En um Viðurnefni í Vestmannaeyjum

  Viðurnefni í Vestmannaeyjum eftir Sigurgeir Jónsson .

Vegna umræðu á bloggi og í blöðum og mikillar gagnrýni á bókina ákvað ég að fara á bókasafn og fá bókina lánaða til aflestrar. Eftir að hafa lesið hana skil ég vel það fólk sem gagnrýnir höfundinn, þar er að finna mörg uppnefni og viðurnefni sem eru særandi og ógeðfeld bæði fyrir þá sem um ræðir og fjölskyldur, og einnig fyrir ættingja þeirra sem fallnir eru frá og hafa þessi ljótu viðurnefni. Það hefði ekki skemmt þessa bók þó þeim ógeðfeldu viðurnefnum  hefði verið sleppt.

Í bókinni er viðurnefni sem ég fékk 11 til12 ára gamall. Þetta er viðurnefnið Simmi Koló og er mér nokkuð sama þó það hafi ratað í þessa bók, margur maðurinn hélt að ég héti þetta og man ég að þegar ég var að byggja húsið okkar að Illugagötu 38 þá voru margir reikningar með haus sem á stóð Sigmar Kol.

 Þó það standi skrifað í umræddri bók að ekki megi afrita hana á nokkurn hátt þá ætla ég að afrita það sem skrifað er um mig eða Simma Koló og skýra út hvernig farið er með heimildir sem ég gaf. Orðrétt úr Bókinni:

"Simmi Koló

Þegar kolaskip komu, var algengt að peyjar fengu að vera við ristina í uppskipun og moka því sem út fyrir fór. Fengu þá að eiga það sem þeir mokuðu og þótti góð búbót til heimilishalds á þeim tíma. Eihverju sinni, þegar allir hinir peyjarnir fóru í mat, varð einn eftir og hélt áfram að moka allan matartíman. Sá var Sigmar Þór og félagar hans gáfu honum þetta viðurnefni vegna áhuga hans á kolamokstri".

Þegar höfundur var að safna efni í þessa bók kom hann að máli við mig og spurði mig um tilurð þess  að ég var uppnefndur Simmi koló, ég sagði honum það í fáum orðum enda man ég vel eftir því, og er raunar ekkert ósáttur við tilefnið af þessari nafngift. Það sem Sigurgeir skrifar svo hér að ofan er bara tómt bull .

Svona sagði ég nokkurn veginn Sigurgeir söguna og þannig fékk ég viðurnefnið:

Þegar ég var peyji 11 til 12 ára var algengt að til Vestmannaeyja kæmu kolaskip með laus kol, þessum kolum var svo sturtað utan við húsin viðsvegar um bæjinn.  Í nokkrum húsum kringum Lautina voru keypt kol og voru það oftar en ekki gamalt fólk sem keyptu þessi kol. Kolunum var eins og áður segir sturtað á götuna og því þurfti að koma þeim sem fyrst í kolageymslurnar með því að moka þeim í hjólbörur og keyra í þessar sérstöku geymslur. Þar sem þetta gamla fólk var oft ekki heilsuhraust og átti erfitt með að koma kolunum í geymsluna, safnaði ég saman nokkrum peyjum og við tókum að okkur að koma kolunum á sinn stað, ekki var ætlast til að fá peninga fyrir þetta en aftur á móti fengum við alltaf mikið þakklæti og oft góða brauðsneið að loknu verki. Margt af þessu gamla fólki gat ekki komið kolunum inn án hjálpar og Odda í Sigtúni var ein af þeim, Eyjamenn kannast við þá konu.

Eitt af þeim heimilum sem mest keyptu af kolum voru hjónin á Reynisstað, þar var oftast stæðsta hrúgan fyrir utan. Þar var einnig nóg af krökkum til að koma þessu inn, ásamt okkur peyjum sem áttum heima þarna í kring. Við vorum sem sé margir sem unnum að því að moka kolum í hjólbörur og koma þeim í kolageymsluna á Reynisstað. Þegar leið að  matartímanum  vildu sumir peyjarnir fara í mat, en ég vildi klára að setja inn kolinn fyrst enda að mínu mati lítið eftir.

Þetta endaði með því að við vorum nokkrir peyjar sem unnum matartíman og kláruðum að setja inn kolin. Ég man en eftir því að þegar við höfðum klárað að setja inn kolin, kom Þura húsmóðirin á Reynistað  út með maltflöskur og súkkulaðikex handa okkur öllum. Ekki voru allir sáttir að við skyldum vinna þetta í matartímanum, og þar sem ég hafði forustu um að vinna matartíman, byrjuðu þeir að kalla mig Simma Kolamola. Kringum húsið  Baldurshaga sem var austan við Reynistað var mikill og hár dökkur veggur, þar var oft skrifað á vegginn með krít. Daginn eftir að kolin voru komin inn á Reynisstað var búið að kríta með stórum stöfum SIMMI KOLAMOLI ég vissi aldrei hver það gerði.

Þetta varð til þess að þetta viðurnefni festist á örskömmum tíma við mig, ekki var ég sáttur við þetta fyrst en fljótlega varð mér alveg sama. 

Eins og sjá má er mikill munur á þessum skýringum, í tilfelli Sigurgeirs er gefið í skin að ég hafi sýnt græðgi og viljað einn moka kolum heilan matartíma niður á bryggju af því ég hefði mátt eiga kolinn sem duttu úr grindinni, því þetta væri búbót fyrir heimilishald. Það skal tekið fram að ekki voru notuð kol heima hjá mér. Fróðlegt væri að vita af hverju hann breytti þessari heimild.

En hið rétta er í stuttu máli sagt, að við vorum nokkrir peyjar sem bjuggum kringum Lautina sem tókum okkur saman og hjálpuðum gömlu fólki að koma inn kolum, vegna þess að í flestum tilfellum gat það ekki gert það sjálft, ekki var ætlast til að fá fyrir það greiðslu enda flestir sem við hjálpuðum fátækt fólk. Í staðinn fengum við mikið þakklæti og ég fékk að vísu bara einn þessa nafnbót Simmi kolamoli sem breyttist síðar í Simmi koló.

Kær kveðja SÞS

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvar er hægt að ná í þessa bók.?Hvað heitir hún?

Númi (IP-tala skráð) 15.8.2008 kl. 22:17

2 Smámynd: Aðalsteinn Baldursson

Ég er sammála þér Simmi í því að mörgu viðurnefninu hefði mátt sleppa. Sjálfur keypti ég bókina fyrir forvitnissakir því að ég hafði heyrt að mín væri getið þar. Þar er farið nokkuð rétt með staðreyndir enda bæði tilefnið einfalt og mun nær samtímanum.
Bestu kv. að austan.

Aðalsteinn Baldursson, 15.8.2008 kl. 23:08

3 identicon

Hef ekki lesið bókina, en get ekki séð að svona uppnefni og viðurnefni eigi neitt erindi á bók. Ég tala nú ekki um þegar viðurnefnin tilheyra samtímafólki sem jafnvel hafa liðið fyrir viðurnefnin alla ævi. Flokka svona lagað hreinlega undir einelti og ekkert annað. „Aðgát skal höfð í nærveru sálar“ sagði Einar Ben. einhvern tímann og á það fyllilerga við um svona verknað eins og þessi bókarskrif.

Eygló Björnsdóttir (IP-tala skráð) 17.8.2008 kl. 21:33

4 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Sæl öll sömul og takk fyrir kveðjuna Búkolla (Ragna) og Aðalsteinn. Já margir hafa haldið að mitt viðurnefni hafi komið vegna Kollu og ég hef reyndar heyrt margar útgáfur þess vegna ákvað ég að segja hvernig þetta kom til. Það eru hreinar línur að þessi bók er óvönduð og illa unnin og hefði aldrei átt að verða gefin út.

Þakka ykkur kærlega fyrir ykkar athugasemdir.

kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 17.8.2008 kl. 23:13

5 identicon

Þessi bók er hreint út sagt ömurleg.  Sigurgeir dæmist ekkert annað en ritsóði, þar sem þetta er svo illa gert, þar sem hann bullar um marga hluti og mörgu átti að sleppa.   Maður spyr sig um innræti slíks manns ? Hefur sjálfsagt ætlað sér að græða nokkra þúsundkalla á þessu,  melurinn sá. 

nn (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 10:30

6 identicon

Æi..Sæll vertu Simmi minn...Þetta með kverið.. Þeta er auðvitað ekki bók...Þessi"viðurnefni"hefðu betur verið geymd í lúkarnum,meðal manna sem bara hefðu,þegar komið var í  næstu "bauju"fundið eitthvað annað til að hafa gaman af...kv þs

þs (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 15:09

7 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heilir og sælir nn og þs, ég er ykkur innilega sammála. Hver einasti maður sér að mörg af þessum viðurnöfnum eru bæði meiðandi og mannskemmandi, og að mínu viti flokkast þetta undur einelti af verstu sort. Þá spyr maður sig hvað fær menn til að gefa út svona óþvera og hvað fær fyrirtæki og einstaklinga til að styrkja svona ritsmíð ?. Er það illkvitni eða er það peningagræðgi ?.

kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 21.8.2008 kl. 10:02

8 identicon

Blessaður Simmi.  Rakst á bloggið þitt í gegnum Eyjar.net.

Áhugaverð umræða um bókina hans Sigurgeirs.  Ég fletti henni lauslega síðasta sumar.  Fannst sumt frekar niðrandi og velti því fyrir mér hvers konar viðbrögð þessar sögur gætu vakið meðal tilgreindra einstaklinga.  Frekar glatað fyrir fólk og afkomendur að lesa um niðrandi viðurnefni sín eða ættingja.  Hins vegar trúi ég ekki að þetta sé birt af illkvittni, en sumt er klárlega vanhugsað.  Hugmyndin um að grípa munnmælasögur  samtímans er góð að mörgu leiti en slík heimildasöfnun þarf að vera málefnaleg, eins og þú bendir á, og sennilega hefði verið sniðugt að fá leyfi til að birta það viðkvæmasta eða hreinlega sleppa því.  Lágmark að fara rétt með þær sögur sem fengnar eru beint frá hlutaðeigandi.

Í mínum huga verður þú líklega alltaf Simmi stýrimaður á Herjólfi (Þó síðan séu liðin nokkur ár), en ég skal viðurkenna að ég hélt að Koló væri Hvoló og að þú værir ættaður frá Hvoli eða Hvolsvelli...eða eitthvað í þá áttina...Hef aldrei spurt neinn út í það, hélt það bara, enda alin upp á Grænlandi þegar viðkemur ættartengslum eyjafólks, eins og Halla á Múla sagði alltaf hérna einu sinni, þegar við unnum saman á Herjólfsskrifstofunni.  

En nóg um það.  Mig langaði aðallega að nefna það hvað ég hafði gaman af að lesa um hana langömmu mína, Þuru á Reynistað.  Ég sé hana sko alveg í anda, koma færandi hendi með malt og súkkulaðikex (mest hissa á að hún hafi ekki komið með djöflatertu handa ykkur..hehe).  Það hefur vafalítið verið nóg að gera á þessu stóra heimili og hefur hún eflaust verið glöð með aðstoðina við kolamoksturinn. Ég óska þess oft að ég hefði fæðst aðeins fyrr og náð að upplifa fjölskyldubraginn á Reynistað.  Nógu margar sögurnar hefur maður heyrt af uppátækjum þeirra systkina og hnyttnum tilsvörum húsmóðurinnar.  Spurning að safna þeim saman...yrði sennilega hin skemmtlegasta lesning.  

Bestu kveðjur frá hinu regnvota Englandi,

Ása 

Ásgerður Jóhannesdóttir (IP-tala skráð) 21.8.2008 kl. 19:13

9 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heil og Sæl Ásgerður, það er gaman að fá athugased frá þér úr regnvotu Englandi. Við Kolla erum nýkomin frá Danmörku þar sem við vorum í eina viku í ágætis veðri þó það hafi að vísu ringt flesta dagana eithvað.

Hvað varðar bók Sigurgeirs þá er það mín skoðun að hún er eitt stórt slys vegna þess að  hún særir margt fólk og elur á einelti sem flestir viðurkenna í dag að eigi að berjast á móti. Það er heldur ekki vandað til hennar eins og dæmið um mig sannar og ég veit um fleiri sem hafa lent í því sama. En ekki meir um þessa bók í bili.

En nokkur orð um Þuru á Reynisstað, hún var örugglega góð kona og í minninguni sé ég hana brosandi á tröppunum að kalla í krakkaskaran í mat. Það var oft mikið líf í kringum Reynistað þar sem var fullt hús af krökkum.

Kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 28.8.2008 kl. 22:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband