31.7.2023 | 17:13
Árni Johnsen minning.
Árni Johnsen góður vinur hefur kvatt þetta líf og farinn í sumarlandið, hann var einstaklega skemmtilegur og duglegur Eyjapeyi og gaman að umgangast hann . Margir eru búnir að skrifa minningarorð um hans lífshlaup en engin hefur nefnt hans þátt í baráttu fyrir öryggismálum sjómanna. Eitt sinn er hann kom heim til mín á Illugagötu 38 þar sem við ræddum öryggismál, spurði ég hann hvort hann vildi kaffi ? Hann svaraði: Nei Sigmar ég drekk ekki kaffi nema hjá vafaatkvæðum en þarna var hann í pólitíkinni. Árni hafði mikinn áhuga á öryggismálum sjómanna og björgunarsveita eins og fleiri Vestmannaeyingar og beitti sér ákveðið í þeim málum. Mig langar að minnast hans stóra þáttar í að bæta öryggi íslenskara sjómanna en þar átti hann stóran hlut að máli, hann skrifaði tugi greina í Morgunblaðið og fleiri blöð um þann málaflokk, og sem alþingismaður var hann duglegur að koma á framfæri tillögum sem varða þau mál. Árni flutti margar tillögur á Alþingi til að bæta öryggi sjómanna og björgunarsveita eins og að fella niður skattheimtu á búnaði til björgunarsveita og af öryggisbúnaði til sjómanna eins og björgunargalla svo eitthvað sé nefnt.
Í mars 1984 eftir Helliseyjarslysið þegar Hellisey VE fórst rétt austan við Eyjar kom Árni með þá tillögu á alþingi að skipa nefnd alþingismanna sem átti að gera tillögur um úrbætur í öryggismálum sjómanna. Öryggisnefndin sem skipuð var 9 þingmönnum skilaði 17 tillögum um úrbætur og eru þær taldar hafa bætt verulega öryggi sjómanna. Þessi nefnd lagði mikla vinnu í þessi mál en of langt mál er að telja allar þeirra góðu tillögur hér upp. Margar af þessum tillögum náðu fram að ganga og eru í lögum og reglum í dag og hafa þar með bætt öryggi sjómanna, enda voru þingnefndin og Árni sem var einn af nefndarmönnum duglegir að fylgja eftir þeim tillögum sem frá þeim komu .
Árni Johnsen var heiðraður og sæmdur gullmerki SVFÍ af Haraldi Henrýssyni árið 1987 fyrir þátt sinn og baráttu fyrir því að Slysavarnarskóli sjómanna eignaðist varðskipið Þór og áhuga hans á bættu öryggi sjómanna. Þegar Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum var slitið 1987 var sú athöfn tengd Slysavarnarskóla sjómanna með því að skólaskipið Sæbjörg ( áður Varðskipið Þór ) kom til Eyja. Stjórn SVFÍ notaði þá tækifærið til að þakka Árna Johnsen alþingismanni fyrir þátt hans í því að félagið eignaðist Þór sem þá var fljótandi Slysavarnarskóli Sjómanna. Var Árni sæmdur gullmerki SVFÍ fyrir þátt sinn í þessu máli, svo og fyrir margvísleg störf í þágu öryggismála sjómanna, en Árni hafði alltaf mikinn áhuga fyrir þessum málum. Við þetta tækifæri sagði Árni: Ég er þakklátur fyrir þann hlýhug sem Slysavarnarfélagið sýnir með þessu. Ég lít fyrst og fremst á þetta sem viðurkenningu á frumkvæði og baráttu margra manna í Eyjum fyrir þessum málum. Ég er aðeins einn úr þeirra hópi.
Árni var heiðraður á Þjóðhátíð Vestmannaeyja árið 2010 þá hafði hann leitt brekkusöngin á þjóðhátíð í 30 ár. Lítil saga sem lýsir Árna vel. Í júlí 1986 fengum við Kolla leigðan sumarbústað í Fljótshlíðinni. Á þessum tíma bjuggum við í Vestmannaeyjum og var gaman að fara þarna með fölskylduna í sveitarsæluna, tekið skal fram að þarna voru ekki komnir farsímar. Við vorum búin að vera þarna nokkra daga þegar bóndi á næsta bæ bankar uppá eitt kvöldið og spyr hvort ég sé Sigmar Þór. Ég jánkaði því. Þá segir hann að ég verði að koma heim til hans strax, það bíði mín áríðandi símtal frá Árna Johnsen eftir smá tíma. Hvernig Árni vissi að ég væri í þessum bústað og hvað hann vildi mér var mér ráðgáta, en ég for með bóndanum heim til hans og beið eftir símtalinu. Árni hringdi svo á tilsettum tíma og komst strax að efninu. Nú ætlar samgönguráðherra Matthías Bjarnason að fara að skipa nýja Rannsóknarnefnd sjóslysa og við Eyjamenn eigum að fá einn nefndarmann, ert þú ekki til í að taka sæti í nefndinni ? Ég varð nú í fyrstu orðlaus en sagði svo að ég kynni ekkert á það að vera í svona opinberri nefnd, yrði að fá að hugsa mig um. Nei þú þarft ekkert að hugsa þig um sagði Árni þú getur þetta vel og svo sagði hann þetta vera einstakt tækifæri okkar áhugamanna um öryggismál sjómanna í Eyjum sem má ekki missa af. Símtalið endaði með því að ég samþykkti að taka sæti í nefndinni sem ég sá aldrei eftir. Var skipaður í Rannsóknarnefnd sjóslysa 14. Ágúst 1986 og átti sæti þar til júní 1995 eða í 9 ár. Svona var Árni Johnsen, fljótur að hugsa og ætlaðist til að við sem unnum með honum værum það líka. Gæti sagt margar fleiri sögur af dugnaði Árna Johnsen sambandi við vinnu hans að öryggismálum sjómann, en læt þetta duga að sinni. Blessuð sé minning Árna Johnsens.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.