30.9.2017 | 12:55
Minning um Högna Skaftason skipstjóra
Góður vinur minn Högni Skaftason skipstóri er látinn eftir erfið veikindi. Högni var fæddur á Fáskrúðsfirði 30 mars 1946 hans ævistarf var sjómennska, hann byrjaði ungur á sjó sem hann stundaði mest allan sinn starfsferil.Hann var skipaskoðunarmaður í nokkur ár og einnig starfaði hann um tíma í Alcoa álverinu á Reyðarfirði, en það átti ekki við hann að vinna í álveri.
Hann lauk meira fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1965 og starfaði sem stýrimaður og skipstjóri eftir þá skólagöngu. Högni var lengst af skipstjóri á togaranum Hoffelli SU 80 eða frá árinu 1977 og þar til skipið var selt 1996 eða í 19 ár, en áður hafði hann verið fyrsti stýrimaður á Ljósafelli SU 70 systurskipi Hoffells SU og þar áður skipstjóri í nokkur ár á eldra Hoffelli 180 lesta skipi. Hoffell SU 80 var mikið happaskip undir stjórn Högna Skaftssonar og var ávallt í hópi mestu aflaskipa á Austurlandi.
Ég kynntist Högna þegar hann hætti tímabundið sjómennsku og hóf störf sem skipaskoðunarmaður hjá Siglingastofnun Íslands á Fáskrúðsfirði árið 1997, en ég vann þá einnig sem skipaskoðunarmaður hjá sömu stofnun. Við náðum strax góðu vináttusambandi sem ég kunni vel að meta, við höfðum svipuð áhugamál sem við gátum rætt okkar á milli. Það var alltaf skemmtilegt að tala við Högna bæði þegar við hittumst og tókum saman bryggjurúnt þegar hann var í bænum og ekki síður þegar við töluðum saman í síma en við áttum oft löng og skemmtileg símtöl.
Hann hafði ákveðnar skoðanir á hlutunum og var ófeiminn að segja skoðanir sínar umbúðalaust. Við ræddum allt milli himins og jarðar en mest þó um sjómennsku og öryggismál, pólitík og ég held að við höfum sjaldan sleppt því að ræða um mat. Hvað væri að borða og hvernig best væri að elda ýmsa rétti, við vorum nefnilega báðir miklir matmenn og höfðum báðir gaman af því að tala um mat.
En Högni hafði skarpar skoðanir á pólitíkusum, við vorum báðir eins og við nefndum það flokkaflækingar, kusum bara flokka eftir mönnum og málefnum. Einu sinni fór Högni á framboðslista fyrir Frjálslinda flokkinn þegar sá flokkur var upp á sitt besta og við studdum hann heilshugar.
Við vorum oftar en ekki sammála í pólitíkinni en stundum kom þó fyrir að við vorum ekki á sama máli um stjórnmálaflokka. Þá sagð hann við mig, að ef ég kysi viðkomandi flokk þá talaði hann ekki við mig meir og svo var hlegið dátt. Högni hafði nefnilega skemmtilegan húmor sem ég kunni að meta. Ég á eftir að sakna þeirra mörgu skemmtilegu samtala sem við Högni áttum síðustu árin
Seinustu árin gerði hann út sinn eigin bát Sæberg SU 112 og má segja að það hafi verið hans líf og yndi. Hann var búin að útbúa þann bát vel, setja í hann nýja vél og endurnýja má segja öll önnur tæki þegar hann lést, þannig að báturinn var tilbúinn á strandveiðar nú síðasta vor. Hann vildi hafa Sæbergið SU 112 í hundrað prósent lagi þegar hann færi á sjó og allt hreint og flott.Hann eiddi því drjúgum tíma um borð í bátnum til að að halda Sæbergi SU í góðu standi.
Högni var oft búin að segja við mig að það væri ekkert skemmtilegra en að vera úti á sjó á handfærum og veiða fisk eða veiða svartfugl. Hann sagði mér líka frá því hvernig hann verkaði svartfuglinn, en hann hafði sérstakar aðferðir við það.
En því miður naut hann þess ekki að vera á Sæberg SU í sumar vegna veikinda sem að lokum leiddi til þess að Högni lést 7. september 2017.
Högni kvæntist eftirlifandi konu sinni Ingeborgu Eide Hansdóttir 12. september 1971 þau eignuðust fjögur börn sem eru: Kristín, Elín, Hjörvar Sæberg og Katrín.
Með þessum fátæklegu orðum kveð ég minn góða vin Högna Skaftason, blessuð sé minning hans.
Kæra Ingeborg og fjölskylda, við Kolbrún sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.