20.5.2009 | 22:11
Fyrsta skemmtiferðaskipið kom til Vestmannaeyja í dag
Fyrsta skemmtiferðaskipið kom til Vestmannaeyja í dag og von er á öðru á allra næstu dögum .
Eyjarnar eru nú að klæðast sumarskrúðanum, græni og guli liturinn er að taka völdin.
Bloggar | Breytt 3.6.2009 kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2009 | 21:54
Nýjar myndir frá framkvæmdum í Bakkafjöru
Þessar myndir af Bakkafjöruframkvæmdum sendi mér vinur minn og gamall skólabróðir Arnór Páll Valdimarsson frá Flugfélagi Vestmannaeyja en myndirnar tók hann í dag.
Farþegar í þessari ferð voru tveir gamlir fyrverandi nágrannar mínir af Illugagötu.
Á myndunum sést vel að tveir varnargarðar eru að byrja að fara út frá ströndinni.
Hér að ofan má sjá farþega í umræddri flugferð og góða mynd af öðrum varnargarðinu. Það er sælusvipur á farþegunum Kristjáni Óskarsyni frænda mínum sem þarna lignir aftur augum og nýtur flugsins og fyrir aftan hann er Garðar Björgvinsson smiður í Tréverk. Við hliðina á Kristjani situr alnafni hans Kristján Valur Óskarsson sem fékk að fara með afa sínum í þessa ferð yfir Bakkafjöru.
kær kveðja SÞS
Bloggar | Breytt 22.5.2009 kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.5.2009 | 22:38
Stutt skemmtileg fræðandi ritgerð um Liffærafræði
Ég hef frá unga aldri safnað úrklippum, mest eru það úrklippur um áhugamál mitt sem er öryggismál sjómanna. En inn á milli hef ég klippt út greinar sem mér hafa fundist skemmtilegar eða fræðandi. Hér á eftir kemur ein slík sem ég klippti út úr einhverju Vestmannaeyjablaðinu fyrir margt löngu.
Líffærafræði.
Eitt úrlausnarefni í efsta bekk eins barnaskólans var ritgerð um líffærafræði. Einn efnilegur unglingur sendi frá sér eftirfarandi ritsmíð:
,,Höfðið er einhvern vegin kringlótt og hart og heilinn er innan í því. Andlitið er framan á höfðinu, þar sem maður étur og grettir sig í framan. Hálsinn er það, sem heldur höfðinu upp úr kraganum. Það er erfitt að halda honum hreinum. Maginn er svoleiðis, að ef maður borðar ekki nógu oft finnur maður til í honum. Hryggurinn er löng röð af beinum í bakinu sem koma í veg fyrir að maður bögglist saman. Bakið er alltaf fyrir aftan, alveg sama hve fljótt maður snýr sér við. Handleggirnir eru fastir við axlirnar á þann hátt, að maður getur slegið bolta og teygt sig í matinn. Fingurnir standa út úr höndunum svo maður getur gripið bolta og lagt saman dæmi á töflu. Fótleggirnir eru þannig, að ef maður hefði ekki tvo, gæturðu ekki hlaupið í boltaleik. Fæturnir eru það, sem maður hleypur á og tærnar er það sem maður rekur í. Og þetta er allt, sem er á manni, nema það sem er innan í, en það hef ég aldrei séð."
Kær kveðja SÞS
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.5.2009 | 17:00
Fyrstu bílhlössin komin í Bakkafjöru
Einn góður vinur minn kom til mín í dag með þessa loftmynd og gaf mér. Myndin er af Bakkafjöru.
Þarna má sjá hvernig byrjað er að keyra grjóti og efni í annan varnargarðinn í Bakkafjöruhöfn. Það verður gaman að fylgjast með hvernig þetta verk gengur í sumar en garðarnir eu að mig minnir hvor um sig 500 metra langir.
kær kveðja SÞS
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.5.2009 | 15:41
Gísli um borð í Grím VE 328
Gísli Sigmarsson um borð í Grim VE 328. Gísli og Júlíus Sigurbjörnsson létu smíða trillubátinn hjá Gunnari Marel að mig minnir.
Þeir áttu bátinn ekki lengi. Myndina tók Bjarni Jónasson árið 1954.
Minni myndin er af Gísla Sigmarssyni yngri
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.5.2009 | 21:05
Í aðgerð á síðutrolli
Gömul mynd af óþekktum að ég held eyjasjómönnum í aðgerð, ekki heldur vitað hvaða bátur er hér að toga á síðutrolli. Takið eftir hvað borðið liggur lágt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.5.2009 | 11:33
Gott að eiga öflugar björgunarsveitir
![]() |
Bjargað af Vatnajökli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.5.2009 | 17:57
Sýnilegur árangur
Sýnilegur árangur af aukinni áherslu á stöðugleika sét vel á þessu línuriti.
Með samanburði sem V.E.R. Skiparáðgjöf og Siglingastofnun tók saman á tölum milli ára hefur komið í ljós að frá árinu 2002 hefur ekkert íslenskt fiskiskip farist með þeim hætti að því hafi hvolft. Er það framhald af ánægjulegri þróun sem varð árin þar á undan þar sem slysum af þeim toga fækkaði stöðugt, en skortur á stöðugleika var til langs tíma alvarlegt vandamál á íslenskum fiskiskipum.
Af þeim 159 þilfarsskipum sem fórust á árunum 1969-2004, hvolfdi 71 skipi og með þeim fórust 129 sjómenn. Á árunum 1992-2000 stóð Siglingastofnun Íslands fyrir miklu átaki í mælingum á stöðugleika fiskiskipa, en árangurinn af því varð mjög góður. Mörg skip voru lagfærð, en þau með minnsta stöðugleikann úreld þar sem kostnaður við lagfæringar hefði orðið of mikill. Einnig var átak gert til að kynna og fræða sjómenn um mikilvægi stöðugleika skipa, bæði með útgáfu á vegum Siglingastofnunar og í kennslu í Stýrimannaskólum.
Meðfylgjandi mynd sýnir fjölda fiskiskipa sem hvolfdi frá árinu 1969, en sl. sex ár hefur ekkert fiskiskip farist á þennan hátt.
Ávinningur af stöðugleikaátaki:
- Skip með minnsta stöðugleikann voru úreld
- Stöðugleiki skipa bættur
- Meðvitund sjómanna um stöðugleika skipa aukin
Lyklar að bættu öryggi sjófarenda felast í:
- Meðvitund um stöðugleika skips
- Þekkingu á samspili ölduhæða, stöðugleika og hleðslu skips
- Þekkingu á að aðstæður séu innan öryggismarka
- Fullri aðgæslu um borð við þær aðstæður
- Greiðum upplýsingum um veður og ölduhæðir
Heimild: V.E.R. Skiparáðgjöf og Siglingastofnun Íslands .
Kær kveðja SÞS
Til baka
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2009 | 21:36
Siggi Á Freyjunni. Minning um mann
Siggi á Freyjunni

Sigurður Óli Sigurjónsson hét hann fullu nafni og var fæddur að Kirkjulandi í Vestmannaeyjum 24.janúar 1912 D. 16.júni 1981. Hann giftist Jóhönnu Kristínu Helgadóttir 9. október 1934, Sigurður var gæfusamur að eignast þá góðu konu sem lífsförunaut.
Hann var sjómaður eins og þeir gerast bestir skipsstjóri sem aflaði vel og var farsæll í starfi og aðgætinn og heppinn alla sína löngu formannsævi. Hann var skipstjóri og á þeim ferli með marga báta en lengst af var hann kendur við Freyju Ve 260 sem var mesta happa skip undir hans stjórn. Hans er líka minnst sem mikils lundaveiðimanns. Ég man reyndar ekki eftir honum á öðrum bát en Freyju, þennan bát átti hann með Ágúst Matthíassyni sem oftast var kallaður Gústi Matt og var einn af eigendum Fiskiðjunnar í Vestmannaeyjum, seinna keypti Sigurður bátinn af Gústa. Fræg er vísan sem Ási í Bæ gerði um Sigga en hún er á þessa leið:
Siggi á Freyjunni siglir hratt
suður að Skeri með Gústa Matt.
Hérna er Gullið þitt Gústi minn
er girnist svo ákaft hugur þinn.
Siggi, Siggi á Freyju, hann er ekkert lamb í leik.
Skýringar fylgdu hverri vísu Ása í Bæ:
,,Sigurður Sigurjónsson skipstjóri á Freyju VE 260. Hann hefur verið hér aflasæll formaður í yfir 30 ár. En sérgrein hans hafa alltaf þótt miðin ,,suður við Sker , það er miðin í nánd við Súlnasker og Geirfuglasker, Bankahryggir, Bankapollurinn og Stórahraunið.
Í bók er nefnist FORMANNAVÍSUR eftir Óskar Kárason er vísa um Sigurð Sigurjónsson á Freyju:
Sigurður haf við hagur,
heppinn Sigurjóns greppur.
Freyju sá vart mun væja,
víðir þó stagönd hýði,
Siglir greitt rugg í rugli,
ryður þorsk-net í iðinn.
Hugmikill Baldur bauga
bundinn er veiði lunda.
Mig langar að segja hér eina litla sögu af Sigga. Þannig var að ég var ásamt fleirum kosinn í árshátíðarnefnd Skipstjóra og stýrimannafélagsins Verðanda mig minnir að þetta hafi verið árið 1971. Nefndin kom saman og þar var rætt hvað við gætum haft til skemmtunar. Kom þá einn nefndarmanna með þá hugmynd að fá Sigga á Freyjunni til að spila á sög. Ekki hafði ég hugmynd um það þá að Siggi kynni að spila á sög, en okkur þótti öllum þetta snjöll hugmynd og var ég beðin að tala við hann. Ég hafði strax samband við Sigga símleiðis og spurði hann hvort hann vildi spila fyrir okkur á sögina á árshátíðinni. Mér til mikillar ánæju tók hann strax vel í þetta en setti þau skilyrði að ég kæmi heim til hans og hlustaði á hann áður en hann spilaði á árshátíðinni þannig að við vissum hvað við værum að biðja um. Ég samþykkti það og við mæltum okkur mót seinna um daginn. Það má koma hér fram að Siggi spilaði á mörg hljóðfæri eins og harmónikku, píanó, munnhörpu og stundum spilaði hann á hárgreiðu
Þegar ég kom heim til hans bauð hann mér inn á kontór og eftir smá spjall dró hann upp sögina og fiðlubogann og byrjaði að spila, það er skemmst frá því að segja að ég varð yfir mig hrifinn og varð strax sannfærður um að þetta yrði gott skemmtiatriði á þessari árlegu skemmtun Verðanda..
Þegar Siggi hafði lokið að spila fyrir mig nokkur lög gekk hann frá hljóðfærinu og sagðist ætla að sýna mér dálítið sem hann hefði verið að gera. Hann tók nú fram umslag sem á stóð stórum stöfum Skipstjóra og stýrimannafélagið Verðandi. Upp úr umslaginu dró hann blöð með nótum. Þetta er Verðandavalsinn og Verðandamassinn sagði hann, ég samdi þetta sjálfur og ég ætla að gefa félaginu mínu þetta á árshátíðinni. Hann hafði fengið organista Landakirkju Martin Hunger að setja þessi lög á nótur en hann var þá nýfluttur til Eyja.
Allt gekk þetta eftir Siggi mætti á árshátíðina og þegar þetta skemmtiatriði var kynnt fór kliður um salinn, ég held að sumir hafi haldið að þetta væri eitthvað plat. En Siggi gekk öruggur í fasi upp á sinu í Samkomuhúsi Vestmannaeyja með sögina og fiðlubogann, kom sér þar fyrir mundaði sögina og byrjaði að spila. Það varð grafarþögn í salnum meðan hann spilaði, en þegar hann lauk laginu urðu mikil fagnaðarlæti, hann tók þarna nokkur lög og var ávalt fagnað með lofataki. Þetta er eitt eftirminnilegasta skemmtiatriði sem ég man eftir á þessum skemmtunum sjómannafélaganna í Eyjum.
Það gekk eftir að hann gaf félaginu nóturnar með Verðandavalsinum og Verðandamassinum, en því miður held ég að þessi gjöf Sigga sé glötuð. Ef einhver sem les þessar línur veit hvar þessar nótur eru niður komnar, ætti sá að koma þeim til Skipstjóra og stýrimannafélagsins Verðanda.
Það er gaman að minnast þessara manna sem settu svip sinn á bæinn og bryggjurnar í Eyjum hér áður fyr, Siggi á Freyjunni var svo sannarlega einn af þeim, kannski set ég fleiri sögur sem ég kann um Sigga á Freyju hér seinna á bloggið mitt.
Sigurður var einn af stofnendum Verðanda.
Kær kveðja SÞS
Bloggar | Breytt 7.5.2009 kl. 07:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.4.2009 | 20:24
Björgunarbúningar hafa bjargað tugum íslenskra sjómanna
Árið 1987 voru settar reglur þess efnis að öll skip 12 m og lengra skuli búið viðurkenndum björgunarbúningum fyrir alla um borð og má segja að í lok árs 1988 hafi þetta björgunartæki verið komið í öll skip. Hér var stigið stórt spor í að auka öryggi íslenskra sjómanna en sjómenn og áhugafólk um öryggismál sjómanna voru lengi búin að berjast fyrir því að fá björgunarbúninga lögleidda í skipin. Strax á eftir setningu reglugerðarinnar sá Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) um að kaupa 3400 björgunarbúninga frá Danmörku til að setja um borð í íslensk fiskiskip og gerðir voru samningar um kaup á 1600 björgunarbúningum til viðbótar. Þetta var gert til að tryggja það að sem bestir búningar yrðu valdir fyrir okkar sjómenn. Á sama tíma fór það í vöxt að sjómenn keyptu sjálfir svokallaða vinnuflotbúninga sem þeir gátu verið í við vinnu á dekki.
Óvíst er hvort menn geri sér yfirleitt grein fyrir því hvað þessir björgunarbúningar hafa í raun haft mikið gildi fyrir öryggi íslenskra sjómanna. Hér má nefna örfá dæmi.
Í nóvember 1987 fór skipverji af loðnuskipinu Grindvíkingi GK útbyrðis á Halamiðum í myrkri og kulda. Maðurinn náðist aftur um borð eftir 15 mínútur úr köldum sjónum en sjávarhiti var 1 til 3°C. Sjómaðurinn fullyrti að hann hefði ekki komist lífs af nema af því að hann var í vinnuflotgalla sem hann ásamt fleirum úr áhöfn skipsins höfðu keypt viku fyrir slysið.
Þann 22 maí 1993 var Andvari VE 100 að veiðum með botnvörpu í Reynisdýpi . Veður vaxandi austan 6 - 7 vindstig og þungur sjór. Þegar átti að fara að hífa inn trollið festist það í botni með þeim afleiðingum að þegar verið var að hífa inn togvírana komst sjór í fiskmótöku, spilrými og millidekk með þeim afleiðingum að skipið fékk á sig slagsíðu. Slagsíða Andvara jókst stöðugt og skipverjar klæddust björgunarbúningum. Einn skipverja hugðist sjósetja gúmmíbjörgunarbát eftir að hafa klæðst björgunarbúning en ekki gafst tími til þess þar sem skipið lagðist á hliðina og sökk mjög snögglega. Skipstjórinn gat látið skipstjóra á Smáey VE vita hvernig komið væri en þeir voru að ljúka við að hífa og settu því stefnu strax á Andvara. Það kom sér nú vel að allir skipverjar Andvara komust í björgunarbúninga. Þeir lentu allir í köldum sjónum, Þar héldu þeir hópinn þar til þeim var bjargað um borð í Smáey eftir að hafa verið í sjónum í 20 til 30 mínútur. Það skal tekið fram hér að gúmmíbátarnir á Andvara VE voru ekki tengdir sjálfvirkum losunar- og sjósetningarbúnaði þar sem ekki hafði unnist tími til að ganga frá þeim búnaði í skipið.
Þann 9. mars 1997 fórst Dísarfellið er það var statt milli Íslands og Færeyja í 8 til 9 vindstigum og þungum sjó. Skipið hafði fengið á sig mikla slagsíðu og misst út nokkra gáma sem flutu kringum skipið. Áhöfn skipsins klæddist björgunarbúningum og var þannig tilbúin að yfirgefa skipið. Þeir höfðu misst frá sér tvo gúmmíbjörgunarbáta ( sem sennilega hafa verið tengdir svokölluðum veikum hlekk) og stóran fastan björgunarbát. Skipið hélt síðan áfram að hallast þar til því hvolfdi og skipverjar lentu allir í sjónum. Voru skipverjar í sjónum innan um gáma brak og olíubrák í um tvo klukkutíma eða þar til þyrla Landhelgisgæslunnar TF- LÍF kom þeim til bjargar. Tveir úr áhöfn Dísarfells létust í þessu slysi en 10 björguðust.
Í báðum þessum slysum hefðu sjómennirnir ekki lifaða af allan þann tíma sem þeir þurftu að bíða í sjónum eftir hjálp. Þetta eru örfá dæmi um mikilvægi Bjögunarbúninga. Ég er sannfærður um að björgunarbúningar eigi stóran þátt í fækkun dauðaslysa á sjó.
Kær kveðja SÞS
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)