ekki með rassin ofan í pollinn. Hann var smástund í þessari stellingu með magan upp í loftið eða í brú eins og sagt var í gamla daga, þannig horfði hann á mig alvarlegum augum , þar sem ég stóð utan við pollinn og var í virkilega miklum vandræðum með að halda niðri í mér hlátrinum. Hann hefði kannski getað labbað þannig á höndum og fótum á krabbagangi upp úr pollinum, en það gerði hann ekki, heldur ætlaði hann sér að reisa sig eldsnöggt upp og standa aftur í lappirnar. En það fór ekki betur en svo að hann datt endilangur í pollinn og rennblotnaði allur . Nú fór ég út í pollinn til að hjálpa honum að standa upp, en eins og áður segir þá var flughált í pollinum og erfitt að fóta sig, en þetta gekk, við studdum hvor annann og þannig komumst við upp úr án þess að renna á rassgatið, en félagi minn var allur meira og minna hundblautur og nýju stigvélinn hálffull af vatni.
Við löbbuðum upp að vegg sem var þarna rétt hjá þar sem hann helti vatninu úr nýju stigvélunum og tjáði mér að hann ætlaði heim í þurr föt.
Ég hálf skammaðist mín fyrir að geta ekki setið á mér að hlæja að þessum óförum vinnufélaga míns, en honum var ekki skemmt. En svona eftir á að hyggja þá hafði hann bara gaman af því þegar við minntumst á þetta nokkrum vikum seinna, þó hann hafi auðvitað verið grútfúll þegar óhappið átti sér stað.
Athugasemdir
Flott saga frændi.
mbk. Stjáni
Kristján Ókarsson (IP-tala skráð) 17.3.2014 kl. 23:23
Takk fyrir það frændi :-) gaman að rifja upp gamlar minningar.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 17.3.2014 kl. 23:36
Heill og sæll Sigmar. Þetta er skemmtileg saga og varla hægt að komast hjá að hlægja að þessari sjón úr því að maðurinn meiddi sig ekki. Með góðri kveðju Heiðar Kristinsson
Heiðar Kristinsson (IP-tala skráð) 18.3.2014 kl. 16:43
Heill og sæll Heiðar og takk fyrir innlitið. Já sem betur fer meiddi hann sig ekki :-)
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 18.3.2014 kl. 17:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.