Frábær prédikun Jónu Hrannar Bolladóttur

'Eg hvet alla til að lesa þessa frétt um Prédikun Jónu Hrannar um sjóslys sem varð 16. desember sl. þessi frásögn ætti að fá menn til að hugsa meira um öryggismál okkar sjómanna. Jóna Hrönn, Bjarni  og Ívar Smári eiga heiður skilið að leyfa okkur að vita hvað þarna gerðist nákvæmlega, nú á tímum þegar búið er að loka fyrir upplýsingar um sjóslys nema fyrir þá sem vinna að rannsókn þessara slysa.

Kær kveðja SÞS

Fiskibáturinn maraði í hálfu kafi þegar dráttarbátur tók hann í tog. Landhelgisgæslan

Innlent | mbl.is | 26.12.2009 | 16:26

„Þá skaltu líka lifa“

  „Stundum er lífið sjálft stærra í sniðum en nokkurn hefði órað fyrir og mannleg örlög svo þrungin merkingu að maður gerir rétt í því að staldra við,“ sagði Jóna Hrönn Bolladóttir prestur í Garðasókn áður en hún lýsti í prédikun sinni á Aðfangadag lífsbjörg manns þegar fimmtán tonna bát hvolfdi út af Vattarnesi við Fáskrúðsfjörð.

Slysið varð miðvikudaginn 16. desember sl. og voru tveir menn um borð, Guðmundur Sesar Magnússon og tengdasonur hans, Ívar Smári Guðmundsson. Guðmundur Sesar lést í slysinu. Eiginmaður Jónu Hrannar, Bjarni Karlsson, þjónar fjölskyldunni og  fékk hún leyfi ástvinanna til að greina frá atburðarásinni sem tengist slysinu.

„Er bátnum hvolfdi fossaði sjór inn í stýrishúsið og náðu þeir Sesar og Ívar að komast niður í vélarrúmið sem nú snéri upp og finna þar súrefni til að anda að sér á meðan þeir gætu náð áttum í ísköldum sjó og þreifandi myrkri. Þeir fundu hvor annan og ræddu saman í þögninni sem skollið hafði á um leið og vélin drap á sér þar sem báturinn marraði í kafi á ókyrrum haffletinum,“ sagði Jóna Hrönn.

Jóna segir mennina hafa leitað útleiðar í svarta myrkri og olíumenguðum sjó án árangurs. Þegar vatnsborðið hækkaði og náði þeim undir höku héldu þeir uppgefnir hvor í annan og báðu saman.

„Þar sem þeir héldu hvor í annars hægri hönd með olíubrákað sjóvatnið undir höku en með þeirri vinstri héldu þeir við hnakkann hvor á öðrum. „Og ég sem hlakkaði til að eiga fyrstu jólin með syni mínum og konunni.” mælti Ívar. Þá horfði Sesar inn í augu hans í myrkrinu og sagði: „Þá skaltu líka lifa! Þú getur komist niður gatið, inn í stýrishúsið og út!” Við svo búið setti hann hönd ofan á hvirfil tengdasonar síns og ýtti honum af afli niður í átt að útgönguleiðinni.“

Sending sem bjargaði lífi

Ívari tókst að komast út og upp á kjöl bátsins. Staða hans var þó ekki mikið betri þar sem svo kalt var í veðri og hann líklegur til að krókna úr kulda. 

„Þá hrópaði hann á Guð og spurði hann hvað hann meinti með þessu, og fyrir hvað hann væri þá að refsa sér með því að leyfa honum að komast þetta langt en deyja svo?! Er hann þá skimaði niður að glugganum til að sjá hvort tengdafaðir hans kæmi svo hann gæti tekið í hönd hans kom eitthvað skyndilega á mikill ferð út um gluggann upp úr sjónum og rakleitt í fangið á Ívari svo að honum brá við og hugðist varpa því frá sér uns hann gerði sér grein fyrir því að hann hélt á björgunargalla, sterkri og skjólgóðri flík sem nota skal við aðstæður sem þessar. Veit hann engar hefðbundnar skýringar á þeirri sendingu.“

Ívar klæddi sig í kjölfarið í gallann, losaði björgunarbát og komst þar um borð til að senda frá sér merki með blysum og neyðarbauju. Ívari var bjargað um borð í fiskibát þremur og hálfum tíma síðar. Lík Sesars fannst í vélarrúmi bátsins þegar hann var dreginn til hafnar í Fáskrúðsfirði.

Prédikun Jónu Hrannar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Sigmar minn

Ég grét þegar ég las þennan pistil. Að við skyldum fá að vera vitni af því sem gerðist er stórkostlegt. Margir hafa verið í þeirra sporum, beðið til Guðs almáttugs og drukknað og fengið að fara heim til Jesú en enginn til frásagnar. Eftir bænina gerðist kraftaverk að tengdasonurinn komst til baka með hjálp tengdaföður síns og fær að vera hjá konu sinni og barninu sínu sem er dóttir og barnabarn þess sem drukknaði. Nú er tengdafaðirinn konungsins barn og er heima hjá Jesú. Guð blessi minningu hans.

Megi almáttugur Guð vera með fjölskyldunni sem syrgir góðan mann.

Guð blessi þig

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 26.12.2009 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband