Átak í að bæta stöðugleika fiskiskipa á stóran þátt í fækkun dauðaslysa sjómanna.

Stöðugleiki fiskiskipa varðar öryggismál sjómanna

Eitt af því sem fækkað hefur skipssköðum og þar með dauðaslysum á sjómönnum er mikið átak sem Siglingamálastofnun ríkisins og síðar Siglingastofnun Íslands gerðu í að mæla stöðugleika fiskiskipa, og í framhaldi af því var gerð krafa um lagfæringu á þeim skipum sem ekki stóðust stöðugleikakröfur.

Undanfari þess var eftirfarandi:  “Samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar sjóslysa fyrir árin 1971 – 1986 höfðu farist á hafi 53 bátar og með þeim 100 menn, þrjár trillur og með þeim 3 menn og 6 flutningaskip og með þeim 11 menn. Samtals 113 menn á 15 árum.

Af þessum 53 bátum sem farist höfðu á þessum árum var vitað að:

29 bátar höfðu farið á hliðina og/eða  hvolft.

2  bátar hvolfdu vegna festu á veiðarfærum  í botni.

13 bátar fórust og orsakir ókunnar nema veður var vont.

6 bátar fengu óstöðvandi leka og sukku.

3 bátar sukku eftir árekstur.

Við nánari skoðun kom í ljós að vitað var um 31 bát sem hafði farið á hliðina eða hvolft og hefur slíkt gerst bæði í góðu og sæmu veðri. Af þeim 13 bátum sem fórust án þess að orsakir séu kunnar má með nokkurri vissu telja að hluti þeirra hafi einnig farið á hliðina eða hvolft.

Af framantöldu má draga þá ályktun að alvarlegt vandamál íslenskra fiskiskipa sé tengt stöðugleika þeirra og vanþekkingar skipstjórnarmanna á stöðugleika skipa,,

Þetta stöðugleikaátak hófst 1992 með því að stöðugleikamæla öll minni þilfarsskip á vestfjörðum en þetta átak var gert eftir mörg slys árin áður þar sem skip voru að farast og orsök talin ónógur stöðugleiki. Eftir að vestfjarðar skipin höfðu verið stöðugleikamæld var næstu árin farið allt í kringum landið og þessi smærri þilfarskip hallaprófuð. Mikið af þessum minni skipum voru með mjög lélegan stöðugleika og voru því sem við köllum stundum manndrápsfleytur. Þetta stöðugleikaátak var með samþykki Alþingis styrkt af  ríkissjóði, hafi alþingismenn þökk fyrir það.

Ísuð Elliðaey VE

Eftir að öll  smærri skipin  höfðu verið hallamæld var hafist handa um að hallamæla stærri skipin og þó að nú sé búið að hallamæla öll skip fyrir nokkrum árum, má segja að þetta átak standi en yfir því í dag mega stöðugleikagögn ekki vera eldri en 10 ára og þau verður að endurnýja ef verulegar breytingar eru gerðar á skipunum á þessum tíu árum.

Árangur af þessi stöðugleikaátaki var verulegur, alltof  mörg skip höfðu ekki stöðugleika í lagi og  þurfti að lagfæra þau og nokkur skip voru hreinlega úreld þar sem kostnaður við lagfæringu var of mikill til að það borgaði sig. Þá má benda á að átak var gert í að kynna og fræða sjómenn um stöðugleika skipa bæði í stýrimannaskólum og með útgáfu  á sérriti Siglingastofnunar Ríkisins er nefnist: ,,Kynning á Stöðugleika fiskiskipa,, hann var gefinn út 1988 og endurprentaður 1991. Þá var í júní 2003 gefinn út af Siglingastofnun Íslands endur bætt sérrit er heitir Stöðuleiki fiskiskipa.

Í símsvara 902-1000 og heimasíðu Siglingastofnunar www.sigling.is er hægt að fá upplýsingar um veður og sjólag frá vitum og ölduduflum við Ísland eins og það er á hverjum tíma. Einnig er á heimasíðunni ölduspá og spá um hættulegar öldur og veður næstkomandi daga, spá um áhlaðanda í höfnum og yfir miðin umhverfis landið. Þetta er mikið notað af sjómönnum og er stórt öryggisatriði.

 Ég er ekki í vafa um að þetta átak Siglingastofnunar ríkisins og síðar Siglingastofnun Íslands í stöðugleikamálum smærri og stærri skipa, og útgáfa fræðslurita og nákvæmra upplýsinga um veður og sjólag hafa átt stóran þátt í færri skipssköðum og þar með færri dauðaslysum  á sjómönnum.

Myndin er af Elliðaey VE 45

Kær kveðja SÞS

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Friðriksdóttir

Ég er ekert þannig að draga í efa sjóslysanefnd né siglingamálastofnun eða hva ð þetta heitir nú allt. Faðir minn fórst með Ingimundi gamla í  okt 2000 2 menn björguðust þe systur sonur minn og frændi.......      Það sem að verst fót í mig voru fréttir í MBL eftir rannsókn,  ég hreinlega las út úr þeirri grein að þetta var allt pabba hreinelag að kenna hvernig fór.   Ég var wenganvegin sátt við þessa yfirlýsingu hjá MBL sem aldrei var leiðrétt en fór mínar eigin leiðir til að fá ÖLL GÖGN OG SKÝRSLUR.  Mér finst svona skýta fréttamenska eisn og hjá MBL     ógeðsleg, það var bara til að núa salt í sárin, því það var EKKI pabba að kenna að báturinn fórst í blanka logni  og hann sem látinn var gat ekki svarað fyrir sig :( ég get ennn argað yfir hvað fréttaflutningur getur eyðilagt sjálfsmynd manns og ættingja...........Ég gef BARA SKÍT Í SVONA

Erna Friðriksdóttir, 17.4.2009 kl. 02:06

2 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll og blessaður

Frábær grein. Líf fólksins er það dýrmætasta sem við eigum og við verðum að tryggja stöðugleika skipa. Það skiptir jafnmiklu máli eins og öryggi á landi og lofti. Skoðaði flottu myndirnar þínar hér fyrir neðan og Magnús Orri var alveg meiriháttar flottur í bensínafgreiðslunni.

Vertu Guði falinn

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 17.4.2009 kl. 12:48

3 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heil og sæl Erna, ég er sammála þér í því að fjölmiðlar mættu vera tillitsamari við aðstandendur þegar fjallað er um sjóslys og reyndar önnur slys. Það er gott að þú kynntir þér málið sjálf með því að fá þau gögnn sem til voru um slysið.

Það sem ég er að gera með mínum skrifum er að benda á að það hefur margt verið gert til að fækka sjóslysum með góðum árangri, og það er margt hægt að gera til að fækka þeim en frekar. Já Magnús Orri er flottur strákur og skemmtilegur

Takk fyrir innlitið

Heil og sæl Rósa, Já líf og heilsa manna er það dýrmætasta sem við eigum og því eigum við að gera allt sem við getum til að fækka slysum alstaðar.

takk fyrir innlitið

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 18.4.2009 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband