Markúsarnetið búnaður til að ná mönnum úr sjó

 

Markúsarnetið.

Upphafsmaður Markúsarnetsins var Markús B. Þorgeirsson skipstjóri frá Hafnarfirði. Í maí 1981 var netið kynnt í Vestmannaeyjum  og vakti það þá mikla athygli sjómanna og útgerðarmanna, þannig að um áramótin 1985 höfðu 300 skip komið sér upp Markúsarneti. Það sýndi að sjómenn höfðu trú á þessu björgunartæki, enda hefur það örugglega fækkað dauðaslysum á sjómönnum.

Markúsarnetið er björgunartæki sem hefur verið í stöðugri þróun frá því það var fyrst kynt. Það er níðsterkt og einfalt í notkun, létt og fyrirferðalítið og hentar því vel við erfiðar aðstæður. Netið er hannað til handvirkrar notkunar og einnig er hægt að nota krana til að hífa inn mann hvort heldur er standandi, sitjandi eða liggjandi en það er mikilvægt þegar slasaðir eða ofkældir menn eru dregnir úr sjó.

Markúsarnetið er framleitt fyrir allar stærðir og gerðir skipa og er fyrst og fremst hugsað til að ná mönnum úr sjó en það hefur einnig komið að góðum notum við að ná mönnum úr gúmmíbjörgunarbátum og upp í skip. Það samanstendur af geymsluhylki fyrir netið, lyftilínu, neti, kastlínu og brjóstlínu. Hér eru  dæmi sem ég hef tekið saman um notkun netsins á neyðarstundu.

Í nóvember 1983 björguðust fjórir menn af þýska flutningaskipinu Kampen, sem fórst suður af Vestmannaeyjum. Þá hafði bæði mistekist að ná þeim upp úr sjónum með bjarghring og línu. Þótti Markúsarnetið þarna sýna að það var eina björgunartækið sem hægt var að nota við þessar aðstæður þar sem mennirnir voru allir útataðir í þykkri olíuleðju.

Árið 1984 féll maður í höfnina í Vestmannaeyjum og var bjargað með Markúsarneti.

Í október 1985 fór skipverji útbyrðis af Gígju VE þegar verið var að hífa inn nótina. Reynt var að ná honum inn með bjarghring en tókst ekki. Var þá náð í Markúsarnetið og því hent til hans og hann kom sér í það og gekk þá vel að ná honum um borð.

Í mars 1986 fór maður útbyrðis af Guðmundi Einarssyni frá hnífsdal. Veður var slæmt stormur og 8 til 10 stiga frost. Skipið var statt á rækjumiðunum NV af Kolbeinsey kl 22 að kveldi. Þegar maðurinn datt útbyrðis fór hann á kaf en skaut um nokkra metra frá skipinu. Honum tókst að synda að trollinu sem var úti og halda sér í það. Reynt var að henda til hans bjarghring og spottum en það gekk ekki. Þá var náð í Markúsarnet sem var þarna um borð og því hent til hans. Hann gat komið sér í það og gekk þá vel að ná honum aftur um borð. Skipstjórinn sagði eftir óhappið að ef þeir hefðu ekki haft Markúsarnetið um borð þá hefðu þeir ekki náð manninum úr sjónum aftur.

Í febrúar 1987 tók skipverja út af vélbátnum Hrugni GK er skipið var statt út af Krísuvíkurbjargi, Hann náðist um borð aftur með Markúsarneti.

Það var í apríl 1987 sem Reynir EA fórst í slæmu veðri. Skipverjanum var bjargað með Markúsarneti og gekk sú björgun vel.

Þann 31 janúar 1988 féllu tveir hásetar af Guðmundi VE útbyrðis er þeir voru staddir 80 sjómílur frá landi úti fyrir Norðfirði. Slysið átti sér stað morgni í niðamyrkri. Mennirnir voru í flotgöllum og náðust upp með Markúsarneti og gekk björgun mjög vel.

Þann 7. mars 1989 sökk Sæborg SH 377 á Breiðafirði í slæmu veðri og miklum sjó en sjö skipbrotsmenn komust í gúmmíbjörgunarbát. Skipshöfnin á Ólafi Bjarnasyni SH 137 bjargaði síðan áhöfn Sæborgar SH með því að nota Markúsarnetið.

Kær kveðja SÞS


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Sæll Sigmar, manstu nokkuð Sigmar eftir því hvenær og á hvaða skipi Markúsarnetið var prufað fyrst hér í Eyjum?

Ég hef grun um að það hafi verið gert sumarið 1982 um borð í honum Sighvati Bjarnasyni VE 81.

Kær kveðja frá Eyjum.

Helgi Þór Gunnarsson, 20.3.2009 kl. 01:31

2 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Það var prófað í maí 1981 og þá um borð í Kap VE og að mig minnir Vestmannaey VE. Einnig var það kynnt á Sjómannadaginn 1980 þetta kemur fram í sjómannadagsblöðum.

Takk fyrir innlitið Helgi  minn og kær kveðja héðan úr Kópavogi.

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 20.3.2009 kl. 19:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband