Þetta er undarleg frétt á Mbl hér fyrir neðan, talað er um hátíð hafsins, ekki orð um það að þetta er SJÓMANNADAGURINN og ekkert annað, það er með ólíkindum að sjómannasamtökin skuli samþykkja þessa breytingu á nafni Sjómannadagssin og sýnir það svart á hvítu hvað Sjómannadagráð er gjörsamlega slitið úr tengslum við sjómennina sjálfa.
Sjómannadagurinn er hátíðisdagur Sjómanna og haldin þeim til heiðurs, eftirfarandi er m.a. tilefni dagsins:
2. grein
a) Sjómannadagsráð hefur með höndum hátíðahöld Sjómannadagsins ár hvert í samræmi við stofnskrá um Sjómannadag frá 1937 og lög um Sjómannadag, nr. 20, 26.mars 1987.
Við tilhögun Sjómannadags skulu m.a. eftirfarandi markmið höfð að leiðarljósi: ,,
- Að stuðla að því að Sjómannadagurinn skipi verðugan sess í íslensku þjóðlífi.
- Að efla samhug meðal sjómanna, hinna ýmsu starfsgreina sjómannastéttarinnar og stuðla að nánu samstarfi þeirra.
- Að heiðra minningu látinna sjómanna, þá sérstaklega þeirra sem láta líf sitt vegna slysfara í starfi.
- Að heiðra fyrir björgun mannslífa og farsæl félags- og sjómannsstörf.
- Að kynna þjóðinni áhættusöm störf sjómanna og mikilvægi starfanna í þágu þjóðfélagsins .
Það er hvergi í lögum um SJÓMANNADAGINN talað um að það eigi að gera hann að hátíð fyrir hafið, eða breyta nafni hans. Í lögum heitir hann SJÓMANNADAGUR og þannig á það að vera.
Það er alveg eins hægt að kalla Jólin HÁTÍÐ verslunarmanna og Konudaginn Hátíð blómasala.
Ég skora á alla sjómenn að mótmæla þessu orðskrípi sem búið er að troða á SJÓMANNADAGINN.
Frétt MBL:
Tónverk fyrir þokulúðra
![Senda frétt](http://mbl.is/frettir/img/senda_frett.gif)
Hátíð hafsins verður haldin hátíðlega um næstu helgi í Reykjavík og í ár verður hún með nýju sniði. Grandagarðinum verður lokað fyrir almennri bílaumferð frá föstudagskvöldi fram á sunnudagskvöld og þar verður hátíðarsvæðið að þessu sinni.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá skipuleggendum verður komið fyrir tjöldum, leiktækjum og hljómsveitarpöllum á svæðinu en áætlað er að fluttir verði tilkomumiklir tónleikar þar sem leikið verður nýtt tónverk á þokulúðra þeirra skipa sem í höfninni verða.
Áætlað er að á annan tug skipa taki þátt í tónleikunum sem stýrt er í gegnum talstöð af Kjartani Ólafssyni prófessor í tónsmíðum.
Flutningurinn hefst klukkan 13 á laugardeginum og mun væntanlega heyrast víða.
Athugasemdir
Heill og sæll Sigmar.
Vér mótmælum Hátíð hafsins. Sjómannadagurinn lengi lifi.
Kv. Ómar.
Ómar Kristmannsson (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 22:19
Heill og sæll Ómar, já loksins kom einhver athugasemd undir þessa bloggfærslu mína, takk fyrir það. Furðulegt að sjómenn skuli sætta sig við það að Sjómannadeginum skuli vera stolið frá sjómönnum með samþykki fulltrúa þeirra.
Þakka þér innlitið kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 6.6.2009 kl. 11:53
Sæll Sigmar.
Ég er nú einn af þeim sem hef áhyggjur af því að Sjómannadagurinn hefur mun minna vægi í dag en áður. Það er ekki bara hér sunnanlands heldur um allt land sem þessi þróun á sér stað. Sjómenn eru mun færri en nokkru sinni. Skilst að sjómenn við Íslandsstrendur séu í dag á milli 4-5000 og fækkað um nálægt helming á ríflega áratug.
Ég velti einnig fyrir mér hvort tímasetning sjómannadagsins sé góð í dag. Í gamla daga var þetta pása, þegar vertíð var búinn og ekki var búið að gera bátana klara til fara á síld fyrir norðurlandi. Þannig var þessi tími millibilsástand fyrir útgerðir og sjómenn, og tilvalið til að halda hátíðlegt. Í dag eru breyttir tímar. Á Sjómannadaginn er oft kalt fyrir austan og norðan land á sjómannadaginn, sumarið varla komið og samfélagið almennt ekki komið í "sumarleyfisfíling". Ég hef því oft velt fyrir mér hvort það væri jafnvel betra að Sjómannadagurinn væri helgina á eftir verlunarmannahelgi. Þá væri sú vika hámark sumarsins og frí sjómanna væri hluti af því. Á þessum tíma eru líka frystitogarar inni í síðustu löndun fyrir nýtt kvóta ár. Auðvitað er viðkvæmt að færa svona daga en ég hef velt því fyrir mér hvort með þessu myndi sjómannadagurinn ekki betur viðhaldast sem sú hátíð sem okkar sjómenn okkar eiga skilið að hafa.
Gísli Gíslason, 15.6.2009 kl. 20:44
Sæll Simmi. Tek undir með þér af alhug hvað nafnið á deginum varðar. Ég þarf ekki að lýsa fyrir þér hug minn til þess, Og ég hef líka verið að velta fyrir mér sömu hlutum og Gísli hér að framan. Það er rétt hjá honum hvað olli tímasetningu dagsins í byrjun. Og hann bendir líka réttilega á hvað varðar síldveiðarnar og vorið. Það hlýtur að vera hægt að hnika þessu til en til þess þarf lagabreitingu. En er ekki orðið fátt um fína drætti hvað varða fulltrúa sjómanna á hinu svokallaða"háa Alþingi" Sért ávallt kært kvaddur
Ólafur Ragnarsson, 16.6.2009 kl. 21:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.