Loftpúðaskip milli Bakkafjöru og Vestmannaeyja

 

Tilraunir með Loftpúðaskip við Vestmannaeyjar

Í ágúst 1967 var gerð nýstárleg tilraun þegar fengið var svifskip til  af gerðinni SRN 6 til að sigla milli lands og Eyja, skipið kom til Vestmannaeyja á þilfari Tungufoss, þann 15 ágúst 1967  og fór fyrstu ferðina upp í sand þann sama dag. Það sigldi einnig milli Reykjavíkur og Akranes og var hér við land til. 29. ágúst, en af þeim tíma var það bilað í nokkra daga.

Lýsing á skipinu.

SRN 6 loftpúðaskipið sem kom til Eyja var smíðað til farþegaflutninga og tók 35 farþega . Öll lengd skipsins 14.76 metrar og breidd þess var 7.01 metri. Hæð þess þegar það stendur á lendingarstöllum er 4.57 metrar. Stærð farþegarýmis, sem er ofan á miðju skipinu ,er 6,62 metrar að lengd og 2.23 á breidd.. Annars er  meginhluti skipsins flothylki, og meðfram ytri brún þess er pilsfaldur, 1.22 metrar á hæð en innan þeirra er þrýstilofts púðinn sem, sem skipið svífur á. Lyfti og hreyfiaflsvél skipsins er 900 hestafla gastúrbína, og eldsneytið steinolía. Skrúfan sem knýr skipið áfram , er fjagra blaða loftskrúfa, með breytilegum skurði, 2.74 metrar í þvermál. Loftblásarinn sem framleiðir þrýstiloftið undir svifskipinu, er miðflóttaaflsblásari, 2,13 metrar  í þvermál.

Hámarkshraði í kyrru veðri og slettum sjó er allt að 60 mílur, eða 111 km/ kl.st. Venjulegur mesti hraði yfir sjó , þar sem bylgjuhæð er 1,2 til 1,5 metrar er hinsvegar 45 til 55 mílur , eða 83 til 102 km/klst. Þyngdin á svifskipinu fullhlöðnu er rúm 9 tonn.

Vanadis 2

Fyrsta ferðin

Í skýrslu sem Jón Í Sigurðsson hafnsögumaður gerði um ferðir SRN 6 svifskipsins á þessum tíma segir orðrétt: ,, Fyrsta ferð með gjaldskylda farþega. Árið 1967 þann 16. ágúst kl.15.31 startað. Kl. 15.35 í hafnarmynni, kl. 15.37 við Klettsnef , stefna á Krosssand. Kl. 15.47 lent í Krosssandi. Farþegar fóru út á sandinn um stund. Kl. 15.57 startað, keyrt vestur sand. Kl. 16.05 á flot á leið til Vestmannaeyja, kl.16.19 í hafnarmynni kl. 16.22 lentir í Botni. Veður VSV 3 vindstig ölduhæð 0,60 m. Farþegar 29 (þar af eitt barn) áhöfn 3 menn."

Þannig lýsir Jón þessari fyrstu ferð Svifskipsins með farþega upp í sand. Það tók sem sagt 12 mínútur  að fara frá hafnarmynni og upp í Krosssand.

vanadísin a

Fyrsta brimlending svifskips.

Þann 27. ágúst 1967 kl. 15.30 var ferð hafinn frá Vestmannaeyjum og ráðgerð lending í Markarfljóts útfalli. Veður S 7 vindstig, skúrir, allmikill sjór, ölduhæð 2,2 metrar. Kl. 15.55 lent í Markarfljóts útfalli, stoppað á sandinum, austan meginn við fljótsbakkan.

Ferðin gegnum brimgarðinn gekk með ágætum, ekki tók skipið á sig neina sjóslettu, fór hiklaust og óhindrað inn í árútfallið. Skipið lét vel að stjórn.

Ölduhæðin við ströndina var 9 til 10 fet ( um 3 metrar), öldulengd 25 - 30 metrar, þreföld og stundum fjörföld öldubrot  út frá ströndinni. Eftir nokkra dvöl á sandinum var lagt af stað til Eyja. Farið var út árútfallið og gegnum brimgarðinn var komið kl 17.10.

Ferinn til sjávar og út á rúmsjó gekk ágætlega, þá skipið var í brimgarðinum virtist það eiga auðvelt með að stiga öldufaldana, þótt allháir væru. Skipið lét vel að stjórn og ekki kom nein sjávarskvetta á skipið, út í gegnum brimgarðinn.

Í þessari ferð var veður og sjólag það vont að ekki var hægt að flytja farþega, sökum þess farkosturinn SRN 6 er það lítill að samkvæmt reglum þar að lútandi, er óheimilt, sé vindur yfir 5 vindstig og ölduhæð meiri en 5 vindstig og ölduhæð meiri en 1,5 metri að flytja farþega. Þó gefur þessi ferð reynslu og sönnun þess að svifskip mun stærri en SNR 6 henta aðstæðum hér betur, en hvað viðvíkur burða og viðnámsþoli.

Fyrsta brimlending og sjósetning svifskips reyndist með ágætum.

Síðasti dagur SRN 6 við Vestmannaeyjar

Mánudaginn 28. ágúst 1967 voru farnar 7 ferðir frá Vestmannaeyjum upp í Markarfljótsútfallið , með farþega. Lent var í hverri ferð vestanmegin á sandinum við árútfallið (Bakkafjöru).

Veður var SA 2 vindstig, skyggni gott, ölduhæð 1,6 til 1,8 m. á rúmsjó. Í þessum sjö ferðum var það mikið brim við ströndina, að útilokað var að lenda báti við sandinn, en svifskipið fór út og inn um brimgarðinn án nokkra tafa eða fyrirstöðu og ekki voru heldur nokkur óþægindi fyrir farþega á ferðum svifskipsins, aðeins hreyfing eins og keyrt væri á vondum vegi í bifreið.

Þennan dag lauk tilraunaferðum milli Vestmannaeyja og fastalandsins, svo og hringferðum um Heimaey.  Alls urðu ferðirnar 23 og telst ferðin, sem farin var 27. ágúst 1967 kl. 1530 (brimlendingin) tvímæalalaust sú ferðin sem bestum og mestum árangri hefur náð í þessum tilraunarferðum og  sannar notagildi þessa nýja farartækis, þá því aðeins að farartækið verði mun stærra en SNR 6.

Þriðjudaginn 29. ágúst 1967 var lagt af stað frá vestmannaeyjum til Reykjavíkur með viðkomu á Selfossi. O.s.f.v.

Hér læt ég staðar numið en skipið fór til Reykjavíkur og var við tilraunasiglingar milli Akranes og Reykjavíkur.

Í stuttu máli sagt var skipið hér í 14 daga og flutti farþega upp í sand og til baka eða fór kringum Eyjar og stundum að Surtsey,  en 18 ágúst bilaði svifskipið og varð það óstarfhæft til 26. ágúst eða í 8 daga.

 Undirritaður var svo heppinn að komast með þessu skipi eina ferð upp í sand og mun ég seint gleyma þeirri ferð.

Þessi grein er svo til öll skrifuð nánast orðrétt upp úr skýrslu sem Jón í Sigurðsson þáverandi hafsögumaður skrifaði um tilraunirnar með Svifskipið. Myndirnar tók Eiríkur Þ. Einarsson og fékk ég leyfi hans til að hafa þær hér með.

 

Sigmar Þór Sveinbjörnsson

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Afar áhugaverð og fróðleg samantekt hjá þér Sigmar, uppúr skýrslu Jóns vinar mína lóðs.

Hafðu bestu þakkir fyrir...

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 6.11.2007 kl. 11:24

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þetta var góð grein og gaman væri ef þú segðir frá þinni ferð með skipinu.

Jóhann Elíasson, 6.11.2007 kl. 11:44

3 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Þetta átti nú að vera "vinar míns" en ekki mína....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 6.11.2007 kl. 22:25

4 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heilir og sælir Hafsteinn og jóhann og takk fyrir ykkar athugasemdir og innlit. Það er gaman að lesa þessar skýrslur og setja sig þannig inn í tíðarandan þarna fyrir 40 árum. Þar kemur fram að menn eru á því að það sé raunhæft að hafa svifskip sem gengur á milli Bakkafjöru og Eyja, ef það væri mun stærra en SRN 6. Sjálfur fór ég með skipinu í nokkuri ölduhæð og það var ekkert vandamál að sigla inn og út um brimgarðinn.

Þarna er sagt frá því að 14,76 m. skip 7 m. breitt fer í 7 vindstigum (15 m. á sek) í ölduhæð 2,2 m. fer í gegnum brotin sem við ströndina er 3 m. og öldulengd 25 til 30 m. og þetta siglir loftpúðaskipið án áfalla. Ekki nóg með það heldur eru þreföld og stundum fjórföld öldubrot út frá ströndini.

Ef Bakkafjöruhöfn verður byggð, þá þarf skipið sem þangað siglir ekki að fara í gegnum brotin við ströndina því hafnarmynnið er 500 m frá ströndinni, en það þarf að sigla yfir rifið sem er 400 til 500 m. frá hafnarmynninu, en það skip á að vera 63 m. að lengd  og 15 m breitt.  Þegar ég var að lesa þessar skýrslur fór maður að hugsa, hvernig ætli Jóni Í Sigurðsyni heitnum og þeim mönnum sem á þeim tíma voru í forustu Eyjamanna um samgöngur, fyndist umræðan um Bakkafjöru vera ef þeir lifðu í dag ???.  Hugsum um það.

kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 6.11.2007 kl. 23:39

5 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég ítreka það að greinin var góð og það væri gaman ef þú segðir okkur frá þinni ferð með því en varðandi Bakkafjöruhöfn, engum hefur tekist að sannfæra mig um ágæti hennar, en við skulum vona að mér "skjátlist" og höfnin reynist vel.

Jóhann Elíasson, 7.11.2007 kl. 10:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband