Eftirminnileg saga frá veru minni sem stýrimaður á Eldri Herjólfi

 

Þetta er saga sem ég punktaði hjá mér, ein af mörgum  um eftirminnileg atvik frá veru minni sem stýrimaður á Herjólfi.

Það var há vetur og við vorum að lesta gamla Herjólf, veður var kolvitlaust  SV 10 til 12 gömlu vindstigin eða stormur og gekk á með snjóbil öðru hvoru. Ég var í þetta skipti að afgreiða fólkið sem kom upp landganginn, en hinn stýrimaðurinn var fyrir aftan skipið og rukkaði bilana. Þetta var á föstudegi og mikið af fólki að fara með skipinu og fjöldinn allur  af börnum að fara upp á land til að keppa á einhverju íþróttamóti í Reykjavík. Áhyggjufullir foreldrar sem voru að fylgja börnum sínum til skips komu nokkrir til mín að spyrja um veðrið á leiðinni, hvort eitthvað vit væri í að senda börnin með skipinu í þessu veðri. Ég svaraði öllum því  að það væri ekkert vit í því, og man ég eftir að farið var með þrjú börn til baka eftir að foreldrar höfðu talað við mig.  Því miður var oft farið með hópa af börnum á milli Eyja og þorlákshafnar þó veður væri mjög slæmt og man ég eftir mörgum börnum sem voru mjög hrætt að ferðast með skipinu í þessum veðrum að ég tali nú ekki um sjóveikina.

Þegar líða tók að brottför kom ein kona til mín sem var fararstjóri eins hópsins og spurði hvernig veðrið yrði á leiðinni, ég  svaraði :" það er kolvitlaust veður og að mínu viti ekki glóra í að fara með öll þessi börn með skipinu í þessu veðri"  Hún varð hálfill og sagði:"það væri nú aldrei farið  neitt ef  allir hugsuðu  eins og þú", og þar með rauk hún inn í skip.

Nú var komið að brottför og landgangur tekinn frá borði og mannskapurinn fer fram og aftur á skipið að sleppa landfestum. Aðalvélin  sem var aðeins ein,  sett í gang og skipstjóri kallar í kallkerfi að það megi sleppa landfestum. Það er gert og við erum að draga þær inn þegar allt í einu er drepið aftur á aðalvél. Í sama mund er kallað í hátalara að binda skipið strax aftur. Sem betur fer er suðvestanátt þannig að skipið helst að bryggju vegna þess að stormurinn feykir því að bryggjunni. Ég fer að kallkerfinu og spyr skipstjóra hvað sé að og hann segir að það hafi bara verið drepið á vélum.

Þegar betur var að gáð hafði andvægi á sveifarás aðalvelar losnað af sveifarás og farið í gegnum pönnuna og þar með fór öll olía af vélini. Skipið var því vélarvana..

þegar þetta var ljóst var tilkynnt í hátalarakerfi skipsins að ekki væri hægt að fara af stað þar sem aðalvél skipsins hefði bilað og ekki væri hægt að gera við hana í bráð, farþegar gætu því farið frá borði. Ekki voru allir sáttir við þetta og vildu fá nákvæma skýringu á hvað væri að og af hverju skipið gæti ekki farið. Vélstjórarnir á skipinu voru nú búnir að finna áður nefnda bilun og var því hægt að skýra út fyrir farþegum og fararstjórum hvað alvarleg bilun í vél var.

Einn fararstjórinn kom til mín og spurði mig hvað hefði skeð ef skipið hefði nú verið komið hálfa leið til Þorlákshafnar þegar þessi bilun hefði átt sér stað? Ég sagði honum að það hefði getað farið illa, skipið hefði líklega lent upp í fjöru með allt þetta fólk, og það er örugglega engin bátur á sjó í þessu veðri til að taka okkur í tog. Hann horfði á mig og sagði: "þið eruð rugglaðir".

Þetta er eitt dæmi af mörgum, þar sem gæfan fylgdi þessu skipi og sem betur fer hefur það einnig verið með nýja Herjólf,  það má heldur ekki gleyma því að á skipunum hefur ávalt verið góðir skipstjórar og úrvalsmannskapur og þannig er það í dag.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Heill og sæll Sigmar.

Þetta er með ólíkindum hvernig þetta fólk kemur fram þegar spurt er, það má líka vera að þetta fólk sé virkilega hrætt innra með sér og vill ekki láta vita af því.

Varandi þessi blessuð börn þá finnst mér vitavert af foreldrum að senda þau með skipi í brjálað veður eins og þú bendir á. Enn þessi skrif þín eru áminning hvernig við eigum ekki að framkvæma hlutina fróðlegt erindi hjá þér að miðla því til fólks.

Jóhann Páll Símonarson.

Jóhann Páll Símonarson, 27.10.2007 kl. 14:10

2 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Sæll Sigmar, ég er kominn í land! Þennan dag man ég mjög vél að því leiti að ég held mig minn að það hafi verið suð-austan en það er ekki málið það var bræla á sjómanna mælikvarða, við á honum Sighvati Bjarnasyni VE vorum að fara til Reykjavíkur ásamt mökum í helgarreisu í loðnuvertíðarlok, og það var einmitt þetta með börnin sem við töluðum mest um og því lík lukka að stöngin skyldi fara niður úr pönnunni við bryggju en ekki út við Drengi eða Lat þá hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum. Ég hef oft hugsað um það hvað hefði maður gert ef sjóferð þessi hefði endað út á sjó, og ég fæ alltaf hroll.

Helgi Þór Gunnarsson, 2.11.2007 kl. 23:32

3 identicon

Sæll Sigmar.

Þetta er athyglisverð frásögn og leiðir hugann að því að oft er eins og almættið þurfi að taka í taumana og hafa vit fyrir okkur.  Þarna hefur svo sannarlega mátt littlu muna að illa færi.

Kveðja

Heiðar Kristinsson (IP-tala skráð) 3.11.2007 kl. 13:26

4 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Sæll Helgi þór þetta er dagur sem ég man mjög vel, þennan dag var SV átt 10 til 12 vindstig stormur, þess vegna hefði það verið slæmt ef þetta hefði gerst milli Eyja og Þorlákshafnar.

Sæll Heiðar og þakka þér athugasemdir og innlitið. 'Eg er alveg sannfærður um það að sumum skipum fylgir einhverjir  verndarenglar og öðrum ekki, þetta er staðreynd.

kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 7.11.2007 kl. 20:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband