27.1.2008 | 15:35
Lítil saga frá fyrstu dögum eldgossins á Heimaey 1973
Myndir frá Heimaeyjargosinu Mynd nr.1 séð yfir Austurbæinn undirritaður á miðri mynd. mynd 2 er af yllugagötu 38.
Þesar tvær myndir eru teknar við húsið Illugagötu 38 þar sem við bjuggum er gosið byrjaði, og sést þykktin á vikrinum vel á þessari mynd en húsið var staðsett vestast í bænum, Kolbrún Ósk er á miðri mynd. Hin myndin er tekin þegar byrjað var að hreinsa vikurinn.
Ein lítil saga frá gosinu.
Við vorum í ferð til Eyja að ná í búslóðir og aðra nauðsinlega hluti sem okkur vanhagaði um. Á þessum tíma gekk þetta þannig fyrir sig að menn biðu fyrir utan húsin sín með þann varning sem þeir vildu flytja til lands, oft hlutir sem mönnum þótti vænt um og voru ekki tilbúir að skilja eftir, því fljótlega eftir að gosið hófst var farið að stela úr yfirgefnum húsum í Eyjum. Þegar bíll keyrði framhjá og pláss var á pallinum, reyndu menn að stoppa bílinn og koma þannig einhverju af sínum eignum í bátana og þannig upp á land. Við höfðum verið að taka búslóð austarlega í bænum en þurftum að flýja vegna öskufalls sem festist í þeim húsgögnum sem þegar voru kominn á pallinn. Við þurftum því að flíta okkur úr austurbænum og koma okkur vestar þar sem var minna öskufall. Var ákveðið að fara með það sem komið var á pallinn niður í bát þó bíllinn væri ekki fullhlaðin. Þegar við komum vestar í bæinn minkaði öskufallið mikið og var svo til hætt þegar við keyrðum framhjá húsi þar sem húseigandi stóð veifandi hendi og bað um að fá að setja dót upp á bílinn, þar sem þó nokkuð pláss var eftir. Ákveðið var að stoppa og fylla bílinn og við kallarnir hoppuðum af bílpallinum og byrjuðum að bera kassa og ýmsan varning út úr húsinu. Með því síðasta sem við bárum út var forláta skrifborð sem maðurinn átti. En allt í einu byrjaði aftur öskufall og þá varð bílstjórinn órólegur enda billinn orðinn fullur af dóti, nú bíð ég ekki lengur sagði hann og hoppaði upp í bílinn og setti í gang. En maðurinn bað hann að bíða augnablik meðan hann færi inn í húsið og næði í nýtt útvarp sem hann hefði nýlega keypt, hann hljóp síðan inn og kom með útvarpið í fanginu. Ég tók við því á meðan maðurinn klifraði upp á pallinn. Þetta var flott útvarp í tekk kassa og auðsjáanlega nýtt, maðurinn sat á skrifborðinu og hélt á útvarpinu í kjöltu sér og reyndi að skýla því fyrir öskufallinu.
Vörubíllinn tekur af stað og stefna tekin á Friðarhöfn þar sem báturinn var. Keyrt var frekar greitt þar sem mikið öskufall var og þar sem mikil aska var á götunum hossaði bíllinn mikið. Þegar komið var niður á Strandveg gerðist óvænt atvik, maðurinn með útvarpið sem setið hafði og hossað á skrifborðinu hlunkaðist nú allt í einu niður þegar skrifborðplatan brotnaði og við það virtist hann henda útvarpinu upp í loftið þannig að það flaug í fallegum boga aftur fyrir bílinn og í götuna og brotnaði þar. Maðurinn kallaði; útvarpið, útvarpið stoppið þið ég verð að fá útvarpið, en bilstjórinn heyrði ekki neytt og allir sáum við að útvarpið var ónýtt og engin ástæða til að stoppa til að hirða það upp. Þannig að ferðinni var haldið áfram niður á bryggju þar sem bíllinn var tæmdur um borð í bátinn og gekk það vel, ekki minntist maðurinn meira á útvarpið fína né ónýta skrifborðið.
Á fyrri mynd er Kolla við Helgafellsbraut 31 æskuheimili sitt en þar átti Siggi bróðir hennar og fjölskylda hans heima þegar gosið hófst. á hinni myndini sjást Fiskvinnsluhús Ársæls Sveinssonar með Eldfellið í baksýn. En í þessí hús voru settar búslóðir sem bjargað var úr húsum í austurbæ.Þriðja mynd er ah Helgafellsbraut 31 fyrir gosið 1973.
Þennan sama dag var verið að skipa út búslóð í annan bát sem var við sömu bryggju og við, þar var verið að hífa AEG Lafamat þvottavél (sem voru mjög þungar) um borð og skipstjórinn var uppi á bíl, hann hafði sett einfalda stroffu utan um vélina sem hann átti sjálfur. Sá sem var á spilinu spurði hvort nóg væri að setja einfalda stroffu á þvottavélina. Já sagði eigandinn og hífaðu hana bara um borð. Þegar híft var í herti hann stroffuna að þvottavélini og hún tókst á loft og var komin yfir bátinn þegar hún fór að halla ískyggilega mikið í stroffunni, Skipstjórinn sá hvað verða vildi og bað spilmanninn að reyna koma henni aftur upp á bílpallinn. Þegar hann ætlaði að koma þvottavélinni aftur upp á bílpall með því að nota bómusvíngarann, losnaði hún úr stroffunni og húrraði niður í lestina. Þar fór hún í klessu en þó slæmt hafi verið að eiðileggja þvottavélina þá var það einskær heppni að hún skyldi ekki lenda á þeim mönnum sem vor niðri í bátnum að taka á móti henni.
Kær kveðja Sigmar Þór
Athugasemdir
Heill og sæll Sigmar.
Frábær saga hjá þér hvernig væri að taka þetta saman hjá þeim sem hafa verið í þessu gosi og hafa minningar um mann. Ég er handviss um að það kæmi margar minningar sem vert væri að skoða betur.
Hvernig væri að leita til bókaútgefenda sem vildi styðja þetta framtak og bók yrði gefinn út um Vestmanneyjargosið 1973 endilega Sigmar hvernig væri að láta hendur standa fram úr ermum. Ég sé að þú veist mikið og hefur margar myndir og minningar frá þessum tíma.
Jóhann Páll Símonarson.
Jóhann Páll Símonarson, 30.1.2008 kl. 00:42
Heill og sæll Jóhann, já það væri gaman að safna saman þessum sögum. Guðjón Ármann Eyjólfsson skrifaði bók um heimaeyjargosið og þetta gæti verið framhald af þeirri bók. Guðjó Ármann væri góður maður í það verkefni. Það vantar örugglega ekki myndir og sögur frá þessum atburði, það vantar bara að safna þessu saman.
kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 30.1.2008 kl. 08:48
Það væri áhugaverð grafskrift: ,,Lét lífið af völdum fljúgandi þvottavélar..."
Gísli Friðrik Ágústsson (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 14:01
Sigmar, ég talaði við Guðjón Ármann Eyjólfsson í kvöld, honum fannst þessi hugmynd ykkar Jóhanns Páls Símonarsonar alveg frábær, hann sagðist nú reyndar ekki hafa tíma í þetta strax en hann vill endilega hitta þig og ræða málin. Þú fékkst mjög góða einkunn hjá honum og ég get bara sagt að góða einkunn hjá Ármanni, þeir hljóta að hafa margt til brunns að bera.
Jóhann Elíasson, 30.1.2008 kl. 21:05
Frábærar myndir Simmi ekki oft sem að maður sér svona myndir. Finnst einhvern veginn gleymast oft í umræðunni allur sá vikur sem var úti um allt og þurfti að moka í burtu og hvernig bærinn einhvern veginn breyttist hægt og rólega og hvernig menn notuðu svo vikurinn í aðrar þarfar gjörðir - nýtu hamfarirnar sér til tekna - en sú umræða kemur kannski síðar.
Já og þessi hugmynd um myndir og sögur frá "almennum borgurum" í gosinu er hin besta hugmynd sem vert er að gefa gaum og leggja vinnu í - Við Óskar erum nú þegar tilbúnir í að leggja fram okkar vinnu til þess að þetta gæti orðið að veruleika, ef einhver hefur áhuga. Sé fyrir mér volduga bók sem út kemur á 40 ára afmæli gossins!
bestu kveðjur af skerinu fagra í suðri
Gísli Foster Hjartarson, 31.1.2008 kl. 08:31
,Heil og sæl öll sem hafa skrifað athugasemdir. Já nú er bara að byrja að safna efni þegar við erum kannski búin að fá rármann sem ritstjór og Gísla og Óskar prentara til að prenta. Í alvöru þetta er ekki svo galin hugmynd. Hugsum málið???????
kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 31.1.2008 kl. 20:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.