Minning. Guðjón Ármann Eyjólfsson sjóliðsforingi og skólameistari

Sem skólameistari Stýró -[765] (2)Látinn er góður vinur og félagi Guðjón Ármann Eyjólfsson, hann var fæddur í Vestmannaeyjum 10. janúar 1935 sonur hjónanna Guðrúnar Brandsdóttur og Eyjólfs Gíslasonar skipstjóra frá Bessastöðum. Hann lauk barnaskólaprófi og síðan landsprófi frá Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum árið 1951. Hann hóf nám við Menntaskólan á Laugarvatni og var þar einn vetur en fór 1952 í Menntaskólanum í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi úr máladeild vorið 1955. Ári síðar stúdentaprófi úr stærðfræðideild sem hann taldi nauðsynlegt fyrir frekara nám.

Guðjón Ármann fór til náms við Sjóliðsforingja-skóla danska sjóhersins, hann lauk því árið 1960 og útskrifaðist sem sjólíðsforingi og lærði þar einnig sjómælingar. Þetta var stífur skóli og til marks um það þá sóttu 130 um að komast í skólann en aðeins 30 komust inn og af þeim útskrifuðust 20 sjóliðsforingjar.

Að loknu þessu námi vann hann um tíma við sjómælingar í Danmörku en hélt síðan heim til Íslands og starfaði fyrir Landhelgisgæsluna um skeið aðalega við sjómælingar. Árið 1962 sá hann um eitt námskeið í Eyjum fyrir verðandi stýrimenn, námskeiðið var haldið á vegum Stýrimannaskólans í Rvk.

Árið 1964 var hann skipaður skólastjóri við Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum sem hann var með í að stofna, því starfi gegndi hann allt til ársins 1975. Í gosinu 1973 fluttist Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum í húsnæði Stýrimannaskólans í Reykjavík og þaðan útskrifuðust gosárið 1973 nemendur skólans úr Eyjum. Guðjón Ármann sneri ekki aftur til Eyja en hélt áfram kennslu við Stýrimannaskólann í Reykjavík og varð skólameistari hans árið 1981. Því starfi gegndi hann til ársins 2003 þegar Stýrimannaskólinn og Vélskólinn í Reykjavik voru settir í eina stofnun Fjöltækniskólann.

Ármann úngurEftir Guðjón Ármann liggur mikill fjöldi ritaðra greina í blöðum og tímaritum. Hann var ritstjóri Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja árin 1965 til 1975 í það blað ritaði hann 130 greinar. Þá hafa verið gefnar út eftirfarandi bækur eftir hann: þrjár útgáfur af bókinni Stjórn og sigling skipa sem er kennslubók og handbók fyrir sjómenn sem fjallar um siglingareglur og ýmis undirstöðuatriði í sjómennsku þörf og góð bók fyrir sjómenn, þá má nefna Vestmannaeyjar byggð og eldgos sem bæði er lýsing á eldgosinu 1973 og afleiðingum þess sem og aldarfarslýsing frá byggðinni sem varð eldi og ösku að bráð í náttúruhamförunum. Guðjón Ármann var höfundur að Árbók Ferðafélags Íslands 2009 sem fjallar um Vestmannaeyjar glæsileg bók sem tilnefnd var til verðlauna. Þá skal nefna nýja kennslubók í Siglingafræði sem kom út 2013.

Árið 1993 var Guðjón Ármann sæmdur riddarakrossi hinar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að fræðslumálum sjómanna. Hann hafði einnig mikinn áhuga á björgunar og öryggismálum sjómanna.

Guðjón Árman hafði það áhugamál að læra tungumál talaði góða frönsku, þýsku, ensku, dönsku og fleiri tungumál. Þegar hlé var á skólastarfi Stýrimannaskólans í Eyjum á sumrin fór Guðjón Ármann stundum á sjóinn sem háseti á ýmis skip, togara, trollbáta og síldveiðiskip bæði til að kynna sér sjómannsstarfið á hinum ýmsu veiðarfærum og til að drýgja tekjur. Sagan segir að eitt sinn var hann á síldarbát þar sem áhöfnin var að landa síld í Reykjavíkurhöfn, var Guðjón Ármann þá í lestinni að vinna við löndunina. Við sömu bryggju var franskt herskip og voru borðalagðir skipverjar af því skipi áhugasamir að fylgjast með löndun á síldinni, höfðu líklega ekki oft verið vitni af því. þegar Guðjón Ármann kemur upp úr lestinni, ekkert nema síldarhreistur, tekur hann eftir þessum borðalögðu mönnum á bryggjunni. Hann vippar sér upp á bryggju og fer að spjalla við þá á sinni góðu frönsku. Þeir urðu undrandi þegar þeir komust að því að þarna var engin venjulegur háseti að koma upp úr lest á fiskiskipi og ræða við þá, heldur velmenntaður sjóliðsforingi frá danska sjóhernum og skólastjóri Stýrimannaskóla. þetta atvik lýsir okkar manni vel, Guðjón Ármann var alveg laus við allt snobb og merkilegheit.

Ég kynntist Guðjóni Ármanni þegar ég var nemandi í Stýrimannaskóla Vestmannaeyja 1969 til 1971 þar tókst með okkur mikil og góð vinátta sem entist alla tíð. Ég á honum margt að þakka gegnum tíðina, ekki hvað síst hvatningu og hjálpsemi á ýmsum sviðum, hann var ráðagóður og alltaf tilbúin að hlusta á það sem maður hafði til málanna að leggja og alltaf var hann að fræða mann og hvetja. Við áttum mikið og gott samstarf í sambandi við Sjómannadagsblað Vestmannaeyja og ótal margt fleira sem ekki verður rakið hér.

Guðjón Ármann gekk í AKÓGES í Vestmannaeyjum 26.11.62 og í AKÓGES Reykjavík 06.01.75 hann var því búinn að vera 58 ár í Akóges, og var virkur félagi sem lagði þar alltaf gott til málanna. Hann var annar af mínum meðmælendum þegar ég gekk í AKÓGES þann 14.02.2005 ég er honum þakklátur fyrir það enda höfum við átt þar margar góðar samverustundir með okkar góðu félögum.

Eftirlifandi eiginkona Guðjóns Ármanns er Anika Jóna Ragnarsdóttir frá Lokinhamradal í Arnarfirði, þau eiga fjögur börn, Ragnheiði, Ragnar, Eyjólf og Kristínu Rósu.                Guðjón Ármann Eyjólfsson lést á Landspítalanum í Fossvogi þann 16. mars 2020 85 ára að aldri.

Blessuð sé minning þín góði félagi og vinur.

Sigmar Þór Sveinbjörnsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Mikill maður hann Guðjón Ármann. Blessuð sé minning hans.

Halldór Egill Guðnason, 24.6.2020 kl. 01:04

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég tek undir hvert orð í þessari grein  hjá þér.  Ég naut þess heiðurs að stunda nám við Stýrimannaskólann í Reykjavík árið 1980.  Guðjón Ármann kenndi mér siglingareglurnar, venjan hafði verið sú að skólastjórinn kenndi "reglurnar" ekki veit hvernig stóð á því að Jónas Sigurðsson þáverandi skólastjóri kenndi ekki þetta fag en  sennilegasta skýringin er sú að þetta var síðasta árið hans sem skólastjóri og það var á allra vitorði að Guðjón Ármann yrði eftirmaður hans.  En það kom síður en svo að sök að við fengum annan kennara í þessu fagi (Halldór Egill Guðnason er gott dæmi um það), Guðjón Ármann var mjög góður og metnaðarfullur kennari, það eina sem var hægt mæla gegn honum var að okkur fannst hann full strangur.  En þetta álit mitt átti eftir að breytast.  Mörgum árum síðar átti ég eftir að fara að fara að vinna, fjármálastjóri hjá Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Vélskóla Íslands og Sjómannaskólahúsinu og starfaði þar uns þessar stofnanir voru einkavinavæddar að undirlagi Björns Bjarnasonar, þáverandi Menntamálaráðherra.  Þarna kynntist ég hinum RAUNVERULEGA Guðjóni Ármanni Eyjólfssyni. Þarna kynntist ég hinum MIKLU kostum hans, hann stóð fastur á sínu en ef það kom fyrir að hann hafði rangt fyrir sér og sýnt fram á það með "skotheldum" rökum, var hann fyrsti maður til að viðurkenna það o biðjast afsökunar.  Hann var einstaklega hrekklaus maður og bjóst við því sama af öðrum en því miður voru ýmsir sem notfærðu sér þetta.  Eitt vil ég nefna sérstaklega í sambandi við Guðjón Ármann, ég heyrði hann aldrei hallmæla nokkrum manni, ef hann hafði ekkert gott um viðkomandi að segja, þá talaði hann ekkert um þann mann.  Margt gott hef ég að segja um Guðjón Ármann en ég mann ekki eftir neinu neikvæðu BLESSUÐ SÉ MINNING HANS..........

Jóhann Elíasson, 24.6.2020 kl. 10:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband