Losunar og sjósetningarbúnaður Gúmmíbjörgunarbáta

  En held ég áfram að minna á það sem að mínu mati hefur fækkað dauðaslysum á sjómönnum og á þar með stóran þátt í því að engin dauðaslys voru á árinu 2008

Það var 24. febrúar 1981 sem fyrsti Sigmundsgálginn var settur í fiskiskip. Búnaðinn hannaði Sigmund Jóhannsson teiknari og uppfinningarmaður í Vestmannaeyjum. Sigmund hannaði losunar- og sjósetningarbúnaðinn vegna þess að oft er mjög stuttur tími sem sjómenn hafa til að sjósetja gúmmíbjörgunarbát þegar skip farast og stundum hafa sjómenn ekki tíma til að sjósetja gúmmíbátana.

litli prins 063

Einar Ólafsson skipstjóri og Ágúst Guðmundsson vélstjóri  (gerðu út Kap VE )  sem gerðust brautryðjendur í að koma þessu tæki á framfæri og þess ber að geta að þessir sömu menn höfðu einnig frumkvæði árið 1972 að því að setja fyrsta öryggislokann á netaspil en þann loka hannaði einnig Sigmund.

Með losunar- og sjósetningarbúnaði Sigmunds varð mikil framför með því að geta skotið út gúmmíbjörgunarbát án þess að þurfa að klöngrast upp á stýrishús eða á aðra staði þar sem gúmmíbjörgunarbátar eru geymdir. Fljótlega kom á markað Ólsen losunar- og sjósetningarbúnaður og nokkru síðar búnaður sem heitir Varðeldur en allir þrír eru viðurkenndir í dag.

Sjálfvirkan losunar- og sjósetningarbúnað er skylt að hafa á öllum fiskiskipum yfir 15 metra. Hann sjósetur gúmmíbátinn og blæs hann upp um leið. Þetta gerist annað hvort sjálfvirkt á vissu dýpi þegar sjómenn hafa ekki haft tíma til að sjósetja gúmmíbjörgunarbátinn sjálfir eða honum er skotið handvirkt út. Handföng geta bæði verið inni í stýrishúsi, úti á dekki og við sjósetningarbúnaðinn sjálfan.

Sigmund teiknari m.m

Vitað er að sjósetningar- og losunarbúnaðurinn hefur bjargað mörgum tugum manna sem lent hafa í sjóslysum. Þetta er byggt á blaðagreinum, sjóprófum og viðtölum við sjómenn sem lent hafa í sjávarháska en þar hafa sjómenn sagt að ef umræddur búnaður hefði ekki verið um borð þá hefðu þeir ekki bjargast eða verið til frásagnar. Og hér nokkur dæmi.

Flottur Sjómannadagur 2

Í janúar 1988 fórst vélbáturinn Bergþór KE, þrír menn björguðust en tveir fórust. Eftir slysið lýsir stýrimaðurinn í blaðagrein í Morgunblaðinu frá því þegar hann og skipstjórinn taka í handfangið og skjóta gúmmíbátnum út með gálganum. Einnig segir hann að það hafi ráðið úrslitum fyrir þá sem björguðust að þeir hafi náð að skjóta bátnum út.

24. mars 1992 fórst vélbáturinn Ársæll Sigurðsson HF í innsiglingunni til Grindavíkur. Í blaðagrein í Morgunblaðinu þar sem talað er við Viðar Sæmundsson skipstjóra segir Viðar að óhappið hafi gerst svo hratt og óvænt að engin tími hafi gefist til að koma gúmmíbátnum á flot. Er Ársæll sökk opnaðist björgunarbáturinn sjálfkrafa á tveggja metra dýpi og flaut upp. Engum tókst að komast um borð í björgunarbátinn en þeim tókst að hanga utan í honum þar til hjálpin barst. Öll áhöfnin fimm menn björguðust í þessu slysi. Þarna virkaði sjálfvirki hluti búnaðarins og bjargaði mönnunum.

Í desember 2001 fórst vélskipið Ófeigur VE. Í skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa segir að  8 skipverjar af 9 hafi bjargast í tvo gúmmíbjörgunarbáta sem losnuðu sjálfkrafa frá skipinu. Skipverjar höfðu ekki tíma til að sjósetja gúmmíbjörgunarbátana því svo snögglega fórst skipið.

Það er engin vafi á því að losunar og sjósetningarbúnaðurinn var og er bylting í öryggismálum sjómanna og margir  líkja þessum búnaði við þá byltingu þegar gúmmíbátarnir komu í skipin.

Kær kveðja SÞS


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband