Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 70 ára

Sjónannadagsblað Vestmannaeyja VAR 70 ára 2021.

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga fyrir sjómannadeginum og Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja. Sjómannadagurinn hefur í mínum huga alltaf verið einn skemmtilegasti hátíðardagur ársins. Við peyjarnir sem áttum sjómenn sem feður og frændur vorum stoltir af því að tengjast þeim og þar með sjómannadeginum. Þegar ég síðar gerði sjómennskuna að ævistarfi mínu, gerði ég mér grein fyrir því að þessi dagur er miklu meira en skemmtun í tvo daga. Sjómannadagurinn er órjúfanlegur hluti af stéttarbaráttu og kynningu á starfi sjómanna. Í Vestmannaeyjum tengist margir sjónum þó breyting hafi orðið síðustu árin, þar sem skipum hefur fækkað og þar með sjómönnum. Á Sjómannadaginn kynna sjómenn sjómannsstarfið, minnast þeirra sem hafa látist og sérstaklega þeirra sem látist hafa í slysum á sjó, heiðra aldna sjómenn og þá gera sjómenn, útgerðarmenn og fjölskyldur þeirra sér glaðan dag og flestir bæjarbúar taka þátt í þessum hátíðardegi sjómanna.

Saga og efnisskrá forsíðaSjómannadagsblað Vestmannaeyja sem nú hefur verið gefið út í 70 ár hefur verið og er vetvangur okkar til að kynna líf og starf sjómanna. Í inngangi að Efnisskránni sem ég kem hér að síðar skrifar Guðjón Ármann m.a: „ Sjómannadagsblað Vestmannaeyja er ómetanleg heimild um sjávarútveg og íslenska sjómenn og þar er að finna mikla persónusögu. Í blaðinu hefur með mynd og æviminningu verið minnst mikils fjölda sjómanna og útvegsmanna og saga sjósóknar í Vestmannaeyjum ásamt þróun útgerðar og fiskvinnslu nær alla 20. öld hefur verið rakin. Þá má finna auk nafnaskrár tilvísun í mynd og minningarorð um 660 einstaklinga. Höfundar greina eru 235 og í skipaskrá eru skráð um 650 skip af öllum þeim gerðum sem komið hafa við sögu í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja“.

20 ár eru liðin síðan þetta var skrifað. Fyrstu kynni mín af Sjómannadagsblaðinu er sem smápeyi að taka þátt í sölu þess um allann bæ og niður á bryggjum á sjómannadaginn. Hvað varðar mína vinnu sem ritstjóra eða umsjónarmanns blaðsins þá tók ég og Sigurgeir Ólafsson heitinn ( Siggi vídó) við blaðinu 1982 af Friðrik Ásmundsyni, við höfðum þá hvorugur einhverja reynslu sem ritstjórar allavega ekki undirritaður. Ég hafði þó unnið með Guðjóni Ármanni í sambandi við auglýsingasöfnun í blöð sem hann ritstýrði, en þrátt fyrir reynsluleysi okkar Sigga held ég að frumraun okkar með Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1982 hafi bara heppnast vel.

Árið 1983 til 1986 vorum við Ágúst Bergsson skipstjóri ritstjórar með fjögur blöð, okkar samstarf gekk vel, við bjuggum þá á sömu torfunni við Illugagötu þannig að það var stutt fyrir okkur að koma saman á ritstjórnarfundi og fara yfir greinar myndir og annað efni sem tengist útgáfu blaðsins, mikil vinna er að koma svona blaði út ef vandað er til verka. Þá skiptir miklu máli að geta unnið blöðin og prentað í Eyjum, öll árin sem ég kom að blaðinu var það gert í umsjá prentsmiðjunnar Eyrúnu hf í góðu samstarfi við Óskar Ólafsson prentara en stundum sendi Eyrún hf blaðið í umbrot og prentun í Odda hf. Árið 1993 tek ég svo einn við Sjómannadagsblaðinu af Sigurgeir Jónssyni og er ég með blaðið til 1998. Sjómannadagsblöð 1994, 1995 og 1996 sáum við hjónin alfarið um, ég sá um að vinna efni í blöðin og Kolbrún Ósk Óskarsdóttir sá um auglýsingar, við dreifðum blöðunum í sjoppur í Eyjum og ég fór með blöð í verslanir í Reykjavík, Hafnarfirði, Grindavík, Hvolsvöll og einhverja fleiri staði, þetta þurfti svo að sækja og rukka seinni part sumars, ég dreifði flestum Sjómannadagsblöðum sem ég sá um ritstjórn á bæði í Eyjum og uppi á landi, og á ýmsar minningar frá þessum árum.

Sjómannadagur 1971 (sigirgeir j)Það var á fimmtudegi fyrir sjómannadag 1994 sem ég fór til Reykjavíkur að ná í Sjómannadagsblaðið í prentsmiðjuna Odda hf, þar sem blaðið var brotið og bundið inn en var prentað í Eyrúnu hf. Ég ætlaði að dreifa blaðinu á sölustaði á Reykjavíkursvæðinu og til þeirra sem voru með greinar og heilsíðu auglýsingar en þetta hafði ég gert með þau blöð sem ég ritstýrði. Ég tók nokkra kassa af blöðum í bílinn en restina átti að senda daginn eftir til Eyja. Ég ákvað að fara með fyrsta blaðið til vinar míns Árna Johsen en hann hafði verið okkur í sjómannadagsráði mjög hjálpsamur. Þegar ég kem heim til hans með blaðið vildi Árni fá mig inn í spjall og skoða blaðið, ég samþykkti það fannst gott að fá álit hans á nýja blaðinu. Hann flettir blaðinu og er bara nokkuð ánægður með það, en allt í einu horfir hann á mig og segir: Hér er hundleiðinleg villa Simmi. Hvað segirðu er þetta prentvilla spyr ég ? Nei verra en það segir Árni og sýnir mér blaðið. Þarna var í minningargreinum sama myndin af einum manni við tvær minningargreinar. Mér brá óneitanlega mikið vitandi það að ekki var hægt að prenta blaðið aftur. Hundfúll sagði ég við Árna að í þessu klúðri er víst ekkert hægt að gera.

Sjómannadagurinn 1972 (sigurgeir Jónasson)Árni var á öðru máli, við reddum þessu snarlega sagði hann og var strax komin með áætlun: Nú hringir þú strax í Óskar prentara og lætur hann hafa samband við Sigurgeir ljósmyndara sem á örugglega rétta mynd við minningargreinina. Þú biður svo Óskar að prenta myndina í kvöld eða nótt á sérstakan límpappír sem prentarar þekkja, myndin verður að vera skorin þannig að hún passi yfir röngu myndina á síðunni. Óskar sendir svo myndirnar til Reykjavíkur með fyrstu flugvél í fyrramálið og ég verð þá búinn að redda mannskap til að líma myndina í 400 blöð, þeir í prentsmiðunni í Eyjum verða svo að líma myndina inn í þau blöð sem fara til Eyja. Allt gekk þetta upp, Sigurgeir reddaði snarlega mynd, Óskar átti viðeigandi lím pappír og prentaði og skar myndina passlega í blaðið, hún kom með fyrsta flugi til Reykjavíkur og Árni var tilbúin með lið til að líma inn í þessi 400 blöð og Eyrún hf reddaði rest á föstudeginum þegar blöðin komu til Eyja. Ég gat því dreift öllum þessum blöðum uppi á landi eins og til stóð og enn er umræddur límmiði í blaðinu eins og við límdum hann fyrir 37 árum. Mikið var ég þakklátur Árna fyrir þennan stóra greiða, sem ég gleymi aldrei en svona er Árni Johnsen.

1999 tekur Friðrik Ásmundsson við blaðinu. Þá var ég búinn að vera 6 ár einn með blaðið og áður 5 ár með öðrum samtals 11 ár við ritstjórn. Ég er bara stolltur af þessum Sjómannadagsblöðum sem ég bæði ritstýrði einn og eins þeim sem við Siggi Vídó og við Ágúst Bergsson unnum saman. Þó þetta hafi verið mikil vinna þá er þetta starf við Sjómannadagsblaðið með því skemmtilegasta sem ég hef gert um ævina.

Sigmar Þór Sveinbjörnsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband