5.2.2008 | 22:44
Saga af tryggum viðskiptavini Essó
Saga af tryggum viðskiptavini ESSÓ
Það var 1970 sem við vorum að klára að byggja nýja húsið okkar að Illugagötu 38 í Vestmannaeyjum. Ekki var auðvelt fyrir ungan mann að fá peninga að láni til að fjármagna bygginguna og það sem henni fylgdi ef undan er skilið húsnæðismálastjórnarlán. En hægt var með hjálp góðra manna að fá lánað í fyrirtækjum ýmislegan búnað eins og tæki í baðherbergi, eldhús og oft var hægt að semja við iðnaðarmenn um borgun síðar. Einn stór liður í kostnaði á þessu nýja húsi okkar var kynditæki og það sem þeim fylgdi, þetta var nokkuð stór biti þegar húsið var loks komið upp og búið að múrhúða inni, þá þurfti að fá í það hita .
Ég man það eins og það hafi gerst í gær þegar ég fór niður á skrifstofu Esso til að fá lánaðan ketil og meðfylgjandi brennara og annan búnað sem til þurfti til að setja í húsið. Það var nefnilega þannig komið að ég vissi að ég gæti ekki borgað tækin næstu mánuði og jafnvel ekki fyrr en eftir ár.
Sigurgeir Kristjánsson heitin var góður Framsóknarmaður og réði ríkjum á Skrifstofu ESSÓ í Vestmannaeyjum á þessum tíma, þessi maður hjálpaði mörgum manninum sem var í vanda, enda algjör öðlingur, ótrúlega greiðvikin og góður maður í alla staði, hann lagði oft þar með grunninn að viðskiptum manna til tugi ára.
Sigurgeir Kristjánsson var sérstakur öðlings maður sem hjálpaði mörgum. Hann sat lengi í bæjarstjórn Vestmannaeyja og var lögreglumaður áður en hann gerðist umboðsmaður Essó í Eyjum.
Ég kom inn á skrifstofu til hans og bar upp erindið, sagði að mig vantaði kynditæki og sagði eins og var að ég ætti enga peninga og gæti örugglega ekki borgað þau næstu mánuði og jafnvel ekki fyrr en eftir ár.
En ég sagðist ætla að reyna að standa í skilum með olíureikningana. Sigurgeir þurfti ekki að hugsa sig um heldur sagði að ég fengi það sem mig vantaði og ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að borga tækin fyrr en ég hefði efni á því. Þetta gekk allt eftir ég fékk tækin og byrjaði að versla við ESSO með olíu fyrir húsið. Þar með byrjuðu mín viðskipti við ESSÓ. Allt gekk þetta eins og í sögu ég stóð við mitt og Sigurgeir við sitt. Síðar eignaðist ég minn fyrsta bíl og þá byrjaði ég að kaupa bensín hjá þessu ágæta fyrirtæki. Öll þessi ár sem ég bjó í Vestmannaeyjum var ég í reikning hjá ESSÓ og borgaði reikningana mína um hver mánaðarmót. Fyrstu árin gekk nú á ýmsu með að borga á réttum tíma, það fór eftir því hvernig fiskaðist, en alltaf var hægt að komast að samkomulagi við Sigurgeir. Síðan kom blessuð hitaveitan og þá hætti maður að kaupa olíuna. En áfram verslaði ég bensín hjá Essó í Friðarhafnarskýli og á Básaskersbryggju, oftast út á reikning sem borgaður var mánaðarlega. Þarna hafði myndast vinátta og gagnkvæmt traust milli mín og þeirra manna sem unnu hjá þessu ágæta fyrirtæki.
Illugagata 38 húsið sem um er rætt í þessari grein.
Árið 1998 tók ég þá ákvörðun að flytja frá Eyjum til Kópavogs. Ég hélt auðvitað áfram að versla við ESSÓ og valdi mér tvær stöðvar sem ég verslaði oftast bensín, það var við Stórahjalla og litla Nesti í Fossvogi, þarna vinnur yfirleitt gott fólk og greiðvikið bæði á bensínstöðvum og smurstöð.
Þegar ég hafði í þrjú ár verslað við þessar stöðvar gerist það þegar ég er að koma úr vinnu, að ég sé að bíllinn minn er að verða bensínlaus, ég ákvað því að kaupa bensín í Litla Nesti í Fossvogi. Keyrði ég þangað og fyllti tankinn sjálfur eins og ég hef alla tíð gert frá því í Eyjum en þar tíðkaðist ekki almennt sú þjónusta að sett sé bensín á bílinn af afgreiðslumanni.
Þegar ég kem inn og ætla að fara að borga er ég ekki með veskið á mér hafði gleymt því heima. Ég hélt að þetta væri nú ekki mikið mál og sagði afgreiðslumanninum að ég hafi gleymt veskinu mínu heima hvort ég mætti ekki fara og ná í það heim það tæki ekki meira en 10 til 15 mín. Hann varð dálítið vandræðalegur og spurði mig um skilríki. Ég sagði að þau væru öll í veskinu mínu heima. Ég fann greinilega að hann treysti mér ekki, svo ég sagði honum að ég væri búinn að versla við hann meira og minna í þrjú ár og hann hlyti að kannast við mig. Við lendum bara oft í því sagði afgreiðslumaðurinn að menn taka hér bensín og eru svo ekki með peninga, lofa að fara strax heim að ná í peninga en sjást ekki meir. Þar sem ég var að verða pirraður á þessu spurði ég hann hvað ég gæti annað gert til að borga bensínið?. Eftir nokkra umhugsun tók kassamaður nú ,,áhættuna,, og bað mig að skrifa nafn heimilisfang og kennitölu á blað sem og ég gerði, en hinn afgreiðslumaðurinn hljóp út og kom inn að vörmu spori með númerið af bílnum mínum skrifað á blað. Mér leið eins og glæpamanni er ég fór út og heim til að ná í veskið mitt. Það tók mig ekki meira en 15 mín. að ná í það. Þegar ég kem á bensínstöðina að borga mæti ég öðrum afgreiðslumanninum í dyrunum og hann segir við mig: Hvað get ég gert fyrir þig?. Ég fór að hlæja og spyr hann að því hvort hann væri búin að gleyma mér frá því fyrir 15 mín. Hann leit á mig og sagði: já þú ert maðurinn sem gleymdi veskinu áðan. Ég gekk síðan inn og borgaði mína skuld og sagði við gjaldkeran: Það er hundleiðinlegt að lenda í svona uppákomu í fyrirtæki sem maður hefur verslað við í 30 ár, það hlítur að vera hægt á þessari tölvuöld að koma því inn í tölvur eða á safnkort að viðkomandi sé treystandi eftir 30 ára áfallalaus viðskipti. Eða er það kannski mottóið hjá fyrirtækinu að ekki sé hægt að treysta neinum manni nú á tímum.
PS. Ég sendi bréf svipað þessu í Höfuðstöðvar Essó á sínum tíma og fékk gott og vingjarnlegt svar frá fyrirtækinu.
Með kærri kveðju
Sigmar Þór Sveinbjörnsson
Athugasemdir
Frábær saga.
Guðjón H Finnbogason, 5.2.2008 kl. 23:31
Já veröldin nú og fyrir þrjátíu árum er all verulega breytt,við erum farin að líkjast Ameríkunni að þessu leyti eða réttara sagt að traust og þessháttar vinsamleg heit fara þverrandi.Samt held ég að afgreiðslumennirnir hafi gert rétt.Neyðarlegt samt.
jensen (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 23:34
Þessi grein er lýsandi dæmi um það hvernig þjóðfélagið okkar hefur breyst á síðustu árum (sumir segja til hins verra). En þegar breytingar verða er oft erfitt að sjá hvort þær eru til góðs eða ills.
Jóhann Elíasson, 5.2.2008 kl. 23:52
Sæll Simmi.
Svona var tengdapabbi.
Kv.
Pétur
Pétur Steingríms. (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 00:24
Blessaður frændi
Takk fyrir söguna af Sigurgeir ,ég held að margir eyjamenn geti sagt svona sögu af honum ,allavega sagði mamma mín svipaða sögu af samskiptum sínum við hann.Þetta viðmót og traust sem hann sýndi mömmu varð til þess að hún skipti alltaf við Sparisjóðin og Essó og hún bað sitt fólk að gera slíkt hið sama ,en Sigurgeir kom að báðum þessum stofnunum í störfum sínum.Hún minntist Sigurgeirs alltaf með hlýju.
Kveðja Dollý frænka
Sólveig Adólfsdóttir (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 22:28
Heil og sæl Dollý ! Það er gaman að fá þessa athugasemd frá þér. Já ég held að Sigurgeir hafi hjálpað mörgum, og hann var einn af þeim sem helst vildi ekki vera að flagga því þó hann gerði einhverjum greiða, það veit ég af eigin raun, þegar hann hjálpaði mínu fólki á erfiðleikatímum. Sigurgeir er einn af gullmolum Vestmannaeyja sem manni þótti vænt um og það á að halda nafni hans á lofti.
Kær kveðja Sigmar Þór
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 6.2.2008 kl. 22:45
Ég veit að hann faðir minn er sammála þér Sigmar, en Sigurgeir og hann voru saman í vinnumennsku á Laugardælabúinu sem ungir menn. Sá gamli var vélstjóri hjá mér og fór oftast að hitta Sigurgeir vin sinn þegar við komum til Eyja, sem ekki var svo sjaldan og ber honum afar vel söguna. Góður pistill hjá þér.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 7.2.2008 kl. 00:21
Ég veit að hann faðir minn er sammála þér Sigmar, en Sigurgeir og hann (báðir Tungnamenn) voru saman í vinnumennsku á Laugardælabúinu sem ungir menn. Sá gamli var vélstjóri hjá mér og fór oftast að hitta Sigurgeir vin sinn þegar við komum til Eyja, sem ekki var svo sjaldan og ber honum afar vel söguna. Góður pistill hjá þér.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 7.2.2008 kl. 00:27
Skemmtileg og góð saga hjá þér Sigmar minn. Ég tek undir með þér með það sem þú segir um hann Sigurgeir Kristjánsson hann var öðlingur. Kveðja.
Þorkell Sigurjónsson, 7.2.2008 kl. 11:30
Heill og sæll Sigmar, Góð saga hjá þér frá Eyjum, ég fæ aldrei leið á svona sögum, ég biða að heilsa í bili, er kominn í frí að minnsta kosti viku, kveðja frá Eyjunni fögru.
Helgi Þór Gunnarsson, 7.2.2008 kl. 14:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.