15.8.2009 | 18:07
Löndun við Básaskersbryggju í Vestmannaeyjum
Þetta var algeng sjón í þá gömlu góðu daga. Notaður var svokallaður stingur eða bara handaflið til að henda fiskinum fyrst upp úr lestinni á bátnum þaðan upp á bryggju og að síðustu upp á bíl.
Þarna virðist bóman eingöngu vera notuð til að geta sett upp segl sem á myndinni sést rifað saman fyrir ofan bómuna. Líklega er þessi bátur á línu þar sem línustampar úr tré eru þarna á bryggjunni aftan vil bátinn.
Ekki veit ég hvaða bátur þetta er en hann hefur fengið góðan afla af stórum og fallegum fiski.
Kær kveðja SÞS
Athugasemdir
Sæll Simmi
Góð mynd frá liðnum tíma - Það hefur verið meiri kleppurinn að landa þessu.
Kjartan Ásmundsson (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 23:20
Sæll vertu Simmi minn!Eg held að þetta sé Gissur Hvíti Ve 5 þú ert með mynd af honum í myndaalbúninu þínu,, ef þú súmmar línudallana upp þá sést Ve 5 á þeim kv
þs (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 23:32
Sæll félagi! Kjartan vinur okkar kallar þetta klepp. Og ekki geri ég lítið úr þeim orðum. En er það ekki rétt munað hjá mér af fyrir þann tíma sem þessi mynd er sennilega tekin þá lágu bátarnir við ból ?. Svo var fiskinum hent upp á dekk svo niður í skjektu henni róðið að bryggju. Síðan úr henni upp á bryggju o.sv.fr. Bjóðin tekin og sett í land úr þessum skjektum líka. Þvílíkur þrældómur sem þetta hefur verið. Enda sá maður margan eldri mannin kengboginn í baki af þrældómi fyrst er ég kom til Eyja. Kært kvaddur
Ólafur Ragnarsson, 16.8.2009 kl. 13:46
Heilir og sælir Kjartan ,Þórarinn og Óli og takk fyrir innlitið. já það hefur ekki verið létt verk að vera á sjó á þessum bátum í þá gömlu góðu daga. Ég held að þetta sé rétt hjá þér Þórarinn að þetta er Gissur Hvíti VE 5, ég hafði ekki stækkað myndina svona upp, en það sést greinilega VE 5 á línubölunm þegar maður stækkar myndina.
Óli ég er nú ekki alveg klár á þessu með að ferja fiskinn í land á skjektu, þó held ég að það sé rétt hjá þér, ég hef lesið um að menn fóru með línubalana á róðrabátum um borð þegar átti að fara á sjó. Það var ekki bara erfitt heldur líka hættulegt. En það komu nú fljótlega bryggjustúfar sem þessir minni vélbátar gátu lagst að. Þetta má lesa um í þeim frábæru bókum Ægisdyr I og II. eftir Harald Guðnason heitinn.
kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 16.8.2009 kl. 21:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.