23.7.2009 | 23:03
Nótt í Paradís eftir Hafstein Stefánsson
Um tilurð þess skrifar Hafsteinn m.a. eftirfarandi: Ég átti því láni að fagna að koma einu sinni síðla kvölds að sumarlagi ú í Bjarnarey, og varð ég svo heillaður af umhverfinu, að mér fannst sem aldingarðurinn Eden hefði alveg eins getað verið þar. Því heitir kvæðið Nótt í Paradís.
Nótt í Paradís
Að svörtum kletti lagði lítið fley
í logni og kyrrð á björtu júlíkveldi.
Viðmótsfögur brosti Bjarnarey
böðuð litadýrð í sólareldi.
Hér greinir augað alla heimsins dýrð
andinn þiggur kraft í friði nætur.
Og björgin eru í döggaf Drottni skýrð,
hver döpur vera óðast huggast lætur.
Húsbóndinn er enn í önnum hér,
áhyggjur og syndir finnast hvergi.
Nú sé ég hvernig guð um garðinn fer
og geislafingur þreifa á dökku bergi.
Hið dásamlega Drottins ævintýr
dylst hér ekki vegfaranda neinum.
Ástin heit í hverju blómi býr
og börnin sofa rótt í votum hleinum.
Hér þylur lífið þúsund radda brag
og þíður blærinn kyssir hamraveggi.
Undurfagurt nóttin leikur lag,
er lítill hnoðri gægist fyrst úr eggi.
Í ljúfri bæn ég bið þér Bjarnarey
blessunar, þá akkerum ég létti.
Þegar dagar leggur lítið fley
á lífsins haf, í burt frá dökkum kletti.
Hafsteinn Stefánsson
Athugasemdir
Afar hugþekkt ljóð og rennur ljúft fram.
Árni Gunnarsson, 23.7.2009 kl. 23:42
Sæll vinur.
Fallegt ljóð um drottningu Atlandshafsins
Pétur Steingríms. (IP-tala skráð) 26.7.2009 kl. 11:28
Heilir og sælir Árni og Pétur, já Hafsteinn Stefánsson var frábær að gera falleg kvæði, mörg af þeim fjalla um sjómennskuna og það sem henni fylgir og um Eyjarnar eins og kvæðið um Bjarnarey drottningu Atlandshafsins .
Þakka ykkur innlitið
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 26.7.2009 kl. 20:26
Já hann föðurbróðir minn var ágætt skáld. "Hún er demantur drottins í sænum,hún er djásnið í möttlinum hans" Hending úr kvæðinu Heimaey.
Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 26.7.2009 kl. 20:46
Sæll vertu Simmi minn.. Þetta ljóð Hafsteins er mjög gott,en ég held að ef hann hefði lent í Elliðaey þá hefðum við séð góðann kveðskap.kv
þs (IP-tala skráð) 26.7.2009 kl. 23:24
Heil og sæl frænka, já Hafsteinn var frábært skáld og skemmtilegur maður sem hafði gaman að segja sögur eins og reyndar Pétur pabbi þinn. Hann kunni mikið af sögum um skemmtilega og svolítið sérstaka menn sem hann hafði kynnst, ég fékk að heyra nokkrar þeirra þegar við hittumst einu sinni í gosinu. Halla þú hefur fengið þessa hæfileika til að skrifa úr föðurætt, þannig að það er skemmtilegt að lesa textann þinn. Gerði Pétur aldrei vísur ?.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 27.7.2009 kl. 17:59
Heill og sæll Þórarinn, ég held að þetta sé alveg hárrétt hjá þér að ef Hafsteinn hefði lent í Elliðaey þá hefði ljóðið orðið jafngott. Það er hlítur að vera gaman að geta sett saman slikan kveðskap.
takk fyrir innlitið.
kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 27.7.2009 kl. 18:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.