13.12.2007 | 22:33
Minnistæð sjóferð á gamla Herjólfi
Í gær var ég farþegi með Herjólfi og eins og oft áður fékk ég leyfi stýrimanns til að vera í brúnni á leiðinni til Þorlákshafnar, en ég var sjálfur stýrimaður á gamla Herjólfi í 16 ár og á þessu skipi í tvo mánuði þegar það kom nýtt, ég hef því mjög gaman af að vera í brúnni þegar ég er á ferðinni.
Þegar ég var þarna í brúnni flugu um hugan margar minningar frá því ég var þarna sjálfur stýrimaður og lentum við þá í mörgum bæði skemmtilegum og oft hundleiðinlegum vandamálum. Mig langar að segja hér frá einu af mörgum atvikum sem kom í hugan þegar við sigldum framhjá Eyrarbakka í gærkvöldi.
Við vorum eitt sinn á leið til Þorlákshafnar á eldri Herjólfi í vægast sagt brjáluðu SA veðri með troðfullt skip af farþegum. Þegar við nálguðumst Þorlákshöfn mat Jón Eyjólfsson skipstjóri það þannig að leiðin inn til Þorlákshafnar var kolófær, utan við garðana var leiðin samfellar brotöldur og ekki vit í að reyna innsiglingu. Þar sem ekki var góður kostur að snúa við og berjast á móti veðrinu til Eyja aftur með allt fólkið, ákvað Jón skipstjóri að sigla til Reykjavíkur og koma þannig farþegum og bílum á áfangastað.
Hann tilkynnti því í kallkerfi skipsins að ófært væri inn til Þorlákshafnar og að siglt yrði til Reykjavíkur. Við settum síðan stefnuna fyrir Reykjanes á leið til Reykjavíkur.
Rétt eftir að tilkynnt hafði verið um þessa breytingu var bankað á hurðina upp í stýrishús og upp kemur maður og kona sem auðsjáanlega er í nokkru uppnámi. Hún spurði strax hvort skipið færi ekki inn í Þorlákshöfn?, Jón skipstjóri svaraði henni og sagði að það væri ófært þangað og við færum til Reykjavíkur og kæmum þangað seint í kvöld.
Konan sagði þá að hún yrði að komast í land í Þorlákshöfn vegna þess að hún þyrfti að komast til Reykjavíkur þar sem hún átti að leika eitt aðalhlutverkið í leikriti, og ef hún kæmist ekki yrði að aflýsa leikritinu. Það getum við lítið gert í svaraði Jón, og bauð henni að nota farsímahlunkkinn sem við höfðum í brúnni á skipinu. Þarna er sími væna mín hringdu bara og láttu vita að þú kemur ekki til Reykjavíkur fyrr en seint í kvöld. Konan var ekki alveg á því að gefast upp og spurði nú Jón: Getur þú ekki reddað þessu farið til Selfoss? Nei það er ófært þangað líka svaraði jón. Þarna gafst konan upp og fékk að hringja til að láta vita um þessi vandræði sín, það hefur örugglega ekki verið auðvelt fyrir hana að útskýra þetta fyrir leikstjóranum.
Ferðin til Reykjavíkur gekk vel og allir komust til síns heima og við sigldum heim daginn eftir í ágætu veðri.
Kær kveðja
Sigmar Þór
Athugasemdir
"Vanadísin" hefur verið hætt að ganga?
Jóhann Elíasson, 13.12.2007 kl. 23:20
Góð saga Sigmar, en finnst þér þessi Herjólfur ekki miklu betri í sjó að leggja? Manstu hvað ég var sjóveikur á þeim gamla? Kveðja frá Eyjum.
Helgi Þór Gunnarsson, 13.12.2007 kl. 23:43
Heill og sæll Helgi jú ég er sammála þér að þessi Herjólfur er gott sjóskip enda nýrra og fullkomnara skip. En ég man nú ekki eftir sjóveikini enda var mikið um hana hjá mörgum á gamla Herjólfi eins og þú eflaust manst. Þetta var samt skemmtilegur tími eða finnst þér það ekki Helgi?
kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 14.12.2007 kl. 08:30
Góðan daginn Sigmar, jú mér fannst þetta mög góður tími, þú getur rétt ímyndað þér það fyrir átján ára gamlan ungling, reyndar fór ég fyrstu ferðina með ykkur sextán ára fyrir pabba svo var ég hjá ykkur allan veturinn 1980 en hætti um vorið þegar framkvæmdasjórinn tróð syni sínum að.
Helgi Þór Gunnarsson, 14.12.2007 kl. 11:01
Hverslags óttaleg meinbægni var nú þetta að skjótast ekki með blessaða konuna upp í höfnina á Selfossi?
Árni Gunnarsson, 14.12.2007 kl. 16:20
Blessaður Sigmar. Þetta var skemmtileg saga frá þér. Ég gæti nú sagt ýmisslegt af ferðum mínum með Herjólfi í gegn um tíðina, en álít það skynsamlegast, að gera það ekki að svo stöddu. Kveðja.
Þorkell Sigurjónsson, 14.12.2007 kl. 21:26
Heill og sæll Árni takk fyrir innlitið, það sem vekur athygli mína er þetta orð ,,meinbægni,, sem þú notar, ég hef aldrei heyrt það áður. Er það með sömu meiningu og óliðlegur ? Hvaðan ert þú ættaður Árni ?
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 14.12.2007 kl. 21:29
Heill og sæll Þorkell já ég held að flestir Eyjamenn eigi einhverjar sögur eða minningar um ferðir sínar með Herjólfi, margar valla prenthæfar en einnig margar spaugilegar og skemmtilegar, þær mætti vel setja hér á bloggið ef þær særa engan eða skemma.
kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 14.12.2007 kl. 21:39
Góð saga Simmi. Ég veit að þú átt langtum fleiri svona skemmtilegar sögur frá þessum tíma. Þetta var góður tími á "gamla" Herjólfi, allt fínir karlar um borð, Grétar Gilsa, Reynir Böðvars, Jónatan, Lalli, Valli, Jón og svo auðvitað við. Þegar ég byrjaði þarna, hálfgerður peyjagutti þá voru líka þarna bræðurnir Grétar og Gunnar Halldórssynir, Hörður í Helli (hvar ætli hann sé blessaður??) Gunna og Sía, þernunar okkar og ógleymdum vélstjórunum og kokkunum Guðna og Hermanni Inga.
Ég man alltaf hvað ég hræddist bátsmanninn fyrst til að byrja með og svo þegar maður kynntist honum þá var hann gull af manni, sjóveikinni gleymi ég aldrei og hún minnti illilega á sig s.l. mánudag en þá var ég farþegi á heimleið og tók ferðin þá rúma 6 tíma.
Að lokum óska ég þer og þínu gleðilegra jóla og alls hins besta í framtíðinni.
Kveðja.
Pétur Steingríms.
Pétutr Steingríms. (IP-tala skráð) 15.12.2007 kl. 01:01
Sæll Simmi, góð saga. Ég man nokkuð vel eftir einni ferð með gamla Herjólfi og kemur hún hér. Ég var að fara upp á land rétt fyrir jólin 1983 en til stóð að eiða hátíðinni í faðmi fjölskyldu barnsmóður minnar í Reykjavík. Um borð skoppuðum við og fengum klefa alveg fram í stafni, komum við okkur fyrir þar og ætlunin var að barnsmóðir mín og peyinn sem var rétt rúmlega tveggja ára svæfu af sér ferðalagið. Gott plan sem tók á sig svolítið breytta mynd frá uppruna sínum. Á leiðinn var helv..... Vestan rok með tilheyrandi barningi og fjöri, ekki var konunni svefnsamt þarna fram í stafni sem von var kannski og sjóveikin hjá henni lét ekkert bíða eftir sér. Mitt hlutverk var náttúrulega að hugsa um sjúklinginn, síðan verður peyinn eins og gefur að skilja líka sjóveikur enda gekk frekar mikið á. Ég kom mér fyrir í efri kauju með hann og var hann látinn æla í dallinn sem hékk á kaujbríkinni. Í eitt skiptið sem hann þurfti að gera sitt tókst ekki betur til en gusan lenti beint upp í mig og fljótlega tók ég fullan þátt í því með öðrum fjölskyldumeðlimum að fylla þau box sem í boði voru í klefanum...
Kv, Halli.
Hallgrímur Guðmundsson, 15.12.2007 kl. 10:51
Heill og sæll Pétur gaman aðfá þessa athugasemd frá þér, já það eru margar sögur sem hægt væri að segja af veru okkar á Herjólfi og kannski set ég einhverja hér á bloggið mitt, ég er sammála þér Pétur að það var góður mannskapur á Herjólfi á þessum árum hörkuduglegt fólk og er sjálfsagt en í dag. Það er gaman að rifja upp þessa gömlu góðu tíma. Gaman að fá þetta innlit hjá þér Pétur, ég óska þér og þínum Gleðilegra jóla og takk fyrir gölmlu góðu.
Sæll Halli takk fyrir innlitið og söguna. Mér dettur í hug eitt atvik sem skeði einu sinni á leið til Þorlakshafnar. Við vorum að borða niðri í borðsal þegar maður sem þekkti vel til á Herjólfi hafði verið skipsmaður og kom niður að fá sér snarl með okkur, hann hélt á nokkra mánaða kornabarni. Það var dálítill veltingur og töluverð sjóveiki um borð þannig að einhver spurði hann hvort barnið væri ekki sjóveikt. Nei nei sagði hann svona lítil börn verða ekki sjóveik, það mátti þó sjá að barninu leið ekki sem best. Eftir nokkrar mín fór barnið að verða órólegt og að lokum ældi það þannig að spíjan stóð út úr því yfir matarborðið, það var ekki rætt meira um það að börn yrðu ekki sjóveik.
Halli takk fyrir innlitið og Geðileg Jól
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 15.12.2007 kl. 17:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.