Úr safni Árna úr Eyjum

Árni úr Eyjum og Ása kona hans

 Úr safni Árna úr Eyjum 

Árni úr Eyjum eða Árni Guðmundsson eins og hann hét fullu nafni, safnaði skemmtilegum sögum og vísum sem gengu manna á meðal í Vestmannaeyjum hér á árum áður, margar af þessum sögum ganga enn í dag, en aðrar eru gleymdar. Árni   samdi einnig marga landsfræga texta við Þjóðhátíðarlög enda gott skáld.

Árni Guðmundsson ( Háeyri við Vesturveg) var fæddur 6, mars 1913 og dó 11. mars 1961, hann var kvæntur Ásu Torfadóttir.

Eftirfarandi sögur eru úr stílabók sem ég fyrir nokkrum árum fékk leyfi til að ljósrita, alls voru í bókinni 120 sögur, margar af þeim eru geymdar í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 2000 og 2001 en þessar hafa held ég ekki verið birtar áður.

 Myndin er af Árna og Ásu Torfadóttir.

  

Embættismaður einn í Vestmannaeyjum  hugðist flytja búferlum til Reykjavíkur. Nokkrir vina hans tóku sig saman og héldu honum kveðjusamsæti, og vegna þessa að hann var ókvæntur þótti rétt að eingöngu karlmenn sætu veisluna. Það hefur e,t.v. verið þess vegna að allfast var drukkið. Kom brátt að því að menn gerðust skáldmæltir og kostuðu fram stökum, hver af öðrum. Brátt höfðu allir byrlað braga full utan þjóðverji sem þarna var staddur. Þjóðverji þessi hafði verið búsettur  í bænum um nokkurra ára skeið, en ekki náð því að læra íslensku, svo lítalaust mætti teljast. Var mjög á hann skorað að láta ekki sitt eftir liggja.

Lét hann loks tilleiðast  stóð upp og mælti fram þessa vísu.

 

Allir sem hér eru inni

eru nú að skemmta sér.

Þegar brennivínin er búinn

fara allir heim til hún.

 

Þótti vísan skothend nokkuð og bentu höfundinum einkum á það, að illa rímar saman ,, búinn” og ,,hún”—og töldu hann á að gera bragabót. Tók hann þá blað og blýant, sat við skriftir og heilabrot nokkra stund, en hvað sér síðan hljóðs á ný. Fyrri hluti vísunnar var óbreyttur, en nú var botninn svona með fyrripartinum:

 Allir sem hér eru inni

eru nú að skemmta sér.

Þegar brennivínin er búinn

fara allir heim til frúin.

 

 Saga 18.

Hinn landskunni hagleiks og listamaður Baldvin Björnsson gullsmiður stundaði lengi iðn sína í Vestmannaeyjum. Þegar hann fluttist úr Eyjum hélt iðnaðarmannafélag Vestmannaeyja honum kveðjusamsæti mikið, og var þátttaka aðeins heimil iðnaðarmönnum. Kemur nú heiðursgesturinn Baldur ásamt vini sínum Sigurbirni Sveinssyni, skáldi, sem hann kvaðst bjóða sem gesti sínum. Formaður félagsins Gunnar M. Jónsson , hinn þjóðkunni skipasiður, tók á móti þeim félögum í dyrunum. Taldi hann ómögulegt að veita Sigurbirni aðgang, þar sem samsætið væri eingöngu fyrir iðnaðarmenn – en ekki fyrir skáld. Varð um þetta þóf nokkurt því hvorugur, Baldvin eða Gunnar vildu láta sinn hlut.

Hlustaði Sigurbjörn rólegur og brosandi á deiluna, en þegar honum þótti nóg komið dró hann plagg nokkurt upp úr vasa sínum og rétti Gunnari:

Kannski þetta dugi ? – og sjá, hér var þá komið meistarabréf í skósmíði, útgefið á Akureyri, á nafni Sigurbjarnar Sveinssonar – og vitanlega var honum sem skósmiði heimil innganga, enda þótt hann kæmist ekki inn sem skáld.

 

 Saga 19.

Sigurbjörn Sveinsson skáldFáum árum eftir að Baldvin fluttist til Reykjavíkur, kom hann eitt sinn snögga ferð til Eyja. Nokkrir vina hans héldu honum hóf og varð þar gleðskapur mikill. Þegar veislan stendur sem hæðst rís Sigurbörn Sveinsson á fætur og mælir af munni fram:

 

Þegar fríðan flösku stút

faðma kátir bragnar,

Baldvin stingur alla út ----

 

Laut skáldið nú höfði virtist kominn í þrot, steinþagnaði – settist og mælti um leið – Amen. Ráku menn þá upp hlátur, og þóttu skáldinu illa aftur farið að geta ekki lokið einni ferskeitlu.

Rís þá Sigurbjörn enn á fætur og segir: - Herrar mínir mér er nær að halda, að þið hafið ekki skilið mig , en vísan er þannig:

 

Þegar fríðan flösku stút

faðma kátir bragnar,

Baldvin stingur alla út

amen. – Skáldið þagnar !

 

Mynd Sigurbjörn Sveinsson skáld

 

 Saga 51.

Safnandi þessara sagna hefur löngum föndrað nokkuð við ljóðagerð, svo sem gerir margur Íslendingurinn, án þess að vera beint til þess útvaldur.

Heima hjá okkur á Háeyri, var um margra ára skeið  gömul kona, sem Sigríður hét og var Bjarnadóttir, ævilega nefnd Sigga Gróa. Var hún haldin þessari sömu þjóðlegu áráttu að vera alltaf að setja saman vísur og kvæði  og orti m.a. mikið af erfiljóðum. Er Sigríður dáinn fyrir mörgum árum.

Í kunningjahóp mínum var einu sinni rætt um ljóðagerð fram og aftur, og varð þá einum þeirra, Óskari Sigurhanssyni  járnsmiðameistara að orði. :

- Það er undarlegt með hann Árna á Háeyri, að hann er steinhættur að geta ort eftir að hún Sigga Gróa dó.

 

 Saga 54.

Magnús Thorberg, póstafgreiðslumaður komst svo að orði um konu sem hann var að lýsa:

Hún er svo útskeif, að maður veit ekki hvort hún er að koma eða fara.

 

 Saga 81.

- Svona skal það alltaf vera, að þegar ein báran er vís, þá er önnur stök, varð bifreiðarstjóra einum að orði, þegar hvert óhappið af öðru henti hann á stuttri leið.

 

Látum þetta duga að sinni úr sögusafni Árna úr eyjum

Kær kveðja SÞS


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurlaugur Þorsteinsson

Sæll Sigmar.

Mér varð nú á að glotta svona í laumi þegar ég las sögu no 18,Afi var nú ekki þekktur fyrir að gefa sitt eftir baráttulaust og ég sé fyrir mér svipinn á honum þegar hann las skjalið.

Ég fékk afa með mér eitt sinn að innheima laun sem ég átti inni hjá HB og Palla var tregt að greiða,gamli kvað fast að orðum við launagreiðandann sem greiddi strax og heldur meira en minna og á leiðinni út í Rússajeppann klappaði afi mér á bakið og sagði glaðhlakkalega "við Hornamenn gefum ekki svona slánum eftir",hvað varðaði launin þá var þeim eytt nokkuð fljótt í Eyjabúð í kók og prins,vasahníf og fl sem 7-8 ára peyja var algjör nauðsyn.

Kv Laugi

Sigurlaugur Þorsteinsson, 18.11.2010 kl. 18:09

2 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Laugi og takk fyrir innlitið og skemmtilega athugasemd. Fyrirgefðu hvað ég svara seint, en ég hef verið  út á landi, var á Austfjörðum í gær og í dag þannig að ég hef haft lítin tíma til að blogga. Já það er virkilega gaman að lesa þessar sögur hans Árna úr Eyjum þó margar þeirra séu gamlar og maður þekki ekki alltaf það fólk sem sögurnar  snúast um.  'Eg kannast vel við þessar ferðir í Eyjabúð að kaupa vasahníf sem var merktur búðinni og auðvitað ískallt appelsín eða malt með prins pólo eða staur, meira segja stundum neftóbak.

Kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 19.11.2010 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband