31.12.2009 | 13:42
Minnig um mann Steina á Múla
Bergsteinn Jónasson frá Múla Bergsteinn Jónasson var fæddur í Vestmannaeyjum 17. desember 1912 sonur hjónanna Kristinar Jónsson og Jónasar jónssonar útgerðarmanns. Hann var tvíburi en bróðir hans lést í spönsku veikinni 1918.
Steini á Múla eins og hann var alltaf kallaður var einn af máttarstólpum Vestmannaeyjabæjar um árabil. Hann var verkstjóri og hafnarvörður í samtals 37 ár eða frá 1938 til 1975. Undir hans handleiðslu voru bæði Nausthamarsbryggja og Friðarhöfn þiljaðar auk margra annara verkefna sem á þessum árum voru unnin við Vestmannaeyjahöfn.
Mikil umsvif voru í höfninni á þessum árum, þar sem yfir hundrað bátar voru og koma þurfti þeim fyrir við bryggjurnar. Það þurfti mikla útsjónarsemi og stjórnunarhæfileika til að koma öllum þessum bátum fyrir, og hafði hann einstaka hæfileika til að fá menn til að vinna með sér. Það var oft ekki mikill svefn eða hvíld sem hafnaverðirnir fengu á þessum árum, sérstaklega á vetrum þegar veður voru slæm og mikil hreyfing í höfninni.
Við eyjapeyar sem höfðum allt hafnarsvæðið sem leiksvæði og síðar þegar við byrjuðum okkar sjómennsku og bryggjur og bátar voru m.a. okkar vinnustaður, munum örugglega allir eftir hafnarverðinum Steina á Múla. Í minningunni var hann ljúfur og góður við okkur peyana þegar við vorum að þvælast niður á bryggju þar sem við vorum að bíða eftir að bátarnir kæmu að eða við vorum að veiða murta oftast á Básaskersbryggju. Við munum hann einnig sem góðan yfirhafnarvörð sem gaf sig allann í það starf sem eftirfarandi staðfestir.
Í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja frá árinu 1967 er grein er nefnist:
SNARRÆÐI BJÖRGUNARAFREK BERGSTEINS JÓNASSONAR HAFNARVARÐAR
Þar segir m.a: Á undarförnum árum hafa oft orðið hörmuleg slys hér í Vestmannaeyjahöfn. Er þessi slysahætta kannski ekki óeðlileg meðal 700 800 manna , sem þurfa að fara á milli báta í myrkri og misjöfnu veðri, eins og var þegar flest skip lágu í höfninni í vetur, 75 skip, flest yfir 200 tonn.
Sem betur fer hefur ekkert slys orðið í höfninni frá síðasta sjómannadegi. Að svo gæfulega hefur tekist til , eigum við fyrst og fremst að þakka hinum ágæta hafnaverði okkar Bergsteini Jónassyni frá Múla. Sýndi hann mikið snarræði og æðruleysi s.l. vertíð þegar maður féll milli skips og bryggju inni í Friðarhöfn.
Lét Bergsteinn sig umsvifalaust siga niður á milli skips og bryggju, og héldu tveir menn um fætur honum. Náði Bergsteinn í axlirnar á manninum, og voru þeir síðan dregnir upp.
Þar eð talsverð hreyfing var við bryggjuna, var þetta að sjálfsögðu mjög hættulegt, ef þunglestað skipið hefði lagst að bryggjunni, meðan Bergsteinn var að ná manninum. Var þetta því mjög vasklega gert, og hefur Bergsteinn sýnt mikið snarræði og kjark.
Að verðleikum mun hann því verða heiðraður nú á sjómannadaginn fyrir þetta afrek. Störf Bergsteins hafa verið mjög samtvinnuð lífi sjómanna, því hann hefur verið fastráðinn hafnarvörður frá 1938 eða í rúman aldarfjórðung.
Þó þarna sé sagt frá einu atviki sem Steini á Múla kom við sögu að bjarga manni úr Vestmannaeyjahöfn voru þeir örugglega miklu fleiri og nokkrum peyum hefur hann bjargað sem dottið hafa í sjóinn gegnum tíðina.
Ég man eftir viðtali við Steina á Múla í einu Bæjarblaðinu fyrir margt löngu þar sem hann var spurður um það hvort hann hafi ekki gegnum tíðina bjargað nokkrum strákum upp úr höfninni ? hann svaraði því til að hann hafi kippt þeim nokkrum upp úr sjónum.
Bergsteinn var stofnandi Starfsmannafélags Vestmannaeyja og heiðursfélagi þess félags.
Hann var einnig félagi í AKÓGES þar til hann flutti frá Eyjum í gosinu 1973.
Steini á Múla var mikill baráttumaður. Hann gekk ungur í Íþróttafélagið Þór og var í tugi ára í forustusveit þess og var heiðursfélagi Þórs.
Hann var og heiðursfélagi Björgunarfélags Vestmannaeyja. Einnig var hann í Slökkviliði Vestmannaeyja árum saman. Þá má nefna hér að hann var í forustusveit Sjálfstæðisflokksins til fjölda ára, og til gamans má nefna hér að Steini hafði stundum það orðatiltæki þegar rætt var um hin ýmsu mál " það breytir ekki heimspólitikinni þó þetta sé svona".
Sigurður Óskarsson mágur minn þekkti Steina á Múla vel og vann með honum við höfnina um tíma, hann sagði um Steina að hann hefði verið mesti verkstjóri sem hann hefði unnið með um dagana.
Bergsteinn kvæntist Sveu Marí Norman árið 1938, þau eignuðust fjögur börn, Kjartan Þór, f. 1938, Margréti Höllu, f. 1941, Jónas Kristinn, f. 1948 og Vilborgu Bettý, f. 1950, einnig ólu þau upp sonardótturina Kristínu Kjartansdóttir.
Þann 23. janúar 1973 þegar fór að gjósa í Vestmannaeyjum og allir flúðu til lands fluttu Svea og Bergsteinn í Kópavoginn. Hann vann þó í gosinu við sitt starf við höfnina alveg til ársins 1975 en þá hóf hann störf hjá Skeljungi í Skerjafirði og gegndi því starfi til 1987.
Bergsteinn lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 2. júlí 1996.
Kær veðja SÞS
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.