Siggi Á Freyjunni. Minning um mann

Siggi á Freyjunni

Siggi á Freyjunni a

Sigurður Óli Sigurjónsson hét hann fullu nafni og var fæddur að Kirkjulandi í Vestmannaeyjum 24.janúar 1912 D. 16.júni 1981. Hann giftist Jóhönnu Kristínu Helgadóttir 9. október 1934, Sigurður var gæfusamur að eignast þá góðu konu sem lífsförunaut.

Hann var sjómaður eins og þeir gerast bestir skipsstjóri sem aflaði vel og var farsæll í starfi og aðgætinn og heppinn alla sína löngu formannsævi. Hann var skipstjóri og á þeim ferli með marga báta en lengst af var hann kendur við Freyju Ve 260  sem var mesta happa skip undir hans stjórn. Hans er líka minnst sem mikils lundaveiðimanns.  Ég man reyndar ekki eftir honum á öðrum bát en Freyju, þennan bát átti hann með Ágúst Matthíassyni sem oftast var kallaður Gústi Matt og var einn af eigendum Fiskiðjunnar í Vestmannaeyjum, seinna keypti Sigurður bátinn af Gústa. Fræg er vísan sem Ási í Bæ gerði um Sigga en hún er á þessa leið:

 

Siggi á Freyjunni siglir hratt

suður að Skeri með Gústa Matt.

Hérna er Gullið þitt Gústi minn

er girnist svo ákaft hugur þinn.

Siggi, Siggi á Freyju, hann er ekkert lamb í leik. 

 

 

Skýringar fylgdu hverri vísu Ása í Bæ:

,,Sigurður Sigurjónsson skipstjóri á Freyju VE 260. Hann hefur verið hér aflasæll formaður í yfir 30 ár. En sérgrein hans hafa alltaf þótt miðin ,,suður við Sker” , það er miðin í nánd við  Súlnasker og Geirfuglasker, Bankahryggir, Bankapollurinn og Stórahraunið”.

  

Í bók er nefnist FORMANNAVÍSUR eftir Óskar Kárason er vísa um Sigurð Sigurjónsson á Freyju:

 

Sigurður haf við hagur,

heppinn Sigurjóns greppur.

Freyju sá vart mun væja,

víðir þó stagönd hýði,

Siglir greitt rugg í rugli,

ryður þorsk-net í iðinn.

Hugmikill Baldur bauga

bundinn er veiði lunda.

 

Freyja 3

 

Mig langar að segja hér eina litla sögu af Sigga. Þannig var að ég var ásamt  fleirum kosinn í árshátíðarnefnd Skipstjóra og stýrimannafélagsins Verðanda mig minnir að þetta hafi verið árið 1971. Nefndin kom saman og þar var rætt hvað við gætum haft til skemmtunar. Kom þá einn nefndarmanna með þá hugmynd að fá Sigga á Freyjunni til að spila á sög. Ekki hafði ég hugmynd um það þá að Siggi kynni að spila á sög, en okkur þótti öllum þetta snjöll hugmynd og var ég beðin að tala við hann. Ég hafði strax samband við Sigga símleiðis og spurði hann hvort hann vildi spila fyrir okkur á sögina á árshátíðinni. Mér til mikillar ánæju tók hann strax vel í þetta en setti þau skilyrði að ég kæmi heim til hans og hlustaði á hann áður en hann spilaði á árshátíðinni þannig að við vissum hvað við værum að biðja um. Ég samþykkti það og við mæltum okkur mót seinna um daginn. Það má koma hér fram að Siggi spilaði á mörg hljóðfæri eins og harmónikku, píanó, munnhörpu og stundum spilaði hann á hárgreiðu

 Þegar ég kom heim til hans bauð hann mér inn á kontór og eftir smá spjall dró hann upp sögina og fiðlubogann  og byrjaði að spila, það er skemmst frá því að segja að ég varð yfir mig hrifinn og varð strax sannfærður um að þetta yrði gott skemmtiatriði á þessari árlegu skemmtun Verðanda..

Þegar Siggi hafði lokið að spila fyrir mig nokkur lög gekk hann frá hljóðfærinu og sagðist ætla að sýna mér dálítið sem hann hefði verið að gera. Hann tók nú fram umslag sem á stóð stórum stöfum Skipstjóra og stýrimannafélagið Verðandi. Upp úr umslaginu dró hann blöð með nótum. Þetta er Verðandavalsinn og Verðandamassinn sagði hann, ég samdi þetta sjálfur og ég ætla að gefa félaginu mínu þetta á árshátíðinni. Hann hafði fengið organista Landakirkju Martin Hunger að setja þessi lög á nótur en hann var þá nýfluttur til Eyja.

Allt gekk þetta eftir Siggi mætti á árshátíðina og þegar þetta skemmtiatriði var kynnt fór kliður um salinn, ég held að sumir hafi haldið að þetta væri eitthvað plat. En Siggi gekk öruggur í fasi  upp á sinu í Samkomuhúsi  Vestmannaeyja með sögina og fiðlubogann, kom sér þar fyrir mundaði sögina og byrjaði að spila. Það varð grafarþögn í salnum meðan hann spilaði, en þegar hann lauk laginu urðu mikil fagnaðarlæti, hann tók þarna nokkur lög og var ávalt fagnað með lofataki. Þetta er eitt eftirminnilegasta skemmtiatriði sem ég man eftir á þessum skemmtunum sjómannafélaganna í Eyjum.

Það gekk eftir að hann gaf félaginu nóturnar með Verðandavalsinum og Verðandamassinum, en því miður held ég að þessi gjöf Sigga sé glötuð. Ef einhver sem les þessar línur veit hvar þessar nótur eru niður komnar, ætti sá að koma þeim til Skipstjóra og stýrimannafélagsins Verðanda.

Það er gaman að minnast þessara manna sem settu svip sinn á bæinn og bryggjurnar í Eyjum hér áður fyr, Siggi á Freyjunni var svo sannarlega einn af þeim, kannski set ég fleiri sögur sem ég kann um Sigga á Freyju hér seinna á bloggið mitt.

 Sigurður var einn af stofnendum Verðanda. 

Kær kveðja SÞS

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: þorvaldur Hermannsson

Sæll Simmi,Ég þakka þér fyrir skemmtilega sögu.Já endilega komdu með fleiri sögur,þú lumar örugglega á einhverju skemmtilegu.kv valdi

þorvaldur Hermannsson, 6.5.2009 kl. 22:56

2 identicon

Sæll Simmi.

Man vel eftir þessari árshátíð þar sem Siggi spilaði á sögina og kom

mörgum á óvart. Vonandi finnast þessar nótur.

Kv. frá Eyjum  Leifur í Gerði 

Leifur Gunnarsson (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 14:29

3 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Valdi og takk fyrir innlitið já ég segi eins og einn bloggvinur minn segir stundum: meira seinna.

kær kveðja SÞS

Heill og sæll Leifur, já ég er viss um að margir muna eftir þessari árshátíð. Þær voru skemmtilegar þessar árshátíðir sjómannafélagana í Eyjum, manni hlakkaði til allt árið að fara á þessar skemmtanir. Já nóturnar hljóa að vera til einhverstaðar, kannski í bankahólfinu með gömlu fundargerðarbókunum  .

Þakka þér innlitið Leifur, allaf gaman að fá athugasemdir við þessi skrif mín frá kunningjum.

kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 7.5.2009 kl. 20:28

4 identicon

Sæll frændi það er mjög gaman að lesa svona sögur, ég heimsæki síðuna þína oft og líkar vel. Ég var að hugsa um það þegar ég var lítill polli í eyjum og heimsótti Ingiberg á Sandfelli þá var stundum hjá honum kall sem að mér minnir að hafa heitið Jón Sigurðsson ( var hann ekki pabbi Diddapabba) þeir félagar voru mjög góðir sagnamenn

Kv ÓÞÓ

Óskar Þór Óskarsson (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 21:54

5 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll fræni, gaman að fá athugasem frá þér. Þetta er rétt hjá þér, Jón var pappi Diddapabba eða Sigurðar Jónssonar. Ég minnist lika þess að vera niður á Sandfelli og hlusta á þessa kalla segja sögur og fara með heilu ljóðabálkana, það var ótrúlega skemmtilegt.

takk fyrir innlitið,

kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 7.5.2009 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband