Ljóð úr vasabók Soffíu á Hvassafelli

Soffía  Sop   Soffía og Óskar

Soffía Sophaníasdottir.    Hjónin Soffía og Óskar Sigurðsson ( d. 1969) Hvassafelli

Hvassafell 1 Húsið Hvassafell við Helgafellsbraut í Vestmannaeyjum.

Soffía Sophaníasdóttir  tengdamóðir mín var fábær kona( lést 5. ágúst 1985), hún hafði gaman af ljóðum og átti mikið af ljóðabókum sjálf sem hún las sér til ánægju og skemmtunar. Hún vitnaði stundum í þau ljóð sem henni fannst vera góð og eftirtektarverð.  Hluta af þessum bókum hef ég nú undir höndum og les stundum þegar færi gefst. Soffía átti einnig litla vasabók sem hún safnaði saman sínum uppáhalds vísum og ljóðum. Mig langar að setja hér á bloggið mitt sýnishorn úr þessari litlu vasabók.

Við skulum ætíð verkin vinna

vera í hverju starfi trú,

og sigurgleði síðar finna.

Í sameiningu ég og þú.

       (Sólveig frá Niku)

-----------------------------------

Brostu þar til brestur hjarta

brostu gegnum húmið svarta.

Brosið eykur birtu og þrótt

brosið lýsir dimma nótt.

  ( Herdís Þorsteinsdóttir  frá Vík)

--------------------------------------

Minni stýra má ég hönd

og matinn niður skera.

Þó mér finnist öll mín önd

Annars staðar vera.

                 HE

-------------------------------------

Forlög koma ofan að

örlög kringum sveima.

Álögin úr ýmsum stað

en ólög fæðast heima.

               Páll V

-------------------------------------

Öll sæla er gleði hins góða

hún gerir að höll hvert kot,

án hennar er auður hismi

og hreysi hvert konungsslot.

                           EB

-------------------------------------

Vonin gefur veikum þrótt

vonin kvíða hrindir

vonin hverja vökunótt

vona ljósum kyndir.

-----------------------------------

Er hins fagra ég eitt sinn naut

í orðum þínum hlýjum,

fannst mér sólin finna braut

fram úr þrumuskýjum.

      EMJ

--------------------------------------

Tíminn vinnur aldrei á

elstu kynningunni

ellin finnur ylinn frá

æskuminningunni.

  (Jón S Bergmann)

-------------------------------

Áður en blaðið endað hef

ætla ég þess að minnast,

að betra er símtal, betra er bréf

En best er þó að finnast.

              (Sigr. G. Jónsd.)

-------------------------------


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband