5.10.2009 | 23:34
Sórhöfði í Vestmannaeyjum
Myndin er af Stórhöfða í sumarbúning, en það er ekki alltaf blíða á Stórhöfða.
Vinur minn Heiðar Kristinsson á Ísafirði sendi mér þetta ljóð um Stórhöfða, hann límdi það inn í gamla góða bók sem hann gaf mér. Verkleg sjóvinna I og II
Á stórhöfða.
Í kvöldsins friði á höfðanum háa
ég hrifin stóð;
Við hamarsins rætur ég heyrði duna
hafsins blóð.
Ölduniður að eyrum mínum
þess æðarslög
bergmála lætur - í sál mína seitla
seiðandi lög.
Ég kom til að heyra sjóinn syngja
seiðandi hreim
ævintýri frá öðrum löndum
um ókunnan heim;
Kóraleyjum og kristalströndum
með kynjablæ
geislandi sólar, er glitrar og speglast
í gimsteinasæ.
Ég kom til að heyra sjóinn syngja
í sál mína inn
um dánar vonir, sem faldur þess felur
við faðminn sinn,
síðustu kveðjur sem sendar eru
sorgbitnum vin,
er einmanna á ströndinni hljóður hlustar
á hafsins dyn.
Ég kom til að heyra sjóinn syngja
sama lag
og dunar innst í djúpi míns hjarta
í duldum brag:
Sælu blandaða þögulli þjáning,
er þráir frið,
líkt og aldan , sem byltist og brotnar
bjargið við.
Höfundur Bjarni Eyjólfsson
Athugasemdir
Takk fyrir þetta fallega ljóð og myndirnar þínar.
margrét júlíusdóttir (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 12:57
Heil og sæl Margrét og þakka þér innlitið og athugasemdir.
kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 7.10.2009 kl. 22:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.