6.12.2009 | 23:54
Frábær grein eftir Valmund Valmundsson
Grein um sjómannaafslátt eftir Valmund Valmundarson formann Sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum, fyrirsögn hennar er Nýjustu fréttir af Sjómannaafslætti. Ég tek mér það bessaleyfi að birta greinina hér á blogginu mínu:
Í greinargerð fjármálaráðuneytis með hinu nýja frumvarpi um sjómannaafsláttinn, segir:
,,Sjómannaafsláttur hefur lengi verið umdeildur og gagnrýni á hann hefur aukist á undanförnum árum af ýmsum ástæðum''.
Ég mótmæli þessu harðlega og held því reyndar fram að þessi ,,gagnrýni'' komi úr einni átt og frá mjög fámennum hópi. Þessi hópur heldur til í 101 hverfinu í Reykjavík og þar í kring. Þetta er yfirleitt menntafólk, prófessorar, fólk með doktorsnafnbætur og frjálshyggjupostular af vettvangi stjórnmálanna.
Hvað sjómenn hafa gert þessu fólki er mér óskiljanlegt. Ef þú býrð úti á landi þá heyrir þú ekki þessa gagnrýni. Þar veit fólk að sjómennirnir eru þeir sem vinna hættulegasta starfið og eru langdvölum að heiman við að afla fjölskyldunni og þjóðfélaginu tekna. Bara það að vera langdvölum fjarri fjölskyldu og vinum, réttlætir afslátt á skatti sjómanna. Almannaþjónusta við sjómenn er snöggtum minni en við aðra þjóðfélagsþegna og eru þetta næg rök að mínu mati fyrir afslættinum.
Öll umræða um að sjómenn ættu bara að finna sér aðra vinnu ef þeir eru ósáttir með afnám afsláttarins, er húmbúkk og lýsir best rökleysu og vanþekkingu þeirra sem frá segja.
Í nágrannalöndum okkar er starf sjómannsins metið að verðleikum. Í Noregi var sjámannaafsláttur hækkaður með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2010. Hann er nú 150.000 nkr. Þ.e. sjómenn í Noregi borga ekki skatt af fyrstu 150.000 nkr. sem eru 3,2 milljónir íslenskra króna.
Í Danmörku er afslátturinn 190 dkr (4560 íkr) fyrir hvern dag og að hámarki 41.800 dkr á ári.(1.1 milljón ís kr)
Færeyskir fiskimenn mega hafa 75.000 dkr (1.8 millj. ískr) skattfrjálsar.
Svíar láta sínum fiskimönnum í té 640.000 ís.kr á ári í skattafslátt.
Af þessari upptalningu sést að íslenskir sjómenn eru langt á eftir nágrönnum okkar í þessum málum og hafi stjórnvöld skömm fyrir. Allt tal um að þetta samrýmist ekki stjórnarskránni og reglum EES er kjaftæði þeirra sem sjá íslenska sjómenn sem einhverja forréttindastétt.
Hvað með dagpeninga, staðaruppbót, bifreiðastyrk, ferðakostnað og fleira sem sumir fá ofaná laun sín og allt skattfrjálst. Eigum við ekki að byrja á því, þar er kostnaðurinn líklega 23 milljarðar árið 2008 bara hjá ríkinu.
Valmundur Valmundsson fórmaður Sjómannafélagsins Jótuns
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.