25.10.2009 | 21:32
Halkíon VE 205 hefur bjargað
Þetta efni er að mestu tekið úr Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1963
Halkíon hefur bjargað 24 mönnum úr sjávarháska.
Það má einstakt heita, að vélbáturinn Halkíon hefur , þótt hann sé yngsta skipið í Vestmannaeyjahöfn, þegar borið gæfu til að hrífa ekki færri en 24 menn beint úr dauðans greipum.( Halkion kom nýr til Eyja 1960)
Er þá fyrst að minnast að þegar vélbáturinn Blátindur frá Keflavik ( fyrrum Eyjabátur) var vélbilaður í ofviðri sunnan við Færeyjar í fyrra, bjargarlaus, þá fann Halkíon hann og dró hann til hafnar,
Næst er þess að geta, sem enn er í fersku minni, að þegar vélbáturinn Bergur VE ferst vestur við Snæfellsnes á síðasta hausti, bjargaði Halkíon allri áhöfninni og var það einstök gæfa, að þar varð ekki manntjón.
Og enn hefur þeim Halkíon mönnum tekist svo giftusamlega, sem raun er á.
Þann 22 mars 1963 bjargaði Halkíon og áhöfn hans 8 mönnum af Erlingi IV en þeir höfðu komist í Gúmmíbjörgunarbát eftir að Erlingur VE 45 fórst. Tveir menn fórust með bátnum.
Það er staðreynd að sumum skipum fylgir gæfa og það er örugglega hægt að segja um Halkíon VE 205 en ekki síður er það gæfa sem fylgir áhöfn og þeim mönnum sem stjórna þessum skipum. Skipstjóri á Halkíon er Stefán Stefánsson og hefur hann verið sérstakur gæfumaður í sinni formannstíð.
Athugasemdir
Sæll Simmi.
Þakka þér fyrir frábæra síðu, gaman að rifja upp gamla atburði og skoða gamlar myndir frá þér. Man vel eftir þesum björgunum Halkionsmanna, mikil gæfa.
Kv til Kollu á Hvassó
Leifur í gerði
Leifur Gunnarsson (IP-tala skráð) 30.10.2009 kl. 08:41
Heill og sæll Leifur, og takk fyrir innlitið og góð orð um siðuna mína. Ég man líka vel eftir þessum björgunum og umræðum sem urðu um þessi slys. það er nauðsynlegt að halda minningu þessara björgunarafreka á lofti. Ég hef bæði lesið um þessi slys og rætt við menn sem voru á þessum skipum sem sukku og þeir hafa sagt mér að það hafi verið algjört kraftaverk að þeim hafi verið bjargað.
Búin að skila kveðjuni og við biðjum að heilsa ykkur.
kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 30.10.2009 kl. 18:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.