Dagsönn saga af skógarhöggsmanni og skógarbirni

 

Einn uppáhalds kennarinn minn í barnaskóla sagði okkur krökkunum stundum  alveg stórkostlega skemmtilegar sögur sem allar voru dagsannar, hér kemur ein sem ég man vel eftir og kemur upp í hugann eftir lestur á frétt um ísbjörninn:  (Þeir sem eru að fást við ísbjörninn gætu kannski lært af henni).

Það var einu sinni skógarhöggsmaður á gangi í skógi í Kanada, hann gekk um skóginn í leit  að tré til að fella, hann finnur tré í miðjum skóginum og byrjar að höggva það með sinni stóru og beittu öxi. Þegar hann er  langt komin með að höggva sundur tréð heyrir hann mikið öskur fyrir aftan sig og finnur að jörðin nötrar undir fótum sér, hann lítur um öxl og sér risastórann skógarbjörn sem hafði líklega vaknað af vetrardvala við hávaðan.  Skógarhöggsmaðurinn sá strax að hann gat ekki flúið undan glorhungruðum birninum inni í miðjum skógi. Hann bjóst því til varnar og var tilbúinn að nota flugbeitta öxina á björninn. Þeir nálguðust nú hvern annan og drápseðlið skein úr augum bangsa. Allt í einu stökk hann að skógarhöggsmanninum lyfti upp hramminum og bjóst til að slá, en skógarhöggsmaðurinn reiddi upp öxina og ætlaði að höggva í miðja bringu björnsins, en ekki tókst betur til en svo að björninn sló með loppunni öxina úr hendi hans svo hún sást ekki meir.  Nú var Skógarhöggsmaðurinn í slæmum málum, hann var vopnlaus á móti dýrinu sem ætlaði að drepa hann og éta.    Björninn nálgaðist nú manninn aftur hægt og hægt, hann vissi að hann gæti ekki flúið, en skógarhöggsmaðurinn var ekki tilbúinn að gefast upp enda var hann búin að ákveða hvernig hann gæti snúið á björninn  því um líf eða dauða var að tefla.
Nú var bara 2 metrar á milli þeirra og björninn orðinn óþolinmóður, hann ræðst að manninum og ætlar að slá hann með hramminum, en skógarhöggsmaðurinn var eldsnöggur og hleypur aftur fyrir björninn stingur hendinni inn í afturendann á honum og upp í háls grípur í tunguna á honum og togar í um leið og hann spyrnir í rassgatið á honum, þannig togar hann í tunguna með heljarafli þangað til hann er búinn að snúa bangsa á rönguna.

Kennarinn þagnar grafalvarlegur, krakkarnir horfa á hann og bíða eftir endinum, eftir drykklanga þögn fer  kennarinn að skellihlæja og segir: Sagan er búinn.


Bloggfærslur 16. júní 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband