30.5.2009 | 16:04
Minning um Mann; Gunnar Marel Jónsson skipasmiður
![Gunnar M Gunnar M](/tn/300/users/0a/nafar/img/c_documents_and_settings_sigmar_or_my_documents_gunnar_m.jpg)
Gunnar Marel Jónsson F. 6. janúar 1891 - d. 7. maí 1979
Gunnar Marel góður Drengur
get ég ekki beðið lengur
með að yrkja um þig ljóð.
Gamla- Hrauns af sterkum stofni
stóð sem bjarg svo aldrei rofni
ættarbönd og áhrif góð.
Er þú fluttir út í Eyjar
að þér dáðust fagrar meyjar
fögnuðu þér fræknir menn.
Strax þú sóttir sjó af kappi
sjómenn fagna slíku happi
margir gleðjast af því en.
Útsjón þín til allra verka
aflaði þér virðing sterka
formaður með fleyin mörg.
Enda þótt þú ungur værir
allir voru vegir færir
færðir snemma í búið björg.
Útvegsmenn þér allir treystu
og á því sínar vonir reistu
að þú hæfir annað starf.
Að sjá um viðhald fiskiflota
þeim fannst það líkast töfrasprota,
frábær snilld þú fékkst í arf.
Þú varst frægur fyrir smíði,
fögur skip þín mikil prýði,
fiskiskip með fríðan svip.
Afköst þín svo undrun sætti
allan flotan stórum bætti,
smíðaðir frábær fiskiskip.
Hafðir marga hrausta drengi
sem hjá þér unnu vel og lengi
var í slippnum valið lið.
Voru og margar vökunætur
þó væri farið snemma á fætur
því verkin enga veittu bið.
Þú áttir báta auðnuríka
með afbragðsmanni þekktum líka
að forustu og fiskisæld.
Samtaka þið sífellt voru
segja frá því verkin stóru
sem munu tæpast verða mæld.
Af ýmsum mætum Eyjamönnum
er þitt starf í dagsins önnum,
metið meira en margra þar.
Orðstír þinn mun ávalt lifa
um þig mætti bækur skrifa
ævistarf þitt afrek þín.
Þetta ljóð um Gunnar Marel Jónsson skipasmið er eftir Benedikt Sæmundsson.
Athugasemdir
Þakka þér fyrir þetta frændi. Ég man svo vel eftir honum. Kvæðið segir allt sem segja þarf. Hann setti sinn sterka svip á bæinn okkar góða.
Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 16:09
Heill og sæll; Sigmar Þór - sem Eyverjar aðrir !
Þakka þér; fyrir að minnast þessa ágæta frænda míns.
Jón Guðmundsson (Þorkelssonar) á Gamla Hrauni, og Guðríður lang amma mín (móðir Sesselju Helgadóttur - móður Helga Vigfússonar, föður míns) voru systkini, frá hverjum er all mikið afkomenda - aldirnar um kring.
Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum (Borgfirzkum)
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 16:17
Gunnar Marel var höfðingi, Hafsteinn föðurbróðir minn , tengdasonur Gunnars og um árabil samstarfsmaður hans, var eitt sinn að lýsa mannkostum Gunnars og sagði frá því m.a. að Gunnar hefði yfirleitt tekið öllum vel, hvort sem það voru útgerðarmenn að biðja um að láta smíða skip, eða ungir drengir að biðja um spýtur til að nota í báta. Oft lánaði hann okkur krökkunum árabát til að fara " útá". Blessuð sé minning hans. Kveðja Björk.
björk pétursdóttir (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 18:42
Heil og sæl frænka, já þetta voru bæði duglegir og góðir kallar sem unnu í slippnum, það fengum við að reyna í gamla daga. Við eigum að halda á lofti minningum um menn eins og Gunnar Marel. Takk fyrir innlitið
kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 30.5.2009 kl. 18:54
Heil og sæl Björk frænka já ég tek undir þetta, Gunnari Marel er eftirminnilegur maður alltaf tilbúnir að hjálpa okkur peyunum. Í gamla daga Þegar við áttum leið í Dráttarbraut Vestmannaeyja sem við peyar kölluðum Gunnsaslipp, var Gunnar oft þar fyrir og vildi vita erindi okkar á smíðaverkstæðið: Hvað vantar ykkur greyin mín? Efni í boga eða sverð var oftast svarið. Hann leyfði okkur þá að gramsa í eikarafsaginu eða fann fyrir okkur efni sjálfur. Ef við fundum ekki efni sem hægt var að nota, sagaði hann til eik handa okkur eða bað einhvern skipasmiðinn að gera það. Þegar við höfðum fengið það sem við leituðum að vildi hann að við færum úr slippnum. Enda kannski ekki góður leikvöllur fyrir börn, innan um naglspítur og annað drasl, en slippurinn hafði samt mikið aðdráttarafl fyrir okkur peyana, og stundum fengum við árabátinn lánaðan með loforði um að fara ekki langt frá slippnum.
Takk fyrir innlitið frænkaKær veðjaSigmar Þór Sveinbjörnsson, 30.5.2009 kl. 19:01
Heill og sæll Óskar Helgi og þakka þér innlitið. Já þú talar um allmarga afkomendur. Í minningargrein um Gunnar Marel stendur eftirfarandi: ,,Hann var fæddur að Framnesi í Hraunhverfi, sonur hjónanna Jóns Guðmundssonar og Ingibjargar Jónsdóttur. Þau hjón eignuðust 17 börn og komust 16 þeirra til fullorðinsára. Ungur að aldri fór Gunnar í fóstur til frændfólks síns að Byggðarhorni í Flóa og dvaldist þar til 17 ára aldurs. Þá hóf hann sjómennsku. Gunnar kvæntist árið 1914 Sigurlaugu Pálsdóttir ættaðri frá Hvalsnesi og áttu þau lengst af heima í húsinu Brúnarhúsi, sem Gunnar byggði 1922, það hús stóð á horni Vestmannabrautar og Heimagötu og var oftast kallað hornið. Húsið fór undir hraun árið 1973." Það hefur örugglega verið erfitt líf hjá þessu fólki þegar Gunnar Marel var að alast upp.
Kær kveðja til þín 'Oskar Helgi og takk fyrir þína athugasemd
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 30.5.2009 kl. 20:36
Sæll Simmi
og takk fyrir þetta blogg um afa á Horninu ég bloggaði um hann og taldi fram nokkur minnigarleiftur um hann og ömmu Laugu,sem er nánar til tekið frá Nýja-Bæ á Hvalsnesi og af Víkinglækjar ætt,en afi af Hraunsætt sem er grein af Bergsætt,og Jón Guðmundsson varð að bregða búi um tíma vegna sýkingar í andliti út frá tönn og þar með dreifðust börn hans og langömmu í fóstur um sveitina og til rvk,þau tóku svo upp búskap að nýju og eignuðust fl börn sem ólust upp hjá þeim,(samk frásögn Guðna Magisters bróður afa,í bókinni Saga Hraunhverfis.)
Í mínum huga eru amma og afi á Horninu best allra þeirra sem ég hef þekkt og ekki líður dagur án þess að ég hugsi til þeirra.
v Laugi
ps hvar get ég fundið þetta ljóð um afa
Sigurlaugur Þorsteinsson, 1.6.2009 kl. 10:16
Heill og sæll Laugi já ég var búinn að lesa það á Blogginu þínu. Gott að eiga góðar minningar um ættingja og vini.
Ljóðið er í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja frá árinu 1995 á bls. 73 ásamt mynd af Gunnari Marel sitjandi á einum garðinum niðri í slipp eða Dráttarbraut Vestmannaeyja. Sjálfur var ég umsjónarmaður Sjómannadagsblaðs VM á þessum árum og fékk þá nokkur ljóð frá Benedikt Sæmundsyni um þekkta Vestmannaeyinga. Benedikt bjó þá á Akureyri og var háaldraður þegar hann gerði þessi ljóð. Ég gæti kannski átt aukablað ef ég leita vel.
kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 1.6.2009 kl. 13:37
Mikið væri ég þakklátu ef þú ættir eitt eintak af þessu blaði og værir til í að láta mér í té,ég er að sanka að mér fróðleik um fólkið mitt báðu megin frá,(ættli það liggi ekki í ættum eins og annað,að grúska í bókum).
Kv Laugi
Sigurlaugur Þorsteinsson, 1.6.2009 kl. 16:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.