12.1.2008 | 17:08
Einu sinni var. Eyjaannáll frá 1943
Einu sinni var. Eyjaannáll 1943 Framhald
Enn skrifa ég hér upp úr blaðinu Heimakletti 1. árgang 1. hefti gefið út í desember 1943. Heimaklettur var gefið út í Vestmannaeyjum. Ritstjórar voru Friðþjófur G. Johnsen og Gísli R. Sigurðsson (Átti Farsæl VE innskot mitt. SÞS) Afgreiðsla var að Formannabraut 4. Óskasteini. Blaðið átti að koma út ársfjórðungslega. Sími var 165 og póstbox var númer 23. Útgefendur Nokkrir Vestmannaeyingar . Víkingsprent h.f.
Byggingar:
Allmikið hefur verið um nýbyggingar húsa á þessu ári, bæði til íbúðar og iðnaðar. Átta íbúðarhús hafa verið fullgerð og önnur átta eru í smíðum, auk þess var byggð bifreiðarstöð og eitt verslunarhús. Vestast við Standveginn eru þrjú stórhýsi í smíðum, vestast er smíðastöð sem Skipasmíðastöð Vestmannaeyja er að láta byggja, þá þá kemur stórt og veglegt hús , sem vélsmiðjan Magni hf er að láta reisa og mun það að mestu fullgert. Austast er hús sem Dráttarbraut Vestmannaeyja hf hefur látið byggja fyrir iðnað sinn. Þarna vestast við Strandveginn er því að myndast veglegt iðnaðarhverfi, sem nýtur sín vel við nýsteyptan Strandveginn og verður prýði bæjarins, samboðið hinum þýðingarmikla rekstri, sem þarna fer fram.
Þá er mikil viðaukabygging í smíðum austan vert við Hraðfrystistöð Vestmannaeyja. Hraðfrystistöðin er þegar orðin ein stærsta bygging bæjarins og samkvæmt teikningu á hún að stækka um þriðjung ennþá. Er lítil ástæða til að ætla annað, en að á næstu árum komist byggingin í það horf, er teikningin sýnir, því svo má heita, að stöðug byggingarstarfsemi hafi verið þar síðan rekstur fyrirtækisins hófst. Einnig hefur fiskimjölsverksmiðja Ástþórs Matthíassonar verið stækkuð mikið.
Á fyrstu mynd er Skipasmíðastöð Vestmanneyja full af bátum og húsið til vinstri er Magni hf. Á miðmynd eru Sveinn Ársælsson, Ársæll sveinsson og Leifur Ársælsson. Mynd 3 Ársæll Sveinsson og Stefán Árnason. Stebbi pól.
Höfnin
Við höfnina hefur verið unnið að ýmsum hafnarbótum frá því í maíbyrjun, svo sem á hafnargörðum, bryggjum og botnfestum. Dýpkunarskipið Heimaey ( á að vera Vestmanney innskot SÞS) hefur unnið að því grafa um 100 metra langan og 50 metra breiðan ál inn í ,,Botninn''. Ætlunin er að þarna verði skipalega í framtíðinni og mun mest af efni í þetta mannvirki þegar komið til landsins.
Jafnframt því að hluti af Strandveginum hefur verið steyptur hefur hann einnig verið breikkaður og gömlu aðgerðarhúsin hafa verið rifin.
Það er skoðun mín að það ætti að skrifa sögu þessara fyrirtækja meðan enn eru menn til sem muna eftir þessum tíma. Við eigum og berum skyldu til að halda minningu þessara manna á lofti, og ekki síður þeirra kvenna sem lögðu grunninn að því frábæra samfélagi sem Vestmannaeyjar hafa verið.
kær kveðja: Sigmar Þór
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.