28.4.2009 | 21:43
Fyrsti Herjólfur kom til Vestmannaeyja 12. des 1959
Herjólfur
Í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja frá árinu 1960 má lesa eftirfarandi:
Laugardaginn 12. desember 1959 var mikill fólksfjöldi saman kominn niður á Básaskersbryggju hér í bæ, til þess að fagna komu hins nýja og glæsilega Vestmannaeyjaskips Herjólfi, sem var að leggast að bryggju hér í Eyjum í fyrsta sinn. Skipið kom frá Hollandi þar sem það var byggt. Heimahöfn þessa glæsilega skips er Vestmannaeyjar. Í tilefni þessa merkisviðburðar í samgöngumálum Eyjanna hafði Sigurgeir Kristjánsson lögregluþjónn ( F 30. júli 1916 D. 5. júni 1993) ort eftirfarandi kvæði sem flutt var við komu Herjólfs.
Sigurgeir Kristjánsson
Við bjóðum þig velkominn Herjólfur heim
til hafnar við norðlægar slóðir.
Við biðum þín lengi, og þökk veri þeim,
sem þér voru hollir og góðir.
Þú komst þó að nótt væri niðdimm og löng,
og nú skal þér fagnað með ræðum og söng.
Þeir vissu það áður sem ýttu úr vör,
við útsker hjá rjúkandi hrönnum.
ef syrti í álinn, þá seinkaði för
hjá sjóhröktum erfiðis mönnum.
Það var eins og brimhljóðið boðaði grand,
er boðarnir féllu við Eyjar og sand.
Loks mótaði þekkingin tækninnar tök,
á tímum, sem við stöndum nærri.
Þá rættust þeir draumar, sem vörðust í vök,
og víst eru sigrarnir stærri !
Í dag birtist Herjólfur, skínandi skeið,
vort skip, er gegn ólgunni klýfur sér leið.
Fylgi þér, Herjólfur, hamingjudís
Um hafið á framtíðarleiðum.
Þín sigling sé örugg og vegleg og vís,
þó vindarnir blási í reiðum.
Svo eftir þú tengslin við Eyjar og land
þótt oft falli boði við Landeyjarsand.
Kær kveðja SÞS
Athugasemdir
Sæll Simmi.Ég man eftir þessum degi eins og hann hefði verið í gær,þótt ég hafi bara verið 10 ára þá.
Ég man að við bræðurnir fórum upp í þakgluggann á Hásteinsvegi 5 til að sjá Herjólf þar sem hann lá undir Eiðinu.
Pabbi var þá formaður verkalýðsfélagsins í Eyjum,honum var boðið í veisluna sem var um borð í Herjólfi um kvöldið ásamt Bæjastjórn og öðrum framámönnum.
Það var minnst á þessa veislu í mörg ár á eftir hún var víst skrautleg,það fildi sögunni að það hafi verið eins og menn hafi aldrei komist í vín áður ha ha.kv
þorvaldur hermannsson (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 22:25
Heill og sæll Þorvaldur, já ég man einnig eftir því þegar þetta skip kom til Eyja og ekki er síður er minnistætt þegar það kvaddi Eyjarnar. Maður fór nokkrar ferðir með honum til Reykjavíkur og til baka og einnig í þorlákshöfn. Stundum réði það sumarfríinu hvort og hvenær maður gat komið bílnum með þessum Herjólfi.
En finnst þér ekki ljóðið hans Sigurgeirs Kristjánssonar vera vel gert ? Mér finnst það frábært.
takk fyrir innlitið kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 28.4.2009 kl. 23:02
Sæll Simmi!
Það var gaman að lesa þessa frásögn. Ég man eftir ferðum með þessum Herjólfi, m.a. skólaferðalagi í 12 ára bekk. Það var fjör.
Ljóðið hans Sigurgeirs er mjög fallegt. Ég vissi ekki að hann var hagmæltur maður og það vel.
Bestu kveðjur frá Selfossi
Guðný Ingvars (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 08:35
Heil og sæl Guðný, já ég er viss um að margir eiga miningar frá ferðum sínum sínum með þessum Herjólfi og þá eru þær minningar örugglega bæði góðar og slæmar eftir hvernig veður hefur verið í ferðinni. Þetta skip var talið gott sjóskip enda fór hann á milli Eyja og Reykjavíkur í öllum veðrum og gæfa fylgdi honum í þeim ferðum.
Sigurgeir Kristjánsson var hagmæltur og gerði mörg góð kvæði, nokkur af þeim eru í Sjómannadagsblöðum Vestmannaeyja.
kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 29.4.2009 kl. 17:22
Mikið svakalega gat meður orðið sjóveikur um borð á Gamla-Herjólfi,og að liggja i kojunum í almenningnum,tala ekki um þverkojunum gat verið hörkuvinna ef röstin var erfið.
En mér fannst þetta skip hafa góða sál ef svo má kalla og burtséð frá ælupestinni sem geisaði jafnan,leið manni bara vel um borð,enda á leið heim til eyja í annað hvert sinn.
Sigurlaugur Þorsteinsson, 29.4.2009 kl. 23:30
Sæll og blessaður
Pabbi , mamma og við systkinin fórum með Herjólfi frá Reykjavík til Vestmannaeyja 1964. Við urðum öll sjóveik. Ég man eftir þessari ferð, oj og gubb. Er þetta sá dallur?
Guð veri með þér og þínum
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 7.5.2009 kl. 00:22
Heill og sæll Sigurlaugur og takk fyrir innlitið, já ég er sammála þér að þetta skip hafði góða sál, það var örugglega traustbyggt og gott sjóskip þó maður hafi verið sjóveikur í vondum veðrum. En einhvernveginn þótti manni vænt um þetta skip. Það kom og það fór maður gat treyst því, einhverstaðar á ég mynd sem ég tók af skipinu með nokkra bíla á dekkinu allt ísað skip og bílar, ótrúlega mögnuð mynd.
kær kveðja SÞS
Heil og sæl Rósa og takk fyrir innlitið, Já þetta er örugglega sama skipið og þú fórst með eða það þikir mér líklegt. En mér þikir skrítið að sá gamli skuli hafa verið sjóveikur . Það eru reyndar margir sem eiga ekki góðar minningar um sjóferð með þessu skipi enda voru þetta oft langar ferðir frá Reykjavik í vondum veðrum, en þessu skipi fylgdi gæfa þau ár sem það þjónaði Vestmannaeyingum og um tíma Hornfirðingum. Þess vegna skulum við ekki tala um dall Rósa það á ekki við um fallegt og gott sjóskip
Kær veðja og skilaðu góðri kveðju til Pabba þíns frá mér
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 7.5.2009 kl. 17:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.