Þyrlusveit Landhelgisgæslunar er lífsnauðsynleg

  Niðurskurður í þyrlusveit Landhelgisgæslunar eru sannarlega váleg tíðindi, eftirfarandi sem ég hef tekið saman snýr eingöngu að öryggi  og björgun sjómanna og ætti að fá fólk til að hugsa um það mikilvæga hlutverk sem Landhelgisgæslan hefur gagnvart öryggi þeirra. Við skulum hafa það í huga að þetta er eingöngu einn þáttur í hennar í starfsemini.  LHG Sinnir einnig mjög stóru hlutverki í sjúkra og björgunarstörfum á landi.    

LandhelgisgæslanPUMA TF-LÍF PÚMA TF-LÍF

Þegar fækkun dauðaslysa á sjó ber á góma kemur fyrst upp í hugann Landhelgisgæslan, hún mun eiga stóran þátt í að bjarga sjómönnum frá alvarlegum slysum og dauða, hún hefur haft á að skipa góðum sjómönnum, flugmönnum og flugliðum. Hennar  þyrlusveit hefur unnið ótrúleg björgunarafrek, og hefur hróður þyrluáhafna aukist til muna eftir að LHG fékk stærri og kraftmeiri þyrlur eins TF LÍF, en hún kom til landsins 23 júní 1995.

þyrlusveit á sjómannadaginn 1994 II

 Í samantekt sem ég fékk hjá flugdeild LHG kemur fram að frá árunum 1999 til 2008 eða í 10 ár hafa þyrlurnar bjargað 203 sjómönnum úr sjó eða frá skipum og er þá með taldir þeir sem sóttir hafa verið veikir eða slasaðir um borð í skip á hafi úti.

Þyrlusveitir LHG hafa því bjargað að meðaltali 23,3 mönnum á ári síðustu 10 árin. Það var stórt gæfuspor þegar ákveðið var að kaupa  nýju Puma þyrluna sem hefur sannað gildi svo um munar. TF LÍF og áhöfn hennar hefur bjargað hundruðum sjómanna á undanförnum árum.

Myndin er tekin á Sjómannadaginn 1994 af TF-SIF

Þyrlan TF LÍF bjargaði einu og sömu vikuna 5. til 10. mars 1997 hvorki meira né minna en 39 sjómönnum af þremur skipum sem voru: Flutningaskipið Vikartindur sem strandaði við Þjórsárósa þan 5 mars 1997. Þar bjargaði Þyrlan 19 mönnum af skipinu í slæmu veðri 8-9 vindstigum og gekk á með hagléli hvössum vindhviðum og  mikilli ölduhæð. Svo slæmt var veðrið og skyggni að björgunarmenn í landi sáu ekki þegar skipverjar voru hífðir frá skipinu þótt skipið væri aðeins 100 til 150 metra frá landi. 

Áhöfn TF LÍF

Flutningaskipið Dísarfelli sem fórst 9. mars 1997 er það var statt 100 sjómílur SA af Hornafirði í kolvitlausu veðri  og 8 til 10 metra ölduhæð. Þar var 10 sjómönnum bjargað en tveir menn fórust. Mennirnir höfðu þá verið í sjónum innan um fljótandi gáma, brak og olíubrák í tvo tíma þegar þyrlan kom þeim til bjargar, en þeir höfðu klæðst björgunarbúningum rétt áður en skipið fórst. 

 Þann 10 mars 1997 bjargaði TF LÍF  tíu manna áhöfn netabátsins Þorsteins GK þegar skipið rak vélarvana að landi undir Krýsuvíkurbergi, þar sem það strandaði upp í klettunum. Rétt eftir að björgun var lokið standaði skipið og eiðilagðist á strandstað

Áhöfn TF-LÍF sem bjargaði áhöfn á Dísarfelli. Tfv; Benóný Ásgrímsson Flugstjóri, Auðunn Kristinsson stýrimaður og sigmaður, Hilmar Þórarinsson flugvirki og spilmaður, Hermann Sigurðsson flugmaður, Óskar Einarsson læknir.

Þótt ég hafi hér að ofan nefnt örfáar bjarganir sem framkvæmdar voru á TF-LÍf, þá hefur ekki síður mörgum verið bjargað með öðrum þyrlum LHG.

þyrlusveit á sjómannadaginn 1994

Þann 14. Mars 1987 strandaði Barðinn GK norðurundir Dritvík á Snæfellsnesi þar sem hann skorðaðist milli klettana og hallaði 70 til 80° á stjórnborða. Skipbrotsmenn voru allir í þvögu inni í kortaklefa sem er inn af stýrishúsi. Stýrishúsið var opið og gekk sjór þar í gegn og voru mennirnir meira og minna í sjó.

Ekki reyndist mögulegt að bjarga mönnunum frá landi þó skipið væri mjög stutt frá björgunarmönnum sem komnir voru á strandstað.

Áhöfn TF SIF

Þegar Þyrlan TF- SIF kom á vetfang sást engin hreyfing á mönnum um borð enda gaf sjó yfir allt skipið. Eftir nokkra stund sáust menn í stýrishúsi Barðans GK.  Þrátt fyrir erfiðar aðstæður tókst áhöfn þyrlunnar að slaka línu niður að brúardyrum og þannig hífði áhöfn þyrlunnar mennina upp í þyrluna einn í einu. þarna var allri áhöfn skipsins  9 mönnum bjargað úr bráðum lífsháska, þegar ekkert annað gat komið þeim til hjálpar.

Barðinn GK 475 á strandstað

Þetta eru dæmi um afrek starfsmanna Landhelgisgæslunnar, það eru ekki fá mannslíf sem þeir  hafa bjargað, og oft á tíðum sett sig í lífshættu til þess.

Menn skulu hafa það í huga að björgunarstörf eru oft unnin við mjög erfiðar aðstæður og eru því oft á tíðum mjög hættuleg. Það er því rétt að minnast þess að LHG hefur misst 10 starfsmenn frá 1960 þar af fjóra í flugslysi í nóvember 1983 þegar Þyrlan TF-RÁN fórst í Jökulfjörðum og með henni fjórir menn. Sex hafa látist við skyldustörf á skipunum. Þá má einnig minnast þeirra 12 sjómanna sem fórust með vitaskipinu Hermóði 1959 en skipið hafði á þessum tíma verið leigt til að sinna landhelgisstörfum. 

Ég er ekki í vafa um að LHG og þyrlusveit hennar á mjög stóran þátt í að dauðaslysum á sjómönnum hefur fækkað á síðustu 20 til 30 árum.

Barðinn GK 475 á strandstað og TF-SIF við björgun. Myndina tók Stefán Böðvarsson Hellissandi

Kær kveðja SÞS


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Sæll Sigmar, það er ekki af þér skafið, áhugi þinn á björgunarmálum er með ólíkindum, og þar sem ég er eins og þú veist, sjómaður, þá langar mig að þakka þér fyrir það. Ég er oft mjög hissa hvað sumir sjómenn eru áhugalausir er kemur að björgunarmálum.

Kær kveðja frá Eyjum.

Helgi Þór Gunnarsson, 1.3.2009 kl. 23:04

2 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Helgi og þakka þér góðar kveðjur. Já ég tek undir með þér að það er undarlegt hvað margir sjómenn eru áhugalausir fyrir öryggi sínu. En eins og þú veist Helgi minn þá hafa margir góðir drengir frá Eyjum látið lífið í sjóslysum, það  er kannski þess vegna sem ég hef haft áhuga á þessum málum. Sem betur fer er áhugi mikill í Eyjum bæði hjá sjómönnum og útgerðarmönnum, alla vega var það þannig fyrir nokkrum árum.

Þakka þér innlitið

kær kveðja úr Kópavogi 

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 3.3.2009 kl. 21:59

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég þakka þér fyrir að minna menn á það hve mikilvæg þyrlusveit LHG er sjómönnum, það hef ég fengið að reyna á eigin skinni.  Ég er þess fullviss að ef þyrlusveitarinnar hefði ekki notið við hefði ég ekki lesið þessa stórkostlegu grein.

Jóhann Elíasson, 3.3.2009 kl. 22:51

4 identicon

Mér er mjög í fersku minni nótt á Grímseyjarsundi 1979 í janúar.Við á Varskipinu Óðin höfðum fengið neyðarkall frá Þengli frá Húsavík,um að kominn væri leki að skipinu og vélin að stöðvast og var spurning um hversu lengi báturinn héldist á floti.

Það var ofsaveður og 4 aðrir bátar sem ekkert hafði heyrst frá,við komum að Þengli um miðnætti og bátsmaður og fyrsti stýrimaður fóru á zodiack m3 yfir að Þengli og komu með áhöfnina alla heila yfir að varskipinu,þar sem báturinn var hífður með öllum mönnunum um borð í varskipið,allir sem til sjómensku þekkja og sjólags þarna á sundinu,geta gert sér grein fyrir aðstæðum við þessa björgun í ofsaveðri og brotsjóum.

Við leituðum alla nóttina ásamt togurum sem voru á svæðinu og einn þeirra lét reka við Þengil,ef ske kynni að hægt væri að dæla úr honum og bjarga.Við fundum ekki hina bátana og fórust þeir allir um nóttina,einn átti nokkra tugi metra eftir í höfn og lífsbjörg er hann sökk og mig minni að með hafi farið 3 menn.

Við á varðskipinu fórum aftur að Þengli um morgunin og vorum að gera okkur klára til að fara um borð að dæla er hann sökk,var þá ekki neitt annað að gera en að fara í höfn með skipbrotsmenina.

Þetta var virkilega kuldalegur morgun og napurt er við komum inn og lögðumst að bryggjunni sem var að fyllast af fólki sem var þögult og alvarlegt að sjá og var prestur þeirra Húsvíkinga meðal þeirra fremstu og þakkaði hann okkur áhöfninni björgunina á þessum 5 mönnum.

tvisvar þennann dag vorum við ég og skipsfélagi minn stoppaðir er við vorum að rölta upp í bæ og bláókunnugt fólk tók utan um okkur og sagði bara tak.

Þessa nótt sýndu skipstj og yfirmenn Óðins afburða sjómennsku og fagmennsku og þökk sé þeim að það tókst að bjarga 5 mönnum.

Landhelgisgæslan ásamt starfsmönnum hefur svo ótal sinnum sýnt og sannað hæfni sýna og þörfin fyrir öflugt starf hennar er svo brýn og augljós,og svona stofnun er að mínu mati all verulega meiri þörf fyrir en Hlómlistarhöll eða annar hégómi sem flokkast algjörlega undir lúxus og bruðl.

Það á að efla Gæsluna og styrkja svo að hún sé okkur Íslendingum til sóma og klár í slaginn er kallið kemur.

Kv Laugi.

Ps Sorry Simmi að leggja svona síðuna þína undir mig með þessari frásögn,mér finnst þessi mál bara vera svo mikilvæg 

Laugi (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 10:45

5 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Laugi og þakka þér kærlega fyrir þessa sögu af eina af mörgum björgunum LHG. Ég er einmitt að setja þessar staðreyndir um LHG hér á bloggið mitt til að fá umræðu um þessi öryggismál sjómanna, það er nefnilega alltof lítið skrifað um þessi björgunarstörf LHG og reyndar einnig um björgunarsveitirnar allt í kringum landið.

Þakka þér fyrir þetta Laugi minn og þú þarft ekki að spara plássið þegar þú gerir athugasemdir á bloggsíður

kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 4.3.2009 kl. 13:04

6 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Jóhann þakka þér fyrir innlitið, það væri gaman að fá að heyra þessa sögu þína sem þú reyndir á eigin skinni. Þú kannski bloggar um það Jóhann?

kær kveðja 

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 4.3.2009 kl. 20:36

7 Smámynd: Aðalsteinn Baldursson

Það er mikil skömm að því hversu þröngan kost LHG þarf að búa við. Þessir einstaklingar hafa oftar en einu sinni lagt líf sín að veði til að hjálpa, bæði til sjós og lands. Ég held að engir geri sér betur grein fyrir mikilvægi þessa starfs, en sjómenn landsins. Við eigum að sýna sóma okkar í því að halda úti öflugri sveit manna og kvenna sem að standa vörð um landhelgina okkar og kunna að bregðast fljótt við þegar á bjátar.

Aðalsteinn Baldursson, 6.3.2009 kl. 13:27

8 identicon

Sæll Simmi .

Orð í tíma töluð hjá þér. það er með ólíkindum að þetta þurfi að gerast hjá LHG

Slysin eða veikindi gera ekki boð á undan sé þar sem mínundur geta skift máli,

sama hvort það er til sjós eða landi.Ég þakka þessum strákum í þyrlusveitinni

ævinlega heilsu mína í dag, en þeir komu til Eyja og sóttu karlinn í SA fárviðri þegar allar aðrar bjargir voru bannaðar,

enda kemur það flug upp í hugann þegar þyrlusveitinn fer í loftið við erfiðar aðstæður.

Vonandi verða þessar uppsagnir dregnar til baka hið fyrsta

Kv. Frá Eyjum  Leifur í Gerði.

Leifur Gunnarsson (IP-tala skráð) 6.3.2009 kl. 14:47

9 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Sæll félagi. Það er með endemum hvernig haldið er á málum þessarar sveitar eða Gæslunar yfirhöfuð. Á meðan fleyja á milljörðum króna í eitthvað helv.... hávaðahús þarna fyrir sunnar á að setja líf sjómanna við strendur landsins í uppnám. Já og líf manna eins og t.d. vinar okkar Leifs eða þeirra sem lenda í svipuðu og hann. Við skulum nú bara vona að hann lendi ekki í svona hremmingum aftur. Ok það þarf kannske að kára kofan til að hann brenni ekki þeim milljörðum sem búið er að henda í´ann. En lenga mætti byggingartíman mikið og láta það sem sparaðist til LHI. Ég held að þetta lið þarna á 101 Rvík getið bara beðið nokkur ár með helv.... hanastélin kjólfötin og síðkjólana. Kært kvaddur

Ólafur Ragnarsson, 9.3.2009 kl. 01:57

10 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heilir og sælir Aðalsteinn, Leifur og Ólafur. Við erum sammála um mikilvægi LHG og þyrlusveitra ekki hvað síst menn eins og þú Leifur sem hefur reynsluna. 'Eg er samála þér óli að það mætti frekar bíða þetta blessaða tónlistarhús, peningunum mætti ráðstafa í þarfara verkefni. Þakka ykkur fyrir innlitið og athugasemdirnar.

kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 9.3.2009 kl. 23:11

11 Smámynd: Valur Stefánsson

Flott hjá þér Simmi að koma með þessa umfjöllun, þú ættir að senda þessa grein í Moggann.

Þyrlusveitirnar hafa sýnt það og sannað aftur og aftur hve úrvals lið þetta er og er hópurinn orðinn stór af þeim sem þeir hafa bjargað úr sjávarháska og sótt veika eins og Leifur talar um hér að ofan. 

Ég held að það mætti frekar skera niður á öðrum stöðum s.s. fjármunum til stjórnmálaflokkanna.

Valur Stefánsson, 10.3.2009 kl. 08:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband