26.2.2008 | 01:02
Skriðið úr skrápnum eftir Sigurð þór Pálsson
Myndirnar sem hér fylgja eru af Sigurði Þór og ljóðabók hans Skriðið úr skrápnum.
Sigurður Þór Pálsson fæddist í Vestmannaeyjum 3. ágúst 1953. Foreldrar hans voru þau hjónin Páll Ó. Gíslason og Bára Sigurðardóttir ( kennd við húsið Bólstað í Eyjum) . Um 14 ára aldur fluttist Sigurður Þór til Reykjavíkur með foreldrum sínum, lauk hann þar landsprófi og hóf nám í bókbandsiðn.
Skömmu síðar tók hann að kenna höfuðmeins og gerðist sjúkdómurinn svo alvarlegur að hann var sendur utan til að gangast undir uppskurð. Náði hann sér nokkuð vel eftir þann uppskurð en eftir ár tók líðan hans að versna aftur . Var þá gerð önnur tilraun til lækninga en án varanlegs árangurs. Sigurður andaðist í maí 1971 aðeins 17 ára að aldri.
Kvæði sem Sigurður Þór orti skrifaði hann í bók sem hann nefndi Skriðið úr skrápnum. Bókin var gefin út til minningar um hann.
Hér koma á eftir nokkur ljóð úr ljóðabókinni Skriðið úr skrápnum, það er gaman að halda á lofti minningu Sigurðar Þórs sem lést eins og áður sagði aðeins 17 ára gamall. Það sést á ljóðum hans að hugur hefur oft verið við Vestmannaeyjar, eins og reyndar margra sem þaðan flytjast.
Lyfseðill reynslunnar.
Bjart var yfir bernsku minnar sporum,
brosti veröld yfir tárum vorum.
Þá var eins og fyrst til lífssins fyndi,
er flaug ég burt frá fiskimannsins tindi
Undi löngum einn við leik í sandi,
lék þar hugur frjáls sem tíðarandi.
Hlóðust upp þar hallir nýrra ára,
er hófu mig burt frá veröld öldugára.
Engin gaf mér framtíð fyrirheitin,
furðulega komst ég yfir leitin.
Er gekk ég eftir göngum nýrra skóla,
gekk ég þar úr skónum marga sóla.
Ef lít ég aftur yfir liðin ár,
við mér blasa ör og opin sár.
Græða vil ég gæsku minnar vegna,
gefa lyf til Vestmannaeyjaþegna.
Trúbrot
Konan sem vakir
á sænum
og syndir um hugdjúpin
þar,
hún dauðvona dregur
úr blænum
og dimmri þoku,
sem var.
Hún dáð er af dulskyggnum
mönnum
í dimmviðri vísar
hún leið,
í illviðrisorustum
römmum
hún oft hefur bjargað
úr neyð.
Í gær lét hún lífið
á sænum
í hugdjúpum syndir
ei meir,
en sjómenn með bjarglitlum
bænum
biðja um ljós sem
ei deyr
Klám í Herjólfsdal
Norðan næðir
napur Íslandsvindur.
Bólgin blæðir
Blámóðunnar Tindur
Húmar að - Herjólfsdalur
huldukvenna.
Tekur tjaldasalur
tignarkvenna að brenna.
Úrelt blóm
Blóm í skugga berst við fallsinns rætur,
blygðast sín, er sólin skín um nætur.
Að lokum lognast útaf lítil hrúga,
leiðarvísir í lífsinsaragrúa.
Blóm í skugga upplýst lætur,
blöð sín vinna dag sem nætur.
Þá skuggar skelfa aldrei aftur,
einmana blóm á landi okkar.
Kær kveðja Sigmar Þór
Athugasemdir
Sæll og blessaður Sigmar minn. Þessum dreng var ég búinn að gleyma þar sem hann var nokkuð yngri en ég en rifjast upp, þegar ég les skrifin þín. Þekkti vel hann Gísla bróðir hans. Þetta var fallega gert hjá þér að minnast hans með þessum hætti og ljóðin virkilega góð og auðséð hvar hugur hans hefur dvalið. Ljóðabókina hefi ég því miður aldrei séð, en gaman væri að glugga betur í henni. Kveðja
Þorkell Sigurjónsson, 26.2.2008 kl. 10:50
Þessi drengur hefur verið efnilegt skáld.
Þakkir og kv.
Árni Gunnarsson, 26.2.2008 kl. 10:57
Þetta er fallegt.
Guðjón H Finnbogason, 26.2.2008 kl. 11:42
Þessi ljóðabók hefur verið til á mínu heimili , frá því hún var gefin út.hún er lesin reglulega,enda falleg ljóð mörg hver og umhugsunarverð..kveðja Sig Þ ögm..
Sigurður Þór Ögmundsson (IP-tala skráð) 26.2.2008 kl. 13:24
Það er gaman að þessu Sigmar og gott framtak hjá þér, hann hefur verið efnilegur hann Sigurður.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 26.2.2008 kl. 16:25
Heilir og sælir bloggvinir, takk fyrir ykkar athugasemdir. Já það er alveg þess vert að minna á þá sem horfnir eru, og mættum við bloggarar gera meira af því. Öll þekkjum við einverja menn eða konur sem okkur eru minnisstæðar persónur, því þá ekki að minna á þetta fólk og verk þeirra hver sem þau eru. Ég set seinna fleiri ljóð úr Ljóðabókini Skifað úr skrápnum.
kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 26.2.2008 kl. 22:25
Það er eins með mig og Kela að ég man ekki eftir þessum dreing þótt við Gísli bróðir hans höfum verið bekkjafélagar.Ég hef mjög gaman að sjá myndirnar sem þú setur inn,endilega fleiri myndir.kv
þorvaldur Hermannsson, 26.2.2008 kl. 23:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.