1.7.2024 | 15:24
Jú, því við þökkum þér, Ási í Bæ
Þetta er skrifað upp úr gömlu Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja. Ég var stuttan tíma með Ása á Gullborg á síld við suðurstöndina með Binna í Gröf, skemmtilegur tími og gaman að vera með og kynnast aðeins Ása í Bæ.
Hann réri á kænum,á kolgráum sænum.
Keipaði færum að fiskinum vænum.
Stundum var lítið, en oftar mjög mikið.
Hver var hann þessi sem studdist við prikið.
Jú það var hann Ási,
það var hann Ási,
það var hann Ási í Bæ.
En hver annars var hann, og hvort mun hann lifa ?
Kann einhver að spyrja, ég segi og skrifa.
Á meðan að sæfarar sigla enn strikið
munu þeir þekk‘jan sem studdist við prikið.
Því Jú það var hann Ási,
það var hann Ási,
það var hann Ási í Bæ.
Og þeir sem að skemmta sér, syngja og tralla
sækja í söngva í ljóð svona „kalla“.
En þeir munu varla skilja hve mikið,
Erfitt oft reyndist að styðjast við prikið.
Við þökkum þér Ási,
þökkum þér Ási,
þökkum þér Ási í Bæ.
Kveðja frá Páli Sigurðsyni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2024 | 18:16
Sigurður Óskarsson frá Hvassafelli 80 ára
Sigurður Óskarsson Hvassafelli 80 ára
Sigurður Óskarsson mágur minn og besti vinur er 80 ára, hann var fæddur í Vestmannaeyjum 24. maí 1944. Siggi á Hvassafelli eins og hann er oftast kallaður, er margt til lista lagt og hefur gegnum tíðina unnið fjölbreytta vinnu, enda þekktur maður af öllu góðu, nema hann hefur gegnum tíðina verið svolítið stríðin á köflum.
Hann er lærður húsasmiður og hefur unnið við það gegnum árin, hefur næmt smiðsauga og er þess vegna auðvitað alltaf að smíða, en efniviðurinn hefur ekki alltaf verið tré, hann smíðar einnig úr járni og plasti ef þarf. Sigurður er ekki bara lagin við smíði á tré, járni og plasti, hann er einnig góður lagasmiður og textahöfundur og hann á auðvelt með að gera skemmtilegar vísur, enda mikill húmoristi. Hann hefur gert mörg gullfalleg lög, sálma og texta sem hann hefur tekið að hluta saman og sett á disk. Nokkur lög og textar hans hafa þegar verið gefin út á plötur og diska. Hann samdi tvö þjóðhátíðarlög sem eru Vornótt í Eyjum 1976 texti Þorsteinn Lúter Jónsson og Dætur dalsins 1977 texti Snorri Jónsson. Siggi stofnaði hljómsveitir á yngri árum og er frægust þeirra Hljómsveitin SÓ eða hljómsveit Sigurðar Óskarsonar, sú hljómsveit var í mínu ungdæmi ein besta danshljómsveit á íslandi. Þar spilaði Siggi á trommur en hann spilar á mörg önnur hljóðfæri. Siggi var einnig útgerðarmaður gerði út bátinn Guðfinn Guðfinnsson VE 445 ásamt Guðmundi Karli Guðfinnssyni ( Mumma ) vini sínum áttu bátinn í 6 ár. Þessi þúsund þjala smiður er einnig uppfinningamaður, hann fann upp neta afskurðarvél og fl. og það sem ekki allir vita, þá bjó hann til líkan af fyrsta sleppibúnaðinum fyrir gúmmíbáta það var 1970, en þessi hugmynd náði ekki eyrum útgerðarmanna né sjómanna. Síðar kom Sigmund með sína góðu hugmynd af skotgálganum. Siggi var stjórnarformaður Vinnslustöðvarinnar í 10 ár þess stóra fyrirtækis. Siggi framleiddi og smíðaði nokkra plastbáta þegar hann stofnaði og átti fyrirtækið Eyjaplast, það voru tvær gerðir af bátum sem hann framleiddi svonefndur Færeyingur og bátar af gerðinni Faxi, flottir og vandaðir bátar. Það má bæta því við að samhliða bátasmíðinni smíðaði Siggi sumarbústað úr plasti og flutti í tvennu lagi í Fljótshlíðina þar sem hann kom sér upp sælureit fyrir sig og Sigurbjörgu Óskarsdóttir konu sína. Þá framleiddi hann fjölda af flottum plast ruslatunnum sem voru viða um Vestmannaeyjabæ.
Siggi rak kranafyrirtæki í mörg ár og var með tvo stóra bílkrana og körfubíl, þann fyrsta í Vestmannaeyjum. Þau ár sem Siggi rak kranafyrirtækið var mikil vinna fyrir þessi tæki í Eyjum, mikil uppbygging og steypuvinna um allan bæinn. Það má hér minna, á að bílkranarnir hans gengdu stóru mikilvægu hlutverki í eldgosinu 1973 við björgun verðmæta, og það var ekki síður mikil vinna hjá Sigga og starfsmönnum í kranafyrirtækinu hans við uppbyggingu í Eyjum eftir gosið. Eitt af mörgu sem Siggi hefur unnið við er köfun, hann var kafari í mörg ár og ég get fullyrt að í því starfi stóð hann sig sérstaklega vel , það var ekki öfundsvert starf að kafa og hreinsa úr skrúfum á skipum ekki bara innanhafnar heldur líka út á rúmsjó oft við misjafnar aðstæður. Hann vann einnig sem kafari við að leggja vatnleiðsluna og rafstengi milli lands og Eyja , einnig vann hann við lagningu skolpleiðslu á haf út í Reykjavik og Eyjum svo eitthvað sé nefnt.
Síðasta fyrirtækið sem hann átti og rak var Gluggaverksmiðjan Gæsk en hún framleiddi plast glugga og plast hurðir af bestu gerð.hann seldi gluggafyrirtækið og hefur á síðustu árum tekið það rólega á eftirlaunum. Við sem þekkjum Sigga vitum að hann situr ekki auðum höndum þó hann sé hættur að vinna hann finnur sér alltaf eitthvað að gera, hann er líka þannig típa að hann þarf allaf að vera að breyta og bæta allt sem er í kringum hann, enda á hann mikið af verkfærum til þessara starfa, það er einnig gott og nauðsynlegt fyrir mann eins og Sigga á Hvassafelli að hafa allar græjur og geta smíðað úr tré plasti og járni. Ég hef stundum sagt að hann getur ekki með nokkru móti séð húsin sín í friði hann þarf alltaf að vera að breyta þeim og bæta. ann er líka snillingur við rennibekkinn þar sem hann er búinn að renna hundruð fallegra hluta af öllum stærðum og gerðum, mjög fallegir hlutir. Það er aðeins eitt sem þessi skemmtilegi og góði mágur minn á erfitt með, og það er að hann á ekki gott með að aðlagast tölvu þjóðfélaginu áður pappírsfarganinu, sem fylgir nútíma þjóðfélagi. En nú er stefnt að því í okkar ágæta þjóðfélagi að helst ekkert sé á pappír allt er nú komið stafrænt á netið og allir með heimabanka. En þá kom annað vandamál, það þarf tölvu eða fullkomin síma til að geta tekið þátt í þessu pappírslausa þjóðfélagi. Siggi á að vísu tölvu en er ekki tilbúinn að fá sér heimabanka og hann er bara með einfaldan síma. Sigurður Óskarsson mágur minn og besti vinur, til hamingju með 80 ára afmælið, hafðu það alltaf sem allra best og Guð og gæfan fylgi þér og Sissu um ókomin ár.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.7.2023 | 17:13
Árni Johnsen minning.
Árni Johnsen góður vinur hefur kvatt þetta líf og farinn í sumarlandið, hann var einstaklega skemmtilegur og duglegur Eyjapeyi og gaman að umgangast hann . Margir eru búnir að skrifa minningarorð um hans lífshlaup en engin hefur nefnt hans þátt í baráttu fyrir öryggismálum sjómanna. Eitt sinn er hann kom heim til mín á Illugagötu 38 þar sem við ræddum öryggismál, spurði ég hann hvort hann vildi kaffi ? Hann svaraði: Nei Sigmar ég drekk ekki kaffi nema hjá vafaatkvæðum en þarna var hann í pólitíkinni. Árni hafði mikinn áhuga á öryggismálum sjómanna og björgunarsveita eins og fleiri Vestmannaeyingar og beitti sér ákveðið í þeim málum. Mig langar að minnast hans stóra þáttar í að bæta öryggi íslenskara sjómanna en þar átti hann stóran hlut að máli, hann skrifaði tugi greina í Morgunblaðið og fleiri blöð um þann málaflokk, og sem alþingismaður var hann duglegur að koma á framfæri tillögum sem varða þau mál. Árni flutti margar tillögur á Alþingi til að bæta öryggi sjómanna og björgunarsveita eins og að fella niður skattheimtu á búnaði til björgunarsveita og af öryggisbúnaði til sjómanna eins og björgunargalla svo eitthvað sé nefnt.
Í mars 1984 eftir Helliseyjarslysið þegar Hellisey VE fórst rétt austan við Eyjar kom Árni með þá tillögu á alþingi að skipa nefnd alþingismanna sem átti að gera tillögur um úrbætur í öryggismálum sjómanna. Öryggisnefndin sem skipuð var 9 þingmönnum skilaði 17 tillögum um úrbætur og eru þær taldar hafa bætt verulega öryggi sjómanna. Þessi nefnd lagði mikla vinnu í þessi mál en of langt mál er að telja allar þeirra góðu tillögur hér upp. Margar af þessum tillögum náðu fram að ganga og eru í lögum og reglum í dag og hafa þar með bætt öryggi sjómanna, enda voru þingnefndin og Árni sem var einn af nefndarmönnum duglegir að fylgja eftir þeim tillögum sem frá þeim komu .
Árni Johnsen var heiðraður og sæmdur gullmerki SVFÍ af Haraldi Henrýssyni árið 1987 fyrir þátt sinn og baráttu fyrir því að Slysavarnarskóli sjómanna eignaðist varðskipið Þór og áhuga hans á bættu öryggi sjómanna. Þegar Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum var slitið 1987 var sú athöfn tengd Slysavarnarskóla sjómanna með því að skólaskipið Sæbjörg ( áður Varðskipið Þór ) kom til Eyja. Stjórn SVFÍ notaði þá tækifærið til að þakka Árna Johnsen alþingismanni fyrir þátt hans í því að félagið eignaðist Þór sem þá var fljótandi Slysavarnarskóli Sjómanna. Var Árni sæmdur gullmerki SVFÍ fyrir þátt sinn í þessu máli, svo og fyrir margvísleg störf í þágu öryggismála sjómanna, en Árni hafði alltaf mikinn áhuga fyrir þessum málum. Við þetta tækifæri sagði Árni: Ég er þakklátur fyrir þann hlýhug sem Slysavarnarfélagið sýnir með þessu. Ég lít fyrst og fremst á þetta sem viðurkenningu á frumkvæði og baráttu margra manna í Eyjum fyrir þessum málum. Ég er aðeins einn úr þeirra hópi.
Árni var heiðraður á Þjóðhátíð Vestmannaeyja árið 2010 þá hafði hann leitt brekkusöngin á þjóðhátíð í 30 ár. Lítil saga sem lýsir Árna vel. Í júlí 1986 fengum við Kolla leigðan sumarbústað í Fljótshlíðinni. Á þessum tíma bjuggum við í Vestmannaeyjum og var gaman að fara þarna með fölskylduna í sveitarsæluna, tekið skal fram að þarna voru ekki komnir farsímar. Við vorum búin að vera þarna nokkra daga þegar bóndi á næsta bæ bankar uppá eitt kvöldið og spyr hvort ég sé Sigmar Þór. Ég jánkaði því. Þá segir hann að ég verði að koma heim til hans strax, það bíði mín áríðandi símtal frá Árna Johnsen eftir smá tíma. Hvernig Árni vissi að ég væri í þessum bústað og hvað hann vildi mér var mér ráðgáta, en ég for með bóndanum heim til hans og beið eftir símtalinu. Árni hringdi svo á tilsettum tíma og komst strax að efninu. Nú ætlar samgönguráðherra Matthías Bjarnason að fara að skipa nýja Rannsóknarnefnd sjóslysa og við Eyjamenn eigum að fá einn nefndarmann, ert þú ekki til í að taka sæti í nefndinni ? Ég varð nú í fyrstu orðlaus en sagði svo að ég kynni ekkert á það að vera í svona opinberri nefnd, yrði að fá að hugsa mig um. Nei þú þarft ekkert að hugsa þig um sagði Árni þú getur þetta vel og svo sagði hann þetta vera einstakt tækifæri okkar áhugamanna um öryggismál sjómanna í Eyjum sem má ekki missa af. Símtalið endaði með því að ég samþykkti að taka sæti í nefndinni sem ég sá aldrei eftir. Var skipaður í Rannsóknarnefnd sjóslysa 14. Ágúst 1986 og átti sæti þar til júní 1995 eða í 9 ár. Svona var Árni Johnsen, fljótur að hugsa og ætlaðist til að við sem unnum með honum værum það líka. Gæti sagt margar fleiri sögur af dugnaði Árna Johnsen sambandi við vinnu hans að öryggismálum sjómann, en læt þetta duga að sinni. Blessuð sé minning Árna Johnsens.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2021 | 14:50
Þjóðhátið sem Týr var með.
Bloggar | Breytt 6.8.2023 kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2021 | 00:00
Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 70 ára
Sjónannadagsblað Vestmannaeyja VAR 70 ára 2021.
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga fyrir sjómannadeginum og Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja. Sjómannadagurinn hefur í mínum huga alltaf verið einn skemmtilegasti hátíðardagur ársins. Við peyjarnir sem áttum sjómenn sem feður og frændur vorum stoltir af því að tengjast þeim og þar með sjómannadeginum. Þegar ég síðar gerði sjómennskuna að ævistarfi mínu, gerði ég mér grein fyrir því að þessi dagur er miklu meira en skemmtun í tvo daga. Sjómannadagurinn er órjúfanlegur hluti af stéttarbaráttu og kynningu á starfi sjómanna. Í Vestmannaeyjum tengist margir sjónum þó breyting hafi orðið síðustu árin, þar sem skipum hefur fækkað og þar með sjómönnum. Á Sjómannadaginn kynna sjómenn sjómannsstarfið, minnast þeirra sem hafa látist og sérstaklega þeirra sem látist hafa í slysum á sjó, heiðra aldna sjómenn og þá gera sjómenn, útgerðarmenn og fjölskyldur þeirra sér glaðan dag og flestir bæjarbúar taka þátt í þessum hátíðardegi sjómanna.
Sjómannadagsblað Vestmannaeyja sem nú hefur verið gefið út í 70 ár hefur verið og er vetvangur okkar til að kynna líf og starf sjómanna. Í inngangi að Efnisskránni sem ég kem hér að síðar skrifar Guðjón Ármann m.a: Sjómannadagsblað Vestmannaeyja er ómetanleg heimild um sjávarútveg og íslenska sjómenn og þar er að finna mikla persónusögu. Í blaðinu hefur með mynd og æviminningu verið minnst mikils fjölda sjómanna og útvegsmanna og saga sjósóknar í Vestmannaeyjum ásamt þróun útgerðar og fiskvinnslu nær alla 20. öld hefur verið rakin. Þá má finna auk nafnaskrár tilvísun í mynd og minningarorð um 660 einstaklinga. Höfundar greina eru 235 og í skipaskrá eru skráð um 650 skip af öllum þeim gerðum sem komið hafa við sögu í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja.
20 ár eru liðin síðan þetta var skrifað. Fyrstu kynni mín af Sjómannadagsblaðinu er sem smápeyi að taka þátt í sölu þess um allann bæ og niður á bryggjum á sjómannadaginn. Hvað varðar mína vinnu sem ritstjóra eða umsjónarmanns blaðsins þá tók ég og Sigurgeir Ólafsson heitinn ( Siggi vídó) við blaðinu 1982 af Friðrik Ásmundsyni, við höfðum þá hvorugur einhverja reynslu sem ritstjórar allavega ekki undirritaður. Ég hafði þó unnið með Guðjóni Ármanni í sambandi við auglýsingasöfnun í blöð sem hann ritstýrði, en þrátt fyrir reynsluleysi okkar Sigga held ég að frumraun okkar með Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1982 hafi bara heppnast vel.
Árið 1983 til 1986 vorum við Ágúst Bergsson skipstjóri ritstjórar með fjögur blöð, okkar samstarf gekk vel, við bjuggum þá á sömu torfunni við Illugagötu þannig að það var stutt fyrir okkur að koma saman á ritstjórnarfundi og fara yfir greinar myndir og annað efni sem tengist útgáfu blaðsins, mikil vinna er að koma svona blaði út ef vandað er til verka. Þá skiptir miklu máli að geta unnið blöðin og prentað í Eyjum, öll árin sem ég kom að blaðinu var það gert í umsjá prentsmiðjunnar Eyrúnu hf í góðu samstarfi við Óskar Ólafsson prentara en stundum sendi Eyrún hf blaðið í umbrot og prentun í Odda hf. Árið 1993 tek ég svo einn við Sjómannadagsblaðinu af Sigurgeir Jónssyni og er ég með blaðið til 1998. Sjómannadagsblöð 1994, 1995 og 1996 sáum við hjónin alfarið um, ég sá um að vinna efni í blöðin og Kolbrún Ósk Óskarsdóttir sá um auglýsingar, við dreifðum blöðunum í sjoppur í Eyjum og ég fór með blöð í verslanir í Reykjavík, Hafnarfirði, Grindavík, Hvolsvöll og einhverja fleiri staði, þetta þurfti svo að sækja og rukka seinni part sumars, ég dreifði flestum Sjómannadagsblöðum sem ég sá um ritstjórn á bæði í Eyjum og uppi á landi, og á ýmsar minningar frá þessum árum.
Það var á fimmtudegi fyrir sjómannadag 1994 sem ég fór til Reykjavíkur að ná í Sjómannadagsblaðið í prentsmiðjuna Odda hf, þar sem blaðið var brotið og bundið inn en var prentað í Eyrúnu hf. Ég ætlaði að dreifa blaðinu á sölustaði á Reykjavíkursvæðinu og til þeirra sem voru með greinar og heilsíðu auglýsingar en þetta hafði ég gert með þau blöð sem ég ritstýrði. Ég tók nokkra kassa af blöðum í bílinn en restina átti að senda daginn eftir til Eyja. Ég ákvað að fara með fyrsta blaðið til vinar míns Árna Johsen en hann hafði verið okkur í sjómannadagsráði mjög hjálpsamur. Þegar ég kem heim til hans með blaðið vildi Árni fá mig inn í spjall og skoða blaðið, ég samþykkti það fannst gott að fá álit hans á nýja blaðinu. Hann flettir blaðinu og er bara nokkuð ánægður með það, en allt í einu horfir hann á mig og segir: Hér er hundleiðinleg villa Simmi. Hvað segirðu er þetta prentvilla spyr ég ? Nei verra en það segir Árni og sýnir mér blaðið. Þarna var í minningargreinum sama myndin af einum manni við tvær minningargreinar. Mér brá óneitanlega mikið vitandi það að ekki var hægt að prenta blaðið aftur. Hundfúll sagði ég við Árna að í þessu klúðri er víst ekkert hægt að gera.
Árni var á öðru máli, við reddum þessu snarlega sagði hann og var strax komin með áætlun: Nú hringir þú strax í Óskar prentara og lætur hann hafa samband við Sigurgeir ljósmyndara sem á örugglega rétta mynd við minningargreinina. Þú biður svo Óskar að prenta myndina í kvöld eða nótt á sérstakan límpappír sem prentarar þekkja, myndin verður að vera skorin þannig að hún passi yfir röngu myndina á síðunni. Óskar sendir svo myndirnar til Reykjavíkur með fyrstu flugvél í fyrramálið og ég verð þá búinn að redda mannskap til að líma myndina í 400 blöð, þeir í prentsmiðunni í Eyjum verða svo að líma myndina inn í þau blöð sem fara til Eyja. Allt gekk þetta upp, Sigurgeir reddaði snarlega mynd, Óskar átti viðeigandi lím pappír og prentaði og skar myndina passlega í blaðið, hún kom með fyrsta flugi til Reykjavíkur og Árni var tilbúin með lið til að líma inn í þessi 400 blöð og Eyrún hf reddaði rest á föstudeginum þegar blöðin komu til Eyja. Ég gat því dreift öllum þessum blöðum uppi á landi eins og til stóð og enn er umræddur límmiði í blaðinu eins og við límdum hann fyrir 37 árum. Mikið var ég þakklátur Árna fyrir þennan stóra greiða, sem ég gleymi aldrei en svona er Árni Johnsen.
1999 tekur Friðrik Ásmundsson við blaðinu. Þá var ég búinn að vera 6 ár einn með blaðið og áður 5 ár með öðrum samtals 11 ár við ritstjórn. Ég er bara stolltur af þessum Sjómannadagsblöðum sem ég bæði ritstýrði einn og eins þeim sem við Siggi Vídó og við Ágúst Bergsson unnum saman. Þó þetta hafi verið mikil vinna þá er þetta starf við Sjómannadagsblaðið með því skemmtilegasta sem ég hef gert um ævina.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson
Bloggar | Breytt 5.6.2022 kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2021 | 20:29
Mikil bræla og sökkhlaðið skip
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2021 | 23:38
Gömul mynd frá Þjóðhátíð Vestmannaeyja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2021 | 18:53
Þjóðhátíð Í Eyjum 1955
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2021 | 23:16
DC 3 á Vestmannaeyjaflugvelli
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)