35 ár liðin frá eldgosinu á Heimaey

  Í dag eru liðin 35 ár frá því eldgos hófst á Heimaey 1973. Ég man vel eftir þessari nótt og hvað gerðist.  Daginn áður höfðum við komið inn á Elliðaey VE  til að landa, vegna þess að það var arfavitlaust veður og ekki hægt að athafna sig við veiðar, ég man að það var svo mikið rok að það var erfitt að standa upp á bílpalli og taka við málinu sem fiskurinn var hífður í upp á bílpall (ekki komin kör)

Elliðaey VE á veiðum inn á ÁlElliðaey VE  Það er gaman að hafa þessar myndir hér með hér sést gosið í baksýn, Eiður heitir sá sem heldur á fiskinum en ég man ekki nafnið á þeim sem veifar. Á mynd 2 er Björn frá hvolsvelli, Eiður frá Reykjavík og Sigmar Þór.

Um kvöldið var komið ágætt veður. Við fórum að sofa um miðnætti en ég vaknaði um 2 leitið þegar  konan vakti mig og sagði að það væri einhver læti fyrir utan eins og einhver væri að hlaupa kringum húsið, en þetta var auðvitað jarðskjálfti sem fylgdi gosinu. Síðan hringdi síminn og í honum var Siggi mágur minn á Hvassafelli hann tilkynnti mér að það væri komið gos austur á Eyju en hann átti heima austarlega á Heimaey . Ég fór þá út í glugga og sá að austurbærinn logaði. Sennilega hefur Surtseyjargosið verið þess valdandi að maður fann ekki fyrir hræðslu heldur langaði að kanna þetta nánar.

Ég sagði konuni að ég ætlaði að keyra austur í bæ og skoða þetta betur ég yrði ekki lengi. Síðan keyrði ég eins nálægt þessu og ég þorði, ég tók eftir því að sprungan var að lengjast og færast nær sjónum. Þetta leyst mér ekki á og ákvað nú að koma mér heim. Þegar þangað kom var þegar byrjað að segja fólki að koma sér niður á bryggju og um borð í bátana.

Sjálfur var ég stýrimaður á Elliðaey VE sem var 80 tonna trébátur frekar gamall en afar gott sjóskip allavega fyrir okkur sem vorum sjómenn.

Við tókum töluvert af fólki og lögðum af stað til Þorlákshafnar, þó veður væri nokkuð gott var mikil undiralda eftir óveðrið daginn áður. Það var því töluverð sjóveiki um borð og nóg að gera fyrir þá sem ekki voru sjóveikir.

Eitt það eftirminnilegasta sem ég man frá þessari nótt er þegar við sigldum út víkina og horfðum á glóandi hraunið  gjósa upp úr sprungunni, það var eins og svöðulsár sem blæddi úr og væri óstöðvandi blæðing, síðan hvarf þetta meðan við fórum fyrir klettinn en sást aftur þegar við komum fyrir Eyðið, það er ekki hægt að lýsa þeirri tilfinningu sem hríslaðist um mann á þessari stundu. Á þessum tíma var ég búinn að taka við stýrimannsvaktinni, með mér upp í brúnni á vakt var vélstjórinn.

Þegar við tveir stóðum þarna í brúnni á Elliðaey og vorum að sigla fyrir Eyðið, blasti við okkur þessi ótrúlega sjón sem aldrei líður manni úr minni, á þessari stundu var lítið talað.

 Allt í einu segir vélstjórinn við mig:

Simmi flest gengur nú yfir okkur eyjamenn fyrst er það tyrkjaránið svo er það þetta helvíti, það var eins og hann hefði lifað báða þessa atburði en tyrkjaránið var árið 1627 .

Ferðin gekk að mestu vel til Þorlákshafnar þar sem við komum fólkinu í rútur, en fórum svo sjálfir aftur til Eyja til að halda afram flutningum á eignum okkar og Eyjamanna.

Gaman væri að skrifa hér nokkrar eftirminnilegar sögur sem maður man frá þessum tíma, kannski geri ég það einhvern tíman.

Kær kveðja sigmar Þór


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Sigurður Pétursson

ég væri alveg endilega til í að lesa frá þér sögur :)

Árni Sigurður Pétursson, 25.1.2008 kl. 19:03

2 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Sæll Simmi.Þetta eru skemmtilegar myndir eins og allar myndir frá þér.Í sambandi við stýrishúsið á Elliðaey VE. þá  var það á öðrum bát áður,ef mig misminnir ekki þess meira.Sá bátur hét Ingólfur Arnarsson RE19 sem strandaði og"varð til"vestan við Þjósárósa 14 mars 1950.Stýrishúsinu var samt bjargað og sett á nýbyggingu á Akranesi 1951.Sem svo hlaut nafnið Heimaskagi Ak 85.Eitthvað meira var nú notað úr flaki Ingólfs ef ég man rétt í Heimaskaga.Nú Heimaskagi varð svo Elliðaey VE45.Þannig að stýrishúsið sem sést svo vel á myndinni er byggt í Svíþjóð þó báturinn hafi verið byggður á Akranesi.Set þetta hér bara svona til gaman.Ávallt kært kvaddur

Ólafur Ragnarsson, 27.1.2008 kl. 01:26

3 identicon

Það er ætíð gaman að lesa sögur þeirra sem upplifðu þennan magnaða atburð.

Sem gríðarlegur áhugamaður um gosið (alveg frá því að ég komst í bók Árna Johnsen um atburðina, varla orðinn 7 eða 8 ára) þá finnst mér svona skriflegar sögur og munnlegar ómetanlegur fróðleikur fyrir mig. Ekki skemma góðar ljósmyndir, en ég held ég geti án þess að ljúga sagt að afi minn hafi eflaust tekið allra fyrstu myndirnar af upphafi gossins, ansi óskýrar og úr fókus, en þær eru til. :)

Gísli Friðrik Ágústsson (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 14:43

4 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Ólafur þakka þér fyrir þessar athugasemdir, það er gaman að hafa þessar upplýsingar með hér. Elliðaey var fyrst með einkennisstafina RE 45 en fékk síðar umdæmisnúmerið VE 45.

Sæll Gísli og þakka þér þínar athugasemdir, það er gaman að þú skulir hafa áhuga á þessari sögu enda er hún einstök. Þú ættir ef þú getur, að setja þessar myndir sem þú talar um hér á bloggið. Það er langt síðan við höfum sést ertu hér á höfuðborgarsvæðinu?

kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 27.1.2008 kl. 15:49

5 identicon

Ég skannaði einu sinni þessar myndir inn á tölvu, en hvert þær skrár enduðu veit ég ekki. Þarf bara að komast aftur í skanna.

Gísli Friðrik Ágústsson (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 14:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband