22.7.2009 | 23:11
Minning um mann.
Þórður Matthías Jóhannesson F. 10.feb. 1907 - D. 13. okt. 1994.
Þórður M. Jóhannesson var frá Neðri- Lág í Eyrarsveit. Við sjómenn þekktum hann sem trúboða sem setti á hverju ári í skipin okkar blaðið ,,Vinur Sjómannsins" og mörg önnur kristileg rit, einnig gaf hann og dreifði Biblíum í skip.
Ég kynntist Þórði þegar ég var stýrimaður á Herjólfi, en hann ferðaðist með skipinu þegar hann kom í sínar trúboðsferðir til Vestmannaeyja. Hann skildi þá eftir kristileg rit um borð í skipinu bæði fyrir farþega og áhöfn. Hann stoppaði oftast nokkra daga í Eyjum og notaði tímann til að dreifa þessu kristilega efni um borð í alla báta sem voru í Vestmannaeyjahöfn. Hann heimsótti mig oft á heimili mitt þegar hann var í Vestmannaeyjum og var gaman að spjalla við hann um áhugamál hans sem voru aðalega trúmál og líknarmál. Hann vann mikið að líknarmálum ekki einungis hér á landi heldur styrkti hann bæði börn og fjölskyldur á Indlandi. Ég heimsótti Þórð nokkrum sinnum á Fálkagötu 10 þar sem Kristilegt sjómannastarf var til húsa. Þá skiptumst við á blöðum ég fékk Vin sjómannsins en hann Sjómannadagsblöð Vestmannaeyja.
Síðast hitti ég Þórð Matthías fyrir framan hús Slippfélagsins í Reykjavík í júní 1994. Hann var þá á leið niður á bryggju, leiddi hjólið sitt og hafði gömlu snjáðu handtöskuna sína, fulla af kristilegu efni, á stýrinu. Hann sagði um leið og við hittumst að nú hefði Guð leitt okkur saman. Kannski var það rétt því þetta var í síðasta sinn sem ég sá þennan heiðursmann. Hann andaðist á Landspítalanum 13. október 1994.
Blessuð sé minning þessa góða manns sem helgaði líf sitt kristilegu sjómannatrúboði og þjónustu við þá sem minna mega sín.
Kær kveðja SÞS
Athugasemdir
Hafðu sæll minnst Þórðar M. Jóhannessonar, sjómannatrúboða.
Ég sá hann síðast í ágústmánuði 1994.
Það varð allminnisstætt því þó menn sæju ekki að það gengi saman við tímaáætlun þá var í flýti ákveðin upptaka með spilverki og söng Þórðar og hló hann góðlátlega yfir öllu því óðagoti sem einkenndi þessa
stuttu stund.
Sú stund er enn vel varðveitt og trúlega verið kvik hans hins um bláar nótur og hvítar sem og söngur sem minnti um flest á Öldu aldanna Einars Jónssonar, þar sem kynslóðir koma og fara, rísa og hníga sem brimalda úthafsins.
Húsari. (IP-tala skráð) 25.7.2009 kl. 19:13
kvik hans hins les: kvik hans hinst
Húsari. (IP-tala skráð) 26.7.2009 kl. 02:17
Heill og sæll Húsari og takk fyir innlitið, Hvar er þessi upptaka geymd ?
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 26.7.2009 kl. 16:19
Heill og sæll, Sigmar.
Undirritaður hefur þetta að láni um stutta stund
og selur við jafn dýru verði og Þórður seldi rit sín!
Ef það er ósk þín að fá þetta sent þá er það velkomið
og gerist þá við fyrstu hentugleika, -
innan þriggja mánaða.
Húsari. (IP-tala skráð) 27.7.2009 kl. 09:48
Heill og sæll Húsari, ég hefði haft gaman af að hlusta á þetta.
kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 27.7.2009 kl. 15:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.