24.10.2007 | 19:29
Sagan um bleiku slaufuna (góð lesnig fyrir alla)
SAGAN UM BLEIKU SLAUFUNA
(láttu hana ganga)
Myndarlegur maður á miðjum aldri gekk hljóðum skrefum inn í kaffihúsið.
Hann fékk sér sæti við eitt borðið og gerði sig líklegan til að panta.
Áður en hann komst svo langt varð honum litið á hóp ungra manna við næsta borð. Það fór ekki á milli mála að þeir voru að gera grín að einhverju í fari hans. Um leið og hann mundi eftir litlu bleiku slaufunni sem hann var með í jakkahorninu, þóttist hann vita hvað hefði vakið kátínu ungu mannanna.
Maðurinn reyndi að láta sem ekkert væri, enda vissi hann sem var að viðbrögðin voru sprottin af fáfræði. En það var erfitt að leiða glottið á andlitunum hjá sér. Hann leit beint í augu eins af ungu mönnunum, benti á slaufuna og setti upp spurnarsvip. " þetta!"
Það var eins og við manninn mælt - vinirnir ráku upp skellihlátur. Þeim sem var ávarpaður tókst að stynja upp nokkrum orðum. " Fyrirgefðu, en við vorum bara að tala um hvað litla bleika slaufan væri æðislega sæt við bláa jakkann þinn!"
Maðurinn með slaufuna benti spaugaranum að koma og setjast við borðið hjá sér. Ungi maðurinn gerði eins og hann bað, þótt hann langaði hreint ekki til þess. Maðurinn með slaufuna sagði lágum rómi: " Ég geng með þessa slaufu til að vekja fólk til vitundar um brjóstakrabbamein. Ég geri það til heiðurs móður minni. "
" Æ, það var leitt. Dó hún úr brjóstakrabbameini!"
" Nei, nei. Hún er lifandi og við góða heilsu. En það voru brjóstin hennar sem nærðu mig í frumbernsku og þau voru sá hlýi barmur sem ég hrjúfraði mig upp að þegar ég var hræddur og einmana. Ég er þakklátur fyrir brjóst móður minnar og þakklátur fyrir að hún er heil heilsu."
"Jamm, " umlaði hinn. " Ég skil."
"Ég geng líka með þessa slaufu til heiðurs eiginkonu minni, " hélt maðurinn áfram.
"Og er hún í fínu formi líka!" spurði ungi maðurinn.
" Já, hún er við hestaheilsu. Brjóstin hennar hafa veitt okkur hjónunum mikinn unað í ástarlífinu og þau nærðu okkar yndislegu dóttur. Ég er þakklátur fyrir brjóstin á konunni minni og fyrir að hún er heilbrigð."
"Og þú gengur þá líklega með slaufuna til heiðurs dóttur þinni líka!"
"Nei, það er um seinan að heiðra dóttur mína með slaufu. Dóttir mín lést úr brjóstakrabbameini fyrir einum mánuði. Hún hélt að hún væri of ung til að fá brjóstakrabbamein; þess vegna gerði hún ekkert í því þegar hún fann lítinn hnút í brjóstinu fyrir tilviljun. Hún fann ekkert til og þar af leiðandi hélt hún að ekkert væri að óttast."
Unga manninum var greinilega brugðið og skammaðist sín, og nú var hann hættur að glotta. "Fyrirgefðu, mikið er leiðinlegt að heyra þetta."
"En í minningu dóttur minnar geng ég stoltur með litla bleika slaufu sem gefur mér tækifæri til að uppfræða aðra. Farðu nú heim og talaðu við konuna þína og móður þína, dæturnar og vinkonurnar. Og eigðu þetta!"
Maðurinn með slaufuna seildist ofan í vasa sinn og tók upp litla bleika slaufu sem hann rétti hinum. Ungi maðurinn mændi á hana, leit síðan upp eftir langa mæðu og spurði hvort hann vildi hjálpa sér að setja slaufuna á sig.
Í októbermánuði er sérstök athygli vakin á brjóstakrabbameini. Skoðaðu brjóstin reglulega og farðu í brjóstamyndatöku á tveggja ára fresti ef þú ert fertug eða eldri. Hvettu allar konur sem þér þykir vænt um til að gera slíkt hið sama. Sendu þetta til allra sem þú vilt vekja til vitundar um brjóstakrabbamein.
( Krabbameinsfélagið, október 2002.)
Athugasemdir
Heill og sæll Sigmar.
Tek undir með þér þú gefst aldrei upp hvað sem þú tekur þér fyrir þetta er góð ábending fyrir konur þakka fyrir það.
Jóhann Páll Símonarson.
Jóhann Páll Símonarson, 25.10.2007 kl. 12:52
Heill og sæll Jóhann mikið er gaman að fá frá þér línu, það er langt síðan við höfum tekið spjall um áhugamálin. Það er ekki mikið skrifað í blöðin um öryggismál sjómanna, það er ótrúlega hljótt um þá umræðu, þó það séu mörg mál sem nú þarf að fá umræðu um. Hvað er að frétta af þér Jóhann ?
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 25.10.2007 kl. 18:11
Vonandi vekur þessi grein marga(r) til umhugsunar. Þú hefur sérstakt lag á því að fá fólk til að horfa til jákvæðra og góðra þátta í lífinu. Kærar þakkir.
Jóhann Elíasson, 25.10.2007 kl. 23:27
Sæll Jóhann takk fyrir þetta innlegg. Já þegar maður fer að eldast finnur maður að það vantar dálítið á að menn séu jákvæðir, einfaldlega vegna þess að manni líður betur ef við erum jákæð og sjáum frekar björtu hliðarnar á lífinu. Það eru ótrúlega margir í kringum okkur sem hafa það skítt og margir sem eru að berjast við veikindi t.d. krabbamein og ýmsa aðra erfiðleika.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 25.10.2007 kl. 23:44
Heill og sæll Sigmar.
Þetta er rétt hjá þér að vera jákvæður og líta á björt hliðarnar. Það veit enginn hvernig er að berjast við veikindi nema sá sem við það býr. Nafni minn Jóhann Elíasson bendir á þetta mál og þakkar fyrir sig.
Jóhann Páll Símonarson.
Jóhann Páll Símonarson, 26.10.2007 kl. 14:03
Flott saga. kv.
Georg Eiður Arnarson, 26.10.2007 kl. 15:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.